Hann á ammæli í dag...
Til hamingju með daginn!
Jarlaskáldið fékk sér saltkjöt í kvöld. Það var að vísu örbylgjuhitað, en engu að síður prýðilegt. Það er kannski ekki fréttnæmt að Skáldið hafi fengið sér saltkjöt í kvöld, er víst ekki sérlega óalgengt hér á klakanum á þessum ákveðna degi, en engu að síður nokkur nýbreytni, þar eð Skáldið er frekar nýlega byrjað að borða saltkjöt aftur eftir ansi mörg ár. Ekki man Skáldið af hverju það hætti að éta saltkjöt á sínum tíma, líklega hefur það verið á svipuðum tíma og því hætti að finnast blóðmör hreinasta sælgæti, eflaust hefur það haft eitthvað að gera með fituinnihald í bland við almennan gikkshátt. Jarlaskáldið var nefnilega alveg einstaklega matvant þegar það var yngra, þær voru eiginlega teljandi á fingrum annarrar handar matartegundirnar sem það kunni að meta þegar verst lét. Vart þarf að nefna að þær voru fæstar hollustumegin í mataræðinu.
Einhvern tímann þegar Skáldið fór svo að komast til vits og ára fór það hægt og sígandi að smakka hitt og þetta sem það hafði áður dæmt óhæft til manneldis og komst oftar en ekki að því að álit þess var ekki á góðum rökum reist. Bara svo eitthvað sé nefnt þá sneiddi Jarlaskáldið nær algerlega fram hjá grænmeti og ávöxtum en hefur tekið það mestallt í sátt, fyrir utan auðvitað tómata, sem eru alveg ótrúlega vondir miðað við hvað tómatsósa getur bætt margan mat. Verst er þó hvað þeir eitra út frá sér ef þeir eru t.d. settir í salat eða ofan á borgara. Enn í dag er Jarlaskáldið að uppgötva nýjan mat sem því hefði aldrei dottið í hug að væri góður. Bara sem dæmi má nefna að eitt mesta lostæti sem Jarlaskáldið veit um, grillaður humar, hefði það sennilega aldrei látið inn fyrir sínar varir fyrir svona fimm árum. Að vísu má geta þess að grillaður humar var ekki sérlega oft á boðstólum þegar Jarlaskáldið var að vaxa upp, einhverra hluta vegna...
Þrátt fyrir miklar framfarir er enn ýmislegt sem Jarlaskáldið getur engan veginn borðað. Fyrir utan tómatana má meðal annars nefna rjóma, ólífur og hnetur, en þó ósköp fátt sem getur talist furðulegt. Og þrátt fyrir að Jarlaskáldið geti þegar svo ber undir látið duga brauð með osti og skyrdós myndi það alltaf velja djúsí börger ef hvort tveggja væri í boði. Líka fyrir hádegi...
Þess má að lokum geta að fyrst þegar Jarlaskáldið byrjaði að fikta við brennivín fannst því bjór algerlega ódrekkandi. Batnandi mönnum er best að lifa!
Til hamingju með 'ann félagar!
Posted by Nafnlaus | miðvikudagur, mars 01, 2006 7:29:00 e.h.