Grill og menning
Það dró til tíðinda þessa helgina í annars ómerkilegu lífi Jarlaskáldsins, því það hélt sig í heimasveit alla helgina, einungis annað skiptið síðan einhvern tímann í maí (Júróvisjón líklega) sem það gerist. Hafi hugmyndin verið að spara peninga með því mistókst sú ráðagerð hrapalega.
Á föstudaginn var síðasti official dagurinn í vinnunni, og að sjálfsögðu héldum við upp á það með því að gera absólútlí ekki neitt rétt eins og venjulega. Mikið er það dásamleg tilhugsun að Don Alfredo ætlar að hækka verðskrána hjá Orkuveitunni til þess að geta borgað svona liði eins og okkur laun. Skáldið dreif sig svo heim eftir „vinnuna“ og sjænaði sig til því um kvöldið var það boðað til grillveislu að Bústaðavegi hjá þeim sæmdarhjónaleysum Lilju og Gísla. Þangað mætti Skáldið á áttunda tímanum ásamt Þjálfa frá Þverbrekku og hitti fyrir fjöldann allan af góðu fólki, sem flest átti það sameiginlegt að vera ýmist nýbúið að eignast krakka, alveg að fara að eignast krakka, eða í þeim hugleiðingum að eignast krakka. Sumsé, þarna voru fimm pör, þar af eitt með þriggja mánaða afkvæmi með sér og tvö með krakka í ofninum, og svo við vitleysingarnir. Þrátt fyrir að fjórir einstaklingar væru löglega afsakaðir frá drykkju og sumir í fyrsta gírnum varð úr þessu ágætasta djamm, maturinn að sjálfsögðu snilld og m.a.s. stundaðir drykkjuleikir með tilheyrandi afleiðingum. Einhvern tímann um kvöldið bættist Kiddi inn rauði í þennan ágæta hóp og enn síðar varð úr að Skáldið fór ásamt honum og Þjálfa niður í bæ og það m.a.s. vestur í bæ að sækja heim Stefán Twist er þar dvaldist í góðu yfirlæti ásamt vinnufélögum sínum. Ekki varð gert langt stopp þar heldur pilturinn rifinn með í miðbæinn þar sem Thorvaldsen varð fyrsti viðkomustaður. Gengum þar ca. einn hring um svæðið og leist illa á og því vissara að halda á kunnuglegri slóðir. Þar mætti okkur vitaskuld Hillsborofílingurinn í öllu sínu veldi og vakti talsverða lukku. Því miður gekk röðin hratt fyrir sig (dyraverðirnir voru víst að spyrja alla um skilríki og grynnkuðu þannig talsvert á röðinni) svo við vorum fljótlega komnir inn. Drifum okkur þar undir eins í fasta liði, rússneskan eðaldrykk og blessað ölið, en einhverra hluta vegna var stemmningin eitthvða skrýtin þarna, a.m.k. fannst manni maður ekkert vera að passa inn í hana. Reyndum við þó að þrauka fram eftir nóttu en viðurkenndum að lokum ósigur okkar og drifum okkur bara á Nonnann. Eða öllu heldur, Jarlaskáldið fór á Nonnann og tókst um leið að týna félögunum á einhvern óskiljanlegan hátt. Það þýddi bara 2000 kall í leigarann, alltaf hressandi. Endalokin voru síður en svo óvænt, sofnað fyrir framan sjónvarpið með Simpsons í gangi. Skáldið hafði soldið saknað þess.
Jarlaskáldið var sem endranær lítt hæft til afreka framan af laugardegi. Upp úr hádegi skutlaðist það með Þjálfann á skemmtanaslóðir gærkvöldsins til sækja bílskrjóð hans og var um leið tilkynnt að um kvöldið væri því gert að halda grillpartý. Gott og vel hugsaði Skáldið, kom sér heim og hreyfði sig ekki næstu klukkustundirnar. Um sexleytið hafði það loks orku og nennu til að taka aðeins til, kannski ekki vanþörf á eftir tæplegu viku einveru í húsinu, og kaupa svo eitthvað á grillið. Merkilegt nokk var húsið komið í nokkuð sómasamlegt ástand um sjöleytið og ekki seinna vænna því fljótlega eftir það fóru fyrstu menn að láta sjá sig. Bættist svo ört í hópinn og taldi að lokum vel á annan tug manna, sem verður að teljast nokkuð gott þar eð Skáldið hafði bara boðið tveimur. Stóð Skáldið sig að sögn þrælvel við grillið, en mesta undrun veislugesta vakti þó salatið sem Skáldið hafði gert af eigin rammleik. Já, þetta getur það!
Annars mun veisla þessi seint fara í sögubækur fyrir svall og svínarí, til þess var einfaldlega ekki tími, síðustu menn yfirgáfu pleisið um hálftíu og voru þá búnir að taka til og setja í uppþvottavél. Ástæða þessarar stuttu dvalar ætti að vera öllum með greind yfir frostmarki augljós, Menningarnótt. Sem betur fer voru flestar löggur fastar niðri í miðbæ því líkast til hefðu þær gert athugasemd við þann fjölda fólks sem fyllti Lancerinn hans Togga á leiðinni niður í bæ hefðu þær séð hann. Fengum við stæði hjá Ríkislögreglustjóra, glæpamannaframleiðanda ríkisins samkvæmt dómsúrskurði, og örkuðum svo niður Laugaveginn í átt að höfninni. Þar hittum við svo lungann af veislugestum frá því fyrr og urðu nokkrir fagnaðarfundir enda gangan niður Laugaveginn nýtt vel til ýmissa hluta. Stuðmenn léku fyrir dansi og fékk Skáldið að fara á háhest, en það endaði að sjálfsögðu með vænni byltu. Flugeldasýningin var svo bara ágæt, enda í boði Jarlaskáldsins og samverkamanna þess.
Eftir ljósasjóvið fór að koma hreyfing á fólkið og það var eins og við manninn mælt, maður hitti fólk. Ber þar kannski helst að nefna Styrmi og Dúllarann ásamt fríðu föruneyti, Arnar og Kristján sem kunnir eru úr Keddlingafjöllum, og síðast en ekki síst Hagnaðinn og Mágkonuna. Mátti vart milli sjá hvort var hressara, líklega hafði þó Mágkonan vinninginn.
Var að lokum haldið á hinn arma stað Thorvaldsen þar sem Þjálfi var í essinu sínu við að koma liðinu fram fyrir röð. Sem tókst. Var aðalfundarstörfum svo haldið áfram af krafti og fyrr en varði voru menn farnir að fækka fötum á dansgólfinu við mismikla hrifningu annarra gesta. Af Jarlaskáldinu er það helst að frétta að því voru eitthvað mislagðar hendur þetta kvöldið, hlutirnir ekki alveg að ganga upp eins og Skáldið hefði kosið, svo það tók þá ákvörðun að kveðja samkomuna án þess að kveðja hana um tvöleytið og arkaði heim á leið. Alla leið. Var það bara nokkuð hressandi.
Sunnudagurinn var dagur björgunaraðgerða. Jebb, Skáldið fór á KFC. Það var gott.
Það dró til tíðinda þessa helgina í annars ómerkilegu lífi Jarlaskáldsins, því það hélt sig í heimasveit alla helgina, einungis annað skiptið síðan einhvern tímann í maí (Júróvisjón líklega) sem það gerist. Hafi hugmyndin verið að spara peninga með því mistókst sú ráðagerð hrapalega.
Á föstudaginn var síðasti official dagurinn í vinnunni, og að sjálfsögðu héldum við upp á það með því að gera absólútlí ekki neitt rétt eins og venjulega. Mikið er það dásamleg tilhugsun að Don Alfredo ætlar að hækka verðskrána hjá Orkuveitunni til þess að geta borgað svona liði eins og okkur laun. Skáldið dreif sig svo heim eftir „vinnuna“ og sjænaði sig til því um kvöldið var það boðað til grillveislu að Bústaðavegi hjá þeim sæmdarhjónaleysum Lilju og Gísla. Þangað mætti Skáldið á áttunda tímanum ásamt Þjálfa frá Þverbrekku og hitti fyrir fjöldann allan af góðu fólki, sem flest átti það sameiginlegt að vera ýmist nýbúið að eignast krakka, alveg að fara að eignast krakka, eða í þeim hugleiðingum að eignast krakka. Sumsé, þarna voru fimm pör, þar af eitt með þriggja mánaða afkvæmi með sér og tvö með krakka í ofninum, og svo við vitleysingarnir. Þrátt fyrir að fjórir einstaklingar væru löglega afsakaðir frá drykkju og sumir í fyrsta gírnum varð úr þessu ágætasta djamm, maturinn að sjálfsögðu snilld og m.a.s. stundaðir drykkjuleikir með tilheyrandi afleiðingum. Einhvern tímann um kvöldið bættist Kiddi inn rauði í þennan ágæta hóp og enn síðar varð úr að Skáldið fór ásamt honum og Þjálfa niður í bæ og það m.a.s. vestur í bæ að sækja heim Stefán Twist er þar dvaldist í góðu yfirlæti ásamt vinnufélögum sínum. Ekki varð gert langt stopp þar heldur pilturinn rifinn með í miðbæinn þar sem Thorvaldsen varð fyrsti viðkomustaður. Gengum þar ca. einn hring um svæðið og leist illa á og því vissara að halda á kunnuglegri slóðir. Þar mætti okkur vitaskuld Hillsborofílingurinn í öllu sínu veldi og vakti talsverða lukku. Því miður gekk röðin hratt fyrir sig (dyraverðirnir voru víst að spyrja alla um skilríki og grynnkuðu þannig talsvert á röðinni) svo við vorum fljótlega komnir inn. Drifum okkur þar undir eins í fasta liði, rússneskan eðaldrykk og blessað ölið, en einhverra hluta vegna var stemmningin eitthvða skrýtin þarna, a.m.k. fannst manni maður ekkert vera að passa inn í hana. Reyndum við þó að þrauka fram eftir nóttu en viðurkenndum að lokum ósigur okkar og drifum okkur bara á Nonnann. Eða öllu heldur, Jarlaskáldið fór á Nonnann og tókst um leið að týna félögunum á einhvern óskiljanlegan hátt. Það þýddi bara 2000 kall í leigarann, alltaf hressandi. Endalokin voru síður en svo óvænt, sofnað fyrir framan sjónvarpið með Simpsons í gangi. Skáldið hafði soldið saknað þess.
Jarlaskáldið var sem endranær lítt hæft til afreka framan af laugardegi. Upp úr hádegi skutlaðist það með Þjálfann á skemmtanaslóðir gærkvöldsins til sækja bílskrjóð hans og var um leið tilkynnt að um kvöldið væri því gert að halda grillpartý. Gott og vel hugsaði Skáldið, kom sér heim og hreyfði sig ekki næstu klukkustundirnar. Um sexleytið hafði það loks orku og nennu til að taka aðeins til, kannski ekki vanþörf á eftir tæplegu viku einveru í húsinu, og kaupa svo eitthvað á grillið. Merkilegt nokk var húsið komið í nokkuð sómasamlegt ástand um sjöleytið og ekki seinna vænna því fljótlega eftir það fóru fyrstu menn að láta sjá sig. Bættist svo ört í hópinn og taldi að lokum vel á annan tug manna, sem verður að teljast nokkuð gott þar eð Skáldið hafði bara boðið tveimur. Stóð Skáldið sig að sögn þrælvel við grillið, en mesta undrun veislugesta vakti þó salatið sem Skáldið hafði gert af eigin rammleik. Já, þetta getur það!
Annars mun veisla þessi seint fara í sögubækur fyrir svall og svínarí, til þess var einfaldlega ekki tími, síðustu menn yfirgáfu pleisið um hálftíu og voru þá búnir að taka til og setja í uppþvottavél. Ástæða þessarar stuttu dvalar ætti að vera öllum með greind yfir frostmarki augljós, Menningarnótt. Sem betur fer voru flestar löggur fastar niðri í miðbæ því líkast til hefðu þær gert athugasemd við þann fjölda fólks sem fyllti Lancerinn hans Togga á leiðinni niður í bæ hefðu þær séð hann. Fengum við stæði hjá Ríkislögreglustjóra, glæpamannaframleiðanda ríkisins samkvæmt dómsúrskurði, og örkuðum svo niður Laugaveginn í átt að höfninni. Þar hittum við svo lungann af veislugestum frá því fyrr og urðu nokkrir fagnaðarfundir enda gangan niður Laugaveginn nýtt vel til ýmissa hluta. Stuðmenn léku fyrir dansi og fékk Skáldið að fara á háhest, en það endaði að sjálfsögðu með vænni byltu. Flugeldasýningin var svo bara ágæt, enda í boði Jarlaskáldsins og samverkamanna þess.
Eftir ljósasjóvið fór að koma hreyfing á fólkið og það var eins og við manninn mælt, maður hitti fólk. Ber þar kannski helst að nefna Styrmi og Dúllarann ásamt fríðu föruneyti, Arnar og Kristján sem kunnir eru úr Keddlingafjöllum, og síðast en ekki síst Hagnaðinn og Mágkonuna. Mátti vart milli sjá hvort var hressara, líklega hafði þó Mágkonan vinninginn.
Var að lokum haldið á hinn arma stað Thorvaldsen þar sem Þjálfi var í essinu sínu við að koma liðinu fram fyrir röð. Sem tókst. Var aðalfundarstörfum svo haldið áfram af krafti og fyrr en varði voru menn farnir að fækka fötum á dansgólfinu við mismikla hrifningu annarra gesta. Af Jarlaskáldinu er það helst að frétta að því voru eitthvað mislagðar hendur þetta kvöldið, hlutirnir ekki alveg að ganga upp eins og Skáldið hefði kosið, svo það tók þá ákvörðun að kveðja samkomuna án þess að kveðja hana um tvöleytið og arkaði heim á leið. Alla leið. Var það bara nokkuð hressandi.
Sunnudagurinn var dagur björgunaraðgerða. Jebb, Skáldið fór á KFC. Það var gott.