« Home | Milljón myglaðar marglyttur frá Melrakkasléttu! Þ... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogþriðja Hvað er um að ... » | Af Jarlaskáldsins ríjúnjon og Óminnishegrans afski... » | Skírn Eftir ríflega mánaðarlanga íhugun, oftar en... » | „Hann var dáleiddur af allan vodkann“ Svo segir í... » | Gaman er... ...að fara í gott bíó. Í kvöld fór S... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogannað Ó vei mig auman... » | Af afmælum, útskriftum, góðkunningjum lögreglunnar... » | Tilgangslaust Þessi færsla hefur engan tilgang. N... » | NBA spá Jarlaskáldsins tímabilið 2003-2004 Þá fer... » 

sunnudagur, nóvember 16, 2003 

Sic transit gloria mundi

Nú hefur sunnudagurinn 16. nóvember hafið göngu sína, og Jarlaskáldið situr við tölvu sína og bloggar. Af er það sem áður var.

Eins og greint var frá í síðasta pistli var Jarlaskáldið ekki með hressasta móti fyrir rétt tæpum tveimur sólarhringum síðar, búið að krambúlera á sér löppina og harla ósatt við ástandið. Ekki tók betra við, því þegar Skáldið vaknaði til að tilkynna fjarveru sína frá vinnu daginn eftir leit það á löppina og sá sér til skelfingar að hún hafði ca. tvöfaldast að rúmmáli síðan kvöldið áður og því orðin fjórföld, auk þess að vera helblá á litinn og í alla staði óásjáleg. Að höfðu samráði við móður sína ákvað Skáldið því að kíkja niður á slysó (ekki gat Skáldið keyrt) til að fá úr því skorið hversu bæklað það væri. Ekki var það gaman.

Fyrst var beðið í afgreiðslunni. Reyndar varð sú bið ekkert svo löng, kannski hálftími, og eyddi Skáldið tímanum í að lesa hið gagnmerka tímarit LRO (Land Rover Owner), eftir það leit læknir á löppina, mælti hið afar hughreystandi orð „vá“, þuklaði hana örlítið, og sendi Skáldið svo í röntgenmyndatöku. Biðstofa nr. 2. Þar var álíka löng bið, og hafi tímaritaúrvalið í afgreiðslunni verið slæmt var það algjör hátíð miðað við þarna, Jarlaskáldið fann ca. hálft Séð og heyrt blað, vel komið til ára sinna, og „skemmti“ sér við að lesa gamla sjónvarpsdagskrá á meðan beðið var. Myndatakan var álíka spennandi og hún hljómar, og eftir hana tók við enn ein biðstofan. Þar fann Skáldið eitt danskt blað, og varð heilmiklu fróðara um fjölskylduharmleik einn þar sem ein dóttirin læstist inni í frysti og dó úr vosbúð. Jarlaskáldið heiðraði þess biðstofu með nærveru sinni ca. 25 mínútur, fékk svo myndirnar og hélt aftur niður á slysó. Hvað tók við þar? Jú, enn ein biðstofan. Þar komst Skáldið reyndar að því að það hefði undan litlu að kvarta hvað seinagang varðar, sumir voru búnir að bíða eitthvað á fimmta tíma. Eftir (svo miðað sé við meðaltal) stutta stund kom læknirinn og færði Jarlaskáldinu þau gleðitíðindi að ekkert væri brotið og ekkert slitið, svo Erik (tæklarinn mikli) þarf ekki að hafa áhyggjur um líf sitt lengur. Eitt liðbandið væri hins vegar allilla tognað og því Skáldið klætt teygjusokk og ráðlagt að taka því rólega næstu vikurnar. Eins og það gæti annað.

Jarlaskáldið hafði haft uppi áætlanir um að fara í jeppaferð um helgina en eins og gefur að skilja fuku þær út í veður og vind þegar ljóst var að löppin gæti ekki farið með. Hefur Skáldið því eytt tíma sínum í iðjuleysi, eins og því var ráðlagt, og eins og venjulega hefur það svarað símtölum frá drukknu kvenfólki sem saknar þess af djamminu (bara þegar það kemst ekki) auk þess sem jeppafarar hafa hringt í Skáldið og „hresst“ það við með frásögnum af „bestu“ jeppaferð í heimi. Andskotakornið!

En verður maður ekki að líta á björtu hliðarnar. Svo sagði a.m.k. Sverrir Stormsker í samnefndu lagi, og ekki lýgur hann. Gerum það, og hötum Rúdolf Hess, því löppin lagast, og Skáldið kemst til Ítalíu, og það er í raun það eina sem skiptir máli. Sem segir dálítið um forgangsatriði í lífi 26 ára pilts sem býr hjá mömmu sinni. Jawohl.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates