miðvikudagur, apríl 28, 2004 

Miðvikublogg ið fertugastaogannað

Eitt og annað á seyði er, fátt er það þó merkilegt, samt skal um það ritað hér.

Fyrst skal nefna það að Jarlaskáldið hefur komið upp nýju athugasemdakerfi. Hafði það lengi notast við svokallað „Squawkbox“ athugasemdakerfi og það reynst að flestu leyti vel, en um daginn tók það kerfi upp á því eyða öllum athugasemdum og krefjast ríflegs lausnargjalds til að endurheimta þær og/eða bæta við þær. Þóttu Jarlaskáldinu það illir kostir að beygja sig undir þær kröfur og leitaði því á önnur mið. Eftir nokkra leit og samningaumleitanir náðust samningar við svokallað „Haloscan“ athugasemdakerfi og mun það gegna þessu hlutverki næstu misserin eða þangað til því dettur eitthvað álíka í hug og hinu lymskulegu „Squawkbox“ athugasemdakerfi. Allar eldri athugasemdir hafa af þessum sökum þurrkast út, en það er lítill skaði, fæstar voru þær gáfulegar. Eru lesendur eftir sem áður hvattir til að láta ljós sitt skína, hafa þeir sannast sagna verið heldur latir við það og mættu bæta sig. Eða ekki, hverjum er ekki sama?

Miðvikudagskvöld eru aftur farin að nálgast það að verða bestu sjónvarpskvöldin. Það er gott. Ósköp er samt Boston Public vondur þáttur.

Nú er illt í efni. Senn hyllir undir lok þessa bloggs. Þ.e.a.s. ef frumvarp forsætisráherra um fjölmiðla nær fram að ganga. Hvernig snertir það blogg Jarlaskáldsins? Eðlileg spurning. Lítum á málið.
Samkvæmt frumvarpi þessu má enginn sem er í „markaðsráðandi stöðu“ eiga fjölmiðil. Þetta kemur illa við Jarlaskáldið, því samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu er það eina starfandi jarlaskáldið á Íslandi og þar af leiðandi með einstaklega markaðsráðandi stöðu. So what? Jú, hvað er þetta blogg annað en fjölmiðill? Lítum á skilgreiningu Íslenskrar orðabókar:

fjölmiðill k tæki til að dreifa upplýsingum til mikils mannfjölda á stóru svæði (blöð, útvarp, kvikmyndir o.fl.)

Hvað er blogg annað en tæki til að dreifa upplýsingum til mikils mannfjölda á stóru svæði? Það getur allur bévítans heimurinn lesið þetta ef honum sýnist svo!
Að öllu ofantöldu sögðu er augljóst að ef frumvarp þetta verður samþykkt er deginum ljósara að blogg Jarlaskáldsins í þeirri mynd sem lesendur þekkja það líður undir lok. Því segir Skáldið, vér mótmælum allir!

Um næstu helgi er stefnt á að rölta upp á hól. Skíða svo niður. Það hefur verið gert áður, og var gaman. Því verður það endurtekið.

Að lokum leggur Jarlaskáldið til að forsætisráðherra verði rassskelltur.

sunnudagur, apríl 25, 2004 

Það er sko komið sumar

Helgi búin, lítið gert. Þó er frá ýmsu að segja.

Samkvæmt almanakinu hófst sumarið fimmtudaginn síðasta. Veðurguðirnir hafa í gegnum tíðina ekki alveg spilað í takt við hátíðisdag þennan, oftar en ekki skítaveður og jafnvel frost og snjór. Þrátt fyrir þetta lagði 5 manna hópur í sannkallaða hættuför upp á Snæfellsnes sumardaginn fyrsta í fyrra, gekk þar upp á jökul og lenti í blíðskaparveðri sælla minninga. Sakir þess að veðurspá var sæmileg og langt síðan menn höfðu komist á fjöll ákvað annar 5 manna hópur, sem þó var að stóru leyti skipaður sömu mönnum, að endurtaka afrekið í ár. Úr varð mögnuð ferð.

Lagt var í hann á miðvikudagskvöld. Upphaflega hafði fjöldinn allur af fólki ætlað með en engu að síður voru það einungis 4 sem skipuðu þennan hóp, Jarlaskáldið og Stefán á Lilla og þeir Þorvaldur og Blöndudalur á reykspúandi og olíubrennandi Lancer hins fyrrnefnda. Lá leiðin venju samkvæmt fyrst í kjörbúð, sem reyndist einnig vera bensínstöð, og þar að auki Subwaystaður. Allt er nú til í Mosó. Þar nestuðu menn sjálfa sig og ökutækin og síðan ekið sem leið lá vestur á Snæfellsnes, án mikilla tíðinda. Þangað vorum við komnir um ellefuleytið, byrjuðum á því að litast um á Arnarstapa en leist ekki á aðstæður þar enda barinn lokaður, fundum okkur að lokum lítinn lund neðan við veginn upp á Jökulháls og settum upp grunnbúðir þar.
Þar voru 4 tjöld reist á mettíma þrátt fyrir að menn væru ryðgaðir í fræðunum, en síðan sest niður ýmist með kakóbolla eða öl í hönd og skálað fyrir sumri sem hófst um svipað leyti. Blöndudalur var reyndar á því að hefja strax göngu, var ekki bjartsýnn á að hið góða veður sem þarna var myndi endast nóttina, en undirtektir voru litlar, bæði vegna þreytu og myrkurs. Ekki varð mikið um skemmtanahöld enda ekki við því að búast, lagst til náða um tvöleytið og sofið svefni hinna réttlátu, sem þó varð truflaður stöku sinnum með snörpum vindstrengjum. Kannski eins gott að maður fór bara að sofa.


Síðustu menn risu úr rekkju um níuleytið morguninn eftir og hófust þegar hefðbundin morgunverk, mötun, messa og mullersæfingar í þessu líka blíðskaparveðri.
Stuttu síðar birtist fimmti og síðasti leiðangursmaðurinn, Selfosshnakkinn sjálfur, Jóhann Haukur. Hafði hann vaknað árla morguns og ekið leið þessa einsamall til þess að taka þátt í leiðangri vorum, mættu ýmsir taka atorku Hnakkans sér til fyrirmyndar. Þegar allir voru búnir að taka niður tjöld og tilbúnir til að leggja í hann var einmitt það gert, lagt í hann. Ókum við upp á Jökulhálsinn eins langt og druslurnar drógu, sem var ca. við sleðaleiguna. Þar komu menn sér í göngugallann, sem var mismunandi eftir mönnum,
Jarlaskáldið fór fótgangandi með snjóbretti á bakinu, slíkt hið sama gerði Toggi en með stubbaskíði á bakinu. Stefán og Blöndudalur röltu up á fjallaskíðum, en Jóhann Haukur var e.t.v. með furðulegasta ferðamátann, þó hann hafi gengið upp. Frá því verður greint síðar.
Þrátt fyrir að blíðskaparveður væri vorum við eilítið uggandi, þar eð toppurinn á jöklinum var að safna utan um sig skýjabökkum. Við því var lítið að gera svo við örkuðum bara af stað, og gekk bærilega þó fæstir væru í sínu besta formi. Fyrsti hlutinn var að vísu tiltölulega flatur enda þurftum við að byrja á að rölta að fjallinu, en við skíðalyftuna fór heldur að reyna á. Göngumenn gátu sem betur fer gengið upp grjótgarð sem létti aðeins verkið, sem var þó síður en svo létt. Eftir þónokkuð puð komumst við loks upp fyrsta og brattasta kaflann og tókum okkur smá pásu að honum loknum til að varpa öndinni.


Enn gátum við varla séð hvað fram undan var en fljótlega eftir að við héldum áfram fór að glitta í neðstu þúfuna. Við stoppuðum svo aftur fyrir ofan hana og var þá heldur byrjað að létta til, þó enn væri skýjahula á toppnum, en svo var eins og hann hreinsaði sig eftir pöntun og komin alger heiðríkja.


Eins og myndir sýna var fjölmennt á jöklinum, fjöldinn allur af jeppaköllum og auðvitað þekktum við nokkra, bæði úr frægum Grímsvatnatúr en einnig úr enn frægari Ítalíuför. Síðasti kaflinn var venju samkvæmt erfiðastur, bæði vegna þreytu en þó fyrst og fremst vegna erfiðs færis á toppnum. Upp komust menn þó að lokum og gæddu sér þar á ýmsum veitingum, Skáldið gæddi sér m.a. á tveimur ágætum fulltrúum amerísks auðvalds, Subway og Coke,
og gleymdi að sjálfsögðu ekki toppagóðgætinu.
Uppi var smá gustur en þó besta veður, Blöndudalur og Hnakkinn töltu alveg upp á efstu þúfu en aðrir tóku því rólega, nutu útsýnisins
og ræddu málin við þá fjölmörgu sem þeir þekktu á svæðinu.
Eftir nokkra setu var svo komið að ávöxtum alls erfiðisins, að renna sér niður. Það var stuð.
Blöndudalur og Stefán renndu sér á sínum fjallaskíðum og Þorvaldur á stubbaskíðum á meðan Jarlaskáldið sýndi takta á brettinu, en þó hlýtur Jóhann Haukur að hafa verið með merkilegasta ferðamátann, þar eð hann renndi sér niður á einangrunardýnu, og gekk merkilega vel á köflum. Færið var reyndar ekki upp á marga þorska efst uppi en batnaði þegar neðar dró og var hreint út sagt frábært neðri hlutann. Tókst okkur að renna okkur alveg út að bíl (allir nema Hnakkinn) og var almenn ánægja með för þessa svo ekki sé meira sagt. Þegar allir voru komnir niður og búnir að taka drasl sitt saman var komið að síðasta skipulagða dagskrárliðnum, sem var lambasnitsel með frönskum og EXTRA kryddsmjöri á Vegamótum,
og stóð það sannarlega undir nafni. Fór Jarlaskáldið um svipað leyti að verða vart við smá roða í andliti, sem fljótlega líktist blóðrauðu sólarlagi, enda hafði Skáldið algerlega gleymt að bera á sig sólarvörn, en af sólinni var nóg. Það er nú bara karlmannlegt. Lá svo leiðin heim, og lítið meira frá þessari annars fyrirtaks ferð að segja, annað en það að hún verður endurtekin.

Á föstudaginn var Jarlaskáldið þreytt, og gerði því ekkert. End of story.

Á laugardaginn var Jarlaskáldið enn þreytt, en hresstist þó töluvert við ákveðin knattspyrnuúrslit á Englandi. Um kvöldið leit það við ásamt Blöndudal hjá Stefáni sem hafði verið skilinn einn eftir heima af ábyrgðarlausum foreldrum sinum, var þar tæmt úr örfáum ölkollum en síðan bara farið heim. Það er af sem áður var.

Í dag var ekki mikið meira gert. Jú, Jarlaskáldið fór í bíltúr og jeppaðist aðeins í kringum Krýsuvíkurbjarg,það var gaman. Svo fór það að blogga.

föstudagur, apríl 23, 2004 

Tímamótablogg

Það á afmæli í dag,
það á afmæli í dag,
það á afmæli bloggið,
það á afmæli í dag.

Það er tveggja ára í dag,
það er tveggja ára í dag,
það er tveggja ára bloggið,
það er tveggja ára í dag.

þriðjudagur, apríl 20, 2004 

In the summertime

Æ, ekki er nú mikið að frétta. Svo sem ekki við því að búast, en þó virðist eitthvað vera í uppsiglingu.


Já, því svo virðist sem öræfaóttinn sé í dvala þessa dagana, því hópur VÍN-verja og velunnara þeirra stefnir á að endurtaka leikinn síðan í fyrra og rölta upp á eins og einn Snæfellsjökul á sumardaginn fyrsta. Það afrek unnu 5 manns í fyrra og stefnir jafnvel í betri mætingu í ár. Hvort veðrið verður jafngott og síðast er erfitt að segja, það var allavega helvíti gott í fyrra. Jújú, það verður jafngott ef ekki betra!
Væntanlega verður myndabloggað eins og samband leyfir, og ferðasaga birt þegar tími gefst til. Á föstudaginn verður svo tímamótablogg. Meira um það síðar.

mánudagur, apríl 19, 2004 

Úrslitakeppnisspá NBA

Jújú, Jarlaskáldið lofaði spá, og þó keppnin sé byrjuð hafa úrslitin öll verið eftir bókinni og ætti það því ekki að skipta miklu máli. Here goes:

Fyrsta umferð

Indiana - Boston (4 - 1)
Miami - New Orleans (4 - 3)
Detroit - Milwaukee (4 - 1)
New Jersey - New York (4 - 2)

Minnesota - Denver (4 - 1)
Sacramento - Dallas (4 - 3)
San Antonio - Memphis (4 - 1)
Los Angeles - Houston (4 - 3)


Önnur umferð

Indiana - Miami (4 - 1)
Detroit - New Jersey (4 - 2)

Minnesota - Sacramento (4 - 3)
San Antonio - Los Angeles (4 - 2)


Undanúrslit

Indiana - Detroit (2 - 4)

Minnesota - San Antonio (3 - 4)


Úrslit

San Antonio - Detroit (4 - 3)

NBA meistarar: San Antonio Spurs


Ekki mikið um óvænt úrslit hér, og svo mörg voru þau orð.

sunnudagur, apríl 18, 2004 

Dabbarabbarabb

Horngrýtis helvítis Liverpool lið!

Í öðrum fréttum er fátt. Jarlaskáldið tók þá pólítísku ákvörðun að hafa hægt um sig þessa helgi, og það sem meira er tókst því að standa við það. Húrra fyrir því! Ekki nóg með það, því Skáldið hefur notað tímann til að huga að Lilla sínum, laga bæði læsingu og stigbretti, svo hann er glæsilegri en nokkru sinni fyrr núna. Á morgun er svo fermingarveisla, kannski eitthvað gott að éta?

Ástæðu þessarar rósemdar Jarlaskáldsins er einkum og sér í lagi að leita til atburða fimmtudagsins. Það var ekki góður dagur. Að borga einhverjum manni átta þúsund krónur fyrir að pína sig er bara út í hött. Var reyndar ekkert sérstaklega vont, en tannrótarfylling er samt ekkert sem maður getur mælt með. Jarlaskáldinu fannst í það minnsta nóg komið þegar það sá reyk stíga upp úr gininu á sér þegar mest lét, vonandi var það partur af programmet. Hvað sem því líður veitti buddunni ekki af smá fríi enda verið iðin við kolann undanfarna mánuði. Já, það er gaman að eyða peningunum hans Björgólfs.

Ojæja, fátt er svo með öllu illt, Manure tapaði!

laugardagur, apríl 17, 2004 

NBA

(!!!!VARÚÐ VARÚÐ VARÚÐ!!! EINUNGIS ÆTLAÐ NBA-ÓÐU FÓLKI (MUMMA OG KANNSKI ODDA))

Við upphaf NBA-tímabilsins á haustmánuðum lagði Jarlaskáldið fram spádóma sína um þá leiktíð er nú er í gangi og slíkt hið sama gerði Mummi . Nú hefur Mummi gert úttekt á því hvernig spá hans gekk eftir og jafnframt birt nýja spá um gang úrslitakeppninnar. Ekki getur Skáldið verið minni maður og birtir því niðurstöður sínar og nýja spá hér með.


MVP - Kevin Garnett

Það þarf eitthvað verulega skrýtið að gerast svo að Garnett hirði þetta ekki, algjör yfirburðamaður í vetur og ekkert meira um það að segja. Skáldið spáði því að Tim Duncan myndi hirða þetta en ef ekki hann þá Garnett, hafa þeir ótvírætt verið tveir bestu menn ársins og því ágætis spádómur það.

Nýliði ársins - Lebron James

Við Mummi vorum samstíga í þessu, spáðum báðir að Carmelo Anthony fengi þessa dollu en að öllum líkindum fær Lebron James hana. Anthony hefði sennlega unnið hana öll önnur ár í fersku minni nema 1998 (Duncan) svo ekki var spádómurinn út í hött. Lebron var bara enn betri og á eftir að verða skelfilega góður ef heldur fram sem horfir.

Þjálfari ársins - Flip Saunders

Jarlaskáldið giskaði á Flip Saunders, og sannarlega hefur hann gert góða hluti, besti árangur liðsins nokkurn tímann þrátt fyrir mikil meiðsli og besti árangurinn í Vestrinu sem er mun meira afrek en í Austrinu. Jarlaskáldið er enn á sömu skoðun, en væntanlega mun deildinni þykja nóg að verðlauna Garnett fyrir árangur Minnesota og láta annað hvort Jerry Sloan eða Hubie Brown þessa dollu. Sennilega Brown þar eð Utah missti af úrslitakeppninni.

Leikmaður endurkomunnar - Marcus Camby

Þennan úrelta titil giskaði Jarlaskáldið að Vince Carter myndi hljóta, og sannarlega byrjaði hann vel, en svo komu meiðsli til sögunnar eina ferðina enn svo hann á ekki titilinn skilinn. Einhvern skal verðlauna þó fáir hafi átt mikla endurkomu, Marcus Camby entist loks heilt tímabil eftir fjölmörg meiðslaár og átti veigamikinn þátt í velgengni Denver að mati Jarlaskáldsins.

Mestar endurbætur - Carlos Boozer

Þessum titli steingleymdi Jarlaskáldið að úthluta í haust líkt og Mummi, enda kannski sá titill sem erfiðast er að sjá fyrir. Skáldið er einnig sammála Mumma um þetta, Boozer hefur verið fantagóður í vetur og óx ásmegin eftir því sem leið á leiktíðina. Svo er hann frá Alaska, sem er kúl.

Sjötti maður ársins - Antawn Jamison

Jarlaskáldið spáði þessu í haust og er enn sama sinnis. Jamison hefur gert nákvæmlega það sem sjöttu menn eiga að gera, skorar fullt af stigum, og hefur auk þess kvartað tiltölulega lítið undan þessu hlutverki. Mummi vill meina að Manu Ginobili eigi titilinn skilinn, sem Jarlaskáldið gæti vel fallist á ef hann hefði ekki byrjað inni á í helmingi leikja sinna.

Varnarmaður ársins - Ron Artest

Jarlaskáldið spáði því að ef Artest myndi takast að hafa hemil á skapinu myndi hann vinna þennan titil. Honum hefur tekist það merkilega vel og verið besti varnarmaður deildarinnar í vetur. Þó hefði verið gaman að sjá þá Wallace bræður í Detroit spila saman heila leiktíð, það hefði getað breytt þessum spádómi.

Framkvæmdastjóri ársins - Kevin McHale

Enn þykist Skáldið hafa spáð rétt, Mchale er búinn að búa til besta lið deildarinnar (so far) við afar erfiðar aðstæður ( Joe Smith fíaskóið, Fargo-syndrómið, launaþaksvandamál vegna Garnett) og á þennan titil vísan.

Vonbrigði ársins - Chicago Bulls

Hér spáði Jarlaskáldið að Kobe Bryant yrði vonbrigði ársins. Það hafði þó ekkert með körfubolta að gera, heldur niðurstöðu kviðdóms í Colorado- ríki. Svo vitnað sé í kanann "the jury is still out". Chicago hefur ekki gert annað en að valda Jarlaskáldinu vonbrigðum og leiðindum í vetur líkt og undanfarin ár, og engin breyting á því sjáanleg. Jamm.

Lið ársins

Jarlaskáldið er grimmara en Mummi og lætur menn aðeins inn eftir þeim stöðum sem þeir hafa spilað. Sorry Peja!

Annars er þetta ekki svo frábruðið spánni góðu. Hér vantar vitaskuld Chris Webber og Allen Iverson (meiddir), auk þess þá Vince Carter, Zydrunas Ilgauskas og Stephon Marbury. Í staðinn koma Stojakovic, Wallace, Cassell, Redd og Artest.

1. lið

F - Tim Duncan (No-brainer)
F - Kevin Garnett (No--brainer)
C - Shaquille O´Neal (By default)
G - Jason Kidd (Besti pointinn)
G - Paul Pierce (Er e-r annar sem getur e-ð í þessu liði?)

2. lið

F - Peja Stojakovic (3. besti leikmaður ársins)
F - Jermaine O´Neal (Besti leikmaður austursins)
C - Yao Ming (Spá: Besti centerinn á næsta ári)
G - Kobe Bryant (Tölurnar segja það)
G - Tracy McGrady (Sama hér)

3. lið

F - Ron Artest (Hvað var Chicago að hugsa?)
F - Dirk Nowitski (Slappur í ár en betri en allir aðrir)
C - Ben Wallace (Þó hann sé ekki tæknilega center er hann það í raun)
G - Sam Cassell (Hver á sitt besta tímabil 35 ára gamall?)
G - Michael Redd (Hver þá?)

Varnarlið ársins

F - Tim Duncan
F - Kevin Garnett
C - Ben Wallace
G - Ron Artest
G - Baron Davis

Nýliðalið ársins

Án tillits til stöðu lítur liðið svona út:

Chris Bosh
Dwyane Wade
Kirk Hinrich
Lebron James
Carmelo Anthony

Mummi (Sweetney?!) gerir sér mikinn mat úr vali Skáldins á Hinrich fram yfir T.J. Ford. Bull! Annars er það alveg efni í sérumræðu.


Spá um úrslitakeppni birtist innan tíðar.

þriðjudagur, apríl 13, 2004 

Páskar

Páskar búnir, leiðindin byrjuð aftur. En hvað var svona gaman?

Jarlaskáldið fór rólega af stað í skemmtanahaldi þessa páskana, og náði sér reyndar aldrei á almennilegt flug eftir það. Þó var eitt og annað gert. Á miðvikudaginn brá Skáldið sér í bæinn ásamt þeim Vigni, Stefáni og Stílistanum, vorum við heldur snemma á ferð og enduðum á Prikinu eftir eilítið rölt. Jarlaskáldið gegndi hlutverki „designated driver“ og fór sér því að engu óðslega, aðrir voru heldur duglegri en þó fór svo að lokum að Jarlaskáldið hélt heimleiðis snemma kvölds og skutlaði Stefáni einnig heim til sín en aðrir munu hafa tórað fram undir morgun. Gott hjá þeim.

Á skírdag svaf Skáldið út eins og vera ber en ákvað svo að nota veðurblíðuna og fara aðeins út með hann Lilla. Stefán slóst með í för og lá leiðin fyrst á KFC í Mosfellsbæ, þaðan austur Mosfellsheiði og alla leið að Laugarvatni, upp að Geysi og ekki stoppað fyrr en við Flúðir. Þar heimsóttum við sundlaug staðarins og sátum einir að henni fyrst um sinn, eftir nokkra setu var síðan ekið heimleiðis og farin stysta leið. Ágætis bíltúr það. Hafði Jarlaskáldið svo bara hægt um sig um kvöldið, glápti á sjónvarp og e-ð slíkt, þar eð planað var að halda í heldur veglegra ferðalag árla daginn eftir.

Reyndist það ferðalag verða hið ágætasta. Um hana hefur Stefán ritað merka frásögn og þar eð Skáldið telur sig ekki geta bætt þar úr verður barasta vísað á hana. Hér. Hér neðar á síðunni má einnig sjá ófáar myndir sem teknar voru í ferðinni og þær segja nú meira en mörg orð.

Á laugardagskvöldið var nú ekki planað að gera mikið af sér, en þegar þau boð bárust að Dengsgrímur og frú byðu til veislu gat Skáldið ekki skorast undan og mætti þar við þriðja mann síðla kvölds. Fámennt var en góðmennt í teitinni, gestgjafar buðu upp á góðar veitingar og eitthvað var um ölvun þó lítil hafi hún verið. Í það minnsta hélt Jarlaskáldið heimleiðis rétt rúmlega eitt og lét því lendur skemmtanalífsins alveg í friði þetta kvöldið. Stórmerkilegt.

Páskadagsmorgunn, og Skáldið var ekki enn búið að upplifa þynnku alla páskahátíðina. Nú var að duga eða drepast. Fyrst þurfti nú að koma kvöld, og til að stytta sér biðina ákvað Jarlaskáldið að viðra hann Lilla aðeins meira og aftur slóst Stefán með í för. Var ekið u.þ.b. Reykjavík - Hvalfjörður - Dragháls - Skorradalur - Lundarreykjadalur (þar átti að fara Uxahryggi til baka en þeir voru lokaðir) - Hvítárvellir - Borgarnes - Reykjavík, ágætis sunnudagsbíltúr og mætti Skáldið beint heim í kalkúninn að honum loknum. Afburða kalkúnn annars. Um kvöldið var síðan merkilega fátt í spilunum, allir greinilega svo uppfullir af heilagleika að þeir gátu vart stigið út úr húsi, svo enn og aftur var það einungis Stefán sem virtist með lífsmarki. Sótti því Jarlaskáldið hann heim um kvöldið en þaðan lá leiðin óvænt upp í Árbæ hvar Magnús Blöndudalur sat við þriðja mann og dreypti á viskí. Var kvöldinu eytt í að horfa á tvær kvikmyndir hvar testósterónið bókstaflega flæddi, XXX og Harley Davidson and the Marlboro Man. Hvort tveggja náttúrlega stórkostlegar myndir, en kannski ekki alveg það sem maður hafði í huga til að eyða kvöldinu í. Hvað sem því líður lá leiðin loks á lendur skemmtanalífsins að lokinni seinni myndinni og slóst Blöndudalur með okkur Stefáni í för, sem var gott þar eð hann var á bíl. Eins og svo oft áður lá leiðin á heimavöllinn þó biðröðin væri löng, og þar að auki sérlega hæg þetta kvöldið, sem hefði kannski verið í lagi ef ekki hefði mígrignt! Eftir ANSI langa bið komumst við inn og hittum fyrir Kidda rauða og fleiri góða menn, var kvöldinu einkum eytt í að góna á gelluskarann sem fyllti staðinn, oft hefur beibstandardinn verið hár en sennilega aldrei sem þetta kvöld. Vitaskuld varð engum ágengt í þeim efnum frekar en fyrri daginn, svo við þremenningar héldum heimleiðis síðla nætur kvenmannslausir í kulda og trekki og fékk Skáldið ekki einu sinni Nonnabita í sárabætur. Ja svei!

Það var smá þynnka á mánudagsmorguninn. Skárra væri það nú. Þá bárust Skáldinu einnig þær fréttir að hjónakornin Björg og Ási hefðu ungað út myndarlegum dreng kvöldið áður. Til hamingju með það!

 

Snillingur vikunnar

Að gefnu tilefni hefur Jarlaskáldið ákveðið að tilnefna snilling vikunnar. Snillingur vikunnar er að þessu sinni Ásdís Rán Gunnarsdóttir, fyrir eftirfarandi svar í fréttum Stöðvar 2 þegar hún var spurð hvort fegurðarsamkeppnir (veit að orðið keppni er ekki til í fleirtölu, but what the hell) væru ekki niðurlægjandi fyrir konur:

„Ja, ég meina, það er keppt í gáfum. Er það niðurlægjandi fyrir þá sem vita ekki jafnmikið?“

Snilld. Bara snilld.

mánudagur, apríl 12, 2004 Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

laugardagur, apríl 10, 2004  


Jarlaskáldið og gjafmildi jarðvegsfræðingurinn

 


Spekingar spjalla, án nokkurs vafa hafa jeppar komið til tals

 


Básar

 


Uppi á Hattinum

 


Gott er að éta grillkjöt

 


Stundum er erfitt að vakna

 


Lónið og hinn síminnkandi skriðjökull

 


Lúxi á leið yfir Lónsána, Snorri á pallinum

 


Willy og Lúxi að hleypa úr

 


Bekkurinn góði

föstudagur, apríl 09, 2004 


Á leið í Mörkina

mánudagur, apríl 05, 2004 

Af misfarsælli endurkomu Jarlaskáldsins á lendur skemmtanalífsins

Áður en kom að nýliðinni helgi hafði liðið ansi langur tími, svona sagnfræðilega séð a.m.k., síðan Jarlaskáldið hafði brugðið sér út á lendur skemmtanalífsins, því helgarnar tvær á undan hafði það barasta haldið sig heima við og mesta lagi kíkt í bíó eða fengið sér pizzu. Voru ár og dagar síðan Jarlaskáldið hafði gert annað eins hlé á ólifnaði sínum, reyndar ná heimildir ekki nógu langt aftur í tímann til að finna þess hliðstæðu. Ekki ætlaði Jarlaskáldið að fylgja orðtakinu „allt er þá þrennt er“ heldur fór mikinn á vígvelli gleðinnar um helgina. Það fór á ýmsan veg.

Fyrst á dagskrá var nördapartý. Nördapartý kallast það þegar Jarlaskáldið hittir gamla félaga sína úr GB, er þá jafnan áfengi haft um hönd, sagðar grobbsögur og gert grín að fólki. Tilefni samkomunnar að þessu sinni var óvenjulegt, því í stað þess að horfa á gamla skólann sinn rúlla upp einhverjum ólukkulýð úr annarri og ómerkilegri menntastofnun var glápt á Smjörkúkana rétt merja Úthverfapakkið í annars slakri keppni (Hroki? Nei.). Fór samkoman fram að Kjartani inum rauða og nutu þeir Gvendur Strandamaður og Sverrir Guðmundssons gestrisni hans auk Jarlaskáldsins. Var Kjartan að vanda höfðingi heim að sækja, hélt m.a. pólska menningarkynningu og urðu gestir m.a. af þeim sökum hressir er líða tók á kvöldið þótt úrslitin í GB hafi ekki verið þeim að skapi. Ojæja, svo lengi sem MH vinnur ekki!
Eins og vera ber lá leiðin í miðbæinn síðla nætur, fyrst á Celtic Cross og síðan víðar, þrátt fyrir að almættið sýndi sorg sína með úrslitin með miklu syndaflóði. Jarlaskáldinu tókst að vanda að týna samferðamönnum sínum og tók því bara þann pól í hæðina að kíkja á Nonnann og síðan heim. Það var prýðilegt.

Jarlaskáldið var tiltölulega árrisult á laugardaginn, fór á lappir um hádegi, og var fyrir því brýn ástæða. Var Jarlaskáldið nefnilega boðað í 4 ára afmæli Dags Tjörva frænda síns síðar um daginn og vissara að mæta með pakka á þann merkisfögnuð. Fór því Skáldið í Smáralind ásamt móður sinni og keypti stórglæsilegt Playmolöggumótorhjól handa pilti. Ekki var það það eina sem keypt var, því Skáldið lét einnig ginnast af gylliboðum, keypti sér glæsilegan myndavélasíma enda páskaegg í kaupbæti. Mega lesendur því búast við því að hér hrúgist inn myndir á næstunni, allavega til 1. september, því þangað til er það frítt. Það verður sko nýtt sér.
Afmælið var síðan síðar um daginn og var afmælisbarnið hið sælasta með mótorhjólið, Jarlaskáldið var aftur á móti hið sælasta með veitingarnar. Ágætis skipti þar.


Um kvöldið var reyndar ekki margt í spilunum svo Skáldið horfði bara á Popppunktinn en eftir það bárust þær fregnir frá Stefáni að við skyldum ráðast inn á Andrésson og gera eitthvað karlmannlegt. Karlmannlegt varð það síðan að lokum, því eftir að hafa heyrt ansi misgóða söngvara í Söngkeppni Framhaldsskólanna (Austur- Skaftafellssýsla? Á!) skellti Andrésson DVD í tækið, hin einkar karlmannlega mynd Bachelor Party. Hún er náttúrulega bara snilld, og að henni lokinni þótti okkur Stefáni tími til kominn að reyna pikköpplínurnar úr henni á þar til gerðum stöðum. Lá leiðin fyrst á Ölver en þar var haldin árshátíð sálfræðinema og hafði Blöndudalurinn boðað okkur á svæðið. Ekki höfðum við erindi sem erfiði þar, sálfræðistúdínurnar voru ekki alveg að kaupa 20 ára gamlar pikköplínurnar, en við létum það lítið á okkur fá heldur nýttum okkur góð tilboð á barnum til hins ýtrasta. Þó ekki eins vel og Mokkurinn, sem var vart þessa heims, sást aftur í hnakka á pilti. Síðar lá síðan leiðin í bæinn og endaði vitanlega á heimavellinum. Þar var múgur og margmenni, og margir sem maður þekkti, en þó fleiri sem maður þekkti ekki eins og gengur. Eitthvað var sýslað þar fram eftir nóttu, en hvað Jarlaskáldið varðar þá lenti það í útistöðum við, ja, eitthvað, líklegast hurð, heimildum ber ekki alveg saman, en varð niðurstaða þeirra átaka sú að Skáldið bar skeinu í andlitinu. Ekki þótti Jarlaskáldinu þetta merkileg skeina en ákvað engu að síður að hafa sig á brott skömmu síðar og enn og aftur lá leiðin á Nonnann. Þar lenti það í stúlkuhóp einum sem var illa haldinn af „Florence Nightingale“ syndróminu, töldu að Skáldið væri milli heims og helju af völdum skeinunnar og kröfðust þess að það færi beinustu leið á slysavarðstofu til að tjasla upp á fésið. Eftir nokkrar fortölur lét Jarlaskáldið til leiðast að fara að ráðum stúlknanna, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir varanleg lýti á annars guðdómlegri ásjónu þess, en þó að sjálfsögðu ekki fyrr en það hafði orðið sér úti um Nonnabita. Spurning um forgangsatriði. Í leigubílaleit sinni rakst Skáldið svo á Eyfa og slóst hann í för með Skáldinu. Hann fór reyndar heim til sín en Skáldið á slysó þar sem við tók ansi góð bið innan um illa sjúskað lið sem flest átti það sameiginlegt að hafa lent í útistöðum við annað fólk, ólíkt Jarlaskáldinu sem ræðst bara á húsbúnað. Urðu nokkrar skemmtilegar uppákomur meðan á biðinni stóð, t.d. útlistaði Skáldið skoðun sína á afar kjarnyrtri íslensku á einum gesta sem gekk á milli fólks með svívirðingar í garð Tælendinga, tóku aðrir gesta undir skoðun Skáldsins og við það hafði þessi „víðsýni“ maður sig á brott þar eð boðskapur hans var ekki að falla í góðan jarðveg. Eftir drykklanga stund kom svo að Skáldinu, sem hafði þá lesið tvö LRO blöð upp til agna, fékk það bara nokkuð sæta hjúkku og ekki síður glæsilegan lækni til að tjasla upp á sig sem þau gerðu mestmegnis með tonnataki. Hélt Skáldið svo heimleiðis, þá að verða sjö um morguninn, eftir heldur endasleppt djammirií. Það eru ekki alltaf jólin.

Jarlaskáldið var ekki með hressasta móti þegar það var vakið eftir nokkurra tíma svefn, voru það djammfélagarnir síðan kvöldið áður sem voru þar á ferð og drógu Skáldið með sér á KFC eins og lög gera ráð fyrir á sunnudögum, ekki síst á „erfiðum“ sunnudögum. Í einhverju bjartsýniskasti fékk síðan einhver þá hugmynd að rúnta upp á Hellisheiði og rölta þaðan í Reykjadalslaug og baða sig. Ekki var Skáldið í ástandi til að hreyfa við andmælum og var Lilli fenginn til verksins.


Var myndin fyrir ofan einmitt tekin uppi á Hellisheiði, rétt áður en við lögðum í röltið. Það var sosum létt, enda niður í móti, og ekki amalegt að liggja í heitri ánni með einn kaldan (að vísu bara kók). Heldur var gangan til baka erfiðari, bæði upp í móti og menn ekki í sínu besta ástandi, svo við fórum bara í Eden og fengum okkur ís til að jafna okkur eftir afrekið. Síðan Nesjavallarhringurinn hei, og Jarlaskáldið afrekaði ekki meira þessa helgi. Jú, sá þetta. Það var gaman.

fimmtudagur, apríl 01, 2004 

Spurning

„Not that I condone fascism, or any -ism for that matter. -Ism's in my opinion are not good. A person should not believe in an -ism, he should believe in himself. I quote John Lennon, "I don't believe in The Beatles, I just believe in me." Good point there. After all, he was the walrus. I could be the walrus and I'd still have to bum rides off of people.“

Hver mælti svo?

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates