« Home | Vafasamur heiðurJarlaskáldið hafði víst lofað ferð... » | Harðsperrur frá helvítiJarlaskáldið dró í dilka um... » | Rollur Eitt og annað hefur verið um að ske síðan s... » | FranzSjitturinn titturinn hvað þetta voru góðir tó... » | Jarlaskáldið - þorir þegar aðrir þegjaFyrst og fre... » | Sumarið var tíminnÞá er sumarið búið, og skammdegi... » | Mörkin rokkarÞað var Mörkin um helgina. Djamm og d... » | Mörkin Það er Mörkin um helgina. Mætið eða verið f... » | Fuck Yeah!Þetta var menningarleg helgi. Jarlaskáld... » | Fjalla-EyvindurLitla dýrið hresst á flugvellinum í... » 

þriðjudagur, september 20, 2005 

Sálin hans Jóns míns





Þetta var merkileg helgi. Jarlaskáldið fór á Sálarböll. Já, þið lásuð rétt, Skáldið lét sér ekki nægja að fara á eitt Sálarball um helgina, heldur fór það á tvö, bæði föstudags- og laugardagskvöld, og það sem meira er, þá voru bæði böllin á NASA, og Jarlaskáldið var í nákvæmlega sama félagsskap í bæði skiptin. Einhverjum kynni að þykja þetta heimskulegt. Þeir geta sjálfir verið heimskulegir. Í það minnsta var þetta hin ágætasta gleði, bæði kvöldin. Kannski ekki jafnmikil gleðin á sunnudeginum þegar Skáldið mætti í vinnuna heldur illa farið til heilsunnar, en það verður stundum að færa fórnir til að vinna stríð. Eða eitthvað.

Um næstu helgi stóð/stendur til að fara norður til Agureyrish. Ekki alveg útséð um það nebbnilega, veðurguðirnir virðast a.m.k. ekki líklegir til samstarfs þessa stundina, spá bara vetrarríki sem gæti komið í veg fyrir för. Kannski að maður hói í Sigga storm og biðji hann um að redda þessu. Við unnum nú einu sinni allt að því saman!

Það er víst eitthvurt æði sem gengur um bloggheima þessa dagana, þar sem fólk er "klukkað" og þess krafist að það upplýsi einhverjar 5 ómerkilegar staðreyndir um sjálft sig. Jarlaskáldinu þykir öll svona æði vitanlega bjánaleg, og myndi að öllu jöfnu ekki virða það viðlits ef einhver myndi "klukka" það, en það ku einmitt hafa gerst, og þar eð það var sjálf Hrönnslan sem það gjörði, og Jarlaskáldið skuldar henni eiginlega síðan hún kom því til bjargar í hungursneyð fyrir ríflega mánuði síðan, ætlar það að brjóta odd af oflæti sínu, og tína til 5 handahófskenndar staðreyndir um sjálft sig. Njótið:

1. Jarlaskáldið borðar sjaldan morgunmat. Því er reyndar meinilla við að vakna á morgnana, finnst mun heppilegra að gera það um hádegisbil, og eftir það er vart hægt að tala um morgunmat lengur. Þó kemur það fyrir að Jarlaskáldið vaknar á morgnana, og jafnvel fær sér morgunmat, gjarnan skyrdós. Morgunkorn fær það sér sárasjaldan, a.m.k. í seinni tíð, en gerist það fær það sér yfirleitt kornflögur. Það hefur þann háttinn á að setja kornflögurnar í skál, en hella mjólkinni í glas. Þetta þykir mörgum furðulegt, en á sér hinar eðlilegustu skýringar. Jarlaskáldinu þykir nefnilega "soggy" kornflögur viðurstyggð, og þróaði því ungt að árum þessa aðferð til að koma í veg fyrir að þær yrðu þannig. Hefur það beitt henni æ síðan. Enn hefur það ekki hitt nokkurn mann sem beitir sömu aðferð, en ýmsir hafa lofað hugvitssemina. Fleiri eru þó sem þykir þetta furðulegasta hegðun.

2. Margt þykir Jarlaskáldinu leiðinlegt að gera, en fátt þó jafnleiðinlegt og sálardrepandi og að versla sér fatnað. Það gerir það bara helst ekki. Það að fara inn í mátunarklefa og máta flíkur er Skáldinu hrein og klár pína. Til allrar hamingju á Jarlaskáldið skilningsríka móður, sem veit af ímugust sonarins á fatakaupum, og verslar oft á það föt, þegar henni ofbýður fábreytnin í fataskáp þess, eða rekst á góða útsölu. Hún er einnig ágætlega smekkvís, svo Jarlaskáldið samþykkir yfirleitt þær flíkur sem það fær. Jarlaskáldinu er alveg sama hvar flíkin er keypt, og hirðir enn minna um hvaða "merki" hún tilheyrir. Slíkt er einungis fyrir heimskar pjattrófur.
Tvær undantekningar eru á þessari verslanafóbíu Jarlaskáldsins: íþróttaskór og útivistarfatnaður. Af því leiðir að Jarlaskáldið á eitthvað á annan tug íþróttaskópara, útivistarfatnað sem fyllir heilu fataskápana, en einungis einar gallabuxur, og enga spariskó.

3. Jarlaskáldið hefur skapað kenningu, sem það hefur ekki enn sannað, en sýnist öll rök hníga í þá átt að kenningin standist. Kenningin er í tveimur liðum, og er svohljóðandi:

1. Ef þér finnst Jay Leno skemmtilegri en David Letterman, ertu bjáni og Jarlaskáldinu illa við þig.

2. Ef þér finnst David Letterman skemmtilegri en Jay Leno, ertu hin ágætasta persóna og Jarlaskáldið kann vel að meta félagsskap þinn.

Jarlaskáldið er með þriðja lið kenningarinnar í smíðum, sem snýr að Conan O'Brien, en þar eð hann er lítt sýndur og þekktur á Íslandi bíður hann birtingar. Fjórði liðurinn, sem snúa myndi að Jon Stewart, er svo í burðarliðnum.

4. Margt finnst Jarlaskáldinu heimskulegt. Hér er listi yfir hluti sem því finnst heimskulegir, sem er þó fjarri því tæmandi:

Sólarlandaferðir, sportbílar á Íslandi, brúnkukrem, framsóknarmenn, ungir framsóknarmenn, Heimdallur, mannanafnanefnd, öryggisráð, VIP-raðir, FM 957, Hverjir voru hvar, jarðgöng til Eyja, Sturla Böðvarsson, jóga, grænmetisstaðir, kristni, bensínverð, Dagný Jónsdóttir, allt sem endar á group, hnetur, íslam, Svíar, gæludýr (reyndar gæti verið gaman að eiga Svía sem gæludýr), haust, framsóknarmenn (eiga skilið að vera nefndir tvisvar), yfirvaraskegg, Gísli Marteinn, fólk sem kýs Gísla Martein, tískulöggur, Haraldur Johannessen, bjórverð á börum, George Bush, George W. Bush (og vinir þeirra allir), Sirkusblaðið, raunveruleikaþættir, Tom Cruise, tómatar, og svo alveg hellingur í viðbót...

5. Jarlaskáldið hefur að eigin mati nokkuð breiðan og góðan tónlistarsmekk. Eftirtaldir listamenn og hljómsveitir eru í nokkrum metum hjá Jarlaskáldinu, í stafrófsröð:

200.000 naglbítar, Air, Badly Drawn Boy, Beastie Boys, Beck, Belle & Sebastian, Björgvin Halldórsson, Bloc Party, Blur, Bob Marley, Bogomil Font, Botnleðja, Bubbi Morthens, Coldplay, Damien Rice, David Bowie, Depeche Mode, Dr. Gunni, Duran Duran, Ensími, Franz Ferdinand, Foo Fighters, Green Day, Ham, Iggy Pop, Interpol, Jeff Buckley, Johnny Cash, KK, Madness, Maus, Megas, Metallica, Mínus, Moby, Mugison, Nick Cave, Nirvana, Ný dönsk, Olympia, Pearl Jam, Presidents of the United States of America, Pulp, Queen, Queens of the Stone Age, R.E.M., Radiohead, Red Hot Chili Peppers, Sálin hans Jóns míns, Scissor Sisters, Sigur Rós, Simon & Garfunkel, Sniglabandið, Snow Patrol, Spilverk þjóðanna, Sting, Stuðmenn, Suede, Supergrass, Súkkat, Sven Ingvars, The Clash, The Dandy Warhols, The Flaming Lips, The Pixies, The Shins, The Smashing Pumpkins, The Smiths, The Stills, The Stone Roses, The Streets, The Strokes, The Verve, The White Stripes, Trabant, Travis, U2, Unun, Violent Femmes, Weezer og síðast en ekki síst Þursaflokkurinn.

Athuga skal að listinn er ekki tæmandi, ekkert frekar en fyrri daginn. Bjórdósir eru aftur á móti tæmandi, og í raun bara kurteisi að tæma þær.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates