« Home | Miðvikublogg ið fertugasta Nöjts, bara fertugasta... » | I´m Back Baby! Jarlaskáldið hefur verið með aumin... » | Ojá Laughter is the best medicine. Unless you're ... » | Aumingjablogg Þetta er nú orðið ljóta helvítis au... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogníunda Í dag er miðvi... » | Baldinn jökull Hún varð heldur söguleg þessi Lang... » | Baldjökull Jamm, eftir ekki svo marga klukkutíma ... » | Ekkert eins og það á að vera Það er orðið þó nokk... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogáttunda Hvað skyldi n... » | Allt í fönk Sjúddirarírei og Simbi sjóari, helgar... » 

sunnudagur, mars 28, 2004 

Litla hryllingsbúðin

Kæru lesendur, Jarlaskáldið hefur ljóta sögu að segja.

Saga vor hefst á mánudaginn síðasta. Kom þá Jarlaskáldið við hjá tannlækni sínum eftir að hafa orðið vart talsverðrar tannpínu þá um helgina. Ekki vissi tannsi alveg hvað var að eftir að hafa rannaskað málin, því ekkert virtist vera að tönninni slæmu, ákvað síðan að laga aðeins bitið og sjá til hvort hlutirnir myndu ekki lagast við það. Tók m.a.s. ekkert fyrir það. Fór Skáldið svo heim og var líðan þess snöggtum skárri eftir þessa aðgerð. En ekki var Adam lengi í paradís, því þegar leið á vikuna fór að kræla á vandræðum á nýjan leik, Skáldinu farið að líða eins og það hefði verið kýlt á kjammann og leit því aftur við hjá tannsa eftir vinnu á fimmtudaginn. Ætlaði það bara að panta hjá honum tíma en þess í stað var það dregið í stólinn eftir að hafa lýst sjúkdómseinkennum sínum. Taldi tannsi að um tannrótarbólgu væri að ræða og ef svo væri þyldi það enga bið. Bjóst Skáldið við því að tannsi myndi hefja leikinn á að rífa upp nálina og deyfa það hressilega líkt og venjulega, en ónei, það stóð ekki til, þess í stað reif hann upp borinn, sem við fyrstu sýn virtist hafa verið fenginn að láni frá Kárahnjúkum, og hófst handa við gangagerð inn í tönnina slæmu. Ekki tók betra við, því þegar gangagerðinni var lokið reif hann upp eitthvað ógurlegt apparat og byrjaði að troða því inn í nýgerð göngin og nudda þar og sarga með tilheyrandi þægindum. Afar gaman. Að sögn tannsa fór hann 25 millimetra inn í tönnina, sem verður að teljast ágætt, ekki það að Jarlaskáldið hafi samanburð. Aukinheldur mun tannsi hafa mokað út einhverjum helling af hvers kyns drullu og viðbjóði úr tannrótinni (umm...) og kíttaði svo í gatið. Ekki var öllu þar með lokið, bæði þarf Skáldið að koma aftur innan tíðar og endurtaka þessa meðferð (þvílík tilhlökkun!) og þar að auki þarf það að bryðja pensilín eins og smartís þessa dagana til að reka smiðshöggið á verkið. Good times.

Samkvæmt einhverri bábilju er algjört tabú að detta í það meðan maður étur pensilín. Sennilega er það algjört bull. Hvað sem því líður þá hugði Jarlaskáldið ekki á nein afrek á lendum skemmtanalífsins á föstudagskvöldið, kom sér bara fyrir við imbann og ráðgerði ekki að hreyfa sig þaðan. Ekki var dagskráin upp á marga fiska svo Skáldið tók því fegins hendi þegar Stefán hafði samband og bar upp þá hugmynd að líta við á kaffihúsi. Auk hans var Magnús frá Þverbrekku með í för eftir nokkra dekstrun og einnig leit Snorri pervert við á Ara í Ögri, en þar fór samkoman fram. Siðsamlega og prúðmannlega fór gleðin fram, ekki síst hjá Jarlaskáldinu sem gegndi hlutverki "designated driver" sakir heilsufarsástands síns. Pervertinn lét sig snemma hverfa enda maður eigi einn á báti þessa dagana, en við hinir létum alldrukkinn Andrésson plata okkur til að kíkja á árshátíð Flubbanna um miðnættið. Þegar okkur bar að garði var ölvunarástand bæði almennt og mikið á staðnum, Andrésson heilsaði okkur með miklum fúkyrðaflaumi enda vart þessa heims þegar þarna var komið sögu, frú Andrésson var aftur á móti öllu rólegri og heilsaði okkur blíðlegar, átti hún reyndar fullt í fangi með að hafa stjórn á sínum betri helming. Líkt og venjulega þegar Skáldið fer edrú á djammið (þá sjaldan) hafði það vart undan að afþakka bjór frá viðstöddum, hlustaði á þónokkuð drykkjuröfl og lét sig síðan hverfa eftir stutta dvöl því hefði það stoppað öllu lengur hefði það án vafa látið undan gylliboðum og dottið í það líkt og þeir fóstbræður Magnús og Stefán sem áttu víst ágæta nótt í bænum. Skáldið svaf svefni hinna réttlátu á meðan.

Um laugardaginn er fátt að segja. Skáldið mætti til vinnu um morguninn, fór á Ruby Tuesday í hádeginu á kostnað fyrirtækisins, lagði sig síðan eftir vinnu og fram að kvöldmat. Um kvöldið brá það sér ásamt Stefáni til Vignis til að hjálpa honum við barnapössun, fórum við þrír svo á Devitos um tvöleytið til að fá okkur böku og síðan heim. Enginn fullur, allra síst Jarlaskáldið, aðra helgina í röð. Nú þarf Skáldið að leggjast í sagnfræðirannsóknir til að komast að þvíi hvenær það gerðist síðast. Sennilega nokkuð langt síðan.

Deginum í dag eyddi Jarlaskáldið fyrst og fremst í kærkomna hvíld, fór loks á stjá um þrjúleytið og kom við á KFC, engin ástæða til að sleppa því á sunnudegi þó engin sé þynnkan, en fór síðan aðeins út að leika með Lilla í snjónum. Það var gaman.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates