laugardagur, febrúar 25, 2006 

Sumarbústaður



Mikið assgoti var Jarlaskáldið duglegt í dag. Engan veginn til eftirbreytni. Og verður ekki endurtekið í bráð. Byrjaði það daginn á því að vakna fyrir allar aldir (klukkan 9.35) og mæta í vinnuna, þar sem það mátti þola svívirðingar af hendi samstarfsmanna sem telja skáldið svikara mikinn fyrir að hyggjast söðla um á næstunni í atvinnumálum. Ekki dvaldi Skáldið reyndar lengi í vinnunni, rétt um þrjá tíma eða svo, og átti þá að vera komið í langþráð helgarfrí. En það var öðru nær.
Þegar heim var komið byrjaði Jarlaskáldið á því að elda sér hádegisverð, hvítlauksristaður humar í forrétt og síðan andabringur í aðalrétt með dádýrakjöti "on the side". Já, eða réttara sagt frosin pítsa sem Skáldið skellti í ofninn. Humarinn bíður betri tíma.

Þegar Skáldið var mett var tvennt í stöðunni: að gera eins og allt eðlilegt fólk og leggja sig fyrir kvöldið, eða að detta eitthvað fáránlegt í hug og reyna svo að framkvæma það. Það þarf vart að koma á óvart að hið síðara varð uppi á teningnum: Jarlaskáldið ákvað að ráðast í það verkefni að þrífa hann Lilla (sjá mynd að ofan).

Jarlaskáldið verður að byrja á því að viðurkenna að það hefur gert sig sekt um vítaverða vanrækslu varðandi Lilla sinn og hans hreinlæti undanfarna mánuði: var af þeim sökum komið ca. 2 sm lag af tjöru utan á Lilla þegar Skáldið mætti á þvottastöð til að skola skítinn af kappanum. Enda kom á daginn að þvottamaskínan hafði lítið í drulluna og tjöruna að segja, Lilli kom ekki svo miklu skárri út úr henni. Það var því ekki annað að gera en að rífa upp tusku og tjöruleysi með sápu þegar heim var komið og ráðast á restina. Það var svona ca. klukkutímapúl, og var Lilli farinn að líta bara nokkuð vel út eftir það að utan, en fyrst maður var byrjaður var auðvitað ekki annað í stöðunni en að taka hann að innan líka. Annar klukkutími þar. En mikið assgoti er Lilli orðinn flottur, varla að maður tími að keyra hann.

Á morgun fer Jarlaskáldið svo út úr bænum eins og það hafði boðað. Það gæti orðið eitthvað...

Að lokum: hafiði einhvern tímann spáð í því hvað verður um það sem þið sturtið niður úr klósettunum? Eflaust halda margir að það endi í sjónum. Jarlaskáldið er ekki svo visst um það. Það fer líklega annað hvort hingað eða hingað. Þvílíkt samansafn af hálfvitum...

miðvikudagur, febrúar 22, 2006 

Að sleikja menn




Alltaf stemmning í Mörkinni!

Annars hefur Jarlaskáldið ákveðið að fara út úr bænum um helgina. Hvert það fer á eftir að koma í ljós, kannski bara út í buskann (Hvar ætli hann sé annars? Þegar Skáldið var lítið (eða minna öllu heldur) var það sannfært um að buskinn væri bak við Esjuna. Síðan þá hefur það margoft farið Hvalfjörðinn, en er engu nær um staðsetningu buskans. Svar óskast!), en kannski endar það í Grímsnesinu. Það vill nefnilega svo heppilega til að Skáldinu hefur verið boðið í heimsókn þar. En aðeins eitt er víst:

Jarlaskáldið er ekki á leið á Depeche Mode-tónleika í Köben um helgina...

þriðjudagur, febrúar 21, 2006 

Steelheart rúlar



Æ, blessuð Þórsmörkin. Mikið væri nú gaman ef maður væri þar. Því er sko aldeilis ekki að heilsa. En í það styttist.

Í síðasta pistli spáði Jarlaskáldið því að þeir Bakkabræður Bogi og Logi myndu báðir fótbrjóta sig úti í Österreich. Ekki fór það svo illa, en skíðunum var víst stolið af Stebba og Vignir eyðilagði sín. Skáldið hefði sosum getað sagt sér það sjálft að það var glapræði að senda þá eina og eftirlitslausa út. Það klikkar ekki á þessu næst. Þeir félagar hafa þó ekki tapað gleðinni og berast Skáldinu reglulega SMS þar sem gleðinni er lýst. Gaman...

Júróvísjónhelgin fór nokkuð prúðmannlega fram hjá Jarlaskáldinu. Það hóf leikinn á föstudag með því að eyða vel á annan tug þúsunda á útsölu í Everest í kaup á Gore-Tex jakka og hönskum, 30% afsláttur þannig að þeim peningum var ágætlega varið. Föstudagskvöldið var tíðindalaust en á laugardagskveld hélt Skáldið út í sveit og alla leið upp í Þverbrekku hvar Blöndudalur bauð til Júróvisjónveislu. Fór hún fram án stóráfalla, líkt og sjá má hér. Skáldið fékk far heim með Voffa inum nýja (sem er ekki með gat í gólfinu), og er eigandanum óskað til hamingju með gripinn.

Eitthvað meira? Varla nokkuð sem er í frásögur færandi. En bara 23 dagar í Agureyrish, það gæti orðið eitthvað. Það er það yfirleitt.

Að lokum: Nýr bloggari hefur bæst í bloggaralistann. Sker hann sig úr að einu leyti: Jarlaskáldið hefur ekki hugmynd um hver þetta er. Einhver Harpa J. En hún er allavega með krækju á Jarlaskáldið einhverra hluta vegna, með þeim árangri að inn á þessu síðu rata ófáir lesendur, og æ sér gjöf til gjalda eins og einhvers staðar segir, þannig að Harpa að vestan bætist í listann. Hver sem hún er.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006 

Carles Puyol



Þetta er ekki amaleg treyja að eiga. Ekki kannski fríðasti leikmaður heims, en gaman að honum...

En að öðru, þótt tengt sé. Síðast er til Jarlaskáldsins heyrðist var fyrir réttum tveimur vikum þegar það skutlaði bræðrum sínum og föður út á flugvöll, en þeir voru einmitt á leið til Barcelona að sjá samnefnt lið tapa fyrir Atletico Madrid. Það vissu þeir þó auðvitað ekki þegar þeir lögðu af stað, enda hefði sjarminn af förinni minnkað heldur við það. Jarlaskáldinu bauðst að fara með, en tímdi því ekki eins og áður hefur verið tíundað, og var því sú staðreynd að Barca tapaði eilítil huggun harmi gegn, þó ekki sé Skáldið almennt ánægt þegar það gerist. Það fékk a.m.k. treyjuna góðu þegar þeir feðgar komu aftur heim...

Annars verður að viðurkennast að síðustu vikur hafa verið einstaklega lausar við allt sem heitir skemmtilegheit. Jarlaskáldinu hefur verið þrælað út í vinnu þar sem fólk sem á að heita að vinni með því þykist ýmist vera í fríi í útlöndum eða illa haldið af veikindum, og hefur Skáldið mátt gera svo vel og redda málunum trekk í trekk. Það hefur vissulega ágætisáhrif á næsta launareikning, en síðri á andlega heilsu. Ekki bætti svo úr skák þegar þeir Bogi og Logi héldu af landi brott um síðustu helgi til Austurríkis á skíði, för sem Jarlaskáldið hefði eflaust slegist með í ef það hefði ekki bitið þessa vitleysu í sig að fara að spara peninga. Þeir mega nú eiga það Bakkabræður að þeir hafa verið duglegir við að gefa Skáldinu sýnishorn af stemmningunni með reglulegum SMS-sendingum og símtölum, jafnan drukknir mjög, og skiptir þá litlu hvenær er sólarhringsins. Hljómar hundleiðinlegt hjá þeim, og líkast til fótbrotna þeir báðir á morgun...

Jarlaskáldið hefur þrátt fyrir allar annir átt nokkar frístundir, en seint verður sagt að það hafi eytt þeim í landsins gagn og nauðsynjar. Það fór til dæmis í klippingu um daginn, og var svo heppið að lenda í klónum á nema í þeim fræðum, sem er sennilega ekki að fara að dúxa. Ojæja, það gat sosum ekki versnað, og þetta vex aftur, fyrir utan að Jarlaskáldið hefur afskaplega takmarkaðan áhuga eða áhyggjur af hárinu á hausnum.
Þá hefur Jarlaskáldið eytt drjúgum tíma í gláp, og þá meira í tölvunni en sjónvarpinu. Prison Break, My Name Is Earl, 24, Arrested Development, Conan, allt þetta hefur Skáldið hellt sér oní og líkar vel.
Um daginn fékk Jarlaskáldið þó nóg af glápinu, og byrjaði þess í stað að fikta í útlitinu á þessari bloggsíðu, með þeim árangri sem sjá má núna. Hitt lúkkið er bara allt of algengt, maður vissi aldrei á hvaða síðu maður var. Þetta á að vera allt voða tæknilegt núna, einhver hreyfimynd þarna efst og svona, liturinn er kannski ekki alveg sá svalasti en alltént ekki jafn þunglyndishvetjandi og svartur. Jarlaskáldið sá í vinnunni að Apple-drasltölvurnar voru ekki að höndla þetta útlit, og þykir því það bara hið besta mál. Apple er nefnilega rusl (þess ber að geta að þetta álit byggist á nokkrum tölvum í vinnunni sem eru komnar nokkuð til ára sinna, og eru drasl).
Fyrir utan útlitsbreytingar voru einhverjar minni háttar tilfæringar í hlekkjalistum, Urðarkötturinn fékk t.d. sess og hefur ekki heyrst til hans síðan. Þá henti Jarlaskáldið út Haloscan-athugasemdakerfinu, þeir bófar sem þar ráða ríkjum nenna ekki að geyma athugasemdir lengur en nokkra mánuði og henda þeim svo bara út, og sá áhugamaður sem Jarlaskáldið er um heimildavörslu getur einfaldlega ekki sætt sig við slík vinnubrögð. Ekki það að athugasemdirnar hafi verið svo margar að út úr flóði, en í það minnsta náðust samningar við Blogger um vörslu þeirra um ókomna tíð og geta þeir lesendur sem hafa eitthvað við pistla Skáldsins að athuga eða vilja af einhverju tilefni leggja orð í belg nýtt sér það. Reynist nýja kerfið einhverjum lesendum of flókið ættu þeir sennilega að leita sér hjálpar hjá fagaðilum, t.d. í heilbrigðiskerfinu, og ættu líklega ekki að hafa aðgang að tölvum. Lesendur eru einnig beðnir um að auðkenna sig með einhverjum hætti, anonymous-athugasemdir eru ekki alveg að gera sig.

Já, þetta er svona það helsta sem hefur verið á seyði. Á næstunni er sem fyrr ekkert á döfinni, í það minnsta ekki í einkalífinu, í atvinnumálum stefnir hins vegar í breytingar og það vonandi hið fyrsta. Jarlaskáldið hlustar vart á aðra músík þessa dagana en 9 to 5 með drottningunni Dolly Parton til að undirbúa sig fyrir breytingarnar...

mánudagur, febrúar 13, 2006 

Ch-ch-changes...

Nýtt lúkk í gangi.

Já, það var svona mikið um að vera um helgina...

þriðjudagur, febrúar 07, 2006 

Bjáni




Já, það er vandlifað í þessum heimi. Þessi ágæti piltur mætti víst á stræti Lundúna með þetta skilti. Jarlaskáldinu er það til efs að hann hafi áttað sig á því að það sem hann er að mótmæla er einmitt það sem gefur honum réttinn til þess. Óskemmtilega íronísk mynd...

föstudagur, febrúar 03, 2006 

Barcelona



Eftir aðeins nokkrar klukkustundir mun Jarlaskáldið vakna og taka stefnuna suður á Keflavíkurflugvöll, enda karlkyns armur fjölskyldunnar á leið til Barcelona til að berja augum hið ágæta knattspyrnulið FC Barcelona í bland við eitthvert annað glens. Það er, allir nema Jarlaskáldið. Það fær bara að skutla liðinu. Aldeilis gaman. Skáldinu bauðst vissulega að fara með, en sakir þess að það þykist vera að spara fyrir fasteignakaupum hangir það bara heima á meðan. Sem það mun líka gera eftir viku þegar aðrir fara í skíðaferð. Nei, Jarlaskáldið fer í mesta lagi á KFC þegar það vill gera vel við sig þessa dagana. Auma andskotans lífið!

Að gefnu tilefni: Norðmenn eru allra þjóða aumastir. Hvernig er hægt að tapa fyrir liði með einhverjum sem heitir kjelling? Fáránlegt...

fimmtudagur, febrúar 02, 2006 

Danir



Hvernig er hægt að fara í fýlu út í frændur okkar Dani? Þeir sem eru alltaf svo ligeglad. Svo ónefnt sé allt framlag þeirra til menningar, Carlsberg, Olsen-bræður, Kim Larsen, Michael Laudrup, bróðir hans Brian, þátturinn með ofurhetjunni í bláa búningnum sem ég man ekki hvað hét en var hrikalega fyndinn, stjörnumerkjamyndirnar, Hróarskelda, Daniel Agger, Jan Mölby (og hinir Danirnir sem spilað hafa með Liverpool, var ekki einn þeirra Torben Piechnik?), Örninn, Matador, Disneyland after dark, Lars Ulrich, Eddie Skoller (er hann ekki annars danskur?), HM-lagið '86, Rejseholdet, Jörundur hundadagakonungur, maðkað mjöl, Helena Christensen, Ole Lund Kirkegaard, Tuborg, Tuborg Grön, jóla-Tuborg og alveg ótalmargt annað.

Að vísu var það ókurteisi af þeim að tapa ekki fyrir okkur í handbolta þarna um daginn, en maður fyrirgefur það kannski einhvern daginn...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates