mánudagur, ágúst 29, 2005 

Mörkin rokkar




Það var Mörkin um helgina. Djamm og djöfulgangur. Og hér eru myndir.

Eru ekki annars allir hressir bara?

föstudagur, ágúst 26, 2005 

Mörkin




Það er Mörkin um helgina. Mætið eða verið ferhyrningar. Heitt á könnunni alla helgina.

mánudagur, ágúst 22, 2005 

Fuck Yeah!




Þetta var menningarleg helgi. Jarlaskáldið var í það minnsta afar menningarlegt. Eða ekki.

Jarlaskáldið sumsé mætti í innflutningsteiti hjá Vigni á Menningarnótt, og gaf honum vöfflujárn. Þar voru teknar myndir. Síðar fór það í bæinn, talaði við Rússa, dansaði við Sálina, kíkti á keltneska menningu, át bát, og fékk síðan far heim undir morgun. Takk Sigrún!

Alltaf gaman að mæta í vinnuna daginn eftir. Ekki satt, Alda?

Mörkin næstu helgi. Þarf fyrst að laga Lilla, bæði er hann bremsulaus og ljósin í skralli, en dugir meðan druslan gengur. Enn er laust sæti í Lilla fyrir Mörkina, stelpur!

föstudagur, ágúst 19, 2005 

Fjalla-Eyvindur




Litla dýrið hresst á flugvellinum í Eyjum


Jarlaskáldið hélt áfram fjallabrölti sínu í kvöld, eftir nokkurt hlé. Skálafell á Hellisheiði varð fyrir valinu að þessu sinni, og með í för voru þeir Stefán og Andrésson. Sjálft fjallið var skítlétt, en töluvert labb að því. Allavega, four down, three to go.
Á leiðinni niður hringdi Adolf svo í Skáldið og boðaði það á skemmtistaðinn Players í Kópavogshreppi, hvar við tæmdum nokkrar ölkollur í ágætum hópi, sveittir og ógeðslegir, en fórum svo á Select og átum pulsur. Ágætis kveld, þótt gleymst hafi að taka upp Scrubs. Og hér eru myndir.

Búið er að bæta við nokkrum myndum í safnið frá Eyjum sem Stefán Twist tók, og eru þær aðallega frá fimmtudeginum. Njótið. Eins hafa bæst við myndir frá Þakgili, frá fyrrnefndum Twist. Njótið þess einnig.


(Ó)menningarnótt um helgina, og Skáldið því í bænum. Innflutningspartí hjá VJ, flugeldasýning í bænum, og svo Sálin á NASA. Eða þannig er planið allavega. Sjáum hvað verður...

þriðjudagur, ágúst 16, 2005 

Einhvurs konar vísir að ferðasögu




Jarlaskáldið skellti sér til Eyja einhverja helgi fyrir skömmu. Frá því er saga að segja. Óskandi væri að einhver myndi meira en brotabrot af því sem þar fór fram, en þar sem engum öðrum en Jarlaskáldinu er til að dreifa, verða lesendur að láta það sem á eftir fer sér nægja. Setja skal mikinn fyrirvara varðandi flest það sem þar er nefnt. Jú, þetta gerðist allt, en ekkert endilega í þessari röð, og ekkert endilega að öll sagan sé sögð. Látum vaða:

Við skulum setja byrjun á ævintýri þessu öllu miðvikudagskveldið 27. júlí. Hófst þá nefnilega upphitun undanfara, þeirra Jarlaskáldsins og Stefáns Twist, og fór hún fram á veitingahúsinu Kaffibrennslunni. Hlutverk bílstjóra í upphitun þessari gegndi Adolf, og skilaði því hlutverki með sóma. Skellti hvor undanfara í sig þremur ölkollum eða svo, þ. á m. ítalska eðalbjórnum Nastro Azzuro, og rifjuðust þá upp góðar minningar. Heim var svo haldið upp úr miðnætti og reynt að sofna, sem þó gekk illa sakir hnúts í maga vegna spennings. Jamm, jólin koma einu sinni á ári, og hið sama á við um margt annað.

Jarlaskáldið reis úr rekkju snemma næsta dag, henti síðustu nauðsynjavörum ofan í bakpoka, og beið svo skamma stund uns áðurnefndur Stefán Twist mætti á svæðið á Willy og lá leiðin þaðan upp í Logafold, með viðkomu í kjörbúð og flatbökustað. Flatbökunni var svo sporðrennt í flýti, en því næst skellt viðeigandi músík í græjurnar, dreginn upp einn kaldur og sest við tölvuna að blogga.
Upp úr eitt mætti svo móðir Jarlaskáldsins á svæðið og skutlaði gríslingunum niður á flugvöll Reykjavíkurborgar, enda pjakkarnir ekki lengur til þess hæfir þegar þar var komið sögu. Eftir stutta bið var farangur tékkaður inn, og svo beðið eftir að hefja sig á loft með rellunni. Á því varð vitanlega rúmlega klukkutíma bið, en það var glaumur og gleði og gítar á staðnum þannig að það væsti ekkert um okkur undanfarana. Svo lengi sem við kæmumst í Ríkið í Eyjum fyrir sex vorum við sáttir. Um hálffjögur fengum við svo loks að stíga um borð í Dornierinn, og ca. hálftíma síðar lentum við á eyjunni fögru eftir skemmtilegt flug. Skárra en Dallurinn, og er þar mælt af reynslu. Í Eyjum tók stórvinkona okkar hún Dísa á móti okkur á sínum fjallabíl og ók okkur rakleiðis í Mjólkurbúðina þar sem hvor um sig eyddi vel á þriðja tug þúsunda í nauðsynjavörur, sem fylltu síðan skottið á fjallabílnum. Úr mjólkurbúðinni lá svo leiðin heim til Dísu í létt spjall við heimamenn þar, en síðan upp á Bröttugötu til Jóa listó og fjölskyldu, sem samanstendur af hreinræktuðum snillingum. Þar var tekið á móti okkur með kostum og kynjum, og eftir gott spjall yfir kaffibolla tjölduðum við úti í garði, sem tókst þó ekki betur en svo að Skáldið braut tjaldsúlu strax þá, en smá nauðgarateip reddaði því auðveldlega. Tókum við svo til við undirbúning fyrir kveldið. Það var nokkuð fljótgert, og vel birgir héldum við af stað í vettvangskönnunarferð, líkt og er hlutverk undanfara í Eyjaferðum. Gerðum við okkur ferð í dalinn, svona til að fá aðeins fílinginn í æð, og hittum þar sjálfan umhverfisráðherra Eyja með nýgotinn krakkann sinn. Bauð hann okkur matseðil. Lá leiðin síðan á fornar slóðir, eða svona allt að því, til Kidda í Áshamarinn, en þó ekki í rauðu blokkina heldur næstu blokk við hliðina. Gamla blokkin var nú óneitanlega meira í stíl við hausinn á Kidda, en hvað um það, strákurinn tók okkur fagnandi og eyddum við þar næstu stundum í góðu yfirlæti, enda hálfur bærinn í gistingu, skelltum smá skilaboðum á bloggið, fengum okkur líkast til að éta, drukkum lifandis ósköp af bjór, og fyrr en varði fór leikurinn síðan að berast um næstu íbúðir. Allt í góðum fíling.
Einhverjum ókjörum af öli eftir að okkur bar að garði í Áshamrinum þótti tilhlýðilegt að leita niður á láglendið, nánar tiltekið á Lundann, með stuttri viðkomu fyrir utan Húkkaraballið, en þangað inn fer að sjálfsögðu enginn með snefil af sjálfsvirðingu. Á Lundanum var svo, tja, alveg örugglega helvíti skemmilegt, og líkast til höfum við einhvern veginn komist heim síðla nætur eða jafnvel snemma morguns, um það eru fáir til frásagnar. Allavega...

...þá vaknaði Jarlaskáldið í tjaldi sínu daginn eftir, og var við bærilegustu heilsu. Hið sama átti við um hinn undanfarann, allir sprækir enn þá. Dúlluðum við okkur eitthvað meðan líf færðist í kroppinn, litum m.a. við hjá Kidda sem heilsaði ekki hinn hressasti, blogguðum þar aðeins, en birgðum okkur svo upp öðru sinni til þess að fara í dalinn og verða viðstaddir setningu hátíðarinnar í blíðskaparveðri. Því næst var okkur boðið í kökur í hvítu tjaldi líkt og fyrra ár, og kökurnar sennilega enn betri í ár. Var svo komið að stóru stundinni, og hún brást sko ekki, Brúðubíllinn var hreint út sagt stórkostlegur í ár, Lilli og Gústi api báðir á staðnum, sem og amma, og regnbogi meistarans m.a.s. Betra gerist það ekki! Þvílík hamingja!
Það var viðbúið að það yrði dálítið spennufall eftir Brúðubílinn, sem og gerðist, en þá var kominn tími á að skunda upp á flugvöll og taka á móti eftirlegukindum þeim sem hugkvæmdist ekki að mæta á réttum tíma, á fimmtudegi. Voru það þeir sundfélagar Vignir og Svenni annars vegar, en þær systur Alda og Hildur hins vegar. Var þeim komið niður á Bröttugötu með einhverjum ráðum, í það minnsta var Skáldið fengið til að leiðbeina systrunum á réttan stað, þar sem tvö tjöld bættust við þegar allir voru mættir. Voru hinir nýju liðsmenn kynntir fyrir Jóa og co., en því næst fylltir allir bakpokar af glundri, og skundað í Áshamarinn, hvar Kiddi bauð til veislu. Og fín var sú veisla, fullt út úr dyrum, fólki hent út fyrir óspektir, en síðan hleypt aftur inn, Jarlaskáldið fór á kostum sem DJ (að vísu bara með einn geisladisk, en góður var hann!) og gleðin var slík að engum hugkvæmdist að fara niður í Dal og sjá Leoncie gaula. Líklega var það fyrir bestu.
Einhvurn tímann um kvöldið þótti þó kominn tími á Dalinn, enda ómögulegt að missa af brennunni, hvar við höfðum jú mælt okkur mót við sæmdarskötuhjúin Haffa og Eddu. Við hittum þau vissulega, sem og fullt af öðru fólki, og þegar brennan hófst vorum við að sjálfsögðu mættir á réttan stað og kenndum Haffa helstu Müllersæfingar. Good times. Það er til lítils að ætla að greina í smáatriðum frá því er við tók, það var margt og misbroslegt, þetta gefur ágætishugmynd um það, merkilegast fannst þó Jarlaskáldinu að þegar það var komið í dansfíling hinn mesta og komið alveg upp að sviði slæmdi einhver bjálfinn hendi í andlit þess svo gleraugun hurfu af nefinu og út í myrkrið. Fjárinn, hugsaði Skáldið, og þóttist hafa tapað þar allmiklu, en þegar það beygði sig niður lágu gleraugun þar, algerlega heil. Lukkan maður. Svo bara djamm og hvít tjöld og allur andskotinn sem átti eftir að koma betur í ljós morguninn eftir.

Jarlaskáldið vaknaði um hádegisbil á laugardeginum, og var sér til furðu þá statt í tjaldinu sínu. Ekki minntist það þess að hafa ratað þangað! Heilsan var enn furðugóð, og eftir stutta stund dreif Skáldið sig á lappir og leit inn til Jóa, og sinnti þar allra helstu morgunverkum. Um svipað leyti komst það að því taskan utan af myndavélinni var horfin, og með henni þau hundruð mynda sem teknar höfðu verið dagana á undan, en sem betur fer var myndavélin enn í töskunni, svo skaðinn var aðallega tilfinningalegur. Hvað varð um töskuna veit ekki nokkur maður.
Jarlaskáldið fór skömmu síðar og kannaði ástandið á þeim félögum Vigni og Svenna. Þeir höfðu einnig skilað sér heim um nóttina, Vignir án hrakfalla, en Svenni hafði eytt nóttinni að mestu í dauðagámnum, en síðan tekið leigubíl heim. Verst var að hann vissi ekki hvar hann bjó, svo hann rúntaði um eyjuna góðu að leita þar til honum hugkvæmdist að banka upp á hjá Dísu og spyrja til vegar. Heim komst Svenni, og leigarinn kostaði litlar 7.200 kr. íslenskar. Sæmilegt það. Fékk Svenni af þessum sökum sæmdarheitið "Fulli kallinn" fyrir föstudagskveldið.
Þeir félagar hresstust fljótlega eftir að þeir fengu sér "Breakfast of Champions", sem samanstendur af Malibu og Bailey's. Svínvirkar eins og Skáldið komst síðar að. Næst á dagskrá var að heimsækja Hlölla á Ísjakanum, þar sem 4 pepperonibátar voru keyptir, en síðan tekinn bekkjabíll niður í bæ, en þar var okkur boðið í heimsókn hjá Hrönnslunni og vinkonustóði hennar. Þar var okkur enn og aftur tekið með kostum og kynjum, og ekki var það síðst Eyjadiskurinn góði sem féll þar í góðan jarðveg. Oseiseijú.
Eitthvað var svo brallað fram eftir degi, og víða komið við, (lesist: Jarlaskáldið hefur ekki hugmynd um hvað gerðist svo), en um kvöldið drógum við Vignir okkur úr hópnum, og litum við í einhverju svakapartíi lengst úti í sveit, en í það partí þurfti boðsmiða sem frænkan hafði látið Vigni hafa með þeim tilmælum að við tveir nytum þeirra. Þetta partí varð afdrifaríkt. Í fyrsta lagi var grill í boði. Gott mál. Í öðru lagi var allt það brennivín sem maður gat í sig látið, og gerði maður það ekki, þá sáu aðrir til þess að það færi ofan í mann. Ópal- og Tópasstaup eru góð en deadly. Árni Johnsen leit við, sem og einhverjir úr Trabant, og spjölluðum við við þá alla um misgáfuleg málefni. Einhverju síðar ultum við Vignir svo út, og enduðum seinna niðri í Dal (eflaust með ófáum viðkomustöðum). Þegar þarna var komið sögu var komin hellirigning, en það tilheyrir nú hvort eð er í Eyjum. Í minningunni var alveg hrikalega gaman þetta kvöld. Hjá Vigni varð stoppið að vísu heldur stutt, hann var vart þessa heims sakir ölvunar og var leiddur heimleiðis snemma, þar sem hann þurfti hjálp til að komast úr fötunum. "Fulli kall" laugardagsins krýndur við sama tækifæri. Jarlaskáldið minnist ágætrar flugeldasýningar, gersamlega frábærra Trabantónleika (silllllld!!), viðkomu í ófáum hvítum tjöldum, gamals kalls að reyna við það í einu slíku (honum var fleygt öfugum út), og þess að mamma hennar Dísu var einkar gestrisin þegar veigar Skáldsins voru uppurnar. Höfðingi heim að sækja. Hvernig og hvenær Jarlaskáldið fór heim er sem fyrr leyndardómur.

Sunnudagsmorgunn. Og stemmningin allsendis ólík því sem er í samnefndu lagi Jóns "góða". Jarlaskáldið varð fljótlega vart við það að það var ekki einsamalt í tjaldi sínu, og fór að spá í hvurn fjárann það hefði dregið með sér úr Dalnum, en sá fljótt að þarna var bara Adolf niðurkominn, hafði líkast til flúið úr sínu tjaldi sakir þess að gestkvæmt var hjá litla dýrinu. Ojæja, sosum nóg pláss hjá Skáldinu. Ekki veitti reyndar af þar sem litla dýrið leit skömmu síðar í heimsókn, sem og þeir Vignir og Svenni, og var þá orðið heldur þrengra á þingi. Þeir komu þó með "Breakfast of Champions" með sér, sem sló nokkuð á vanheilsu Skáldsins. Skáldið glápti eitthvað á formúluna líka part dagsins, fékk sér böku á Bjössabar og kíkti í sund, en röðin á þessu er ekki alveg á hreinu. Lunganum af deginum var hins vegar eytt heima hjá Hrönnslunni, meira og minna í eldhúsinu að syngja íslenskar dægurperlur, við góðar undirtektir. Sögðust margir viðstaddra aldrei hafa heyrt svo fagran söng. Eru þeir grunaðir um ölvun.
Hafi atburðir kvöldanna á undan verið á reiki kastar fyrst tólfunum þetta ágæta sunnudagskvöld. Það var gaman, svo mikið er víst. Það var brekkusöngur, og blys, og rakettur, og Johnsen lamdi Hreim, fastir liðir. Einhverjir gerðu skandala, hinir gerðu stórskandala. Venju samkvæmt endaði fjörið um morguninn fyrir framan litla sviðið í feitu flippi. Jarlaskáldið fór þar á kostum líkt og er von þess og vísa, uns það hélt heimleiðis með bekkjabíl, sem það merkilegt nokk man eftir. Svo er eins og Skáldið minni að það hafi elt það einhver köttur alla leið heim, en kannski er það bara vitleysa.

Mánudagur. Heilsa ekki góð. Veður kolbrjálað, rok og rigning. Þá er best að snúa sér bara á hina hliðina. Sem Skáldið og gerði.
En að lokum neyddist Skáldið til að djöflast á fætur upp úr hádegi. Það hopppaði fyrst í pollagalla, stökk svo út, tók tjaldið niður á hálfri mínútu og tróð því rennblautu ofan í poka. Það hélst þó þurrt að innan alla helgina, sem er meira en sagt verður um tjald systranna, sem var þegar þarna var komið sögu fullkomlega ónýtt. Sem betur fer náðu þær báðar að redda sér "gistingu" annars staðar þessa nótt. Vignir og Svenni fóru aftur á móti heim með rellu um morguninn, og eru hér með úr sögu þessari.
Alda birtist í Bröttugötuna um svipað leyti og við Stefán slógum niður tjöldum, en til litla dýrsins, sem átti flug hálftvö, hafði ekkert spurst. Jarlaskáldið byrjaði á að kíkja inn til Jóa og slátra einni tveggja lítra flösku af Sprite, ekki veitti af. Því næst var hirt það áfengi sem enn var ódrukkið, sem var ekki svo lítið. Um svipað leyti bárust fregnir af litla dýrinu, það var komið upp á flugvöll en hafði misst af fluginu sínu, sem skipti það sosum litlu máli þar eð það var enn rallandi fullt. Um þrjúleytið fengum við Dísuna til að skutla okkur þremenningum upp á flugvöll, áttum við bræður flug klukkan fimm en Adolf klukkan sjö, auk þess að þurfa að redda litla dýrinu heim. Flugvöllurinn var auðvitað fullur af fólki, enda allt flug farið úr skorðum vegna veðurs. Litla dýrið var á staðnum og drapst stuttu eftir komu okkur, sem hlýtur að vera hressandi á mánudegi. Og svo biðum við. Og biðum. Og biðum. Djöfull biðum við. Til að gera langa sögu stutta komumst við Stefán í flug upp úr tíu, Adolf eftir miðnætti og litla dýrið ekki fyrr en daginn eftir. Svo tóku við nokkrir dagar af þynnku, og post-Eyja-þunglyndi.

En ætli maður fari ekki að ári?

 

Reykjavíkurpakk




Jarlaskáldið hélt sig í heimasveit þessa helgina, og var það í fyrsta skipti síðan Júróvisjón í maí að Skáldið gerir slíkt. Hart var lagt að því að mæta á danska daga í Stykkishólmi, en Jarlaskáldið hefur ímugust á Danmörku, Dönum og öllu því sem danskt er og ákvað því að taka sér frí frá djammi og djúsi eins helgi. Eða það var a.m.k. planið.

Og það tókst að halda það á föstudaginn í það minnsta, að vísu stoppaði síminn ekki um kvöldið, allir vildu draga Jarlaskáldið út á lífið, það bregst ekki þá sjaldan Skáldið ákveður að hanga heima.
Jarlaskáldið var sumsé bara með hressasta móti á laugardaginn, spilaði slatta af Manager og gerði í stuttu máli eins lítið og það komst upp með. Sem var ágætis tilbreyting. Um kvöldið dró svo til tíðinda, Jarlaskáldinu var boðið í ammili hjá stúlku sem það þekkti sama og ekki neitt, en þar sem ammilið var í göngufæri ákvað Skáldið að líta við og sjá hvað þar væri um að vera. Og hvað var um að vera þar? Jú, fullt af fólki sem virtist hafa það að markmiði að hella hinu og þessu ofan í Jarlaskáldið, sem hafði auðvitað fyrirsjáanlegar afleiðingar. Skáldið fór ásamt einhverjum ósköpum af kvenfólki í bæinn, endaði á Celtic Cross ef það man rétt, og hélt þar áfram vitleysunni, sem endaði vitaskuld með því að Jarlaskáldið hvarf á Nonnann síðla nætur og komst svo með einhverju móti heim til sín. Já, blessað bæjardjammið!

Sunnudeginum ætlaði Jarlaskáldið úr því sem komið var að eyða í þynnku, en aumingjabloggarinn eyðilagði það plan, hringdi aumingjalegur í Skáldið og kvaðst veikur, svo Skáldið þurfti að leysa hann af í vinnunni. Ekki skemmtilegasta vakt allra tíma, en manni veitir kannski ekki af aurunum...

...ekki síst í ljósi þess að eftir tvær vikur lítur út fyrir að Jarlaskáldið muni hætta störfum sínum hjá 365 ljósvakamiðlum eftir 14 mánaða starf, sem hefur verið merkilega farsælt. Hvað við tekur er ekki alveg ljóst, en Jarlaskáldið er hæfilega bjartsýnt á að þeir ágætu menn sem stýra batteríinu sjái að ekki sé hægt að sleppa höndum af öðru eins hæfileikafólki og Jarlaskáldinu, og bjóði því einhverja gríðarmerkilega stöðu annars staðar innan samsteypunnar. Og ef ekki, þá er það alltaf mjólkin!

PS. Jarlaskáldið er búið að skrifa ferðasögu um Eyjar 2005, en veit ekki hvort það eigi að birta hana. Hvað finnst lesendum, er það þorandi?

fimmtudagur, ágúst 11, 2005 

Boðflennur á biðilsbuxum




Hvað er um að ske hér? Nei, andskotinn, enga helvítis dönsku á þessari síðu! Það eru staðfest dæmi um fólk sem hefur dáið úr dönsku. Hvað er um að vera hér?

Það er nú e.t.v. ekki svo mikið. Um síðustu helgi fór Jarlaskáldið í ferðalag. Það byrjaði vel en endaði heldur súrt. Um það hefur verið rituð saga, sem lesa má hér. Við hana er litlu að bæta.
Síðan þá, tja, Jarlaskáldið fékk sem kunnugt er Hrönnsluna til að elda ofan í sig á þriðjudaginn, ekki amalegt það. Í gær skellti Skáldið sér síðan bara út að éta, eða svona allt að því, bauð fröken einni á Ruby Tuesday og át fínustu samloku. Allt með bbq-sósu virkar. Frökenin borgaði að vísu fyrir sig, sennilega femínisti.

Í gær skellti Skáldið sér einnig í bíó, á Boðflennur á biðilsbuxum. Skorar Jarlaskáldið á alla að gera slíkt hið sama, enginn svikinn af því. We lost a lot of good men out there!

Kannski þarf Jarlaskáldið að fara að finna sér vinnu. Kannski ekki. Það á eftir að koma í ljós. Yndislegt svona óvissuástand!

Stutt er í helgina, og Jarlaskáldið hefur ekki hugmynd um hvað skal gera. Danskir dagar? Upp á fjöll? Djamm í bæ? Glápa á sjónvarp? Strauja sokka? Nei, líklega ekki strauja sokka, allt hitt kemur til greina. Hvað finnst ykkur?

miðvikudagur, ágúst 10, 2005 

Hot date

Jarlaskáldið er djúpt snortið yfir þeim viðbrögðum sem lesendur hafa sýnt fyrirhuguðum Eyja-Þakgils-ferðasögupistli þess. Heilir þrír aðilar hafa sýnt því áhuga. Yndislegt. Það verður s.s. bið á pistlinum þar til whatever...

Annars er eina ástæða þess að Jarlaskáldið er hingað mætt að það vill tilnefna Hrönn Eiríksdóttur (gjarnan kölluð Hrönnslan) sem snilling vikunnar. Jarlaskáldið var einu sinni sem oftar statt á messanum fyrir skömmu og lenti þar á spjalli við áðurnefnda Hrönn. Sagði það farir sínar ekki sléttar, af ýmsum sökum hafði Jarlaskáldið ekki fengið almennilegan mat að éta um nærri tveggja vikna skeið, heldur mestmegnis lifað á ruslfæði hvurs konar, og orðið heldur leitt á því. Hrönnnslan sá aumur á Skáldinu, og í kvöld bauð hún því í mikla veislumáltíð upp í Kópavog sem flest kóngafólk hefði verið fullsæmt af. Kann Jarlaskáldið stúlkunni miklar þakkir fyrir, og beinir þeim orðum til kvenþjóðarinnar að fylgja þessu góða fordæmi, líkast til eru fleiri þarna úti sem jafn illa er ástatt um og Jarlaskáldið, komið þeim til bjargar!

mánudagur, ágúst 08, 2005 

Sumarfríið búið, djö!

Jæja börnin góð, Jarlaskáldið er aftur mætt í bloggheima. Eins og sjá má hefur síðan breyst eilítið, gamla lúkkið fór til fjandans einhvern tímann fyrir Þjóðhátíð, og í stað þess að reyna að lappa upp á það notaði Jarlaskáldið tækifærið til að finna sér bara nýtt lúkk, þar sem minimalisminn er í fyrirrúmi. Er það ekki hipp og kúl?

Annars nennir Jarlaskáldið ekki að skrifa meira núna, það á enn 8 tíma eftir af sumarfríi, og á meðan nennir það engu. Það verður kannski birt ferðasaga frá síðustu helgi og jafnvel Eyjum á næstunni, ef þið biðjið fallega.

Jæja, eftir hverju eruð þið að bíða, biðjið Jarlaskáldið fallega!

sunnudagur, ágúst 07, 2005 

Nýtt lúkk, sami vitleysingur


Eyjar 2005!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates