I´m Back Baby!
Jarlaskáldið hefur verið með aumingjalegasta móti hvað blogg varðar undanfarna viku og rúmlega það. Rúmlega á vel við því í stað bloggs hefur Jarlaskáldið einkum stundað rúmlegu. Þetta var mikil speki. Er forsaga málsins sú að Jarlaskáldið brá sér út fyrir bæjarmörkin síðustu helgi og gekk það ævintýri svo nærri andlegum og líkamlegum þrótti þess að það bar vart sitt barr alla síðustu viku, rétt meikaði vinnudaginn og lá svo mestmegnis í einhverju móki fyrir framan sjónvarpið þá sjaldan það var ekki sofandi. Hefur því blogg að mestu legið niðri, við mismikla kátínu hundtryggs lesendahóps Skáldsins.
Hafði Skáldið víst lofað því að rita fáein orð um ævintýri þessarar fyrrnefndu helgar. Nú þegar það hefir loks öðlast heilsu til þess nennir það því engan veginn, einkum og sér í lagi sakir þess að það er því fullkomnlega ómögulegt að rita „fáein“ orð um nokkurn skapaðan hlut, það teygist allt og tognar út í ógurlegar langlokur sem fæstir nenna að lesa og enn færri hafa gaman af. En til þess er leikurinn ekki gerður. T.d. er það skoðun allra viti borinna manna að sjónvarpsþátturinn „Maður er nefndur“ er eitthvað það leiðinlegasta sjónvarpsefni sem á borð er borið, og þetta viðurkenna framleiðendur hans m.a.s. Heimildagildi hans er hins vegar ótvírætt, og hið sama má segja um þessa annars lítilfjörlegu bloggsíðu. Á hana er ekki ritað til að skemmta lesendum, því fer fjarri, heldur er það von og vissa Jarlaskáldins að þegar fram í sækir muni hún verða ómetanleg heimild um hugarfar einhleypra íslenskra karlmanna á þrítugsaldri sem búa hjá mömmu sinni í upphafi nýs árþúsunds.
Af þessum sökum kemst Skáldið ekki hjá því að rita enn eina langlokuna um þessa för, því ef því væri sleppt væri það álíka gat í samfellu sögunnar og bruninn í Kaupinhafn gerði í íslenska sagnaritun hér í denn. So without further ado, vessgú:
Júbb, einu sinni sem oftar sá Jarlaskáldið ástæðu til að yfirgefa borgarsollinn um stund og heimsækja krummaskuð það norður í landi sem nefnt er Agureyrish. Eins og fyrr segir var för þessi farin undir yfirskini skíðaferðar, þó
vefmyndavélar hafi ekki beint bent til þess að slíkt yrði uppi á teningnum þegar lagt var í hann á áttunda tímanum fimmtudagskvöldið 11. mars. Engu að síður voru plankarnir dregnir með í von um að finna einhvers staðar brekku með smá snjó. Voru það átta hræður sem lögðu í hann í þessu fyrsta holli, þau skötuhjú Andrésson og frú á Lúxa sínum, snillingurinn Viffi ásamt Öldu á öðrum Lúxa, og svo þeir Stefán Twist, pervertinn, Toggi og Skáldið á kóreskum eðalvagni hins fyrstnefnda, jafnan nefndur
Papasan. Hafði Jarlaskáldið útbúið hinn merka partídisk „Agureyrish 2004“ dagana á undan og fékk hann að rúlla á leiðinni norður, og ósjaldan eftir það enda snilld að flestra mati. Aftursætisbílstjórarnir Pervertinn og Skáldið stigu fram með góðu fordæmi og þjóruðu duglega allt þar til komið var að Staðarskála, hvar gerð var kærkomin klósett- og matarpása. Fékk Skáldið sér aspassúpu, sem var prýðileg. Var svo ekið áfram og stefnan tekin meira austur á bóginn, bar fátt til tíðinda á leiðinda þó ófá snjallyrðin hafi vissulega fokið við ýmis tækifæri. Var fyrsti bíll, Papasan, kominn til Agureyrish skömmu eftir miðnætti, barst þá sú fregn að einhver bið yrði eftir hinum, snillingurinn Viffi var vitaskuld olíuaus uppi á Öxnadalsheiði (eitt laganna á disknum „Agureyris 2004“ bar einmitt sama titil, í fögrum flutningi SH-Draums) og þurfti Andrésson að taka út spottann og draga kappann í bæinn. Varð því nokkur bið eftir þeim enda Lúxar að jafnaði ekki að springa úr vélarafli, hvað þá er þeir deila því. Notuðum við á Papasan tækifærið og fórum bílasölurúnt á meðan beðið var, svo birtist liðið og lyklar að íbúðunum tveimur í Furulandi sóttir, eftir það sest niður og reynt að hefja hefðbundin aðalfundarstörf. Gengu þau nokkuð treglega, a.m.k. bar lítið á skrílslátum þetta fimmtudagskvöld, þó vissulega hafi verið kvartað undan okkur. Eins og venjulega.
Jarlaskáldið fór líkt og aðrir tiltölulega snemma á lappir á föstudeginum. Einhverjir brugðu sér í að redda bakkelsi og var síðan ekið í
mjólkurbúðinatil að bæta aðeins birgðastöðuna fyrir aðalfundarstörf kvöldsins. Næsta mál á dagskrá var að finna snjó og eftir nokkra spekúlasjón var ákveðið að rúnta norður á
Dalvík og kanna málin þar. Þar var snjór, þó í litlu magni væri, og þrátt fyrir að svæðið liti ekki burðugt út var ákveðið að gefa því séns og prófa. Ekki sér Jarlaskáldið ástæðu til að endurtaka það, a.m.k. við álíka aðstæður, var færið blautt og þungt og mótvindur niður brekkuna svo lítið fútt var úr þessu að hafa. Fór svo að lokum að Skáldið fór vart nema 4-5 ferðir, fékk sér svo að éta og gott ef það fann ekki eitthvað sem það hafði keypt um morguninn og gerði því skil, líkt og sumir aðrir reyndar. Eftir þennan fremur óspennandi skíðadag var hverfisbúllan fundin, sem hét að sjálfsögðu Dal-las, norðlenski húmorinn alveg að drepa menn, fengust þar skítsæmilegar Goða-pylsur og auk þess átti Skáldið samskipti við Staðarhnakkann, sem var einkar áhugavert.
Eftir þessa stórmerkilegu menningarheimsókn til Dalvíkur var aftur rúntað til Agureyrish, sundföt sótt og sundlaugin heimsótt. Skáldið fór tvær ferðir í rennibrautinni og tók einn cannonball, Pervertinn fékk tiltal frá laugarverði vegna dólgsláta, sem kom fáum á óvart enda hefur hann verið þekktur fyrir vafasama hegðun í sundlaugum. Segi ekki meira. Eftir böðun lá leiðin á þann ágæta pizzastað Jón Sprett, sem var með alveg prýðilegar pizzur, hófust svo aðalfundarstörf fyrir alvöru. Um svipað leyti tók að fjölga í kotinu, sálfræðingarnir
Magnús frá Þverbrekku og Haukur mættu og þar að auki
Eyfi ásamt leynigesti, honum
Týróla-Andra. Ekki minnkuðu aðalfundarstörfin við það, svo mikið er víst. Eitthvað bættist svo af liði, þó enginn hafi átt viðlíka innkomu og
Styrmir, sem klifraði upp á svalirnar, bað að heilsa fólki, fékk bjór og hvarf med det samme. Góð innkoma. Eftir væna setu í Furulundinum lá leiðin í bæinn, á Kaffi Agureyrish nánar tiltekið, þar sem Jarlaskáldið afrekaði m.a. að fara inn án þess borga, klætt inniskóm. Myndir segja nú yfirleitt meira en mörg orð, látum þær duga (
1,
2,
3,
4).
Það var heldur seinna risið á lappir á laugardeginum, allavega hvað Jarlaskáldið varðar. Að vísu fóru einhverjir fimm af stað um morguninn til að labba upp eitthvað
fjall, slík heimska sem það er, en Skáldið vaknaði nú ekki fyrr en um hádegi, í sófanum líkt og venjulega. Ákváðum við Stebbalingur og Toggi að fara í humátt á eftir fjallgöngugörpunum, þó ekki fyrr en eftir að hafa komið öðru sinni við í mjólkurbúðinni. Lá leiðin m.a. í gegnum krummaskuðið
Grenivík, stuttu síðar var komist að þeirri niðurstöðu að það væri hin mesta heimska að arka upp þetta fjall svo við fórum bara aftur til Grenivíkur og fengum okkur pulsu og franskar hjá Jónsa í Jónsabúð. Þar virtust vélsleðar vera algengari samgöngutæki en bílar, nokkuð merkilegt. Héldum við svo aftur til baka til stærsta krummaskuðs landsins og rúntuðum upp í
Hlíðarfjall til að tékka á stemmningunni, hún var lítil enda Strýtan enn lokuð. Varð því heldur lítið úr skíðamennsku þennan daginn. Þess í stað héldum við bara í Furulundinn í netta afslöppun.
Þegar fjallagarpar mættu svo aftur á svæðið lá leiðin í sund, og var þar heldur fjölmennt en ekkert sérstaklega góðmennt, a.m.k. hefði alveg mátt vera meira af augnayndinu. Eftir sundið lá leiðin í Brynjuís, sem Norðlendingar allir ku víst montnir mjög af, ekki þótti Skáldinu ísinnn merkilegur en keypti þess í stað kaffi, sykur og sítrónur. Áhugamenn um rússneska menningu vita hvers vegna. Samkvæmt venju var síðan pantað borð á
Greifanum seinna um kvöldið fyrir liðið, og tíminn þangað til notaður til að ýmist punta sig eða hella í sig eða jafnvel hvort tveggja. Greifinn var síðan pakkfullur þegar á staðinn var komið svo við gátum ekki einu sinni öll setið á sama borðinu. Slappt. Þá leið góður klukktími frá því að við pöntuðum matinn og þangað til við fengum hann, slappt. Svo gátu þau ekki einu sinni haft allar pantanir réttar, slappt. Verst var þó að komið var fram við Jarlaskáldið eins og hvern annan, engin
sérmeðferð eins og í fyrra. Þeir skilja sem muna. Svo má ekki gleyma samkynhneigðasta þjóni Íslands. Hefði hann verið argari hefði þurft sírenu á hausinn á kappanum.
Eftir matinn var haldið aftur í Furulundinn og tekið til við aðalfundarstörfin (big surpirse!), Jarlaskáldið stóð ásamt Stefáni fyrir rússneskri menningarkynningu og man lítið meira eftir það. Samkvæmt bestu heimildum hélt það í bæinn með
Júdóslörið og gerði góða hluti, treystum því bara.
Jarlaskáldið var ekki við sína allrabestu heilsu sunnudagsmorguninn 14. mars. Engu að síður var það vakið með látum og skipað að taka sitt dót til. Hvílík mannvonska. Einhver hafði fengið þá brilliant hugmynd að rúnta til
Siglufjarðar og fara á skíði þar, og var Skáldinu sá einn kostur boðinn að fylgja með í för. Alda og Viffi fóru reyndar heim, og Andrésson-hjónin á Sauðárkrók, en aðrir héldu til Sigló og var það mikil krummaskuðaför, auk þess sem ekið var gegnum tvenn göng, misvelhönnuð. Skáldið svaf þetta reyndar mest af sér. Sigló heilsaði liðinu með blíðskaparveðri, og þessu líka fína
skíðasvæði. Þarna er sennilega að finna einhverja bestu brekku á Íslandi, og hefði Skáldið haft orku til að standa í lappirnar hefði það örugglega skemmt sér konunglega. Þess í stað staulaðist það upp lyftur og niður brekkur á viljanum einum uns það gafst loksins upp og beið eftir liðinu niðri með pulsu í annarri og kók í hinni. Hresstist það nokkuð við það og enn frekar við kjúllann sem það fékk á bensínstöð bæjarins nokkru síðar, en þar má e.t.v. finna hægustu afgreiðslu á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað. Lá svo leiðin heim, það var langt, leiðinlegt, og að mestu í einhverju móki. Komið heim um tíu, hefur Skáldið síðan eytt tímanum í að jafna sig. Gettin' old.
Þess má að lokum geta að Jarlaskáldið sér ekki mikla ástæðu til þess að tjá sig í löngu máli um það að MR tapaði í GB, það hvílir ekki sérstaklega þungt á sálu þess þó flestir telji að það hljóti að vera í öngum sínum yfir þessu. Það vill bara koma því á framfæri að stóri bróðir er vart mönnum sinnandi af vonsku þessa dagana yfir því að hafa misst titil sinn „síðasti maður til að tapa í MR-liðinu“ eftir tólf ára farsælan feril. Er það skiljanlegt.