« Home | Pistill » | Brullaup » | Gettu betur » | Ógn og skelfing » | Stórlega ýktar sögur » | Með drulluna upp á bak » | Vondu mennirnirÞað var aldeilis stuð í vinnunni í ... » | HeiðaAhh, hún Heidi. Fegurst meyja sunnan Alpafjal... » | Jarlaskáldið strengdi eitt áramótaheit.Að blogga e... » | Flón ársinsNú er úr vöndu að ráða. Og úr mörgum að... » 

föstudagur, janúar 27, 2006 

Bíó

Jarlaskáldið myndi ef til vill lofa því að það ætlaði að vera duglegra að blogga, en í því myndi sennilega felast skuldbinding sem Skáldið er ekkert visst um að það nenni að standa við. Jarlaskáldið er annars að lesa yfir ritgerð í læknisfræði þessa stundina, pro bono, um eitthvað sem kallast sarklíki og hljómar lítt eftirsóknarvert að ná sér í. Jarlaskáldið kann nefnilega ekki að segja nei, og á m.a.s. til að bjóða fram þjónustu sína að fyrra bragði, þótt ekki hafi raunin verið sú í þetta skiptið. Þá er nú sniðugara að lesa yfir fyrir samtök og stofnanir, eitthvað sem Jarlaskáldið hefur örlitla reynslu af, mun auðveldara að rukka þær og smyrja vel á reikninginn.

Svo á Jarlaskáldið til að lesa yfir fyrir fólk eða stofnanir sem borga greiðann á annan hátt en með beinhörðum peningum. T.d. hefur Jarlaskáldið nokkrum sinnum lesið yfir greinar fyrir ónefnd samtök tengd kvikmyndageiranum, og þiggur jafnan nokkra bíómiða fyrir, enda yfirleitt létt verk og löðurmannlegt, auk þess að þannig græða allir. Verra er að Jarlaskáldið er með eindæmum latt að sækja bíóhúsin, sem eflaust hefur eitthvað með það að gera að það vinnur yfirleitt fram á kvöld, þannig að nú á það eina átta bíómiða á sýningar að eigin vali í SAMbíóunum sem það hefur tvo mánuði til að nýta. Hér þarf því að halda vel á spöðunum ef miðarnir eiga ekki að falla á tíma, spýta í lófana og byrja að sækja kvikmyndahús. Semsagt, ef einhvern langar í ókeypis bíó á næstunni og vill auk þess njóta þar nærveru Jarlaskáldsins er bara að hafa samband. Þess ber að geta að einhleypt kvenfólk mun ganga fyrir ef eftirspurn verður meiri en framboð...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates