þriðjudagur, september 27, 2005 

Vetur konungur mætti snemma í ár



Eins og fyrr segir fór Jarlaskáldið í soldið jeppó um helgina. Það varð reyndar alveg hellings jeppó þegar upp var staðið, eknir rúmir 1100 kílómetrar, og stór hluti af því af snjó. Ekki amalegt það.

Það benti reyndar fátt til þess á föstudaginn að Jarlaskáldið væri á leið út úr bænum, uppi höfðu verið áætlanir um að fara norður á Agureyrish og kanna næturlífið þar en þær duttu upp fyrir af ýmsum sökum, og því sá Jarlaskáldið fram á náðuga helgi þegar það lauk vinnu upp úr hádeginu á föstudag (ansi þægilegur annar hver föstudagur þessa dagana í vinnunni). Það leit við uppi á sínum gamla vinnustað um þrjúleytið, svona til að heilsa upp á liðið og annað í þeim dúr, og ákvað svo fyrst að Ríkið var við hliðina á að kíkja inn og kippa með sér nokkrum af öl svona ef ske kynni að eitthvað rættist úr helginni. Hringdi þá sími þess, og var Halli Kristins með þér á Bylgjunni þar á ferð. Sagði hann farir sínar ekki alveg sléttar, hafði ráðgert að fara í sveran jeppatúr um Gæsavatnaleið og upp að Öskju og svo einhverja leið til baka, en hefði ekki auðnast að verða sér úti um kóara, sem eins og þeir sem til þekkja vita er nauðsynlegur í slíkum ferðum. Hafði hann leitað fanga hjá Andréssyni sem benti honum að hafa samband við Skáldið, og var það ástæða símtalsins, hvort Skáldið væri til í að vera kóari í jeppói. Skáldið mun hafa hugsað sig um í ca. 7 sekúndur, sagt svo "ja, því ekki það?", enda hafði Skáldið ekkert betra að gera og aldrei farið um þessar slóðir, og boðaði Halla í Kleifarselið rúmum klukkutíma síðar þar sem það var tilbúið til brottfarar á hárréttum tíma.
Þegar öllum farangri hafði verið haganlega fyrir komið í Troopernum lá leiðin upp að Rauðavatni þar sem samferðamennirnir bættust fljótlega í hópinn, og áttu þeir það sameiginlegt með okkur Halla að fá launin greidd hjá 365; annars vegar þau hjón Róbert Marshall og Brynhildur Ólafsdóttir ásamt tæplega tveggja ára dóttur á 35 tommu Trooper, og hins vegar Sigvaldi nokkur Kaldalóns, betur þekktur sem Svali á FM, yfirhnakki með meiru, ásamt Sessí frú sinni og tveimur grislingum á 38 tommu Krúser. Ágætishópur þetta, þótt maður segi sjálfur frá.
Leiðin lá svo í austur eins og lög gera ráð fyrir, ekki í fyrsta sinn sem sú leið er ekin í ár, en langt síðan maður hefur séð snjó á Hellisheiði. Það var ekki einu sinni stoppað á KFC á Selfossi, heldur bara brunað norður í Hrauneyjar þar sem fyllt var á bíla og við Halli fengum okkur feita hammara, og var lagt upp frá Hrauneyjum upp úr sex. Vissum við af hópi á vegum 4X4 sem lagt hafði af stað úr bænum níu um morguninn og ætlaði sömu leið, og vorum í reglulegu sambandi við hann, auk þess sem förin eftir hann áttu eftir að nýtast okkur sérlega vel síðar meir. Frá Hrauneyjum lá leiðin áfram í norður og á Sprengisandsleið, og ekki leið á löngu þar til bera tók á snjó á veginum og ráðist var í að mýkja í dekkjum, svona ca. niður í tólf pund. Eftir samtal við fróðan mann var svo ákveðið að fara Kvíslaveituleiðina og inn á Sprengisandsleið hjá Kistuöldu, sem ætti að hafa sparað okkur góðan tíma, því að sögn var 4X4-hópurinn í einhverju basli á kaflanum sem við sneiddum fyrir. Á Sprengisandsleið komum við svo inn á för þessa hóps sem við fylgdum norður í Nýjadal án þess að lenda í teljanlegu basli, a.m.k. var spottinn aldrei dreginn upp og ekki þurfti að mýkja frekar í dekkjum sem telst til tíðinda. Í Nýjadal komum við svo í kringum tíu, sem verður að teljast allgóður millitími.
Ekki var áð lengi þar, en þar urðu nokkur veðrabrigði, bæði tók að kyngja niður snjó og blása heldur meira, auk þess sem færið þyngdist til muna. Þá urðu förin sem við fylgdum illgreinanleg á köflum, þrátt fyrir að þau hafi verið eftir 15 bíla sem voru bara nokkrum klukkutímum á undan okkur þegar þarna var komið sögu. Eftir eilitla byrjunarörðugleika varð ljóst að mýkja þurfti enn frekar í dekkjum og eftir það gekk allt eins og í sögu, við Halli fórum fremstir og sáum sjaldnast nokkuð út enda þyrlaðist snjórinn allur upp á framrúðuna, en þá er líka bara að giska. Sóttist ferðin allvel, að vísu losnaði túrbínuhosa hjá okkur Halla sem tók einhverja stund að festa á sinn stað, en annars gekk allt eins og í sögu. Í Gæsavatnaskála vorum við komin rétt upp úr eitt um nóttina. Sæmilegur árangur það. Þar tóku við hefðbundnir liðir, börnum fyrst komið í koju en svo bauð Róbert upp á kjúlla sem hann sagðist hafa eldað sjálfur (að vísu var hann í Bónus-neytendapakkningum, en það á sér eflaust eðlilegar skýringar), var hann hinn ljúffengasti, og voru svo tæmdar örfáar ölkollur og rædd hin merkilegustu mál, einkum fjarskipta- og ferðamál, en einnig ýmislegt léttara hjal sem ekki skal tíundað hér. Í háttinn rötuðu síðustu menn á fjórða tímanum, Jarlaskáldið þar á meðal.

Jarlaskáldið reis úr rekkju sinni á tíunda tímanum morguninn eftir og var hið hressasta, enda vart hægt að segja að harkan við drykkjuna hafi verið mikil um nóttina. Við tóku hefðbundin morgunverk, þá kofinn þrifinn hátt og lágt (þótt Jarlaskáldið geti seint eignað sér heiður af því) og loks lagt í hann rétt upp úr 11. Þarna sá maður fyrst að það var allt á kafi í snjó, eitthvað sem maður hafði ekki alveg búist við í byrjun, enda sumarið enn í fersku minni. Ja, það sem maður annars man. Áætlun dagsins hljóðaði upp á að aka að Drekagili við Öskju og gista þar í Drekaskála inum nýja. Ekki löng vegalengd á korti, en miðað við færi og veður ekki beint skreppitúr. Lá leiðin fyrstu kílómetrana um mikla krákustíga gegnum hraun, urð og grjót, þar sem maður mátti hafa sig allan við að fylgja förum 4X4-manna og stikum sem sýndu slóðann, hvort tveggja lítt sýnilegt á löngum köflum. Gekk þetta þó merkilega vel og miðaði áfram þótt seint verði sagt að hratt hafi verið farið yfir. Sumar brekkurnar reyndust strembnari en aðrar, en enn var spottinn aftur í skotti og allt í góðum gír. Um eittleytið vorum við komin að Kistufellsskála þar sem við fengum okkur smáhressingu og Róbert sýndi fimi sína á snjóbretti. Jarlaskáldið stóðst ekki mátið og fékk einnig að renna sér, hvor sýndi glæsilegri takta skal ósagt látið, enda dónaskapur að gera grín að þeim sem minna geta.
Um tvöleytið var svo lagt í hann að nýju, og enn var hægt farið yfir, m.a.s. þurfti loks að grípa til spottans nokkrum sinnum. Eitthvað veltu menn því fyrir sér í ljósi þess að olíueyðslan hafði reynst öllu meiri en búist var við að snúa við á þessum tímapunkti, en sem betur fer var horfið frá því, því þegar við komum niður á Flæðurnar svokölluðu, sem er slétta ein sem er jafnan undir 20-30 sm djúpu vatni á sumrin, braust sólin fram, og færið varð hrein snilld. Fóru því næstu tímarnir í að krúsa á sléttunni á ca. 70 km hraða í bongóblíðu. Gekk því ferðin afar hratt næstu tímana, og minnist Jarlaskáldið ekki annars eins fjörs í snjóakstri, allt rennislétt og eina vandamálið að maður sá sjaldnast út fyrir púðri sem þyrlaðist upp. Um fimmleytið var ekki nema rúmur kílómetri í skálann, og voru dregnar upp öldósir við það tækifæri í veðurblíðunni, auk þess sem Skáldið bjallaði á Twistinn til að svekkja hann aðeins.
Síðasti kílómetrinn lá svo aftur um urð og grjót og reyndist heldur seinfarinn, en fyrr en varði vorum við komin að Drekaskála og hentum okkur þar inn. Þar voru fyrstu mál á dagskrá að koma olíukyndingu og gaseldavél í gagnið, hvort tveggja nokkuð flókið, gasmálin voru reyndar fljótlega leyst en kyndingin var einhver sú hægvirkasta sem um getur, þegar við komum á staðinn var ca. 4 stiga hiti inni í skálanum, og þegar við fórum í háttinn var hann kominn upp í ca. 10 stig. Lovely. Annars er ekki mikið sem gerðist kvöld þetta sem í sögur er færandi, Svali grillmeistari stóð vaktina og sá til þess að ketið var komið á borð um níuleytið og vart þarf að taka fram að það var ekkert nema snilld. Var síðan gerð tilraun til að hella sig fullan en gekk hörmulega, reyndust ferðafélagar þessir allir ónýtir til drykkju og fór síðasti maður í bælið stuttu eftir miðnætti. Það er varla að maður segi frá svona...

Það var sko engin miskunn morguninn eftir, Skáldið var rifið á lappir rétt upp úr átta og látið taka saman föggur sínar. Við tóku hefðbundin morgunverk, sem og að skrúbba skálann (Jarlaskáldið enn og aftur meira og minna saklaust af því), og loks um hálfellefu var farið að huga að því að leggja í hann. Þegar þarna var komið sögu var komin snjókoma og skafrenningur og snjóblindan mikil svo skyggnið var ekki upp á marga fiska. Þá voru förin eftir 4X4-hópinn sem hafði farið um þessar slóðir á undan lítt ef nokkuð greinileg. Lapptoppinn hans Halla með GPS-kortunum ákvað auðvitað að deyja drottni sínum við þetta tækifæri svo úr varð að hringja í bæinn og fá nokkra GPS-punkta á fyrirhugaðri leið, sem var F910 og svo F905 norður í Möðrudal. Upphaflega var ætlunin að fara allt aðra leið heim, en einkum í ljósi olíustöðu var ákveðið að fara þessa leið enda sú stysta til byggða.
Ekki fór það vel af stað. Við Halli leiddum og fyrsta klukkutímann komumst við heila 5 kílómetra. Þá voru bara 75 eftir í Möðrudal, og eftir smáhugarleikfimi reiknaði Skáldið út að það þyrfti frí í vinnunni daginn eftir. En rétt eins og daginn áður rættist allt í einu skyndilega úr veðrinu, og þegar hæð okkar yfir sjávarmáli smám saman lækkaði batnaði færið til allra muna svo það hélst hátt í 40 kílómetra meðalhraði það sem eftir lifði í Möðrudalinn, og gekk sú ferð í alla staði vandræðalaust fyrir sig eftir þessa byrjunarörðugleika. Í Möðrudal vorum við komin upp úr þrjú og fengum þar bæði olíu og létta hressingu og veitti ekki af. Þá voru bara eftir þessir 600 kílómetrar sem voru í bæinn. Hörkustuð það. Leiðin yfir til Agureyrish var tíðindalítil, flughált reyndar og sáum við ófáa bíla í vandræðum, en sosum vandræðalaust fyrir okkur. Á Agureyrish voru gaulirnar farnar að garna svo um munaði og var tekin sú ákvörðun að fara á Greifann, þrátt fyrir að Jarlaskáldið hefði sett hann í viðskiptabann síðasta vetur vegna slakrar þjónustu. Það má Greifinn eiga að þjónustan þetta skiptið var alveg prýðileg, Skáldið fékk sér vænan Kúrekaborgara sem var vel sterkur eins og lofað hafði verið, og fékk m.a.s. frostpinna eins og Halli fyrir að klára matinn sinn. Stóð það svo á blístri nokkra stund.
Um áttaleytið var svo lagt í hann heimleiðis, og varð sú ferð ekki alveg tíðindalaus. Í Vatnsskarðinu var alveg flughált, og mátti minnstu muna að stórslys yrði þegar Brynhildur fór aðeins að snúa sér á veginum og ákvað að því loknu að athuga aðeins færðina fyrir utan veg, en það slapp fyrir horn, smá skelkur í tá bara. Verra slys varð svo þegar geislaspilarinn hans Halla gaf upp öndina og neitaði að spila fyrir okkur. Það var kannski ekki svo slæmt, en hitt var þó verra að þegar Svali heyrði af þessu bauðst hann til að syngja fyrir okkur og gerði það þrátt fyrir þrábeiðnir okkar um að gera það ekki. Til allrar hamingju lagaðist spilarinn fljótt og tókst Erasure að bæta þann skaða að mestu sem orðinn var. Þá ber að minnast einkar skemmtilegrar sögu sem Svali sagði af ömmu sinni í talstöðina, en hún er einmitt tvíburi og voru þær systur aðskildar í æsku. Var það reyndar öll sagan. Holtavörðuheiðin leit svo ca. svona út, en fljótlega eftir að við komum niður í Borgarfjörð sást ekki lengur í snjó og tíðindalaust þaðan í frá. Heim var Skáldið komið um tvöleytið, eftir að hafa ekið vel á tólfta hundrað kílómetra. Sæmilegt það.

Það var ansi gott að þurfa ekki að vakna morguninn eftir. Verra er þó að Skáldið kom heim með fjóra bjóra. Það er til skammar, og verður ekki endurtekið.

mánudagur, september 26, 2005 

Létt svona jeppó



Það var svona nett jepperí um helgina. Eða kannski bara hellingur af jepperíi. Kannski maður nenni að skrifa ferðasögu, en þangað til getið þið öfundast yfir þessu.

Þetta var nebbnilega ekkert svo leiðinlegt...

miðvikudagur, september 21, 2005 

Glæsilegt nýtt met!




Sett var glæsilegt nýtt aðsóknarmet á þessari síðu í gær, 154 heimsóknir, sem verður að teljast bara nokkuð gott partí, og bæting um 25 frá fyrra meti.

Samt bara eitt komment...

þriðjudagur, september 20, 2005 

Sálin hans Jóns míns





Þetta var merkileg helgi. Jarlaskáldið fór á Sálarböll. Já, þið lásuð rétt, Skáldið lét sér ekki nægja að fara á eitt Sálarball um helgina, heldur fór það á tvö, bæði föstudags- og laugardagskvöld, og það sem meira er, þá voru bæði böllin á NASA, og Jarlaskáldið var í nákvæmlega sama félagsskap í bæði skiptin. Einhverjum kynni að þykja þetta heimskulegt. Þeir geta sjálfir verið heimskulegir. Í það minnsta var þetta hin ágætasta gleði, bæði kvöldin. Kannski ekki jafnmikil gleðin á sunnudeginum þegar Skáldið mætti í vinnuna heldur illa farið til heilsunnar, en það verður stundum að færa fórnir til að vinna stríð. Eða eitthvað.

Um næstu helgi stóð/stendur til að fara norður til Agureyrish. Ekki alveg útséð um það nebbnilega, veðurguðirnir virðast a.m.k. ekki líklegir til samstarfs þessa stundina, spá bara vetrarríki sem gæti komið í veg fyrir för. Kannski að maður hói í Sigga storm og biðji hann um að redda þessu. Við unnum nú einu sinni allt að því saman!

Það er víst eitthvurt æði sem gengur um bloggheima þessa dagana, þar sem fólk er "klukkað" og þess krafist að það upplýsi einhverjar 5 ómerkilegar staðreyndir um sjálft sig. Jarlaskáldinu þykir öll svona æði vitanlega bjánaleg, og myndi að öllu jöfnu ekki virða það viðlits ef einhver myndi "klukka" það, en það ku einmitt hafa gerst, og þar eð það var sjálf Hrönnslan sem það gjörði, og Jarlaskáldið skuldar henni eiginlega síðan hún kom því til bjargar í hungursneyð fyrir ríflega mánuði síðan, ætlar það að brjóta odd af oflæti sínu, og tína til 5 handahófskenndar staðreyndir um sjálft sig. Njótið:

1. Jarlaskáldið borðar sjaldan morgunmat. Því er reyndar meinilla við að vakna á morgnana, finnst mun heppilegra að gera það um hádegisbil, og eftir það er vart hægt að tala um morgunmat lengur. Þó kemur það fyrir að Jarlaskáldið vaknar á morgnana, og jafnvel fær sér morgunmat, gjarnan skyrdós. Morgunkorn fær það sér sárasjaldan, a.m.k. í seinni tíð, en gerist það fær það sér yfirleitt kornflögur. Það hefur þann háttinn á að setja kornflögurnar í skál, en hella mjólkinni í glas. Þetta þykir mörgum furðulegt, en á sér hinar eðlilegustu skýringar. Jarlaskáldinu þykir nefnilega "soggy" kornflögur viðurstyggð, og þróaði því ungt að árum þessa aðferð til að koma í veg fyrir að þær yrðu þannig. Hefur það beitt henni æ síðan. Enn hefur það ekki hitt nokkurn mann sem beitir sömu aðferð, en ýmsir hafa lofað hugvitssemina. Fleiri eru þó sem þykir þetta furðulegasta hegðun.

2. Margt þykir Jarlaskáldinu leiðinlegt að gera, en fátt þó jafnleiðinlegt og sálardrepandi og að versla sér fatnað. Það gerir það bara helst ekki. Það að fara inn í mátunarklefa og máta flíkur er Skáldinu hrein og klár pína. Til allrar hamingju á Jarlaskáldið skilningsríka móður, sem veit af ímugust sonarins á fatakaupum, og verslar oft á það föt, þegar henni ofbýður fábreytnin í fataskáp þess, eða rekst á góða útsölu. Hún er einnig ágætlega smekkvís, svo Jarlaskáldið samþykkir yfirleitt þær flíkur sem það fær. Jarlaskáldinu er alveg sama hvar flíkin er keypt, og hirðir enn minna um hvaða "merki" hún tilheyrir. Slíkt er einungis fyrir heimskar pjattrófur.
Tvær undantekningar eru á þessari verslanafóbíu Jarlaskáldsins: íþróttaskór og útivistarfatnaður. Af því leiðir að Jarlaskáldið á eitthvað á annan tug íþróttaskópara, útivistarfatnað sem fyllir heilu fataskápana, en einungis einar gallabuxur, og enga spariskó.

3. Jarlaskáldið hefur skapað kenningu, sem það hefur ekki enn sannað, en sýnist öll rök hníga í þá átt að kenningin standist. Kenningin er í tveimur liðum, og er svohljóðandi:

1. Ef þér finnst Jay Leno skemmtilegri en David Letterman, ertu bjáni og Jarlaskáldinu illa við þig.

2. Ef þér finnst David Letterman skemmtilegri en Jay Leno, ertu hin ágætasta persóna og Jarlaskáldið kann vel að meta félagsskap þinn.

Jarlaskáldið er með þriðja lið kenningarinnar í smíðum, sem snýr að Conan O'Brien, en þar eð hann er lítt sýndur og þekktur á Íslandi bíður hann birtingar. Fjórði liðurinn, sem snúa myndi að Jon Stewart, er svo í burðarliðnum.

4. Margt finnst Jarlaskáldinu heimskulegt. Hér er listi yfir hluti sem því finnst heimskulegir, sem er þó fjarri því tæmandi:

Sólarlandaferðir, sportbílar á Íslandi, brúnkukrem, framsóknarmenn, ungir framsóknarmenn, Heimdallur, mannanafnanefnd, öryggisráð, VIP-raðir, FM 957, Hverjir voru hvar, jarðgöng til Eyja, Sturla Böðvarsson, jóga, grænmetisstaðir, kristni, bensínverð, Dagný Jónsdóttir, allt sem endar á group, hnetur, íslam, Svíar, gæludýr (reyndar gæti verið gaman að eiga Svía sem gæludýr), haust, framsóknarmenn (eiga skilið að vera nefndir tvisvar), yfirvaraskegg, Gísli Marteinn, fólk sem kýs Gísla Martein, tískulöggur, Haraldur Johannessen, bjórverð á börum, George Bush, George W. Bush (og vinir þeirra allir), Sirkusblaðið, raunveruleikaþættir, Tom Cruise, tómatar, og svo alveg hellingur í viðbót...

5. Jarlaskáldið hefur að eigin mati nokkuð breiðan og góðan tónlistarsmekk. Eftirtaldir listamenn og hljómsveitir eru í nokkrum metum hjá Jarlaskáldinu, í stafrófsröð:

200.000 naglbítar, Air, Badly Drawn Boy, Beastie Boys, Beck, Belle & Sebastian, Björgvin Halldórsson, Bloc Party, Blur, Bob Marley, Bogomil Font, Botnleðja, Bubbi Morthens, Coldplay, Damien Rice, David Bowie, Depeche Mode, Dr. Gunni, Duran Duran, Ensími, Franz Ferdinand, Foo Fighters, Green Day, Ham, Iggy Pop, Interpol, Jeff Buckley, Johnny Cash, KK, Madness, Maus, Megas, Metallica, Mínus, Moby, Mugison, Nick Cave, Nirvana, Ný dönsk, Olympia, Pearl Jam, Presidents of the United States of America, Pulp, Queen, Queens of the Stone Age, R.E.M., Radiohead, Red Hot Chili Peppers, Sálin hans Jóns míns, Scissor Sisters, Sigur Rós, Simon & Garfunkel, Sniglabandið, Snow Patrol, Spilverk þjóðanna, Sting, Stuðmenn, Suede, Supergrass, Súkkat, Sven Ingvars, The Clash, The Dandy Warhols, The Flaming Lips, The Pixies, The Shins, The Smashing Pumpkins, The Smiths, The Stills, The Stone Roses, The Streets, The Strokes, The Verve, The White Stripes, Trabant, Travis, U2, Unun, Violent Femmes, Weezer og síðast en ekki síst Þursaflokkurinn.

Athuga skal að listinn er ekki tæmandi, ekkert frekar en fyrri daginn. Bjórdósir eru aftur á móti tæmandi, og í raun bara kurteisi að tæma þær.

fimmtudagur, september 15, 2005 

Vafasamur heiður




Jarlaskáldið hafði víst lofað ferðasögu af síðustu helgi. Og það stóð til, en svo kom í ljós að Stefán Twist hafði stolið glæpnum og skrifað ferðasögu annars staðar á Veraldarvefnum. Við frásögn þá er litlu að bæta, a.m.k. engu sem á heima á siðvöndum heimasíðum. Sem þessi síða þykist stundum vera.

Hver þremillinn er annars að gerast hér? Hver stendur fyrir þessu? Og af hverju er ekki stærri mynd af Skáldinu á forsíðunni? Svör óskast!

Ef einhverjir lesenda hafa þaullesið DV í dag hafa þeir e.t.v. hnotið um að þar er í litlum dálki vitnað í nokkur orð sem Jarlaskáldið ritaði fyrir skemmstu um sauðkindina. Jarlaskáldið vill að það komi fram að það á enga sök á að þessi orð rötuðu á síður þessa ágæta dægurrits (sem Jarlaskáldið að vísu vinnur fyrir!), raunar mótmælti það birtingunni harðlega en enginn má við margnum, bæði Mikael, Eiríkur Jóns og Jónas Kristjáns settust ofan á Skáldið og héldu því föstu á meðan blaðið var sent í prentun svo ekki var við ráðið. Jarlaskáldið íhugar málsókn.

Annars bara nokkuð hress.

mánudagur, september 12, 2005 

Harðsperrur frá helvíti




Jarlaskáldið dró í dilka um helgina, og staðfesti með því það álit sitt að leitun væri að heimskari skepnu en sauðkindinni. En assgoti bragðast hún samt vel! Nánari ferðasaga væntanleg, en hér má sjá myndir.

fimmtudagur, september 08, 2005 

Rollur




Eitt og annað hefur verið um að ske síðan síðast. Tæpum á því helsta.

Jarlaskáldið fór á konsert á föstudaginn fyrir viku. Franz Ferdinand lék. Þar sem Jarlaskáldið er komið af léttasta skeiði kom það sér fyrir í stúku rétt vinstra megin við sviðið og horfði þaðan og hlustaði á tónleikana. Jarlaskáldið er ekki frá því að vera sammála einhverjum gagnrýnandanum í einhverju blaðinu sem sagði þetta bestu tónleika ársins. Reyndar hafa allir tónleikar sem Skáldið hefur sótt á árinu verið schnilld frá a til z. Svona er maður sniðugur. Að tónleikum loknum leit Skáldið við í nýjum vistarverum Vífils, og bauð hann upp á veitingar. Að því loknu heim í rekkju. Ekkert djammirí þetta kveldið.

Á laugardaginn rölti Jarlaskáldið upp á enn einn hólinn. Sá engar geitur, en a.m.k. til Eyja. Ekki er það verra. Um kvöldið mætti það svo í teiti. Þar var vinur sjómannanna óspart heimsóttur, sem og margir frændur hans. Skáldið fór snemma heim.

Síðan þá hefur sosum ekki mikið gerst, Skáldið hefur hafið störf hjá endaþarmi íslenskrar blaðamennsku (að margra mati), og er alveg að venjast því að mæta í vinnuna klukkan tvö á daginn. Reyndar ekki alveg að gera sig að vinna alltaf til tíu á kvöldin, en svona er það allavega núna.

Í kvöld var annað íþróttamót hjá enn ónefnda íþróttafélaginu. Keppt var í pílukasti, og bar Jarlaskáldið sigur úr býtum. Sannfærandi. Þótt það væri ekki bara við stelpur að keppa. Stórkostlegt.

Um helgina ætlar Jarlaskáldið að elta rollur á suðausturhelmingi landsins. Og kannski eitthvað fleira, Skáldinu skilst að svona réttir snúist ekki eingöngu um að koma fé af fjalli. Kemur í ljós.

laugardagur, september 03, 2005 

Franz




Sjitturinn titturinn hvað þetta voru góðir tónleikar! Nýja platan lofar góðu. Bjánar sem ekki voru þarna. Farinn að sofa.

föstudagur, september 02, 2005 

Jarlaskáldið - þorir þegar aðrir þegja




Fyrst og fremst, vinnumálin eru nokkurn veginn komin í ljós. Jarlaskáldið has gone over to the dark side. Það er byrjað að vinna á DV.

Já, DV.

Í kvöld tók Jarlaskáldið þátt í íþróttamóti, hjá enn ónefndu íþróttafélagi sem það gerðist nýlega félagi í, sem sérhæfir sig í íþróttum sem hægt er að drekka bjór með. Í kvöld var keppt í keilu, og þrátt fyrir hetjulega baráttu tókst Skáldinu ekki að sigra, heldur lenti í öðru sæti. "Second comes right after first!" eins og segir í einhverjum heimsbókmenntanna. Stefnt er á að halda vikuleg íþróttamót, eina skilyrðið er að hægt sé að drekka bjór á meðan, t.d. er stefnan tekin á pílukast að viku liðinni. Lesendum er velkomið að koma með tillögur að íþróttum.

Á morgun er það Franz, og það verður stuð. Á laugardaginn fer Skáldið í teiti. Þaðan mun það eigi koma allsgáð út, sé eitthvað að marka sagnfræðina. Sjáum til.

fimmtudagur, september 01, 2005 

Sumarið var tíminn




Þá er sumarið búið, og skammdegi haustsins hafið. Ó já, ekkert nema svartnætti fram undan. Dauði og djöfull. Eða hvað?

Hugum fyrst að því er liðið er. Um síðustu helgi brá Jarlaskáldið sér ásamt valinkunnum sveina og meyjaflokki í Mörkina góðu. Þar var eitt og annað bardúsað, og hefur hinn ágæti sagnaritari Stefán Twist ritað um það ágætan pistil sem Skáldið hefur engu við að bæta, a.m.k. engu sem á heima á prenti. Allavega, þið sem misstuð af þessu, ja, þið misstuð af þessu!

Atvinnumál Jarlaskáldsins eru svo ekki sé meira sagt óráðin. Það veit hvar það á að mæta til vinnu í fyrramálið, en ekki mikið meira. Jú, líkast til mætir það á sama stað á föstudaginn, en svo virðist enginn vita neitt. Það bendir þó allt til þess að fjölmiðlasamsteypan mikla muni riða til falls án liðsinnis Jarlaskáldsins svo allar líkur eru á að eftir helgi muni Jarlaskáldið verða komið með nýja og ábyrgðarmikla stöðu á forstjóralaunum einhvers staðar. Ja, eða a.m.k. nýtt skrifborð. Þið verðið látin vita.

Helgin? Franz Ferdinand á föstudaginn, svo mikið er víst, hálft ár síðan maður keypti miðann. Líkast til heldur Skáldið sig í heimasveit, þrátt fyrir að dæmin sanni að það muni enda með ósköpum. Vonum það besta.

Loforð: Ef Gísli Marteinn verður borgarstjóri, mun Jarlaskáldið lemja hvern þann sem segir að það sé líkt honum. Líka þótt hann verði ekki borgarstjóri.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates