fimmtudagur, janúar 29, 2004 

Getraun

Jarlaskáldið er með litla getraun. Hvaða maður er þetta annar frá hægri á eftirfarandi mynd sem var að skíða með okkur á Ítalíu? Getiði nú:


Ýtið hér!

miðvikudagur, janúar 28, 2004 

Brotin loforð alls staðar

Jarlaskáldið hefur náð heilsu og situr baki brotnu við ritun ferðasögu. Miðað við framgang hennar er óvíst að takast megi að standa við loforð um að hún verði styttri en sú í fyrra. Áætlaður útgáfudagur er, öh, mánaðamótin janúar-febrúar. Meiru verður ekki lofað að sinni. Þangað til, góðar stundir!

mánudagur, janúar 26, 2004 

Heim er Jarlaskáldið komið...

...og er ekkert sérstaklega sátt með það. Þessi Ítalíuferð var slík öskrandi, gargandi snilld að það var engu lagi líkt. Maður vissi að það yrði skíðað, maður vissi að það yrði étið, og maður vissi svo sannarlega að það yrði djammað, en að hitta Rubens Barrichello á djamminu, og það tvisvar, var ekki alveg inni í prógramminu. Gott ef ekki sást til Schuma líka í brekkunum með liðið eins og engisprettusveim á eftir sér, hann var þó ekki verið eins alþýðlegur og Rubens sem lét sig hafa það að taka myndir af sér með Jarlaskáldi og fleirum. Verða þær væntanlega birtar á lýðnetinu þegar fjárráð leyfa framköllun, á því gæti orðið einhver bið, en þó ætti að verða öllu minni bið í ferðasögu. Hún verður ekki eins löng og í fyrra, mörgum eflaust til sárrar armæðu en fleirum til gleði. Fyrst þarf Jarlaskáldið að ná heilsu, það er eins og skrokkurinn hafi ekki þolað 11 daga úthaldið eins vel í ár og í fyrra. Þangað til geta lesendur furðað sig á þessari staðreynd:

Rubens Barrichello er þó nokkuð lágvaxnari en Jarlaskáldið. Magnað!

miðvikudagur, janúar 14, 2004 

Miðvikublogg ið þrítugastaogsjötta

Jarlaskáldið þarf að vakna eftir fimm tíma. Það kemur til af góðu einu. Hér verður ekkert ritað næstu tíu dagana eða svo. Það kemur einnig til af góðu einu. Fyrir þá sem ekki fá að kynnast þessu góðu einu er aðeins eitt að segja:

MEGI KRÆKLÓTTIR LÍKAMAR YKKAR VERÐA BRÁÐ GAMMA!

mánudagur, janúar 12, 2004 

34 tímar and counting

Jamm, það er farið að styttast allrosalega í að Vinafélag íslenskrar náttúru með Jarlaskáldið innanborðs haldi í víking suður til Ítalíu. En það er í framtíðinni. Lítum fyrst aðeins um öxl.

Jarlaskáldið bloggaði síðast um áttaleytið á laugardagskvöldið og ekki svo löngu síðar hélt það á Lilla sínum í Kópavoginn að sækja þar slöttólf þann er gegnir nafninu Magnús frá Þverbrekku, a.k.a. Þjálfi, a.k.a. Tuddi tuð. Hafði Kidda inum rauða einnig tekist að kría út far sem gerði það að verkum að næsti viðkomustaður var miðbær Reykjavíkur, hvar Kiddi fann sér söngvatn. Enn var kvæði vent í kross og haldið að nýju upp í Breiðholt hvar Vífill og Alda bættust í hópinn. Var Lilli þá fullsetinn og jafnvel rúmlega það.
Hélt svo hópur þessi í Naustabryggjuna til sæmdarskötuhjúanna Togga og Dýrleifar en þar hafði verið boðað til Ítalíuupphitunarkvölds eins og áður var frá greint. Á staðnum voru auk húsráðenda þeir Stefán Twist, Magnús Andrésson og Vignir Jónsson auk leynigests, sem var Jónas nokkur. Ástæða þess að hann hafði verið boðaður á svæðið var sú að hann hefur skíðað brekkur þær sem aðrir gesta (nema Andrésson, hehe) eiga í vændum og gat því miðlað af reynslu sinni um hvar væri best og brattast. Einnig var tækifærið notað til að rifja upp síðustu ferð með myndum og sögum. Eitthvað bættist í hópinn er á leið, Steggurinn mætti ásamt Eyfa, en þó lét einn maður ekki sjá sig, hann mun hafa verið vant við látinn norður í landi og ekki orð um það meir.
Eins og nærri má geta þegar glatt er á hjalla voru aðalfundarstörf iðkuð af miklum móð allt þar til leitað var niður á láglendið og óþarfi að rita frekar um það, þar var allt við sama heygarðshornið.

Jarlaskáldið vaknaði við eilitla vanheilsu um tvöleytið á sunnudaginn og stuttu síðar hringdi sími þess. Var Vífill hinum megin á línunni og krafðist efnda á loforði Skáldsins frá því kvöldið áður um að kíkja í Bláfjöll og vígja bretti vor. Skáldið reynir að jafnaði að standa við orð sín og lét sig því hafa það að halda í fjöllin. Ekki var ástandið á Vífli mikið betra, sem bætti aðeins úr. Bláfjöllin voru síðan bara fín þrátt fyrir bölvaðan mannfjöldann, brettin gerðu góða hluti og bara stuð. Þó ekkert miðað við það sem koma skal.
Um kvöldið hélt Jarlaskáldið svo á samkomu vestur í bæ en þar eð sú samkoma var leynileg verður ekki rætt um hana hér. Þó ber að taka fram að Skáldið er ekki Frímúrari til að koma í veg fyrir allan misskilning í þá veruna.

Er þetta ekki bara orðið ágætt? Skáldið hefur nóg annað að gera en að skrifa eitthvað bull á netið, t.d. það að hlakka til Ítalíufarar tekur gríðarmikinn tíma. Jú, best að gera það..........

laugardagur, janúar 10, 2004 

GSM myndablogg

Nú hafa VÍNverjar komið sér upp gsm-myndabloggsíðu, þar sem þeir VÍNverja er eiga myndavélasíma (þegar þetta er ritað einungis Stefán Twist) geta og munu birta myndir sínar. Enn sem komið er er heldur fátæklegt um að litast á síðunni, þó þar sé vissulega að finna fallega mynd af Lilla og Lúxa eftir mikil ævintýri við Heklurætur. Aftur á móti verður að teljast líklegt að innan nokkurra daga geti það ólukkulið sem ekki er að fara til Ítalíu fengið nasaþef af gleðinni þar með því að skoða myndir af VÍNverjum við leik og störf í hlíðum og börum Dólómítafjallanna. Svo vitnað sé í kvæðið:

Ég hlakka svo til,
ég hlakka alltaf svo til.
En það er langt, ó svo langt að bíða,
og allir dagar svo lengi að líða.


PS. Meira stubbstuð! Því fagna allir góðir menn!

 

Rulluf?

Njamm, einn af þessum föstudögum, ósköp lítið á seyði eins og endranær. Skáldið þykist hafa náð heilsu að nýju, pestin lét sig hverfa eins fljótt og hún mætti á svæðið. Er Jarlaskáldið að verða pestargemlingur? Er ekki nóg að þurfa að þola vanheilsu um helgar?

Þetta föstudagskvöld fór ekki í merkilega hluti, Skáldið horfði vitanlega á Simpsons sem voru bara fínir að þessu sinni, lagði sig svo á meðan Idol stóð (aldrei skal það horfa á þá lágkúru) en vaknaði fyrir Svínasúpuna. Ekki hló það mikið yfir þeim þætti, en sá grunur læðist að Skáldinu að hugsanlega verði Súpan fyndnari við annað áhorf, en það er einmitt einkenni góðra gamanþátta. Mikill er þó söknuðurinn að Fóstbræðrum. Í ljósi allsvakalega lélegrar sjónvarpsdagskrár eftir það kíkti Skáldið út á leigu og náði sér þar í nýjasta Sandlerinn, sem stóðst alveg undir væntingum, þær voru reyndar ekkert allt of miklar. Svo settist það fyrir framan tölvuna, með þá ömurlegu mynd Gone in 60 Seconds í bakgrunninum, sú mynd á allt vont skilið.

Og hvað er svo í vændum? Ja, það er stórafmæli í familíunni í dag eins og venjulega þann 10. janúar, þar eð bæði Hagnaðurinn og gamli maðurinn fæddust þann dag. Hagnaðurinn ku vera 25 ára, sá gamli eitthvað eldri. Er Skáldinu boðið til veislu hjá Hagnaði og spúsu hans um miðjan dag á morgun og mun ef það fær einhverju um það ráðið éta á sig gat. Um kvöldið má svo búast við að Skáldið líti við í Naustabryggjunni þar sem Toggólfur bíður til upphitunargleði fyrir allumrædda Ítalíuför. Er ekki ólíklegt að gestir þar verði u.þ.b. að fara á límingunum af spenningi enda ekki nema 4 dagar í dýrðina. Hvernig sú gleði endar er ómögulegt að segja, þó ýmislegt sé líklegra en annað. Svo mörg voru þau orð.

miðvikudagur, janúar 07, 2004 

Banalega, Britney og breyting

Jamm, Jarlaskáldið hefur tekið sótt eina mikla, bévítans bráðalungnabólgan var ekki lengi að ná til landsins og leggja Skáldið að velli. Að vísu ber Skáldið sig nokkuð vel miðað við aðstæður, Íslandsmet í snýtubréfanotkun hlýtur þó að vera í hættu. Mitt í þessu svartnætti reynir Skáldið að líta á björtu hliðarnar, frí í vinnunni t.d., og svo hefði verið allmiklu verra ef pestin hefði verið viku seinna á ferðinni. Eins gott að Skáldið verði við góða heilsu þá, eða a.m.k. einhverja.

Það þótti Jarlaskáldinu gleðifregnir að heyra að söngspíran Britney Spears hefði gift sig og það ekki ómerkari manni en sjálfum Jason Alexander. Illu heilli virðist sem hjónasælan hafi varað stutt og allt bara búið. Það er að vísu gott að Stefán á þá enn séns.

Hér er komið nýtt útlit. Ekki það fyrsta og örugglega ekki það síðasta. Skárra en það sem var á undan samt, er það ekki?

mánudagur, janúar 05, 2004 

Svarthvíta hetjan mín

Jarlaskáldið brá sér einu sinni sem oftar út fyrir bæjarmörkin um helgina. Það er gömul saga og ný, en öll ástæða til að greina lesendum frá atburðum í ferð þessari, þar eð þar fer saga mikilla afreka og hetjuskapar. Vessgú:

Á föstudagskvöldið var heilmikil rekistefna í gangi um hvort halda ætti í ferðalag daginn eftir, veðurspáin gaf ekki tilefni til bjartsýni, spáð roki og rigningu, en eftir nokkuð japl, jaml og fuður var ákveðið að taka sénsinn og kýla á það. Áfangastaðurinn var í upphaflegum áætlunum Landmannalaugar og gert ráð fyrir 7 ferðalöngum, þeim Stefáni og Skáldinu á Willys, Andréssyni og frú á Toyota Hilux X-Cab og þeim feðgum Árna, Togga og Árna á Datsun Patrol. Þær áætlanir voru ekki lengi að breytast, fyrst var ákveðið að fjölga í hreingerningaliðinu og var Alda fengin til þess. Alltaf gott að hafa aukamann þar. Þá gerðist það að Stefán fór að fikta í Willa sínum og lá Willi óvígur eftir. Voru þá góð ráð dýr. Lausnin varð sú að leita á náðir Lilla, þrátt fyrir að hann teldist heldur lítill til lappanna á sinni 31 tommu miðað við 38 tommu tröllin. Til að bregðast við því var ferðin stytt eilítið og stefnt á Áfangagil, sjá bara hvað Lilli kæmist og selflytja svo hópinn ef til þess kæmi síðasta spottann. Þannig búinn hélt hópurinn af stað á ellefta tímanum laugardagsmorgun, að vísu án Árna hins eldri sem forfallaðist. Veðrið reyndist ekki eins slæmt og verstu spár gerðu ráð fyrir, smá hálka á heiðinni en ekkert til að hafa áhyggjur af. Var fyrsta stopp gert í Hnakkaville og þar keypt í kvöldmatinn, komið við í mjólkurbúðinni og loks vitaskuld heimsótt stolt bæjarbúa. Dálaglegt.
Var svo ekið áfram austur að Landvegamótum, á leiðinni ekið yfir nýju Þjórsárbrúna, ósköp er hún nú sviplaus miðað við þá gömlu. Við Vegamót var lykli reddað að kofanum í Áfangagili og svo ekið upp Landveginn í átt að Heklu. Var vegurinn gjörsamlega ísi lagður og flugháll eftir því svo hraða var vel stillt í hóf. Á leiðinni skemmtum við Stefán og Alda í Lilla okkur vel yfir spaugi Þorsteins Guðmundssonar, gi.x.fni.is, mátti minnstu muna að Skáldið missti stjórn á bílnum þegar hann byrjaði að tantra köttinn, ógleymanleg snilld! Við Dómadalsafleggjara var loks stoppað og hleypt úr dekkjum, jómfrúarúrhleyping í tilviki Lilla, 10 psi urðu eftir í hverju dekki. Andrésson tók síðan forystuna, og Skáldið í humátt á eftir. Sú ferð varð stutt, fyrsti skaflinn hafðist með miklu erfiði en í þeim næsta sat Lilli pikkfastur á maganum eftir væna atlögu. Þótti ljóst að Lilli færi tæplega lengra þessa leið. Ekki var þó öll nótt úti enn, nokkru ofar liggur önnur leið inn í Áfangagil og varð úr að reyna sig við hana. Reyndist hún öllu greiðfærari, a.m.k. í fyrstu, en þar sem vegurinn hvarf fóru leikar að æsast. Þar byrjuðu allir að festa sig, smáir sem stórir, og spottinn meira og minna uppi við. Einhvern veginn tókst þó að mjatla áfram, Skáldið festi sig reglulega en engu að síður kom Lilli stórlega á óvart með frammistöðu sinni, göslaði þetta áfram í hjólförunum eftir hina og festist ekki fyrr en hjólin náðu ekki lengur niður og hann lá á maganum. Hörkustuð. Fór svo að lokum að Lilli hafði það alla leið upp að skála eftir að hafa farið niður í 6 psi, þvert á spá sumra hverra jeppi var bilaður inni í skúr. Húrra fyrir Lilla!
Þegar þarna var komið sögu var klukkan ekki einu sinni orðin fimm þannig að þegar við vorum búin að moka okkur inn (hurðin sást rétt svo) og koma okkur fyrir var aftur haldið í jeppana, þó Lilli fengi að vera eftir, og keyrt hingað og þangað í snjónum. Gekk það bærilega, nokkrar illsjáanlegur holur sáu um hopp og hí og ekki skánaði það þegar orðið var aldimmt. Á einum stað komum við svo að gili sem Andrésson fór á fullri ferð inn í og pikkfesti sig að sjálfsögðu. Hvað gerir þá Toggi? Tekur fram spottann og kippir Lúxanum upp úr? Nei, að sjálfsögðu tók hann líka á því og festi sig enn kirfilegar við hliðina á Magga. Afar karlmannlega gert. Var þá ekki annað að gera en taka fram skóflurnar og moka og tók nokkra stund. Varð stúlkunum þá spurn hvort karlpeningnum þætti þetta virkilega gaman, var það að sjálfsögðu ekki svaravert.
Eftir nokkra stund var haldið til baka, hafði Jarlaskáldið sýnt þá fyrirhyggju að taka nýja snjóbrettið sitt með og fékk það sína prufukeyrslu í eftirdragi hjá Togga. Ekki leiðinlegt það, og mesta gleðiefnið að handónýtur ökklinn var ekki til neinna vandræða. Að vísu fékk brettið aðeins að kenna á því þar sem snjóþekjan var þunn en ekkert alvarlegt sosum. A.m.k. ættu báðir aðilar að vera til í slaginn eftir svo sem 8 daga.
Þegar í kofa var aftur komið var tekið til við matseld og sá Skáldið um að grilla ljúffengar vínarpylsur ofan í sig og Öldu, annars var mataræðið fjölbreytt og enginn með það sama. Um svipað leyti hófust hefðbundin aðalfundarstörf þótt hægt væri farið í byrjun, að vísu lét yngsti meðlimurinn þau alveg í friði enda vart af barnsaldri og fór bara að sofa. Var svo spjallað og spaugað fram eftir kvöldi, eða allt þar til 9 manna hóp bar að garði sem við leyfðum að gista í næsta herbergi af alkunnu drenglyndi voru. Tóku leikar aðeins að æsast í framhaldi af þessari fjölgun, enda gítarspil og glaumur sem fylgdi henni. Enn síðar var gleðinni haldið áfram inni í Lilla við léttan undirleik MP3-spilarans uns síðustu menn skriðu inn í koju á fimmta tímanum. Þess má geta að þar á meðal var Jarlaskáldið, og síðan einhver annar.

Þegar liðið skreið á fætur blasti við því furðuleg sjón: nánast allur snjórinn farinn! Hafði sáralítið rignt um nóttina, en lofthitinn greinilega verið á annan tuginn. Morgunverkin voru hefðbundin, og síðan lagt í hann heimleiðis þegar hreingerningaliðið hafði lokið störfum. Í ljósi aðstæðna var ákveðið að reyna við leiðina sem var ófær Lilla daginn áður og gekk vel, slabb út um allt og svaka stuð. Tókst Skáldinu einnig að finna góða krapapytti og festa sig nokkrum sinnum, í eitt skiptið svo vel að ekki var hægt að opna bílstjórahurðina. Sem betur fer er Lilli nettur og Patti feitur, svo lítið mál var að losa hann. Gekk ferðin annars prýðilega fram að Landvegi þar sem pumpað var í dekk, og síðan tíðindalítil heimferðin sömu leið og áður með stoppi í Hnakkaville þó stolt bæjarbúa hafi ekki verið heimsótt að þessu sinni. Úr því bætti Skáldið reyndar í hádeginu í dag, og var það gott.

Samkvæmt teljaranum hérna efst hægra megin á síðunni eru 8 dagar í dag þar til Skáldið fer við ellefta mann til Ítalíu. Á það er ekki hægt að minnast of oft!

föstudagur, janúar 02, 2004 

Lucifer

Jújú, það voru víst áramót fyrir ekki svo löngu síðan. Kannski grunar einhverja lesendur að Jarlaskáldið hafi notað tækifærið og slett lítillega úr klaufunum. Þeir hafa rangt fyrir sér. Það var ekkert lítið við það.

Eins og áður var frá greint bauð móðir Skáldsins upp á kalkún á gamlársdagskvöld eins og hefð hefur verið fyrir undanfarin ár, gamla konan verður alltaf betri í eldamennskunni og kalkúnninn vægast sagt góður í ár. Jarlaskáldið sá aftur á móti um rauðvínið, sem var ekkert síðra. Að áti loknu bloggaði Skáldið eilítið eins og lesendur sáu en lagðist svo á meltuna fram að ávarpi Bubba kóngs. Það var froða eins og lög gera ráð fyrir. Svo hófst sjónvarpsglápið, það byrjaði bærilega með fréttaannál Stöðvar 2, versnaði með Pablo Francisco og náði algjörum botni með skaupinu. Úff, hvílík hörmung!
Eftir þessa misnotkun á augum og eyrum skattborgara hafði Skáldið samband við Magnús Blöndudahls og varð niðurstaða þeirra samræðna að Skáldið hélt á Lilla sínum í Þverbrekkuna til að njóta útsýnis af níundu hæð um áramótin. Var Skáldinu tekið fagnandi af íbúum, sem voru auk Magnúsar foreldrar hans, en litla systir mætti í vinnuna í álverið í Straumsvík klukkan 12 á miðnætti. Óheppin sú! Naut Skáldið afbragðsgóðs útsýnis yfir Fossvoginn og víðar af svölunum en mikið óskaplega var kalt! Á miðnætti var skálað í bubbly og fólki óskað til lukku með nýja árið en þegar árið 2004 var tæplega klukkutíma gamalt héldum við Magnús á honum Lilla (Skáldið enn keyrandi, hver hefði trúað því?) yfir Fossvoginn og enduðum í Bústaðahverfinu hjá þeim Lilju og Gísla. Jarlaskáldið keyrði ekki neitt eftir það, svo mikið er víst. Vorum við Magnús fyrstir á staðinn séu húsráðendur undanskildir og vorum fljótir að sýna þeim og öðrum gestum sem fljótt bar að garði hvernig VÍN-verjar skemmta sér. Varð mæting hin ágætasta, að vísu áttu flestir aðrir það sameiginlegt að vera paraðir, og yfirleitt þar að auki óléttir eða nýbúnir að gjóta, svo við Magnús stungum eilítið í stúf við þá. Það kom þó ekki í veg fyrir að gleði var talsverð og nokkuð almenn.
Þrátt fyrir að við Magnús yndum hag okkar vel í teiti þessari ákváðum við þegar nokkuð var á nótt liðið að venda kvæði okkar í kross og halda aftur í Kópavoginn. Endaði för sú í Salahverfinu heima hjá, öh, einhverjum, og voru þar staddir fjölmargir VÍN-verja auk fjöldans alls af öðru liði sem Skáldið kannaðist við og það ekki bara af góðu. Djamm. Djamm. Djamm. Pítsa. Djamm. Á níunda tímanum um morguninn lét Skáldið sig loks hverfa heim á leið með leigubíl ásamt einhverjum öðrum. Þegar heim var komið eldaði það sér mat og horfði á hluta Groundhog Day. Fór í bælið um tíu. Heilsan hefur ekki verið góð síðan.

Pistill þessi er ritaður á föstudagskvöldi og kemur kannski ekki á óvart að Skáldið hélt sig heima í kvöld, búin að vera ágætis vika djammlega séð. Jarlaskáldið er þó ekki hætt. Á morgun er stefnan tekin á jeppatúr og er meiningin jafnvel sú að Skáldið fari á Lilla. Veðurspáin er að vísu skelfileg, en kannski er það bara betra. Allavega, það verða einhverjar fréttir af þessu eftir helgi. Adios.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates