« Home | Ch-ch-changes... » | Bjáni » | Barcelona » | Danir » | Bíó » | Pistill » | Brullaup » | Gettu betur » | Ógn og skelfing » | Stórlega ýktar sögur » 

fimmtudagur, febrúar 16, 2006 

Carles Puyol



Þetta er ekki amaleg treyja að eiga. Ekki kannski fríðasti leikmaður heims, en gaman að honum...

En að öðru, þótt tengt sé. Síðast er til Jarlaskáldsins heyrðist var fyrir réttum tveimur vikum þegar það skutlaði bræðrum sínum og föður út á flugvöll, en þeir voru einmitt á leið til Barcelona að sjá samnefnt lið tapa fyrir Atletico Madrid. Það vissu þeir þó auðvitað ekki þegar þeir lögðu af stað, enda hefði sjarminn af förinni minnkað heldur við það. Jarlaskáldinu bauðst að fara með, en tímdi því ekki eins og áður hefur verið tíundað, og var því sú staðreynd að Barca tapaði eilítil huggun harmi gegn, þó ekki sé Skáldið almennt ánægt þegar það gerist. Það fékk a.m.k. treyjuna góðu þegar þeir feðgar komu aftur heim...

Annars verður að viðurkennast að síðustu vikur hafa verið einstaklega lausar við allt sem heitir skemmtilegheit. Jarlaskáldinu hefur verið þrælað út í vinnu þar sem fólk sem á að heita að vinni með því þykist ýmist vera í fríi í útlöndum eða illa haldið af veikindum, og hefur Skáldið mátt gera svo vel og redda málunum trekk í trekk. Það hefur vissulega ágætisáhrif á næsta launareikning, en síðri á andlega heilsu. Ekki bætti svo úr skák þegar þeir Bogi og Logi héldu af landi brott um síðustu helgi til Austurríkis á skíði, för sem Jarlaskáldið hefði eflaust slegist með í ef það hefði ekki bitið þessa vitleysu í sig að fara að spara peninga. Þeir mega nú eiga það Bakkabræður að þeir hafa verið duglegir við að gefa Skáldinu sýnishorn af stemmningunni með reglulegum SMS-sendingum og símtölum, jafnan drukknir mjög, og skiptir þá litlu hvenær er sólarhringsins. Hljómar hundleiðinlegt hjá þeim, og líkast til fótbrotna þeir báðir á morgun...

Jarlaskáldið hefur þrátt fyrir allar annir átt nokkar frístundir, en seint verður sagt að það hafi eytt þeim í landsins gagn og nauðsynjar. Það fór til dæmis í klippingu um daginn, og var svo heppið að lenda í klónum á nema í þeim fræðum, sem er sennilega ekki að fara að dúxa. Ojæja, það gat sosum ekki versnað, og þetta vex aftur, fyrir utan að Jarlaskáldið hefur afskaplega takmarkaðan áhuga eða áhyggjur af hárinu á hausnum.
Þá hefur Jarlaskáldið eytt drjúgum tíma í gláp, og þá meira í tölvunni en sjónvarpinu. Prison Break, My Name Is Earl, 24, Arrested Development, Conan, allt þetta hefur Skáldið hellt sér oní og líkar vel.
Um daginn fékk Jarlaskáldið þó nóg af glápinu, og byrjaði þess í stað að fikta í útlitinu á þessari bloggsíðu, með þeim árangri sem sjá má núna. Hitt lúkkið er bara allt of algengt, maður vissi aldrei á hvaða síðu maður var. Þetta á að vera allt voða tæknilegt núna, einhver hreyfimynd þarna efst og svona, liturinn er kannski ekki alveg sá svalasti en alltént ekki jafn þunglyndishvetjandi og svartur. Jarlaskáldið sá í vinnunni að Apple-drasltölvurnar voru ekki að höndla þetta útlit, og þykir því það bara hið besta mál. Apple er nefnilega rusl (þess ber að geta að þetta álit byggist á nokkrum tölvum í vinnunni sem eru komnar nokkuð til ára sinna, og eru drasl).
Fyrir utan útlitsbreytingar voru einhverjar minni háttar tilfæringar í hlekkjalistum, Urðarkötturinn fékk t.d. sess og hefur ekki heyrst til hans síðan. Þá henti Jarlaskáldið út Haloscan-athugasemdakerfinu, þeir bófar sem þar ráða ríkjum nenna ekki að geyma athugasemdir lengur en nokkra mánuði og henda þeim svo bara út, og sá áhugamaður sem Jarlaskáldið er um heimildavörslu getur einfaldlega ekki sætt sig við slík vinnubrögð. Ekki það að athugasemdirnar hafi verið svo margar að út úr flóði, en í það minnsta náðust samningar við Blogger um vörslu þeirra um ókomna tíð og geta þeir lesendur sem hafa eitthvað við pistla Skáldsins að athuga eða vilja af einhverju tilefni leggja orð í belg nýtt sér það. Reynist nýja kerfið einhverjum lesendum of flókið ættu þeir sennilega að leita sér hjálpar hjá fagaðilum, t.d. í heilbrigðiskerfinu, og ættu líklega ekki að hafa aðgang að tölvum. Lesendur eru einnig beðnir um að auðkenna sig með einhverjum hætti, anonymous-athugasemdir eru ekki alveg að gera sig.

Já, þetta er svona það helsta sem hefur verið á seyði. Á næstunni er sem fyrr ekkert á döfinni, í það minnsta ekki í einkalífinu, í atvinnumálum stefnir hins vegar í breytingar og það vonandi hið fyrsta. Jarlaskáldið hlustar vart á aðra músík þessa dagana en 9 to 5 með drottningunni Dolly Parton til að undirbúa sig fyrir breytingarnar...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates