« Home | Miðvikublogg ið fimmtánda Jæja, bara ekkert blogg... » | Miðvikublogg ið fjórtánda Miðvikublogg birtist hé... » | Bullumsull og sullumdrull Jahá, barasta 1. apríl ... » | Af gleðsköpum og öðrum hamförum Þegar vinnu var l... » | Meira GB Enn í þessu partýi, enn jafnelstur. Hér ... » | GB Þetta var létt. Sem er gaman. Verst að fólk þek... » | Þunglyndi Mjök erum tregt tungu at hræra eða lopt... » | Óskar Flottastur: Michael Moore Flottur: Adrien... » | Fauna Hvað gerði Jarlaskáldið af sér um helgina? ... » | Hvað er hér á seyði? Kíkiði bara! » 

sunnudagur, apríl 13, 2003 

Bústaður, Bláfjöll og Betarokk

Hahahahahahahaha, þarna náði Jarlaskáldið aldeilis að plata ykkur! Það héldu allir að Skáldið væri barasta hætt að blogga, lagst í þunglyndi eða eitthvað þaðan af verra, jafnvel frelsast. En svo er víst ekki. Ástæða bloggpásunnar var einkum sú að þegar rita átti partýblogg eitt mikið um atburði síðustu helgar kom í ljós að netsamband lá niðri sakir þess að litla systir hafði komist í tölvuna og gert þar nokkra skráveifu. Þau mál komust ekki í lag fyrr en á fimmtudagskvöld og þá var bara svo margt gott í sjónvarpinu (ekki átt við Bachelorette nota bene) að Skáldið nennti ekki að setjast við tölvuna. En nú er það sest, og búið ykkur undir veislu, því risapartýblogg um atburði tveggja helga er í uppsiglingu. Víkjum aftur til föstudagsins 4. apríl....

...Jarlaskáldið hætti snemma í vinnunni þann daginn, og notaði tækifærið til að líta við í einni ágætri búð og annarri öllu síðri. Um fimmleytið var það svo búið að pakka helsta viðlegubúnaði ofan í tösku og var búið til sumarbústaðarfarar. Var meiningin sú að Skáldinu yrði komið fyrir aftan í X-Cab jeppanum hans Viffa, og auk þess yrði kvenmaðurinn Adolf hafður með. Brottför var áætluð á sjötta tímanum, en á henni urðu nokkrar tafir þar eð laganna verðir þurftu að ræða aðeins málin við bílstjórann. Hann mun ekki vera grunaður um neitt slæmt, ekki lengur það er. Um sjöleytið mættu svo loksins bílstjórinn og konan í Skáldahöllina og lagt var af stað. Var Jarlaskáldið látið sjá um tónlistarflutning á leiðinni, og fórst það að sögn vel úr hendi, þrátt fyrir að vera einnig önnum kafið við þamb.
Bústaðurinn fannst eftir nokkra leit, þar eð Jarlaskáldið telur afar ókarlmannlegt að notast við kort og harðneitaði að gera slíkt. Var hann hinn reisulegasti, undarleg reyndar staðsetning útidyranna, en inn komumst við. Ekki svo löngu síðar mættu þeir Stefán og Vignir á amerískum eðalvagni hins fyrrnefnda og enn síðar þeir Magnús frá Þverbrekku og Magnús Brabrasonur á X-Cab hins síðarnefnda. Var þá fullmætt þetta föstudagskvöld, og hefðbundin aðalfundarstörf stunduð í hvívetna. Potturinn var prufukeyrður og reyndist hinn prýðilegasti, að öðru leyti bar fátt til tíðinda, fólk fór að missa meðvitund þegar nokkuð var á nótt liðið, og þar eð Jarlaskáldið reið þar á vaðið kann það ekki frá miklum atburðum að segja. Samkvæmt fregnum mun Skáldið hafa deilt rekkju með Vigni, og báðum líkað vel.

Á laugardagsmorguninn gerðust fáheyrðir atburðir. Fólk reis á fætur fyrir allar aldir, eða um áttaleytið, að vísu mishátt á mönnum risið, á sumum líklega í gólfhæð, en engu að síður dröttuðust allir á lappir. Ástæða þessarar furðulegu hegðunar var sú að rúnta átti upp á Langjökul og reyna að festa sig í þar í snjó og/eða krapa, og vissara að taka daginn snemma svo nægur drykkjutími yrði til ráðstöfunar um kvöldið. Eftir morgunverð, morgunleikfimi, messu og bænargjörð var svo lagt af stað um hálftíuleytið. Um ferð þessa má lesa afar nákvæma úttekt á heimsíðu lífsnautnafélagsins í boði Stefáns frá Logafoldum, og mun Skáldið því ekki eyða allt of miklu púðri í hana, enda á þetta að vera partýblogg, og sannast sagna var partýið af skornum skammti uppi á jökli. Jarlaskáldið var í upphafi ferðar enn staðsett aftur í miður rúmgóðum X-Cabnum, en rétt fyrir ofan Þjófakróka bættist Toggi í hópinn á Ísbrjótnum og fékk Skáldið þá aldeilis að teygja úr löppunum í mjög svo rúmgóðum jeppanum. Ferðin var annars roknafjör, bílarnir festust reglulega, brjálað rok úti og algjörlega blint á köflum. Allt sem menn eru að leita eftir. Á leiðinni til baka rifnaði svo eitt dekkið á Ísbrjótnum í tætlur svo senda þurfti eftir nýju í bæinn. Til að stytta biðina dró Viffi fram frethólkinn sinn og við dunduðum okkur við að plaffa niður bjórdósir og fleira slíkt. Gaman að því. Þeir Magnúsar mættu svo með dekkið eftir nokkra bið, og voru menn þá farnir að verða ansi þyrstir. Var því brunað sem leið lá aftur í bústaðinn, og mikið helvíti þótti mönnum fyrsti sopinn góður. Jarlaskáldið tók sig til við annan mann og fíraði upp í grillinu og sýndi síðan mikla takta við grillmennskuna, sem fólust í því að henda kjötinu á, setja lokið yfir og fara inn og fá sér bjór. Kíkja svo á draslið á svona korters fresti og snúa því við. Þetta gekk bara prýðilega, a.m.k brann ekkert af viti. Og mikið djöfull var kjötið gott! (Athugið! Það sem eftir fer í þessari frásögn skal taka með fyrirvara hvað atburðarás, tímasetningar og fleira slíkt varðar. Jarlaskáldið þykist muna eftir öllu sem gerðist, það er bara ekki visst um í hvaða röð. Allavega, atburðir gætu hafa gerst í eftirfarandi röð).
Að mat loknum settust menn og kona fyrir framan sjónvarpið og var Gísli Marteinn þar með sinn frábæra þátt. Upphófst þá drykkjuleikur sem fólst í því að allir áttu að drekka þegar Gísli hló eða flissaði. Urðu menn og ekki síður kona alldrukkin af þeim sökum eins og nærri má geta. A.m.k. var hlegið allrosalega yfir Wayne’s World 2 svo það hlýtur að vera. Eftir bíóið var svo smellt sér í pottinn og um það leyti bættust Hrafnhildur og Elvar í hópinn við mikinn fögnuð viðstaddra. Þau hurfu reyndar heim á leið síðar um nóttina, en ekki fyrr en það þeirra sem ekki er ólétt hafði klárað úr nokkrum flöskum. Jarlaskáldið hafði meðferðis allvígalega Cointreauflösku og einhvern tímann um nóttina hóf það að blanda innihaldi hennar við aðra svaladrykki með nokkuð góðum árangri, að því er talið er. Einnig hafði Skáldið meðferðis Ítalíuspóluna góðu og fékk hún að rúlla á meðan húsgestir iðkuðu dansmenntir. Um það leyti féll fyrsti maðurinn í valinn, var það herra Andrésson eins og stundum áður. Illu heilli var Jarlaskáldið annað til að lúta í lægra haldi fyrir beisku brennivíninu, sem það gerði þversum í hjónarúminu. Vignir mun hafa komið því á réttan kjöl síðar um nóttina, sem betur fer fyrir hann þarf Jarlaskáldið tæplega að borga þungaskatt af skrokknum á sér. Að sögn mun partýið hafa staðið fram eftir nóttu og endað á því að hlæja yfir Tvíhöfðadiskum, en það er önnur saga.

Á sunnudagsmorguninn veit Jarlaskáldið ekkert hvað gerðist, það var sofandi eins og aðrir. Upp úr hádegi reis það loks úr rekkju í takt við aðra og komst þá að því sér til mikillar armæðu að það hafði sofnað með linsurnar í augunum og hafði önnur þeirra dundað sér við það um nóttina að rífa allt og tæta sem hún komst í. Fyrir þær sakir neyddist Jarlaskáldið til að setja upp glæsilegu tíundabekkjar glreaugun sín (hin eru enn í útlöndum) og var upp frá því aldrei nefnt annað en Harry Potter. Var heilsa Jarlaskáldsins annars merkilega góð, sumir höfðu það verra en þó einkum þeir er kvenkyns voru, og fóru þeir m.a. að dæmi Egils Skalla-Grímssonar af þeim sökum. Vignir og Toggi flúðu fyrstir heim, því næst Magnúsarnir, svo þeir er eftir voru þrifu pleisið. Sýndi Skáldið þar áður óþekkt tilþrif við skúringar, eitthvað sem íslenskt kvenfólk þyrfti að vita af. Viffi og kvenmaðurinn yfirgáfu svo svæðið um þrjúleytið, en komust ekki langt, X-cabinn hans Viffa bilaði. Kemur þar til sögunnar bensínsjúgandi skrýmslið, Jeep Willys árgerð 1982 á 38 tommu Mudderum og allskyns fleira flott sem Jarlaskáldið kann ekki að nefna, stoltur eigandi svo ekki sé meira sagt Stefán Þórarinsson frá Logafoldum, oft kenndur við Twist. Við mikla gleði eigandans var settur spotti í X-cabinn og hann dreginn í bæinn, og fagnaði hinn stolti eigandi mjög aukinni bensíneyðslu, enda fékk hann það frítt. Í Borgarnesi var tankað og snætt, hvort tveggja ansi nauðsynlegt. Svo ekið áfram, og á leiðinni upp úr Hvalfjarðargöngunum má áætla að bensíneyðslan á hundraðið hafi verið farin að nálgast þriggja stafa tölu, a.m.k. heyrðist ekki mælt mál fyrir drununum úr Willa, og spjó hann bensínreyknum af alefli yfir ört stækkandi bílalestina fyrir aftan. Sjaldan eða aldrei hefur sést stoltari maður hér á landi en Stefán Twist á þeirri stundu.

Komment ferðarinnar: „Af hverju erum við alltaf að detta svona í það, af hverju erum við ekki bara konstant full?“

Um dagana 7.-11. apríl er fátt að segja, Jarlaskáldið gerði eins lítið og það mögulega komst upp með, svaf mestmegnis ef það var ekki að letihaugast í vinnunni. Bara níu dagar eftir....

Síðasta föstudagskvöld aðhafðist Jarlaskáldið lítið, horfði á sjónvarpið og fór snemma í háttinn, því það hafði asnast til að lofa að mæta í vinnuna klukkan átta daginn eftir. Þar var ansi lítið gert, vegna tölvufokköpps var ekki hægt að prenta út pantanir og af þeim sökum fékk Skáldið að fara heim klukkan tólf eftir 4 tíma iðjuleysi. Ekki stoppaði skáldið lengi heima hjá sér, heldur skellti sér upp í Bláfjöll með þeim Vigni og Eyfa. Þar voru aðstæður bara merkilega góðar, og því hörkustuð. Prófuðum m.a. að labba upp á Topp og skíða þar niður í púðri, það var gaman nema einu sinni þegar Jarlaskáldið fór aðeins of langt niður og renndi sér yfir þessa líka fínu grjóturð. Ekki var nú snjóbrettið allt of ánægt með það. Svo gerði vondur lyftuvörður grín að því. Þetta kalla enskumælandi þjóðir víst „to add insult to injury.“ Þessi lyftuvörður var líklega bara öfundsjúkur.
Þegar komið var fram á kvöld fór djammfiðringurinn að gera vart við sig og eftir stutt spjall við Þverbrekking og síðar Stefán frá Logafoldum varð úr að við hittumst í Þverbrekkunni, en þar var auk okkar staddur Tóti nokkur. Var Magnús að sýna honum slædsmyndir frá Ítalíu með það að markmiði að draga hann með að ári. Annars voru hefðbundin aðalfundarstörf stunduð uns húsráðendur komu heim og var þá haldið á heimavöllinn, þá var Tóti að vísu farinn. Röðin var líkt og oft áður löng og hæggeng, og tókst okkur Stefáni að hvetja fólk til að mynda þennan líka fína Hillsborofíling. Innan dyra var svo aðalfundarstörfum haldið áfram, m.a. með því að kynna sér rússneska menningu. Var dvalið þarna í góðu yfirlæti fram að lokum, að vísu hélt Magnús út í buskann eitthvað fyrr en við Stefán þraukuðum til loka. Í þann mund sem átti að henda okkur út urðu furðulegir atburðir. Jarlaskáldið stóð þá nokkuð annars hugar við barinn þegar að því skundar stúlkukind (það vonaði Skáldið a.m.k.) og rekur því þennan líka rembingskoss með öllu tilheyrandi. Eins og nærri má geta hugsaði Skáldið sér gott til glóðarinnar á þeirri stundu og harla sátt við aðstæður. Litlu síðar sleit stúlkan andlit sitt frá Skáldinu og varð því ekki um sel þegar í ljós kom hver stúlkan var, stúlka að nafni Elísabet, jafnan kennd við rokk. Hafði hún sig á brott hið snarasta, en eftir stóð Jarlaskáldið, væntanlega nokkuð undrandi á svipinn. Er líðan þess eftir atvikum. Reyndar komst Jarlaskáldið síðar að því að þessi undarlega hegðun stúlkunnar var liður í e.k. mankeppni. Samkvæmt sömu heimild fór Skáldið ekki verst út úr viðskiptum við stúlku þessa og prísar það sig sælt fyrir það.
Eftir þessa skrýtnu uppákomu þótti okkur félögunum vissast að fara bara á Hlöllann, þar sem Skáldið fékk sér bát en Stefán fékk sér rifrildi við einhverja stelpu í röðinni. Ekki man Skáldið út á hvað rifrildið gekk, en giskar á að það hafi tengst George W. Með bát í hönd fórum við félagarnir svo heim með leigubíl, tæpar 3000 krónur þar, sæmilegt það. Jarlaskáldið var svo vakið í morgun á kunnuglegum slóðum, fyrir framan sjónvarpið með Simpsons í gangi og hálfétinn Hlölla á borðinu. Sumir hlutir breytast aldrei.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates