« Home | Af gleðsköpum og öðrum hamförum Þegar vinnu var l... » | Meira GB Enn í þessu partýi, enn jafnelstur. Hér ... » | GB Þetta var létt. Sem er gaman. Verst að fólk þek... » | Þunglyndi Mjök erum tregt tungu at hræra eða lopt... » | Óskar Flottastur: Michael Moore Flottur: Adrien... » | Fauna Hvað gerði Jarlaskáldið af sér um helgina? ... » | Hvað er hér á seyði? Kíkiði bara! » | Saddam og Bush Sorrí, hér verður sko ekki talað u... » | Miðvikublogg ið tólfta Það hafa margir komið að m... » | Agureyris Jarlaskáldið var á Agureyri um helgina.... » 

þriðjudagur, apríl 01, 2003 

Bullumsull og sullumdrull

Jahá, barasta 1. apríl í dag og Jarlaskáldið reyndi ekki einu sinni að plata nokkurn mann, enda þekkt fyrir alvarleika og lítinn smekk fyrir hótfyndni. Var Skáldið reyndar ekki platað heldur, eða er þá a.m.k. ekki búið að fatta það enn þá. Skáldið var reyndar að vona að kallinn úr gleraugnabúðinni væri að spauga þegar hann hringdi í dag, það kom nefnilega upp úr dúrnum að gleraugun sem fóru í viðgerð í gær og áttu að vera tilbúin í dag voru víst meingölluð og þurfti að senda eftir nýjum til útlanda. Gaman, gaman, nú þarf Jarlaskáldið að bíða eftir þeim í einhverja viku eða svo og þarf að notast við hinar ofurþægilegu linsur eða gömlu garmana sem þekja hálft andlitið en voru eigi að síður hæstmóðins þegar þeir voru keyptir fyrir réttum tíu árum síðar. Jájá, enginn veit sína ævina og svo framvegis...

Kunnugra ætti að vera en frá þurfi að segja að Jarlaskáldið stendur fyrir mikilli hátíð um næstu helgi. Þannig er mál með vexti að Skáldið hefir fest leigu á reisulegu sumarhúsi einu í uppsveitum Borgarfjarðar, og býður vinum og kunningjum að þiggja þar gistingu á meðan húsrúm leyfir og jafnvel eitthvað umfram það. Ein er sú krafa gerð til gesta að þeir skilji fýlu og fúlheit eftir heima og láti gleðina eina ríkja. Þess ber einnig að geta að gestum er ráðlegt að hafa með sér næringu bæði vota og þurra en þó einkum þá fyrrnefndu, auk þess er gerð sú krafa að gestir hafi með sér sundfatnað, kvenfólk er að vísu undanþegið þeirri reglu. Samkvæmt nýjustu fréttum stefnir múgur og margmenni á að heiðra Jarlaskáldið með nærveru sinni, og er það vel, því maður er jú manns gaman. Vignir Jónsson vill að gefnu tilefni benda Hafnfirðingum og öðrum óþjóðalýð á að halda sig fjarri um helgina. Dagskrá helgarinnar er annars ansi laus í reipunum, heyrst hefur að jeppadeildin stefni á að festa sig einhvers staðar í krapa á laugardeginum og vera bjargað af björgunarsveit, enda þjóðaríþrótt. Öll skemmtiatriði verða vel þegin, og horfir Jarlaskáldið þar einkum til hljóðfæraleikara hópsins, sem verða vonandi einhverjir. Er þetta ekki annars orðið gott, það ætti varla að þurfa að útskýra mikið betur hvernig svona vitleysa gengur fyrir sig, flestir gesta væntanlega hoknir af reynslu í þeim fræðum. Og svo bara: MÆTA!

Mikið eru annars þriðjudagar leiðinlegir dagar.

Að lokum: Á milli klukkan tólf og hálfeitt á morgun mun Jarlaskáldið líta við á Kentucky Fried í Mosfellsbæ og gæða sér þar á ljúffengum kjúklingabitum. Er öllum sönnum kjúklingaunnendum hér með boðið að njóta slíkra veitinga í félagsskap Skáldsins á umræddum tíma. Namminamm.....

(Andsk., helvítis sumartíminn kominn! Allar tímasetningar vitlausar! Æ, þið hljótið að fatta þetta.)

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates