Sumarbústaður
Mikið assgoti var Jarlaskáldið duglegt í dag. Engan veginn til eftirbreytni. Og verður ekki endurtekið í bráð. Byrjaði það daginn á því að vakna fyrir allar aldir (klukkan 9.35) og mæta í vinnuna, þar sem það mátti þola svívirðingar af hendi samstarfsmanna sem telja skáldið svikara mikinn fyrir að hyggjast söðla um á næstunni í atvinnumálum. Ekki dvaldi Skáldið reyndar lengi í vinnunni, rétt um þrjá tíma eða svo, og átti þá að vera komið í langþráð helgarfrí. En það var öðru nær.
Þegar heim var komið byrjaði Jarlaskáldið á því að elda sér hádegisverð, hvítlauksristaður humar í forrétt og síðan andabringur í aðalrétt með dádýrakjöti "on the side". Já, eða réttara sagt frosin pítsa sem Skáldið skellti í ofninn. Humarinn bíður betri tíma.
Þegar Skáldið var mett var tvennt í stöðunni: að gera eins og allt eðlilegt fólk og leggja sig fyrir kvöldið, eða að detta eitthvað fáránlegt í hug og reyna svo að framkvæma það. Það þarf vart að koma á óvart að hið síðara varð uppi á teningnum: Jarlaskáldið ákvað að ráðast í það verkefni að þrífa hann Lilla (sjá mynd að ofan).
Jarlaskáldið verður að byrja á því að viðurkenna að það hefur gert sig sekt um vítaverða vanrækslu varðandi Lilla sinn og hans hreinlæti undanfarna mánuði: var af þeim sökum komið ca. 2 sm lag af tjöru utan á Lilla þegar Skáldið mætti á þvottastöð til að skola skítinn af kappanum. Enda kom á daginn að þvottamaskínan hafði lítið í drulluna og tjöruna að segja, Lilli kom ekki svo miklu skárri út úr henni. Það var því ekki annað að gera en að rífa upp tusku og tjöruleysi með sápu þegar heim var komið og ráðast á restina. Það var svona ca. klukkutímapúl, og var Lilli farinn að líta bara nokkuð vel út eftir það að utan, en fyrst maður var byrjaður var auðvitað ekki annað í stöðunni en að taka hann að innan líka. Annar klukkutími þar. En mikið assgoti er Lilli orðinn flottur, varla að maður tími að keyra hann.
Á morgun fer Jarlaskáldið svo út úr bænum eins og það hafði boðað. Það gæti orðið eitthvað...
Að lokum: hafiði einhvern tímann spáð í því hvað verður um það sem þið sturtið niður úr klósettunum? Eflaust halda margir að það endi í sjónum. Jarlaskáldið er ekki svo visst um það. Það fer líklega annað hvort hingað eða hingað. Þvílíkt samansafn af hálfvitum...
Bíddu, af hverju ertu ekki í vinnunni? Áttu ekki að vera hérna uppi á Lynghálsi?
Posted by Nafnlaus | mánudagur, febrúar 27, 2006 11:54:00 f.h.
Og afhverju komstu ekki í bolluboðið...
Kv
Hronnsla
Posted by Nafnlaus | þriðjudagur, febrúar 28, 2006 9:30:00 f.h.
Ægilega er maður vinsæll þessa dagana. Og það hjá kvenfólkinu! Lofa að bæta úr þessu hið fyrsta.
Posted by Jarlaskáldið | miðvikudagur, mars 01, 2006 4:14:00 f.h.