« Home | Miðstjórnin að störfum Fimm dagar af rugli og bul... » | Miðvikublogg ið sextánda Mikið lifandi skelfingar... » | Bústaður, Bláfjöll og Betarokk Hahahahahahahaha, ... » | Miðvikublogg ið fimmtánda Jæja, bara ekkert blogg... » | Miðvikublogg ið fjórtánda Miðvikublogg birtist hé... » | Bullumsull og sullumdrull Jahá, barasta 1. apríl ... » | Af gleðsköpum og öðrum hamförum Þegar vinnu var l... » | Meira GB Enn í þessu partýi, enn jafnelstur. Hér ... » | GB Þetta var létt. Sem er gaman. Verst að fólk þek... » | Þunglyndi Mjök erum tregt tungu at hræra eða lopt... » 

fimmtudagur, apríl 24, 2003 

Það er sko komið sumar

Jarlaskáldið er að niðurlotum komið af þreytu, aumt í öllum skrokknum og alveg óhemju sólbrunnið. Það kemur til af góðu einu, hér hafiði sólarsöguna:

Jarlaskáldið fór heldur snemma úr vinnunni á miðvikudaginn, og það kom alls ekki til af góðu. Eitthvað var tannheilsan farin að plaga Skáldið og því ekki annað að gera en líta við hjá Tomma tönn. 7500 kall þar, og þarf að koma aftur eftir mánuð. Ó mitt auma veski!
Rétt áður en misþyrmingarnar hófust hjá Tomma hringdi félagi Magnús í Skáldið og impraði á þeirri hugmynd að kíkja upp á Snæfellsnes um kvöldið, gista þar um nóttina og fara upp á jökul daginn eftir. Leist Skáldinu afar vel á hugmyndina, því samkvæmt dagatalinu var fyrsti dagur sumars daginn eftir og því ekki seinna vænna að fara í fyrstu útilegu sumarsins. Að vísu hefur það varla klikkað síðustu árin að það er alltaf leiðindaveður sumardaginn fyrsta en spáin var góð svo það var ákveðið að leggja í hann. Var planið að keyra upp á Arnarstapa og tjalda þar, rölta svo upp á topp Snæfellsjökuls daginn eftir og skíða þaðan niður. Skáldið sótti forláta bretti sitt í geymsluna og pakkaði niður helsta viðlegubúnaði og settist svo fyrir framan sjónvarpið. Þar sá það lið Real Madrid skora fimm mörk gegn einungis tveimur mörkum Manure en tapa samt 4-3. Það kom sem betur fer ekki að sök, þökk sé þeim Rögnvaldi reginskyttu og Zizou. Gaman að því, þó ekki eins gaman og úrslitin í körfunni nóttina á undan. Oseiseijú. Um hálftíuleytið mættu svo þeir Blöndahl og Doddi, sem mun vera félagi Andréssonar úr einhverri björgunarsveit og einkum þekktur fyrir að gista í tjaldi úti í garði á Akureyri í mars, var hann á allvígalegum jeppa sem Skáldið lét fara vel um sig afturí. Var fyrsti viðkomustaður Select, en annar í röðinni var Mosfellsbær, þar sem fyrrnefndur Andrésson og Toggi bættust í hópinn á Hilux hins áður fyrrnefnda. Var svo ekið sem leið lá vestur á Arnarstapa, og gekk það tíðindalítið fyrir sig, á Borgarnesi sáum við að vísu ca. 13 ára stelpu sem allgreinilega klæddist g-strengs nærbuxum, það þótti kúnstugt. Upp úr tólf vorum við svo mættir á tjaldstæðið við Arnarstapa, og þar sem þá var nýbyrjað sumar var því fagnað með því að tæma úr nokkrum ölkollum, en ekki var dvalið mjög lengi við það heldur haldið í fyrra fallinu í háttinn því daginn eftir skyldi taka heldur snemma. Þegar allir voru lagstir í svefnpokana sagði einhver eitthvað rosalega fyndið, en illu heilli man Skáldið ekki hvað það var. Svo sofnuðu menn...

...og eins og gefur að skilja vöknuðu þeir aftur nokkru seinna, sumir reyndar nokkrum sinnum. Reyndar gekk misvel að fá menn á fætur, þannig að þegar morgunverði, messu og Múllersæfingum var lokið var klukkan orðin langt gengin í tólf. Þá loks var hægt að keyra upp á Jökulhálsleiðina áleiðis að jöklinum. Ekki reyndist vera mikill snjór þar, en þeim mun meira af þoku. Ókum við eins langt og druslurnar drifu í átt að skíðalyftunni, stoppuðum ca. kílómetra fyrir neðan hana. Þar fór góð stund í að græja hlutina, þeir Magnúsar og Doddi voru á ógurlegum telemarkfjallaskíðum sem þurfti að setja skinn undir til að geta gengið upp brekkur, en Toggi var með stubbaskíðin sín og geymdi þau bara í bakpokanum ásamt u.þ.b. helmingnum af búslóðinni sinni. Jarlaskáldið neyddist aftur á móti til að bera brettið sitt bara undir höndinni, og það í brettaskónum sínum sem verða að teljast afar óhentugir til göngu, hvað þá upp brött fjöll. Var hent nokkuð gaman að búnaði eða öllu heldur búnaðarleysi Skáldsins, en oft er það þannig að sá hlær best sem síðast hlær.
Þar sem enn var svartaþoka og í kaldara lagi fór Skáldið í heilan helling af fötum, m.a. tvennar buxur og föðurland að auki, tvo boli, flíspeysu og goretexjakka, setti á sig húfu og vettlinga og setti svo upp sólgleraugu til að fullkomna lúkkið, því þrátt fyrir þokuna var einkennilega bjart. Aðrir voru einnig vel klæddir og þannig búnir var þrammað af stað. Ekki leið á löngu áður en ferðalöngum fór að hitna allverulega í hamsi, og var goretexjakinn og annar bolurinn fyrstir að hverfa niður í tösku. Stuttu síðar fauk húfan og svo aðrar buxurnar. Þegar að lyftunni var komið kom í ljós að hún var lokuð þrátt fyrir fyrirheit um annað og ekki annað að gera en þramma upp brekkuna, sem varð sífellt brattari. Við endastöð lyftunnar var fyrsta stopp gert, enda allir dauðuppgefnir. Þar fauk flíspeysan. Eftir dágott stopp var haldið áfram og alltaf varð brattinn meiri og skrefin erfiðari. Eftir kannski 20 mínútna rölt gerðust síðan undur og stórmerki. Allt í einu hvarf þokan og á skall þvílíka blíðviðrið, glampandi sól, ca. 15 stiga hiti og algjört logn. Þvílíki djöfulsins hitinn! Ekki leið á löngu fyrr en ferðalangar fóru að rífa sig úr hverri spjör, og áður en yfir lauk voru allir orðnir berir að ofan, og þeir Doddi og Andrésson komnir á nærbrækurnar. Þetta er nota bene í ca. 1000 metra hæð uppi á jökli í apríl! Áfram var svo þrammað og alltaf urðu skrefin erfiðari, bæði sakir hitans og ekki síður vegna þess að færið varð erfiðara í sólbráðinni. Þegar ca. hálftímalabb var eftir var svo kærkomin nestispása, og þá fóru menn líka að fatta að líklega væri sólin aðeins byrjuð að gefa húðlitnum ákveðinn Samfylkingarkeim. Til marks um veðurblíðuna má taka það fram að þótt við værum stopp í meira en korter klæddi sig enginn í nein aukaföt á meðan, heldur sátu allir berir að ofan í naríunum. Í 1200 metra hæð uppi á jökli í apríl.
Síðasti spölurinn er líklega eitthvað það alerfiðasta sem Jarlaskáldið hefur reynt á ævi sinni. Hann gekk þannig fyrir sig að maður tók fjögur skref, hvíldi sig, tók fimm skef, hvíldi sig, tók fjögur skref o.s.frv. Einhvern veginn komst maður samt upp á topp, og næsti hálftíminn fór aðallega í að sleikja sólina og taka myndir. Ítrekaðar tilraunir voru gerðar til að senda fólki SMS til að láta það vita hvar við værum og hvað við værum að gera en því miður án árangurs. Jarlaskáldið gerði einnig tilraunir til að komast niður í iður jarðar en einnig árangurslaust. Meiri bullarinn þessi Jules Verne! Svo var loks komið að takmarki ferðarinnar, að skíða niður helvítið. Þá kom í ljós hver var á besta farskjótanum, því eins og færið var efst (blautt og þungt en klakabrynja yfir öllu) duttu telemarkvitleysingarnir í annarri hverri beygju, Togga gekk að vísu betur en engum eins vel og Jarlaskáldinu sem sveif ofan á klakanum og skildi alla aðra eftir. Þeir hefðu átt að hlæja meira að brettinu helvískir! Blöndahl blessaður varð þó sýnu verst úti, því eftir ca. 50 metra túr hjá honum tók hann af sér skíðin og byrjaði að rölta niður, búinn að buffa á sér lappirnar. Þessi maður gæti líklegi snúið sig liggjandi í rúminu sínu, svo mislagðir eru honum fæturnir stundum.
Þegar neðar dró í brekkunni fór færið að batna og skíðavitleysingarnir að standa í lappirnar, en það þýddi náttúrlega það eitt að við vorum aftur komnir niður í svartaþoku, og nú var hún svo svört að maður sá ekki út um buxnaklaufina á sér svo vitnað sé í góðan mann. Sem betur fer var lyftan komin í gang og því hægt að stefna á hljóðið, dálítið merkilegt að vera að skíða og treysta meira á eyrun en augun. Tókum við Toggi, sem fórum heldur hraðar yfir en hinir, eina ferð upp með lyftunni en svo skíðuðum við niður að bíl. Þar átti sér stað einhver ljúfasta stund Íslandssögunnar þegar Doddi öllum að óvörum reif upp ískaldan bjór og bauð. Maður hefði getað kysst kappann, en náði sem betur fer að stilla sig um það.
Heldur voru gaulir farnar að garna þegar þarna var komið sögu og því næsta mál á dagskrá að bruna á næsta sveitabrasserí, sem reyndist vera við Vegamót. Pöntuðum við Blöndahl okkur lambasnitsel og báðum um að hafa það „extra greasy“, vertinn brást sannarlega ekki í þeim efnum. Hinir fengu sér einhverja borgara, kunna ekki gott að éta. Einnig var stoppað í Borgarnesi og þar torgað ís, blessuð g-strengsstelpan var því miður hvergi sjáanleg. Ferðinni lauk svo um níuleytið hvað Jarlaskáldið varðar þegar því var skilað heim, og var sérlega skemmtilegt að fara í ískalt bað og virða fyrir sér fagurrauðan blæinn sem kominn var á stóran hluta líkamans. Sumarið byrjar vel.

PS. Þeim sem ekki leggja trúnað á frásögn þessa er bent á að líta við hér. Myndir segja meira en mörg orð.

PPS. Miðvikudaginn 23. apríl 2002 var fyrsta bloggið birt á þessari síðu. Maður er s.s. búinn að standa í þessari vitleysu í meira en ár núna. Vonandi engum til meins...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates