« Home | Skírn Eftir ríflega mánaðarlanga íhugun, oftar en... » | „Hann var dáleiddur af allan vodkann“ Svo segir í... » | Gaman er... ...að fara í gott bíó. Í kvöld fór S... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogannað Ó vei mig auman... » | Af afmælum, útskriftum, góðkunningjum lögreglunnar... » | Tilgangslaust Þessi færsla hefur engan tilgang. N... » | NBA spá Jarlaskáldsins tímabilið 2003-2004 Þá fer... » | Fyrir sunnan Hofsjökul Síðast þegar spurðist til ... » | Óhemju hnyttinn titill Nú er föstudagurinn 17. ok... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogfyrsta Þau eru nú orð... » 

mánudagur, nóvember 10, 2003 

Af Jarlaskáldsins ríjúnjon og Óminnishegrans afskiptum

Jarlaskáldið fór ríflega tíu ár aftur í tímann um helgina. Það var skrýtið, og um leið forvitnilegt. En byrjum á byrjuninni.

Föstudagskvöldið var líkt og flest föstudagskvöld undanfarnar vikur og mánuði undirlagt sjónvarpsglápi, tölvuvafstri og öðrum nördaskap. Sparnaður maður.

Laugardagurinn var ekki sparnaður. Hófst að vísu með nokkrum hagnaði, Skáldið mætti í vinnuna á óguðlegum tíma og letihaugaðist þar fram eftir degi með ágætri pizzapásu, stimplaði sig út ríflega fjögur og fór þá heimleiðis að undirbúa sig fyrir gleði kvöldsins. Það var heldur ekki lítil gleði sem áformuð var, fyrst 10 ára ríjúnjon Selskælinga til að byrja með og svo 27 ára afmæli frk. Öldu síðar um kvöldið. Hvort tveggja tilefni til að lyfta sér allvel upp og var Jarlaskáldið því í góðum gír þegar það bankaði á dyr við Sólvallagötuna upp úr sjö, en þar bauð frk. Bíbí til fordrykkjar/bekkjarpartýs fyrir eftirlifandi nemendur 10. B.J. (að vísu eru þeir líkast til allir á lífi, en til sumra hefur ekkert spurst lengi). Var mæting góð miðað við það sem búast mátti við, enda stór hluti liðsins búinn að flýja land. Velflesta hafði Skáldið ekki séð í fjölda ára en merkilegt nokk þekkti það deili á öllum, enginn það breyttur að óþekkjanlegur væri. Líklega var það sjálft Jarlaskáldið sem hafði tekið einna mestum breytingum, þar eð úr því hafði tognað talsvert síðan í 10. bekk. Ímyndið ykkur bara hve lítið það var þá!
Jarlaskáldið fór hægt af stað í drykkjulátum og lét þau reyndar alveg vera í þessari teiti. Afar fáir fylgdu því fordæmi, og sumir greinilega komnir allvel á veg. Eins og búast mátti við voru umræðuefnin eingöngu tvö, hvað ert þú að gera? og manstu þegar? Samkvæmt lauslegri talningu Skáldsins var góður meirihluti byrjaður að fjölga mannkyninu og sumir í fleirtölu, annars kom fátt á óvart varðandi lífshlaup bekkjarsystkinanna gömlu, flestir voru nokkurn veginn staddir þar sem Skáldið hefði spáð þeim fyrir tíu árum síðan. Ennfremur virtist sem Skáldið væri eitt um að hafa sýnt það hyggjuvit að búa í fríu fæði og húsnæði hjá móður sinni. Kannski ber ekki að telja Skáldinu það til tekna, þó Skáldið sé á því.
Úlitlitslega séð kom ýmislegt á óvart. T.d. hafði enginn sleppt sér hvað ummál varðar, heldur þvert á móti, því ófáar stúlkurnar sem Jarlaskáldið sýndi lítinn áhuga á sínum tíma voru orðnar hinar mestu gellur. Piltarnir voru flestir svipaðir útlits, smá björgunarhringur kominn á suma og auk þess skartaði einn afar myndarlegum skeggvexti.
Á níunda tímanum þótti tími kominn á að hitta hina bekkina, og var því liðinu raðað í þá bíla sem enn höfðu ökufæra bílstjóra. Lesendum eflaust til furðu var Jarlaskáldið eitt þeirra og skutlaði því þremur bekkjarsystrum sínum á Gaukinn þar sem samkoman fór fram. Var þar að sjálfsögðu múgur og margmenni og hafði Skáldið nóg að gera við að heilsa upp á fólk. Óðs manns æði væri að telja upp alla þá sem Skáldið hitti en þó er fyllsta ástæða til að minnast á að á staðnum var Óskar Páll Þorgilsson, tæknifræðingurinn og mótorhjólamaðurinnn valinkunni. Áttum við áhugaverðar samræður og kann Jarlaskáldið Óskari bestu þakkir fyrir. Óskar er þessa stundina að skipuleggja 20 ára ríjúnjon Selskælinga, mun það samkvæmt hans hugmyndum verða haldið á Dubai. Ekkert minna.
Þegar þarna var komið sögu voru þeir sem best voru kunnugir Skáldinu byrjaðir að hnýta í það og furða sig á tómleika hægri handar þess. Sá Jarlaskáldið aðeins tvo kosti í stöðunni; að hafa sig á brott hið fyrsta og fara í afmæli eða að læsa dómgreindina ofan í kistu og detta í það á barnum. Hvort ætli Skáldið hafi valið?
Rétt til getið, lesandi góður. Má segja að allar flóðgáttir hafi brostið við þessa ákvörðun, þar hjálpaði reyndar ekki til að áðurnefndur Óskar Páll plataði Skáldið í rússnesk-mexíkanska menningarkynningu með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Skáldið gerðist glatt. Eftir það byrja afskipti Óminnishegrans.
Nei nei, bíðum aðeins hæg, það er ekki allt búið enn. Samkvæmt óglöggu minni sínu fór Jarlaskáldið hamförum á dansgólfinu, allt þangað til Írafár byrjaði að spila og hrakti það burt. Ekki minnist Skáldið þess að hafa gert neina skandala, en ef einhverjir lesendur vita betur er þeim velkomið að tjá sig um það í kommentum. Nú kynni einhver að spyrja, ætlaði Skáldið ekki í eitthvað afmæli? Jú, sú var meiningin, en eftir rússnesk-mexíkönsku menningarkynninguna á barnum var handbært lausafé af skornum skammti og því ákvað Skáldið að beila á partýið og hitta bara liðið á heimavellinum. Þangað arkaði það (einhvern tímann) og tróð sér inn og hitti þar fyrir fjölda fólks úr áðurnefndri teiti. Þar á meðal var sjálft afmælisbarnið, sem Jarlaskáldið færði einmitt gjöf, sem ætti vonandi að nýtast vel eftir svona ca. 65 daga. Jawohl, kanna kanna, prego prego.
Sakvæmt vitnisburði Magnúsar frá Þverbrekku þótti gestum á Hverfisbarnum sem Jarlaskáldið væri með dannaðasta móti. Debetkortakvittanir færa fram sannfærandi mótrök. Hvað sem því líður tjúttaði Skáldið frá sér vit og rænu (hlýtur að vera, Óminnishegrinn neitar að fræða Skáldið um atburði inni á Hverfisbarnum) þangað til fólki var hent út og stóðu þá ein eftir afmælisbarnið og Jarlaskáldið af hópnum. Til allrar hamingju var Óminnishegrinn líka farinn heim um þetta leyti og ætti því eftirfarandi frásögn að vera sannleikanum samkvæm að einhverju leyti. Samkvæmt bestu heimildum héldu afmælisbarnið og Jarlaskáldið á veitingastað einn vel kunnugan Jarlaskáldinu, kenndan við eiganda hans, Jón eitthvað. Fengum við okkur þar morgunhressingu en héldum svo heimleiðis með leigubíl og um svipað leyti kom Óminnishegrinn með óvænta endurkomu svo Jarlaskáldið kann ekki að greina frá atburðum fyrr en klukkan 15:37 daginn eftir. Hví í ósköpunum?

Já, hví í ósköpunum? Ekki hugmynd.

Að lokum: 65 dagar. Humm, Þverbrekkingur?

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates