mánudagur, apríl 28, 2003 

Bara tveir dagar enn

Jarlaskáldinu varð ekki mikið úr verki síðustu helgi, sé miðað við aldur og fyrri störf. Aðgerðaleysið var þó ekki algert, lítum á málið:

Föstudagurinn fór fyrir ofan garð og neðan, Jarlaskáldið barðist við að halda sér vakandi í vinnunni á milli þess sem það varðist háðsglósum um fagurrautt litarraft þess, afleiðing sumardagsins fyrsta sem fyrr er getið. Kvöldið fólst í áframhaldandi leti, sá Skáldið m.a. þá ágætu mynd Orgazmo, hún var bara merkilega óleiðinleg. Ekki entist Skáldið lengi fyrir framan imbann, fór snemma í háttinn.

Laugardagurinn var að venju varið í ómennsku og leti, ætlaði að setja sumardekkin undir en asnaðist til að kveikja á Championship Manager. Fyrr en varði var kominn kvöldmatur, og Liverpool orðnir meistarar. Kvöldið fór svo rólega af stað, eftir nokkra ígrundun ákvað Skáldið að líta við í Heiðarásnum og sötra þar bjór yfir Djúpu lauginni í félagsskap húsbóndans Vignis og Stefáns frá Logafoldum. Einnig leit þar við Sigurgeir Hreggviðsson, en hann lét veigarnar alveg vera. Einhverra hluta vegna endaði þetta í einhverju karpi um pólitík, það er nú meiri vitleysan að stunda það þegar maður er að reyna að skemmta sér. Það fór samt enginn í fýlu, enda reasonable menn á ferð.
Jarlaskáldið vissi af teiti einni niðri í bæ á vegum Dengsa, og úr varð að Sigurgeir myndi skutla okkur hinum þangað. Þá kom smá babb í bátinn, eða öllu heldur bílinn, því hann var algerlega rafmagnslaus og þrátt fyrir að hafa ýtt honum um þveran og endilangan Árbæinn vildi hann alls ekki fara í gang. Stefán reddaði málum, fékk karl föður sinn til að mæta á svæðið með startkapla og druslan fór í gang. Teitin fór fram í gömlum flugturni á Reykjavíkurflugvelli, ekki var hún fjölmenn en þó góðmenn. Þangað mætti m.a. Magnús frá Þverbrekku, sem merkilegt nokk var á bíl. Á öllu átti maður von, en þessu? Þegar halda átti í bæinn var Jarlaskáldið komið á þá skoðun að best væri að halda heim og fékk Magnús til að skutla sér. Fyrst þurfti Magnús að skutla þeim Stefáni og Vigni á heimavöllinn, en þegar þangað var komið skipti Skáldið snarlega um skoðun og fylgdi þeim Boga og Loga í Hillsbororöðina. Í röðinni var stuð að venju, hitti Skáldið þar m.a. Hörpu mágkonu sína, sem varð nota bene 22 ára í dag, óskum henni til hamingju með það. Innan dyra var gleðin ekki síðri, og fór þar allt fram eftir hefðbundnum siðum og reglum. Ekki lenti Skáldið í neinum svaðilförum með aðila/um af hinu kyninu að þessu sinni, þrátt fyrir nokkrar tilraunir í þá veru. Síðla nætur var Skáldið svo mætt á Nonnann, allt er gott sem endar vel.
Sunnudagurinn fór líkt og venjulega fyrir lítið. Jarlaskáldið glápti mestmegnis á imbann, og það endaði með ósköpum, því Skáldið asnaðist til að horfa á Battlefield Earth á milli miðnættis og tvö um nóttina. Batman & Robin hefur fengið verðugan keppinaut í baráttunni um lélegustu mynd allra tíma. Nú þarf maður bara að sjá The Postman og þá ætti að vera hægt að taka ákvörðun.

Já, varðandi fyrirsögnina. Nú á Jarlaskáldið aðeins eftir tvo vinnudaga á þeim ekki svo ágæta vinnustað sem Osta og smjörsalan er. Má búast við talsverðri gleði í herbúðum Skáldsins um hálffimmleytið á miðvikudaginn af þeim sökum. Skáldið byrjar svo hjá Don Alfredo á mánudaginn, fjögurra daga helgi, sæmilegt það.

Talandi um helgina, hinn ágæti félagsskapur VÍN hefur boðað til Þórsmerkurfarar. Jarlaskáldið hlýtur nú bara að fara að nálgast Íslandsmet í ferðagleði þessi misserin, a.m.k. í sínum þyngdarflokki. Samkvæmt veðurspá er gerð ráð fyrir hita um frostmark og éljum um mestallt land, tilvalið að fara í tjaldútilegu, ekki satt?

laugardagur, apríl 26, 2003 

Breytingar

Jarlaskáldið gerir enn og aftur breytingar í lista eðalbloggara sinna. Aumingjabloggarinn hlýtur þau örlög að missa sinn sess sakir grófra og endurtekinna brota á reglum varðandi aumingjablogg. Í hans stað kynnir Jarlaskáldið til sögunnar tvo bloggara sem eiga fjölmargt sameiginlegt með Skáldinu. Báðir stunda þeir snjóbrettareið, eru miklir áhugamenn um íslenska náttúru, hafa stundað ópraktískt nám við Háskóla Íslands, eru illa haldnir af vinstrivillu (Jarlaskáldið er að vísu á góðum batavegi), og eru síðast en ekki síst miklir andans menn. Annar þeirra vermdi um skeið sæti á lista eðalbloggara, framdi svo bloggsjálfsmorð, en reis aftur upp frá dauðum. Hinn er nýrri af nálinni. Jarlaskáldið býður Hjört og Mokkinn velkomna í hópinn.

fimmtudagur, apríl 24, 2003 

Það er sko komið sumar

Jarlaskáldið er að niðurlotum komið af þreytu, aumt í öllum skrokknum og alveg óhemju sólbrunnið. Það kemur til af góðu einu, hér hafiði sólarsöguna:

Jarlaskáldið fór heldur snemma úr vinnunni á miðvikudaginn, og það kom alls ekki til af góðu. Eitthvað var tannheilsan farin að plaga Skáldið og því ekki annað að gera en líta við hjá Tomma tönn. 7500 kall þar, og þarf að koma aftur eftir mánuð. Ó mitt auma veski!
Rétt áður en misþyrmingarnar hófust hjá Tomma hringdi félagi Magnús í Skáldið og impraði á þeirri hugmynd að kíkja upp á Snæfellsnes um kvöldið, gista þar um nóttina og fara upp á jökul daginn eftir. Leist Skáldinu afar vel á hugmyndina, því samkvæmt dagatalinu var fyrsti dagur sumars daginn eftir og því ekki seinna vænna að fara í fyrstu útilegu sumarsins. Að vísu hefur það varla klikkað síðustu árin að það er alltaf leiðindaveður sumardaginn fyrsta en spáin var góð svo það var ákveðið að leggja í hann. Var planið að keyra upp á Arnarstapa og tjalda þar, rölta svo upp á topp Snæfellsjökuls daginn eftir og skíða þaðan niður. Skáldið sótti forláta bretti sitt í geymsluna og pakkaði niður helsta viðlegubúnaði og settist svo fyrir framan sjónvarpið. Þar sá það lið Real Madrid skora fimm mörk gegn einungis tveimur mörkum Manure en tapa samt 4-3. Það kom sem betur fer ekki að sök, þökk sé þeim Rögnvaldi reginskyttu og Zizou. Gaman að því, þó ekki eins gaman og úrslitin í körfunni nóttina á undan. Oseiseijú. Um hálftíuleytið mættu svo þeir Blöndahl og Doddi, sem mun vera félagi Andréssonar úr einhverri björgunarsveit og einkum þekktur fyrir að gista í tjaldi úti í garði á Akureyri í mars, var hann á allvígalegum jeppa sem Skáldið lét fara vel um sig afturí. Var fyrsti viðkomustaður Select, en annar í röðinni var Mosfellsbær, þar sem fyrrnefndur Andrésson og Toggi bættust í hópinn á Hilux hins áður fyrrnefnda. Var svo ekið sem leið lá vestur á Arnarstapa, og gekk það tíðindalítið fyrir sig, á Borgarnesi sáum við að vísu ca. 13 ára stelpu sem allgreinilega klæddist g-strengs nærbuxum, það þótti kúnstugt. Upp úr tólf vorum við svo mættir á tjaldstæðið við Arnarstapa, og þar sem þá var nýbyrjað sumar var því fagnað með því að tæma úr nokkrum ölkollum, en ekki var dvalið mjög lengi við það heldur haldið í fyrra fallinu í háttinn því daginn eftir skyldi taka heldur snemma. Þegar allir voru lagstir í svefnpokana sagði einhver eitthvað rosalega fyndið, en illu heilli man Skáldið ekki hvað það var. Svo sofnuðu menn...

...og eins og gefur að skilja vöknuðu þeir aftur nokkru seinna, sumir reyndar nokkrum sinnum. Reyndar gekk misvel að fá menn á fætur, þannig að þegar morgunverði, messu og Múllersæfingum var lokið var klukkan orðin langt gengin í tólf. Þá loks var hægt að keyra upp á Jökulhálsleiðina áleiðis að jöklinum. Ekki reyndist vera mikill snjór þar, en þeim mun meira af þoku. Ókum við eins langt og druslurnar drifu í átt að skíðalyftunni, stoppuðum ca. kílómetra fyrir neðan hana. Þar fór góð stund í að græja hlutina, þeir Magnúsar og Doddi voru á ógurlegum telemarkfjallaskíðum sem þurfti að setja skinn undir til að geta gengið upp brekkur, en Toggi var með stubbaskíðin sín og geymdi þau bara í bakpokanum ásamt u.þ.b. helmingnum af búslóðinni sinni. Jarlaskáldið neyddist aftur á móti til að bera brettið sitt bara undir höndinni, og það í brettaskónum sínum sem verða að teljast afar óhentugir til göngu, hvað þá upp brött fjöll. Var hent nokkuð gaman að búnaði eða öllu heldur búnaðarleysi Skáldsins, en oft er það þannig að sá hlær best sem síðast hlær.
Þar sem enn var svartaþoka og í kaldara lagi fór Skáldið í heilan helling af fötum, m.a. tvennar buxur og föðurland að auki, tvo boli, flíspeysu og goretexjakka, setti á sig húfu og vettlinga og setti svo upp sólgleraugu til að fullkomna lúkkið, því þrátt fyrir þokuna var einkennilega bjart. Aðrir voru einnig vel klæddir og þannig búnir var þrammað af stað. Ekki leið á löngu áður en ferðalöngum fór að hitna allverulega í hamsi, og var goretexjakinn og annar bolurinn fyrstir að hverfa niður í tösku. Stuttu síðar fauk húfan og svo aðrar buxurnar. Þegar að lyftunni var komið kom í ljós að hún var lokuð þrátt fyrir fyrirheit um annað og ekki annað að gera en þramma upp brekkuna, sem varð sífellt brattari. Við endastöð lyftunnar var fyrsta stopp gert, enda allir dauðuppgefnir. Þar fauk flíspeysan. Eftir dágott stopp var haldið áfram og alltaf varð brattinn meiri og skrefin erfiðari. Eftir kannski 20 mínútna rölt gerðust síðan undur og stórmerki. Allt í einu hvarf þokan og á skall þvílíka blíðviðrið, glampandi sól, ca. 15 stiga hiti og algjört logn. Þvílíki djöfulsins hitinn! Ekki leið á löngu fyrr en ferðalangar fóru að rífa sig úr hverri spjör, og áður en yfir lauk voru allir orðnir berir að ofan, og þeir Doddi og Andrésson komnir á nærbrækurnar. Þetta er nota bene í ca. 1000 metra hæð uppi á jökli í apríl! Áfram var svo þrammað og alltaf urðu skrefin erfiðari, bæði sakir hitans og ekki síður vegna þess að færið varð erfiðara í sólbráðinni. Þegar ca. hálftímalabb var eftir var svo kærkomin nestispása, og þá fóru menn líka að fatta að líklega væri sólin aðeins byrjuð að gefa húðlitnum ákveðinn Samfylkingarkeim. Til marks um veðurblíðuna má taka það fram að þótt við værum stopp í meira en korter klæddi sig enginn í nein aukaföt á meðan, heldur sátu allir berir að ofan í naríunum. Í 1200 metra hæð uppi á jökli í apríl.
Síðasti spölurinn er líklega eitthvað það alerfiðasta sem Jarlaskáldið hefur reynt á ævi sinni. Hann gekk þannig fyrir sig að maður tók fjögur skref, hvíldi sig, tók fimm skef, hvíldi sig, tók fjögur skref o.s.frv. Einhvern veginn komst maður samt upp á topp, og næsti hálftíminn fór aðallega í að sleikja sólina og taka myndir. Ítrekaðar tilraunir voru gerðar til að senda fólki SMS til að láta það vita hvar við værum og hvað við værum að gera en því miður án árangurs. Jarlaskáldið gerði einnig tilraunir til að komast niður í iður jarðar en einnig árangurslaust. Meiri bullarinn þessi Jules Verne! Svo var loks komið að takmarki ferðarinnar, að skíða niður helvítið. Þá kom í ljós hver var á besta farskjótanum, því eins og færið var efst (blautt og þungt en klakabrynja yfir öllu) duttu telemarkvitleysingarnir í annarri hverri beygju, Togga gekk að vísu betur en engum eins vel og Jarlaskáldinu sem sveif ofan á klakanum og skildi alla aðra eftir. Þeir hefðu átt að hlæja meira að brettinu helvískir! Blöndahl blessaður varð þó sýnu verst úti, því eftir ca. 50 metra túr hjá honum tók hann af sér skíðin og byrjaði að rölta niður, búinn að buffa á sér lappirnar. Þessi maður gæti líklegi snúið sig liggjandi í rúminu sínu, svo mislagðir eru honum fæturnir stundum.
Þegar neðar dró í brekkunni fór færið að batna og skíðavitleysingarnir að standa í lappirnar, en það þýddi náttúrlega það eitt að við vorum aftur komnir niður í svartaþoku, og nú var hún svo svört að maður sá ekki út um buxnaklaufina á sér svo vitnað sé í góðan mann. Sem betur fer var lyftan komin í gang og því hægt að stefna á hljóðið, dálítið merkilegt að vera að skíða og treysta meira á eyrun en augun. Tókum við Toggi, sem fórum heldur hraðar yfir en hinir, eina ferð upp með lyftunni en svo skíðuðum við niður að bíl. Þar átti sér stað einhver ljúfasta stund Íslandssögunnar þegar Doddi öllum að óvörum reif upp ískaldan bjór og bauð. Maður hefði getað kysst kappann, en náði sem betur fer að stilla sig um það.
Heldur voru gaulir farnar að garna þegar þarna var komið sögu og því næsta mál á dagskrá að bruna á næsta sveitabrasserí, sem reyndist vera við Vegamót. Pöntuðum við Blöndahl okkur lambasnitsel og báðum um að hafa það „extra greasy“, vertinn brást sannarlega ekki í þeim efnum. Hinir fengu sér einhverja borgara, kunna ekki gott að éta. Einnig var stoppað í Borgarnesi og þar torgað ís, blessuð g-strengsstelpan var því miður hvergi sjáanleg. Ferðinni lauk svo um níuleytið hvað Jarlaskáldið varðar þegar því var skilað heim, og var sérlega skemmtilegt að fara í ískalt bað og virða fyrir sér fagurrauðan blæinn sem kominn var á stóran hluta líkamans. Sumarið byrjar vel.

PS. Þeim sem ekki leggja trúnað á frásögn þessa er bent á að líta við hér. Myndir segja meira en mörg orð.

PPS. Miðvikudaginn 23. apríl 2002 var fyrsta bloggið birt á þessari síðu. Maður er s.s. búinn að standa í þessari vitleysu í meira en ár núna. Vonandi engum til meins...

mánudagur, apríl 21, 2003 

Miðstjórnin að störfum

Fimm dagar af rugli og bulli. Svona var það...

Jarlaskáldið tók fimm daga fríinu fegins hendi, og byrjaði á því að gera absólútlí ekki nokkurn skapaðan hlut fyrstu tvo sólarhringa þess utan að glápa á sjónvarp og spila tölvuleiki. Good times. Á föstudagskvöldið fór Skáldið svo heldur að ókyrrast og var eins og almættið fyndi það á sér því í sama mund hringdi síminn og Skáldinu boðið í grillpartý. Var þar á ferð Magnús nokkur Blöndahl sem hafði verið skilinn einn eftir heima hjá sér, meira ábyrgðarleysið þetta í foreldrunum. Hóaði Skáldið þessu næst í Stefán frá Logafoldum og litlu síðar vorum við félagarnir mættir í Þverbrekkuna og byrjaðir að grilla. Ekki voru fleiri í þessum félagsskap fyrr en síðar um kvöldið að fólk fór að hrúgast inn, m.a. Elvar og frú, Mokkurinn og frú, Toggi og frú, Kiddi inn rauði og Gústi (þeir eru að vísu ekki par), og líkast til einhverjir fleiri sem eru svo ómerkilegir að ekki tekur að nefna þá. Fór samkoman einkar prúðmannlega fram fyrir utan stöku skrílslæti. Um kvöldið var tekin sú gáfulega ákvörðun að vakna klukkan átta daginn eftir og fara í jeppatúr. Engu að síður var síðar um kvöldið haldið út á lendur skemmtanalífsins og endaði sú för eins og svo oft áður á heimavellinum. Þar var okkur til nokkurra vonbrigða engin röð, enginn Hillsborofílingur og ekki neitt, og innan dyra var heldur fámennt og stemmningin í súrara lagi. Þrátt fyrir það var þraukað fram eftir nóttu en á fjórða tímanum fór Skáldinu að leiðast þófið og hélt á Nonnann og síðan heim. Nonninn var sennilega hápunktur kvöldsins.

Liðlega fjórum tímum eftir að Jarlaskáldið lagðist til hvílu vaknaði það við símhringingu. Á hinum endanum var Stefán Twist allhress í bragði, og boðaði umræddan jeppatúr. Ástæða hressleikans var einkum og sér í lagi sú að enn var ekki runnið af pilti. Skáldið byrjaði á að bölva Stefáni í sand og ösku, síðan því að hafa sofnað í öllum fötunum, og því næst því að hafa einnig sofnað með linsurnar í augunum. Reis svo á fætur og henti helsta viðlegubúnaði niður í tösku, og einhverri stund síðar heyrðust drunur fyrir utan, Stefán mættur á Willa. Til allrar hamingju var piltur ekki við stýrið enda drukkinn, heldur Toggi. Skáldið skrönglaðist aftur í trukkinn og lét fara vel um sig, það reyndar breyttist í Þverbrekkunni þegar hinn ekki svo smái maður Magnús hlammaði sér við hliðina á Skáldinu. Sardínur í dós koma óneitanlega upp í hugann. Eftir hefðbundinn morgunverð á bensínstöðinni (pulsan klikkar ekki) var svo haldið af stað, og sem betur fer skipti Magnús um farkost við Rauðavatn, fór í Ísbrjótinn hjá pabba hans Togga, auk hans var einn Landcruiser með í för, en þá menn sem þar voru kannaðist Jarlaskáldið barasta ekkert við. Var ekið sem leið lá austur á Hvolsvöll, og undi Skáldið hag sínum hið besta aftur í, stytti sér meðal annars stundir við að sortera myndarlegt klámblaðasafn Stefáns sem lá á víð og dreif um skrjóðinn. Á Hvolsvelli skiptu þeir Magnús og Toggi á sætum, og sá Magnús um að keyra síðasta spottann yfir að Skógum hvar Stefán þóttist loks orðinn ökufær og settist við stýrið. Var svo ekið beinustu leið upp á Fimmvörðuhálsinn, og eflaust hefðum við notið stórbrotinnar náttúrufegurðarinnar ef ekki hefði verið svartaþoka í ca. 200 metra hæð og þar fyrir ofan. Gekk ferðin greiðlega til að byrja með, en í ca. 600 metra hæð fór Willi að láta ófriðlega með tilheyrandi hóstum og hiksti, og var sú einhliða pólitíska ákvörðun tekin að láta gott heita og snúa við. Það var líklegast fyrir bestu, því hinir bílarnir tveir héldu áfram og samkvæmt fregnum festu þeir sig allkirfilega og tók tvo tíma að losa trukkana. Leiðinlegt að missa af því eða hitt þó heldur. Á leiðinni niður þótti Stefáni ástæða til að endurraða í skottinu með þeim hætti að taka allmyndarlegt stökk, og var stærstur hluti farangursins kominn ofan á bjargarlaust Jarlaskáldið eftir þá flugferð. Við flugferðina flugu líka tveir fullir bensínbrúsar af bílnum, sem ekki uppgötvaðist fyrr en niðri á Skógum, og varð því að rúnta aftur upp og finna þá, sem tókst. Við Skógafoss var snætt og sumir tóku þynnku*****na, þó ekki Jarlaskáldið. Virtist Willi allur vera að hressast og var því ákveðið að fara í eftirlitsferð inn í Þórsmörk. Miðstjórn Skemmtinemdar Undirbúningsnemdar Eftirlitsdeildar VÍN var skipuð í snarhasti, og því næst keyrt eins og druslan dró inn í Mörk. Á leiðinni gaf pústið sig og varð af því talsverð hávaðaaukning, en gamla góða húsráðið klikkaði ekki, að hækka bara í græjunum. Fyrst var ekið inn í Bása og nemdarstörf iðkuð þar í hvívetna fyrir fyrirhugaða Jónsmessuför yfir Fimmvörðuhálsinn. Þar tóku sumir þynnkusk****a part 2, þó ekki Jarlaskáldið. Því næst var ekið yfir Krossána og yfir í Blautbolagil, að vísu þurfti að tölta síðasta spölinn þar eð Krossáin rennur nú yfir bílastæðið. Blautbolagilið skartaði sínu fegursta og voru af því tilefni tæmdar nokkrar öldósir. Nemdarstörfin voru ekki síður yfirgripsmikil þarna, m.a. girti Magnús steininn sem varð honum að falli í fyrra af með myndarlegum skurði, einnig stendur til að reisa þar varúðarskilti. Stefán athugaði salernisaðstöðuna og gaf henni sín bestu meðmæli. Ætti nú fátt að vera því til fyrirstöðu að halda myndarlega árshátíð í Blautbolagilinu fyrstu helgi júlímánaðar.
Að nemdarstörfunum loknum var svo brunað í bæinn og vorum við komnir þangað upp úr átta um kvöldið. Ekki þóttu menn til stórræðanna svo úr varð að panta flatbökur og leigja videóspólu, þá ansi hreint ágætu mynd Undercover Brother. Undir lok hennar var heldur dregið af mönnum enda lítið sofið nóttina áður og því var farið snemma í háttinn að þessu sinni. Jarlaskáldið afrekaði að sjá tuttugu mínútur af Pearl Harbor í sjónvarpinu áður en það gerðist, það lítur út fyrir að vera fjandi vond mynd.

Páskadagur var með hefðbundnu sniði framan af, almenn leti og ómennska fram að kvöldmat, fyrirtaks kalkúnn annars hjá þeirri gömlu. Eftir mat fór Jarlaskáldið enn og aftur að ókyrrast og litlu síðar var það mætt í Þverbrekkuna ásamt félaga Stefáni. Ekki voru fleiri þar utan húsráðanda fyrr en systir hans og vinkona hennar mættu á svæðið síðar um kvöldið, fór meginhluti þess í það að rifja upp gamlar Þjóðhátíðir, sem er nokkuð merkilegt í ljósi þess að Jarlaskáldið hefur bara farið á eina. Síðar um kvöldið færðum við okkur um set yfir í hús við Háaleitisbrautina, þar sem einhver maður ókunnugur Jarlaskáldinu býr. Ekki þekkti Skáldið marga þar, og var viðdvölin heldur stutt. Næsti viðkomustaður var svo heimavöllurinn, og var stemmning þar öllu betri en tveimur kvöldum áður. Að vanda var ýmislegt brallað, og menn hressir. Bar þar einna helst til tíðinda að Jarlaskáldið komst í kynni við stúlku eina, sem reyndist vera mikið klækjakvendi. A.m.k. var bullið og ruglið sem viðkynning þessi hafði í för með sér slíkt að annað eins hefur sjaldan heyrst. Ekki ætlar Skáldið að greina frá þeim atburðum í smáatriðum þar eð það væri á mörkum velsæmis, látum nægja að segja að Jarlaskáldið vann blautbolakeppnina. Einnig er rétt að taka það fram að Jarlaskáldið þurfti ekki að deila fleti með neinum um nóttina, hafi lesendur verið að gera sér hugmyndir. Annars endaði kvöldið á hefðbundnum nótum, Hlöllabátur og fínerí, og síðan heim með leigara. Heilsan hefur verið betri en hún var í dag.

miðvikudagur, apríl 16, 2003 

Miðvikublogg ið sextánda

Mikið lifandi skelfingar ósköp er gaman að vera kominn í fimm daga frí!

sunnudagur, apríl 13, 2003 

Bústaður, Bláfjöll og Betarokk

Hahahahahahahaha, þarna náði Jarlaskáldið aldeilis að plata ykkur! Það héldu allir að Skáldið væri barasta hætt að blogga, lagst í þunglyndi eða eitthvað þaðan af verra, jafnvel frelsast. En svo er víst ekki. Ástæða bloggpásunnar var einkum sú að þegar rita átti partýblogg eitt mikið um atburði síðustu helgar kom í ljós að netsamband lá niðri sakir þess að litla systir hafði komist í tölvuna og gert þar nokkra skráveifu. Þau mál komust ekki í lag fyrr en á fimmtudagskvöld og þá var bara svo margt gott í sjónvarpinu (ekki átt við Bachelorette nota bene) að Skáldið nennti ekki að setjast við tölvuna. En nú er það sest, og búið ykkur undir veislu, því risapartýblogg um atburði tveggja helga er í uppsiglingu. Víkjum aftur til föstudagsins 4. apríl....

...Jarlaskáldið hætti snemma í vinnunni þann daginn, og notaði tækifærið til að líta við í einni ágætri búð og annarri öllu síðri. Um fimmleytið var það svo búið að pakka helsta viðlegubúnaði ofan í tösku og var búið til sumarbústaðarfarar. Var meiningin sú að Skáldinu yrði komið fyrir aftan í X-Cab jeppanum hans Viffa, og auk þess yrði kvenmaðurinn Adolf hafður með. Brottför var áætluð á sjötta tímanum, en á henni urðu nokkrar tafir þar eð laganna verðir þurftu að ræða aðeins málin við bílstjórann. Hann mun ekki vera grunaður um neitt slæmt, ekki lengur það er. Um sjöleytið mættu svo loksins bílstjórinn og konan í Skáldahöllina og lagt var af stað. Var Jarlaskáldið látið sjá um tónlistarflutning á leiðinni, og fórst það að sögn vel úr hendi, þrátt fyrir að vera einnig önnum kafið við þamb.
Bústaðurinn fannst eftir nokkra leit, þar eð Jarlaskáldið telur afar ókarlmannlegt að notast við kort og harðneitaði að gera slíkt. Var hann hinn reisulegasti, undarleg reyndar staðsetning útidyranna, en inn komumst við. Ekki svo löngu síðar mættu þeir Stefán og Vignir á amerískum eðalvagni hins fyrrnefnda og enn síðar þeir Magnús frá Þverbrekku og Magnús Brabrasonur á X-Cab hins síðarnefnda. Var þá fullmætt þetta föstudagskvöld, og hefðbundin aðalfundarstörf stunduð í hvívetna. Potturinn var prufukeyrður og reyndist hinn prýðilegasti, að öðru leyti bar fátt til tíðinda, fólk fór að missa meðvitund þegar nokkuð var á nótt liðið, og þar eð Jarlaskáldið reið þar á vaðið kann það ekki frá miklum atburðum að segja. Samkvæmt fregnum mun Skáldið hafa deilt rekkju með Vigni, og báðum líkað vel.

Á laugardagsmorguninn gerðust fáheyrðir atburðir. Fólk reis á fætur fyrir allar aldir, eða um áttaleytið, að vísu mishátt á mönnum risið, á sumum líklega í gólfhæð, en engu að síður dröttuðust allir á lappir. Ástæða þessarar furðulegu hegðunar var sú að rúnta átti upp á Langjökul og reyna að festa sig í þar í snjó og/eða krapa, og vissara að taka daginn snemma svo nægur drykkjutími yrði til ráðstöfunar um kvöldið. Eftir morgunverð, morgunleikfimi, messu og bænargjörð var svo lagt af stað um hálftíuleytið. Um ferð þessa má lesa afar nákvæma úttekt á heimsíðu lífsnautnafélagsins í boði Stefáns frá Logafoldum, og mun Skáldið því ekki eyða allt of miklu púðri í hana, enda á þetta að vera partýblogg, og sannast sagna var partýið af skornum skammti uppi á jökli. Jarlaskáldið var í upphafi ferðar enn staðsett aftur í miður rúmgóðum X-Cabnum, en rétt fyrir ofan Þjófakróka bættist Toggi í hópinn á Ísbrjótnum og fékk Skáldið þá aldeilis að teygja úr löppunum í mjög svo rúmgóðum jeppanum. Ferðin var annars roknafjör, bílarnir festust reglulega, brjálað rok úti og algjörlega blint á köflum. Allt sem menn eru að leita eftir. Á leiðinni til baka rifnaði svo eitt dekkið á Ísbrjótnum í tætlur svo senda þurfti eftir nýju í bæinn. Til að stytta biðina dró Viffi fram frethólkinn sinn og við dunduðum okkur við að plaffa niður bjórdósir og fleira slíkt. Gaman að því. Þeir Magnúsar mættu svo með dekkið eftir nokkra bið, og voru menn þá farnir að verða ansi þyrstir. Var því brunað sem leið lá aftur í bústaðinn, og mikið helvíti þótti mönnum fyrsti sopinn góður. Jarlaskáldið tók sig til við annan mann og fíraði upp í grillinu og sýndi síðan mikla takta við grillmennskuna, sem fólust í því að henda kjötinu á, setja lokið yfir og fara inn og fá sér bjór. Kíkja svo á draslið á svona korters fresti og snúa því við. Þetta gekk bara prýðilega, a.m.k brann ekkert af viti. Og mikið djöfull var kjötið gott! (Athugið! Það sem eftir fer í þessari frásögn skal taka með fyrirvara hvað atburðarás, tímasetningar og fleira slíkt varðar. Jarlaskáldið þykist muna eftir öllu sem gerðist, það er bara ekki visst um í hvaða röð. Allavega, atburðir gætu hafa gerst í eftirfarandi röð).
Að mat loknum settust menn og kona fyrir framan sjónvarpið og var Gísli Marteinn þar með sinn frábæra þátt. Upphófst þá drykkjuleikur sem fólst í því að allir áttu að drekka þegar Gísli hló eða flissaði. Urðu menn og ekki síður kona alldrukkin af þeim sökum eins og nærri má geta. A.m.k. var hlegið allrosalega yfir Wayne’s World 2 svo það hlýtur að vera. Eftir bíóið var svo smellt sér í pottinn og um það leyti bættust Hrafnhildur og Elvar í hópinn við mikinn fögnuð viðstaddra. Þau hurfu reyndar heim á leið síðar um nóttina, en ekki fyrr en það þeirra sem ekki er ólétt hafði klárað úr nokkrum flöskum. Jarlaskáldið hafði meðferðis allvígalega Cointreauflösku og einhvern tímann um nóttina hóf það að blanda innihaldi hennar við aðra svaladrykki með nokkuð góðum árangri, að því er talið er. Einnig hafði Skáldið meðferðis Ítalíuspóluna góðu og fékk hún að rúlla á meðan húsgestir iðkuðu dansmenntir. Um það leyti féll fyrsti maðurinn í valinn, var það herra Andrésson eins og stundum áður. Illu heilli var Jarlaskáldið annað til að lúta í lægra haldi fyrir beisku brennivíninu, sem það gerði þversum í hjónarúminu. Vignir mun hafa komið því á réttan kjöl síðar um nóttina, sem betur fer fyrir hann þarf Jarlaskáldið tæplega að borga þungaskatt af skrokknum á sér. Að sögn mun partýið hafa staðið fram eftir nóttu og endað á því að hlæja yfir Tvíhöfðadiskum, en það er önnur saga.

Á sunnudagsmorguninn veit Jarlaskáldið ekkert hvað gerðist, það var sofandi eins og aðrir. Upp úr hádegi reis það loks úr rekkju í takt við aðra og komst þá að því sér til mikillar armæðu að það hafði sofnað með linsurnar í augunum og hafði önnur þeirra dundað sér við það um nóttina að rífa allt og tæta sem hún komst í. Fyrir þær sakir neyddist Jarlaskáldið til að setja upp glæsilegu tíundabekkjar glreaugun sín (hin eru enn í útlöndum) og var upp frá því aldrei nefnt annað en Harry Potter. Var heilsa Jarlaskáldsins annars merkilega góð, sumir höfðu það verra en þó einkum þeir er kvenkyns voru, og fóru þeir m.a. að dæmi Egils Skalla-Grímssonar af þeim sökum. Vignir og Toggi flúðu fyrstir heim, því næst Magnúsarnir, svo þeir er eftir voru þrifu pleisið. Sýndi Skáldið þar áður óþekkt tilþrif við skúringar, eitthvað sem íslenskt kvenfólk þyrfti að vita af. Viffi og kvenmaðurinn yfirgáfu svo svæðið um þrjúleytið, en komust ekki langt, X-cabinn hans Viffa bilaði. Kemur þar til sögunnar bensínsjúgandi skrýmslið, Jeep Willys árgerð 1982 á 38 tommu Mudderum og allskyns fleira flott sem Jarlaskáldið kann ekki að nefna, stoltur eigandi svo ekki sé meira sagt Stefán Þórarinsson frá Logafoldum, oft kenndur við Twist. Við mikla gleði eigandans var settur spotti í X-cabinn og hann dreginn í bæinn, og fagnaði hinn stolti eigandi mjög aukinni bensíneyðslu, enda fékk hann það frítt. Í Borgarnesi var tankað og snætt, hvort tveggja ansi nauðsynlegt. Svo ekið áfram, og á leiðinni upp úr Hvalfjarðargöngunum má áætla að bensíneyðslan á hundraðið hafi verið farin að nálgast þriggja stafa tölu, a.m.k. heyrðist ekki mælt mál fyrir drununum úr Willa, og spjó hann bensínreyknum af alefli yfir ört stækkandi bílalestina fyrir aftan. Sjaldan eða aldrei hefur sést stoltari maður hér á landi en Stefán Twist á þeirri stundu.

Komment ferðarinnar: „Af hverju erum við alltaf að detta svona í það, af hverju erum við ekki bara konstant full?“

Um dagana 7.-11. apríl er fátt að segja, Jarlaskáldið gerði eins lítið og það mögulega komst upp með, svaf mestmegnis ef það var ekki að letihaugast í vinnunni. Bara níu dagar eftir....

Síðasta föstudagskvöld aðhafðist Jarlaskáldið lítið, horfði á sjónvarpið og fór snemma í háttinn, því það hafði asnast til að lofa að mæta í vinnuna klukkan átta daginn eftir. Þar var ansi lítið gert, vegna tölvufokköpps var ekki hægt að prenta út pantanir og af þeim sökum fékk Skáldið að fara heim klukkan tólf eftir 4 tíma iðjuleysi. Ekki stoppaði skáldið lengi heima hjá sér, heldur skellti sér upp í Bláfjöll með þeim Vigni og Eyfa. Þar voru aðstæður bara merkilega góðar, og því hörkustuð. Prófuðum m.a. að labba upp á Topp og skíða þar niður í púðri, það var gaman nema einu sinni þegar Jarlaskáldið fór aðeins of langt niður og renndi sér yfir þessa líka fínu grjóturð. Ekki var nú snjóbrettið allt of ánægt með það. Svo gerði vondur lyftuvörður grín að því. Þetta kalla enskumælandi þjóðir víst „to add insult to injury.“ Þessi lyftuvörður var líklega bara öfundsjúkur.
Þegar komið var fram á kvöld fór djammfiðringurinn að gera vart við sig og eftir stutt spjall við Þverbrekking og síðar Stefán frá Logafoldum varð úr að við hittumst í Þverbrekkunni, en þar var auk okkar staddur Tóti nokkur. Var Magnús að sýna honum slædsmyndir frá Ítalíu með það að markmiði að draga hann með að ári. Annars voru hefðbundin aðalfundarstörf stunduð uns húsráðendur komu heim og var þá haldið á heimavöllinn, þá var Tóti að vísu farinn. Röðin var líkt og oft áður löng og hæggeng, og tókst okkur Stefáni að hvetja fólk til að mynda þennan líka fína Hillsborofíling. Innan dyra var svo aðalfundarstörfum haldið áfram, m.a. með því að kynna sér rússneska menningu. Var dvalið þarna í góðu yfirlæti fram að lokum, að vísu hélt Magnús út í buskann eitthvað fyrr en við Stefán þraukuðum til loka. Í þann mund sem átti að henda okkur út urðu furðulegir atburðir. Jarlaskáldið stóð þá nokkuð annars hugar við barinn þegar að því skundar stúlkukind (það vonaði Skáldið a.m.k.) og rekur því þennan líka rembingskoss með öllu tilheyrandi. Eins og nærri má geta hugsaði Skáldið sér gott til glóðarinnar á þeirri stundu og harla sátt við aðstæður. Litlu síðar sleit stúlkan andlit sitt frá Skáldinu og varð því ekki um sel þegar í ljós kom hver stúlkan var, stúlka að nafni Elísabet, jafnan kennd við rokk. Hafði hún sig á brott hið snarasta, en eftir stóð Jarlaskáldið, væntanlega nokkuð undrandi á svipinn. Er líðan þess eftir atvikum. Reyndar komst Jarlaskáldið síðar að því að þessi undarlega hegðun stúlkunnar var liður í e.k. mankeppni. Samkvæmt sömu heimild fór Skáldið ekki verst út úr viðskiptum við stúlku þessa og prísar það sig sælt fyrir það.
Eftir þessa skrýtnu uppákomu þótti okkur félögunum vissast að fara bara á Hlöllann, þar sem Skáldið fékk sér bát en Stefán fékk sér rifrildi við einhverja stelpu í röðinni. Ekki man Skáldið út á hvað rifrildið gekk, en giskar á að það hafi tengst George W. Með bát í hönd fórum við félagarnir svo heim með leigubíl, tæpar 3000 krónur þar, sæmilegt það. Jarlaskáldið var svo vakið í morgun á kunnuglegum slóðum, fyrir framan sjónvarpið með Simpsons í gangi og hálfétinn Hlölla á borðinu. Sumir hlutir breytast aldrei.

fimmtudagur, apríl 10, 2003 

Miðvikublogg ið fimmtánda

Jæja, bara ekkert bloggað í heila viku. Því miður verður enn lengri bið eftir næsta bloggi. Jarlaskáldið þarf nefnilega að fara að taka aðeins til. Sjáumst aftur 1. maí....

miðvikudagur, apríl 02, 2003 

Miðvikublogg ið fjórtánda

Miðvikublogg birtist hér á ný eftir að hafa fallið niður í síðustu viku sakir þunglyndis og annarra andlegra meina í kjölfar skattaskýrsluskila. Jarlaskáldið hefur nú náð fullri andlegri heilsu og hefur sjaldan eða aldrei verið kátara. Það eru kannski ýkjur, a.m.k. er Skáldið allkátt. Hefur það talsvert með komandi helgi að gera.

Mál eru heldur tekin að skýrast í atvinnumálum Skáldsins. Hinn 30. apríl næstkomandi verður mikill gleðidagur því þá mun Skáldið ef að líkum lætur stimpla sig síðasta sinni inn og út úr vinnu hjá Osta og smjörsölunni . Aldeilis kominn tími til, ef ekki hefði verið fyrir þennan blessaða sumarbústað væri Skáldið sennilega löngu hætt þarna og orðið róni í fullu starfi en ekki bara í aukavinnu eins og núna. Reyndar fær Skáldið heila fjóra daga í byrjun maí til að stunda þá iðju, en 5. maí er Skáldinu gert að mæta til vinnu hjá Orkuveitunni , enn eitt helvítis árið. Þar fær það að dúlla sér í ca. mánuð við að hanga á netinu og vinna einhverja örlitla pappírsvinnu þess á milli, uns skríllinn mætir í byrjun júní og Jarlaskáldið færir sig um set yfir á Nesjavellina ástkæru. Reyndar hlakkar Skáldið bara nokkuð til að vinna þar í sumar, það getur ekki orðið verra en þessi vitleysa sem það stundar núna.

Í öðrum fréttum ber kannski helst að aumingjabloggarinn bloggaði! Lengi er von á einum!

Í enn öðrum fréttum er það helst að Jarlaskáldið tók sig til í dag og hugði að annars óaðfinnanlegu útliti sínu. Að sögn samferðamanna Skáldsins var hár þess farið að minna óþægilega mikið á ljónsmakka, og því brá Skáldið á það ráð að rölta inn á þartilgerða hársnyrtistofu og biðja um að bragarbót yrði gerð þar á. Var sú reynsla allmiklu yndislegri en sú sem frú Hansen lýsir. Á móti Jarlaskáldinu tók stúlka ein litfríð og ljóshærð, og ákvað Skáldið að veita henni frjálsar hendur varðandi hársnyrtinguna, enda fagmaður þar á ferð ólíkt því. Tæpum hálftíma síðar var afrakstur erfiðis hennar ljós, og þótt Skáldið segi sjálft frá tókst stúlkunni bara allbærilega upp. Reyndar svo vel að vandséð er að stúlkur vítt og breitt um landið fái staðist yndisþokka Jarlaskáldsins hér eftir. Það verður a.m.k látið á það reyna hvort borgfirskar heimasætur geti staðist guðdómlegt útlit þess. Fylgist með eftir helgi hvernig til tókst, það má búast við allvænu partýbloggi þá, þangað til......

þriðjudagur, apríl 01, 2003 

Bullumsull og sullumdrull

Jahá, barasta 1. apríl í dag og Jarlaskáldið reyndi ekki einu sinni að plata nokkurn mann, enda þekkt fyrir alvarleika og lítinn smekk fyrir hótfyndni. Var Skáldið reyndar ekki platað heldur, eða er þá a.m.k. ekki búið að fatta það enn þá. Skáldið var reyndar að vona að kallinn úr gleraugnabúðinni væri að spauga þegar hann hringdi í dag, það kom nefnilega upp úr dúrnum að gleraugun sem fóru í viðgerð í gær og áttu að vera tilbúin í dag voru víst meingölluð og þurfti að senda eftir nýjum til útlanda. Gaman, gaman, nú þarf Jarlaskáldið að bíða eftir þeim í einhverja viku eða svo og þarf að notast við hinar ofurþægilegu linsur eða gömlu garmana sem þekja hálft andlitið en voru eigi að síður hæstmóðins þegar þeir voru keyptir fyrir réttum tíu árum síðar. Jájá, enginn veit sína ævina og svo framvegis...

Kunnugra ætti að vera en frá þurfi að segja að Jarlaskáldið stendur fyrir mikilli hátíð um næstu helgi. Þannig er mál með vexti að Skáldið hefir fest leigu á reisulegu sumarhúsi einu í uppsveitum Borgarfjarðar, og býður vinum og kunningjum að þiggja þar gistingu á meðan húsrúm leyfir og jafnvel eitthvað umfram það. Ein er sú krafa gerð til gesta að þeir skilji fýlu og fúlheit eftir heima og láti gleðina eina ríkja. Þess ber einnig að geta að gestum er ráðlegt að hafa með sér næringu bæði vota og þurra en þó einkum þá fyrrnefndu, auk þess er gerð sú krafa að gestir hafi með sér sundfatnað, kvenfólk er að vísu undanþegið þeirri reglu. Samkvæmt nýjustu fréttum stefnir múgur og margmenni á að heiðra Jarlaskáldið með nærveru sinni, og er það vel, því maður er jú manns gaman. Vignir Jónsson vill að gefnu tilefni benda Hafnfirðingum og öðrum óþjóðalýð á að halda sig fjarri um helgina. Dagskrá helgarinnar er annars ansi laus í reipunum, heyrst hefur að jeppadeildin stefni á að festa sig einhvers staðar í krapa á laugardeginum og vera bjargað af björgunarsveit, enda þjóðaríþrótt. Öll skemmtiatriði verða vel þegin, og horfir Jarlaskáldið þar einkum til hljóðfæraleikara hópsins, sem verða vonandi einhverjir. Er þetta ekki annars orðið gott, það ætti varla að þurfa að útskýra mikið betur hvernig svona vitleysa gengur fyrir sig, flestir gesta væntanlega hoknir af reynslu í þeim fræðum. Og svo bara: MÆTA!

Mikið eru annars þriðjudagar leiðinlegir dagar.

Að lokum: Á milli klukkan tólf og hálfeitt á morgun mun Jarlaskáldið líta við á Kentucky Fried í Mosfellsbæ og gæða sér þar á ljúffengum kjúklingabitum. Er öllum sönnum kjúklingaunnendum hér með boðið að njóta slíkra veitinga í félagsskap Skáldsins á umræddum tíma. Namminamm.....

(Andsk., helvítis sumartíminn kominn! Allar tímasetningar vitlausar! Æ, þið hljótið að fatta þetta.)

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates