« Home | Crap Það ætlar að ganga illa að koma sér upp í Gr... » | Duglegur strákur! Titill þessa bloggs er hálfgert... » | Bætist í Dauðraríkið Tveir bloggarar hafa safnast... » | Ársuppgjör 2004 - fjórði hluti - október-desember ... » | Ársuppgjör 2004 - þriðji hluti - júlí-september J... » | Djö! Skáldið er enn á lífi, en ekki mikið meira e... » | Nú er það svart! Ekki er það gott ástandið á Jarl... » | Ársuppgjör 2004 - annar hluti - apríl-júní Þá er ... » | Ágætis byrjun Jamm, kominn 3. janúar, og Jarlaská... » | Auld Lang Syne Jahá, kalkúnn er afbragðsmatur. ... » 

miðvikudagur, febrúar 02, 2005 

More Crap

Það sem allir hafa beðið eftir, blogg frá Jarlaskáldinu, hvorki meira né minna. Fagnar því heimsbyggð öll! Húrra!!

(Róaðu þig maður...)

Jarlaskáldið hefur verið maður nokkurra aðgerða undanfarna viku eða svo, þó bloggið hafi ekki borið þess nein merki. Það eyddi dágóðum hluta síðustu viku í skriftir, hið ágæta tímarit Útivera fór þess á leit við það að það ritaði greinarstúf um hrakfallaferð þess og annarra kringum Hofsjökul fyrir rúmum þremur mánuðum síðan. Um ferð þá ritaði Skáldið skilmerkilega frásögn einmitt á þessari síðu og byggðist greinin nýja að einhverju leyti á henni, en þó þurfti í raun að skrifa hana alveg upp á nýtt og reyndist það nokkuð verk. Ojæja, maður fær víst eitthvað smotterí í staðinn, eða svo var Skáldinu lofað.

Svo niðursokkið var Skáldið í skriftirnar að það var ekki með hugann við vinnuna á fréttavakt í síðustu viku, svo bandvitlaus frétt fór í loftið. Jarlaskáldið fann óneitanlega til ábyrgðar sinnar, en Marshallinn tók á sig sökina, þó hún lægi óneitanlega að stórum hluta hjá Skáldinu, það var jú síðast til að lesa fréttina áður en hún var send út. Leitt að sjá á eftir Marshall, hann hefur oft veitt ma... (hér átti að birta brandara varðandi Marshall-aðstoð, en hann hefði bara orðið of vondur. Afsakið).

Hvað um það. Á föstudaginn hugðist Jarlaskáldið fara í félagi við góðan hóp jeppakalla upp í Grímsvötn, svipaðan hóp og reyndi fyrir ríflega ári síðan. Þá gekk ekki sérlega vel, og ekki leist mönnum allt of vel á blikuna þegar nær dró þessari ferð, rok og rigning alla vikuna og spáði á sömu lund. Samt voru það 16 manns á 8 bílum sem lögðu í hann á föstudagskvöldið, alltaf skárra að reyna og klikka en að reyna ekki neitt. Nema hugsanlega fallhlífarstökk, og skyldar æfingar. Anyways, Skáldið var í skrjóð með Stebbanum, og lögðum við af stað úr bænum talsvert á eftir öðrum þar sem Willy var ekki alveg ferðbúinn um leið og aðrir. Tiltölulega tíðindalítil ferðin austur, komum í Hrauneyjar í kringum tíuleytið og var þar þá hávaðarok og rigning og svakaklaki á vegum. Í Hrauneyjum biðu okkar Maggi og Jónfús á Tvstinum, aðrir höfðu haldið áfram. Við biðum ekki boðanna heldur héldum áfram eftir stuttar bensínábætingar.
Við þurftum ekki að keyra ýkja lengi, stuttu eftir að við vorum komnir út af malbiki rákumst við á jeppahóp, óskyldan okkur reyndar, sem var fastur í krapa. Þá þurfti að fara út og hleypa úr eins og lög gera ráð fyrir, og reyna svo að keyra á ásum eða nettum hliðarhalla áfram því fljótlega komumst við að því að það var allt á floti, allt flatlendi var einn krapi.
Eftir nokkurt stím rákumst við svo á þrjá af bílunum sem höfðu lagt af stað á undan, og var þá verið að moka upp Fastan sem var pikkfastur í krapa (kunnuglegt?) og bjó hann til þessa líku fínu skipaskurði þegar kippt var í hann duglega eftir moksturinn. Þarna voru aðstæður annars dálítið fyndnar, virtist vera góður og traustur snjór á að líta en svo allt í einu sökk undan manni, þannig að Jarlaskáldið t.d. sökk einu sinni með aðra löppina gegnum snjóinn upp að nára og rennblotnaði í krapanum undir. Æði.
Fastur losnaði og með lagni tókst að komast yfir þennan pytt, en þá beið bara sá næsti handan við hornið. Þrátt fyrir að reynt væri eftir að megni að forðast það varð ekki hjá því komist að sökkva öðru hverju niður í krapa og tafði það allt mjög, enda oft ekki hægðarleikur að losa bílana. Eftir kafla þar sem vel gekk komum við loks að hinum þremur bílunum sem í hópnum voru, og voru þeir líkt og nærri má geta pikkfastir að baksa. Þá tókst auðvitað að endingu að losa, og var nokkuð liðið á nótt þegar þarna var komið sögu. Aftur tók við nokkuð langur kafli (langur er afstætt í þessu tilliti) þar sem enginn festist en að lokum endaði hópurinn auðvitað í enn einum krapapyttinumog sá reyndist sá versti þangað til. Fyrstu bílar sem reyndu lentu í alls kyns vandræðum og tók óratíma að losa. Á þessum tímapunkti var þessi mynd tekin og segir hún ansi margt, 0.0 km hraði, 4.19 um nótt. Enn höfðu vart meira en 10 km af tæplega 40 kílómetra langri leið upp í Jökulheima verið eknir, og hófust því miklar umræður í talstöðvum hvað gera skyldi, halda áfram, snúa við, eða leita næsta skála. Um fimmleytið var loks ákveðið að vonlaust væri að reyna eitthvað meira, og fara bara í næsta skála, sem var í Veiðivötnum. Það gekk tiltölulega áfallalaust, fyrir utan það að Tvistinum tókst strax í byrjun að brjóta framöxul/drif svo hann var í afturhjóladrifinu það sem eftir lifði ferðar og hjálpaði ekki til. Í Veiðivötn komumst við um hálfsjö um morguninn, og nutum síðan góðrar hvíldar í óupphituðum skálanum næstu klukkustundirnar.

Jarlaskáld og aðrir risu á lappir um hádegi eftir heldur stutta hvíld og skelltu sér svo í hefðbundin morgunverk. Sú ákvörðun hafði verið tekin að reyna ekkert frekar við Jökulheima eða Grímsvötn enda vonlaust verkefni, heldur snúa við og keyra niður í Hólaskóg og éta þar matinn og drekka bjórinn sem átti að neyta í Grímsvötnum. S.s. gera það besta úr þessu! Þegar haldið var frá Veiðivötnum sást fljótlega hve gríðarlega mikill krapi var enda allar lægðir himinbláar á að líta, sem við sáum auðvitað ekki um nóttina. Reyndar höfðu myndast heilu stöðuvötnin þar sem verst lét, enda þóttust ófáir hafa séð Friðrik Sophusson á vappi tilbúinn að virkja draslið. Dagsbirtan hjálpaði þannig mikið til en Tvisturinn gerði það ekki, þar sem hann var framdrifslaus þurfti að draga hann upp flestar brekkur, sem voru ófáar þar eð við reyndum að forðast allan flata! Einnig var oft mikið stuð að keyra í hliðarhalla heillengi, hálsvöðvarnir fengu í það minnsta góða æfingu.
Ekki var mikið um festur að þessu sinni enda sáum við yfirleitt hvert við vorum að fara, Tvisturinn átti reyndar eina góða og tímafreka og nokkrar auðveldari viðfangs og aðrir lentu stöku sinnum í að festa sig en ekkert í líkingu við nóttina. Lengsta töfin varð þegar Föstum tókst að brjóta eitthvað drifskaftstengi (eitthvað millikassamömbódjömbó sem Skáldið kann engin deili á) sem þýddi að stöðva þurfti olíuleka með hjálp kókflösku og ná þurfti drifskaftinu undan bílnum. Að því loknu var hann settur í spotta en sem betur fer var þá stutt í þjóðveg svo það reyndist ekki mikið vesen.
Fjörið var þó hvergi nær búið. Þegar við vorum komnir á þjóðveginn og fórum að pumpa í dekkin var komið algert hávaðarok, örugglega eitthvað vel á þriðja tug metra ef ekki meir, og þar sem vegurinn var á köflum algert gler reyndist ekki heiglum hent að halda skrjóðunum á veginum. Fór enda að lokum þannig að tveir fremstu bílar fuku nær samtímis út af á næstum sama stað og sátu fastir. Þar var veðrið orðið alveg kolbrjálað og alls ekki stætt úti svo það var meira en að segja það að losa þá. Það tókst þó eins og annað - að lokum - en þeir sem á eftir voru fóru þó aðra leið niður í Hrauneyjar til vonar og vara. Það var annars fróðleg ferð, vatn fossaði yfir veginn á köflum og stór klakastykki lágu víða á honum, greinilega eitthvað gengið á. Sem betur fer var stutt niður í Hólaskóg og var ekki slæmt að komast þar inn og geta sest niður með svalan öllara eftir barning liðins sólarhrings. Runi, Maggi, Stebbi og e.t.v. aðrir sáu síðan um að kokka dýrindis veislumat sem rann afar ljúflega niður. Að því loknu var svo setið að spjalli fram eftir nóttu og ölið sopið þó fæstir gerðu það af miklum krafti, enda gáfust sumir snemma upp. Aðrir voru duglegri...

Aftur var risið á fætur um hádegisbil á sunnudeginum og við tóku morgunverkin hefðbundnu. Umhverfið var eins og við mátti búast allt á floti og þegar allir voru ferðbúnir skemmtu menn sér við að sulla í pollunum. Í Árnesi var svo áð, pumpað í dekk og dáðst að nær guðdómlegri fegurð afgreiðslustúlkunnar, ekki slæmur bisness að hafa svona gellu, það fóru allir inn að versla bara til að kíkja á hana! Fóru svo flestir bara heim, flestir undir eigin vélarafli, en ekki allir.

Svo er bara spurning hvenær reynt verður þriðja sinni. Allt er þá þrennt er, er það ekki?

Að lokum: Nýr bloggari, Málbeinið. Allir bloggarar sem eyða drjúgum tíma í að gera grín að "Fram"sókn eiga allt gott skilið. Sem minnir á það, þetta er snilldarlesning.

Talandi um snilldarlesningar, líkast til eru ekki margir lesendur sem hafa minnstu hugmynd um hvað þetta fjallar, en þeir sem eitthvað vita um hið svokallaða "Leno/Letterman rivalry" (erfitt að þýða) ættu að lesa fyrri hluta þessarar greinar. Leno sökkar, Letterman rúlar. Punktur.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates