« Home | Gaman er... ...að fara í gott bíó. Í kvöld fór S... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogannað Ó vei mig auman... » | Af afmælum, útskriftum, góðkunningjum lögreglunnar... » | Tilgangslaust Þessi færsla hefur engan tilgang. N... » | NBA spá Jarlaskáldsins tímabilið 2003-2004 Þá fer... » | Fyrir sunnan Hofsjökul Síðast þegar spurðist til ... » | Óhemju hnyttinn titill Nú er föstudagurinn 17. ok... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogfyrsta Þau eru nú orð... » | 62 atriði um helgina (100 er ófrumlegt) 1. Vann t... » | Af Grand Buffet og öðrum uppákomum Eins og lesend... » 

mánudagur, nóvember 03, 2003 

„Hann var dáleiddur af allan vodkann“

Svo segir í dægurlagatexta einum dýrt kveðnum eftir indversku prinsessuna Leoncie, þann vandaða listamann. Hér er ekki ætlunin að leggjast í bókmenntalega rýni um dægurlagatexta, þó svo að Skáldið hafi gert garðinn frægan á þeim vettvangi, heldur fjalla um athafnir Skáldsins þessa helgina. Eiga þær lítt skylt við yrkisefni textans góða.

Áður hefur lítillega verið tæpt á athöfnum föstudagskvöldsins, mun það hafa verið gert á fjórða tímanum aðfararnótt laugardagsins og sagt þar frá vel heppnaðri bíóferð. Með Skáldinu í bíóferð þessari voru þeir félagar Andrésson (hér sýndur að leggja sig) og Stefán Twist og litlu meira við áðurnefnda frásögn að bæta.

Laugardagurinn leystist snemma upp í vitleysu, því um tvöleytið var Skáldið vaknað og lagt af stað niður í bæ til að hjálpa stóra bróður við flutninga. Sótti Hagnaðinn í leiðinni og fylltist nokkurri Þórðargleði við að sjá ástandið á honum. Það var ekki gott. Flutningarnir gengu nokkuð einfaldlega fyrir sig, enda stóri bróðir ekki mikið fyrir að fylla allt af húsgögnum. Reyndar var Megas eitthvað að þvælast fyrir okkur þegar við bárum ísskápinn en annars gekk þetta vel og um fjögurleytið var Skáldið mætt á KFC til að verðlauna sig fyrir erfiðið. Þar kom í ljós einhver mesti kostur þess að eiga jeppa, því í stað þess að þurfa að teygja sig upp í lúguna gat Skáldið einfaldlega rekið höndina beint út og gripið kjúllann án erfiðleika, engin hætta á að missa hann í götuna eða jafnvel yfir sig. Snilld.
Laugardagskvöldið fór rólega af stað, en um níuleytið ákváðum við nokkrir félagarnir að slá þessu öllu upp í kæruleysi og rúnta út í sveit í þeirri von að sjá norðurljós (eða stjörnuljós eins og Vignir orðaði það). Auk hans og Skáldsins voru í ferð þessari áðurnefndur Stefán Twist og svo sjálfur Þverbrekkingur. Var litli jeppalingur Skáldsins fenginn til að ferja okkur og stefnan fyrst tekin á Þingvelli. Á leiðinni nutum við góðrar tónlistar Depeche Mode og ræddum stjórnmál af áfergju og e.t.v. einhverju viti, þó það sé ólíklegra. Á Þingvöllum var síðan engin norðurljós að sjá þrátt fyrir loforð Sigga storms í þá veruna og var honum bölvað eilítið af þeim sökum en strax fyrirgefið því hann sá jú um blíðuna í Eyjum í sumar. Ekki gáfumst við alveg upp heldur keyrðum upp í Kjós en sáum litlu meira þar af ljósagangi. Fengum svo ágætis sviptivinda á okkur á Kjalarnesinu, en það var bara til að gera þetta skemmtilegra.
Þar sem klukkan var ekki einu sinni orðin tólf þegar heim var komið var ákveðið að ná sér í mynd á þartilgerðri leigu, nema Þverbrekkingur, mamma hans leyfði honum ekki að vera úti svona lengi. Fyrir valinu varð einhver sú súrasta mynd sem Skáldið hefur verið svo heppið að sjá, Adaptation. Það er nánast engin leið að útskýra þessa mynd fyrir lesendum svo Skáldið getur ekki gert annað en að mæla með því að þeir sem ekki hafa séð myndina geri það hið fyrsta. Hendum 84 stjörnum á hana.

Sunnudagur: Hefðbundinn (fyrir utan eitt).

Eins og lesendur hafa eflaust tekið eftir og e.t.v. vakið furðu einhverra var Skáldið hið spakasta um helgina, lét lendur skemmtanalífsins alveg í friði og var jafnvel einhverjum til gagns. Þá er von að fólk spyrji, er þetta það sem koma skal? Heldur betur ekki. A.m.k. ekki hvað næstu helgi varðar, því þá er Jarlaskáldinu bæði boðið í afmæli hjá nærsveitakonu einni og aukinheldur mun þá verða haldið 10 ára „ríjúnjon“ útskriftarnema úr þeirri virtu menntastofnun Seljaskóla. Upplýsingar um þá hátíð má nálgast hér, og ef lesendur eru heppnir rekast þeir kannski á 10 ára gamlar myndir af Jarlaskáldinu og jafnvel eldri. Fyrr í dag var þar getraun, birt mynd af ca. 4 ára gamalli stúlku og spurt hvaða nemi úr þessum árgangi væri foreldri hnátunnar. Meðal svarmöguleika var Jarlaskáldið, og þegar síðast var athugað hafði enginn giskað á það. Skárra væri það nú! Hyggst Skáldið sækja báðar þessar samkomur og eigi örgrannt um að það verði orðið hið glaðasta þegar líða tekur á nóttu, nema náttúrulega að Óli lokbrá taki völdin, annað eins gerist. Sjáum til.

Spurning að bregða sér norður á næstunni?

Að lokum er ekki úr vegi að senda hamingjuóskir til þeirra hjónaleysa Kjartans og Laufeyjar sem fæddist sonur kl. 20:16 í kvöld (þau misstu s.s. af Frasier, en allt í lagi, Skáldið tók hann upp). Var þetta hinn myndarlegasti pjakkur miðað við tölur, 18.5 merkur og 55 cm, en allt mun hafa gengið eins og í sögu og er það nú gott. Vonandi munu þau ala drenginn upp í góðum siðum, hefur Skáldið reyndar enga trú á öðru, Kjarri heldur með Liverpool.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates