föstudagur, mars 31, 2006 

Gettu betur
Assgoti var hann Skúli Magnússon langlífur, ef marka má spurningu í GB í kvöld, fæddur í upphafi átjándu aldar og tók síðan við embætti landfógeta 1847, þá væntanlega kominn vel yfir 130 ára aldurinn. Geri aðrir betur. Var Skáldið eitt um að taka eftir þessu?

Þessi dómari er drasl.

Þessu tengt má nefna að 31. mars 1996 fagnaði Jarlaskáldið sigri í sömu keppni. Þá var Helgi Ólafsson dómari. Hann var sko alvöru. Annars er það hógvært álit Jarlaskáldsins að liðið sem vann 1996 sé eitthvert mesta yfirburðalið í sögu keppninnar. Þess ber að geta að hlutverk Jarlaskáldsins í liði þessu var fyrst og fremst að þegja, og stóð það sig að margra mati einkar vel í því, þrátt fyrir stöku upphlaup.

Sjitt, 10 ár!

mánudagur, mars 27, 2006 

Brotin loforðEkki var þessi helgi alveg nógu góð. Netsambandlaus mestalla helgina (er ekki mestalla fótboltavöllur?), og asnaðist til að fara á þann arma stað Ólíver á laugardagskvöldið þar sem gleraugun brotnuðu. Þess ber að geta að ofbeldi kom þar hvergi við sögu.

Hér með er djammið í miðbæ Reykjavíkur komið í viðskiptabann.

föstudagur, mars 24, 2006 

MúsíkLíkt og fyrri ár útbjó Jarlaskáldið sérstakan Agureyrish-disk þetta árið. Var það mál manna norðan heiða að diskurinn í ár væri einhver sá besti fyrr og síðar. Látum lesendur dæma um það:

1. Baggalútur - Settu brennivín í mjólkurglasið vina
2. The Magic Numbers - Love me like you
3. Blue Oyster Cult - Don't fear the reaper
4. Dr. Gunni - Doddi draugur
5. The White Stripes - My doorbell
6. Rúnar Júlíusson og Unun - Hann mun aldrei gleym'enni
7. Franz Lang - Kuss Jodler
8. Liquido - Narcotic
9. Guðmundur Jónsson - Jón tröll
10. The Arcade Fire - Rebellion (Lies)
11. Hanson - Mmmmbop
12. Dr. Gunni - Strákurinn með skeggið
13. Bloc Party - Banquet
14. Green Day - Time of your life
15. Nada Surf - Popular
16. Hjálmar - Kindin Einar
17. Mellymaus - 20 Centimeters
18. William Shatner - Common people
19. Olympia - Hvert sem er
20. Buddy Merrill - Busy Bee (Popppunktslagið)
21. The Go! Team - Bottle rocket
22. SH Draumur - Öxnadalsheiði

Ef þetta er ekki partí er ekkert til sem heitir partí! Vilji einhver lesenda eintak er Jarlaskáldið meira en til í að framleiða nokkur slík, gegn vægri þóknun sem mun vitaskuld renna óskipt til listamannanna.

Annars er Agureyrishpistill á leiðinni. Eða eins og Helgi Björns sagði í versta jólalagi allra tíma:

Fór í bíó. V for Vendetta. Margt verra til. Og engin mynd versnar við að hafa hana þessa, jafnvel þótt sköllótt sé.

þriðjudagur, mars 21, 2006 

StórafmæliEins og áður segir var liðin helgi svona í meira lagi tíðindarík, og gott ef ekki sú ánægjulegasta á árinu sem er að líða. Um slík ævintýri er vitaskuld bráðnauðsynlegt að rita myndarlega ferðasögu, og það hyggst Jarlaskáldið gera, en líkt og Róm var ekki byggð á einum degi gæti það tekið örlítinn tíma, ef vel á að vera. Bíðið ögn, allt að gerast, og klukkan er.

Annars var Jarlaskáldið að ganga frá málum sem ýjað var að hér fyrir skömmu, varðandi sjónvarpskaup. Nú er ljóst að Skáldið verður að kaupa sjónvarp, þar sem það mun ef allt gengur eftir (sem allar líkur eru á) flytja úr Breiðholtinu í maíbyrjun eftir ríflega 28 ára veru þar og hefja búskap í Árbænum ásamt kvendi einu sem fylgir með í kaupunum og mun einkum sinna hreingerningarstörfum og matargerð. Á að vísu eftir að tilkynna frúnni það...

Þau tíðindi blikna þó algerlega í samanburði við stóratburði dagsins. Daman á myndinni hér að ofan er nefnilega eins árs í dag, en þetta er einmitt hún Þórey Hildur, frænka Jarlaskáldsins með meiru. Er henni að sjálfsögðu óskað innilega til hamingju með daginn.

Stebbi varð svo þrítugur á sunnudaginn. Svona leit hann út á síðasta degi þrítugsaldursins. Þarf að segja meira?

mánudagur, mars 20, 2006 

Rokk og rólSumar helgar eru góðar, sumar vondar, enn aðrar einhvers staðar mitt á milli. Þetta var góð helgi.

laugardagur, mars 11, 2006 

Snjókall


fimmtudagur, mars 09, 2006 

Rík afdrif

Jarlaskáldið gerði ekki mikið í dag. Eitt gerði það þó sem gæti átt eftir að hafa miklar afleiðingar. Jafnvel einhverjar hinar mestu í seinni tíð.

Já, þetta er í ansi miklum véfréttarstíl.

Svona til að gefa lesendum einhverja hugmynd, þá er mögulegt að Jarlaskáldið þurfi að fara að fjárfesta í sjónvarpi...

miðvikudagur, mars 08, 2006 

The Filth and the FuryÞað er eiginlega bara óhætt að segja að undanfarin vika og jafnvel rúmlega það hafi verið svona tiltölulega viðburðarík, allavega ef miðað er við ládeyðu þá er ríkt hefur undarfarnar vikur, ef ekki mánuði. Ólíkt því hvernig Jarlaskáldið les dagblöð skal byrjað hér á byrjuninni.

Laugardaginn 25. febrúar var Skáldið með árrisulla móti, bæði fór Skáldið tiltölulega snemma í háttinn kveldið áður enda búið að eyða deginum að mestu í þrif á Lilla (sem reyndist meira verk en ekki neitt) og eftir því syfjað, auk þess sem Kjartan hafði boðað komu sína í fyrra fallinu og var meiningin að kíkja í sumarbústað sem aumingjabloggarinn og frú höfðu boðið til. Kjartan mætti á umsömdum tíma og með honum í för Lárus Ármann. Ekki ætlar Jarlaskáldið að fara neitt sérlega ítarlega í það sem þar fór fram, þetta var hin ágætasta tilbreyting, sumir bústaðargesta voru ekki mjög háir í loftinu og stemmningin því kannski heldur rólegri en oft áður, þó að vissulega yrðu menn nokkuð hressir í pottinum þegar líða tók á kvöldið. Playstation-tölva, afruglari, DVD og vídeó í bústaðnum, þannig að það má alveg skoða það að leigja hann aftur síðar og liggja í algerri leti eins og eina helgi.

Ekki fer miklum sögum af síðustu dögum febrúarmánaðar, en draga tók til tíðinda á þeim mikla hátíðisdegi sem er fyrsti dagur marsmánaðar. Dag þann mætti Jarlaskáldið til vinnu sinnar á DV og sinnti störfum sínum af þeirri alúð og fagmennsku sem það er þekkt fyrir (yeah right), en þegar störfum þess var lokið það kvöldið um níuleytið tók það hatt sinn og staf (eða bakpoka sinn og flíspeysu, þar eð það notast hvorki við hatt né staf) og kvaddi þann vinnustað í bili (Það bil átti að vísu eftir að verða stutt, en víkjum að því síðar).
Morguninn eftir kom Jarlaskáldið svo aftur heim í heiðardalinn ef svo mætti segja, þegar það hóf störf að nýju hjá Stöð 2. Var Skáldinu tekið með kostum og kynjum eftir sex mánaða fjarveruna, og úthlutuð ágæt vinnuaðstaða, sem felst fyrst og fremst í því að Skáldið getur nú sett fætur upp á borð og hallað sér aftur á meðan það "vinnur". Þannig ættu allar vinnur að vera.
Ekki gekk þó fyrsti vinnudagurinn þrautalaust fyrir sig. Um fjögurleytið byrjaði hávær brunabjalla að hringja án afláts, en vitaskuld datt ekki nokkrum manni á deildinni í hug að hreyfa sig, í mesta lagi bölvaði þessum bannsetta hávaða. Einhverjum mínútum síðar fann Skáldið svo megna reykjarfýlu og fann fljótt út að hún kom inn um gluggann. Þegar það svo dró gardínurnar upp blasti við svartur reykjarmökkur og fólk að flýja út um dyr og glugga. Jarlaskáldið ákvað þó að halda sig innandyra (enda afar óíslenskt að flýja af hólmi, auk þess sem reykurinn kom úr öðru húsi), lokaði gluggunum, og fylgdist svo með slökkviliðinu koma til þess að ráða niðurlögum eldsins, sem reyndist víst ekki gríðarlegur. Þetta dugði þó til að maður slapp klukkutíma fyrr heim úr vinnunni, fátt er svo með öllu illt...Nokkru fyrr í þessum pistli minntist Jarlaskáldið á að brottför þess af DV "í bili" hefði ekki verið langt bil. Stutt var það, strax á föstudagsmorguninn mátti það eyða þremur tímum þar í afleysingum, sem og á þriðjudagskvöldið síðasta. Munurinn? Nú er þetta yfirvinna. Sem er gott. Annars er Jarlaskáldið alkomið á Stöð 2, í það minnsta næsta misserið, og það er engum hollt að skipuleggja lengra fram í tímann. Kannski skynsamlegt, en þeir vita sem fylgst hafa með að Jarlaskáldið og skynsemi, tja, ekki alltaf í sama liði...

Um helgina fór Jarlaskáldið upp í Hrafntinnusker og víðar í þvílíkri bongóblíðu og færi að það man vart annað eins. Stefán Twist var eitthvað að hóta því að skrifa pistil um förina á VÍN-bloggið, og skulu honum gefnir nokkrir dagar til þess enn, áður en Skáldið tekur til sinna ráða. Skáldið sá hins vegar um að taka myndir, sem og Toggi, og myndir segja oft meira en mörg orð. Til að valda ekki lesendum hugarvíli ber að taka fram að við áttum engan heiður af þessu:Eitthvað meira? Já, ekki er annað hægt en að svara Urðarkettinum sem sér ástæðu til þess í nýlegum pistli að agnúast enn og aftur út í matarvenjur Jarlaskáldsins, sem það einmitt ritaði eilítið um fyrir skemmstu. Til þess að setja þessa gagnrýni Urðarkattarins í samhengi má benda á að þegar hann var enn bara venjulegur köttur ritaði hann þennan pistil þar sem hann fór ófögrum orðum um KFC, og þá um leið Jarlaskáldið. Þarf fleiri vitnanna við? Menn sem eru svo illa upp aldir að kunna ekki að meta þá kórónu sköpunarverksins sem KFC er ættu ekkert að vera að setja sig í dómarasæti. Jarlaskáldið lýsir andstyggð sinni á þessum málflutningi, um leið og það býður Urðarkettinum að hitta sig á KFC-stað að hans vali þar sem það mun leiða hann í allan sannleika um ágætið. Engir tómatar í boði, en annars er Skáldið tilbúið að splæsa.

Eitthvað á döfinni? Árshátíð um helgina. Hver veit?

laugardagur, mars 04, 2006 

SkeriðJarlaskáldið ætlar út úr bænum um helgina. Kominn andskotans tími til. Hrafntinnusker er víst áfangastaðurinn, og farartækið sést hér að ofan. Gæti orðið gott grín...

fimmtudagur, mars 02, 2006 

Bruni BB

Alltaf stuð í vinnunni. Funheit stemmning!

miðvikudagur, mars 01, 2006 

Hann á ammæli í dag...
Til hamingju með daginn!

Jarlaskáldið fékk sér saltkjöt í kvöld. Það var að vísu örbylgjuhitað, en engu að síður prýðilegt. Það er kannski ekki fréttnæmt að Skáldið hafi fengið sér saltkjöt í kvöld, er víst ekki sérlega óalgengt hér á klakanum á þessum ákveðna degi, en engu að síður nokkur nýbreytni, þar eð Skáldið er frekar nýlega byrjað að borða saltkjöt aftur eftir ansi mörg ár. Ekki man Skáldið af hverju það hætti að éta saltkjöt á sínum tíma, líklega hefur það verið á svipuðum tíma og því hætti að finnast blóðmör hreinasta sælgæti, eflaust hefur það haft eitthvað að gera með fituinnihald í bland við almennan gikkshátt. Jarlaskáldið var nefnilega alveg einstaklega matvant þegar það var yngra, þær voru eiginlega teljandi á fingrum annarrar handar matartegundirnar sem það kunni að meta þegar verst lét. Vart þarf að nefna að þær voru fæstar hollustumegin í mataræðinu.

Einhvern tímann þegar Skáldið fór svo að komast til vits og ára fór það hægt og sígandi að smakka hitt og þetta sem það hafði áður dæmt óhæft til manneldis og komst oftar en ekki að því að álit þess var ekki á góðum rökum reist. Bara svo eitthvað sé nefnt þá sneiddi Jarlaskáldið nær algerlega fram hjá grænmeti og ávöxtum en hefur tekið það mestallt í sátt, fyrir utan auðvitað tómata, sem eru alveg ótrúlega vondir miðað við hvað tómatsósa getur bætt margan mat. Verst er þó hvað þeir eitra út frá sér ef þeir eru t.d. settir í salat eða ofan á borgara. Enn í dag er Jarlaskáldið að uppgötva nýjan mat sem því hefði aldrei dottið í hug að væri góður. Bara sem dæmi má nefna að eitt mesta lostæti sem Jarlaskáldið veit um, grillaður humar, hefði það sennilega aldrei látið inn fyrir sínar varir fyrir svona fimm árum. Að vísu má geta þess að grillaður humar var ekki sérlega oft á boðstólum þegar Jarlaskáldið var að vaxa upp, einhverra hluta vegna...

Þrátt fyrir miklar framfarir er enn ýmislegt sem Jarlaskáldið getur engan veginn borðað. Fyrir utan tómatana má meðal annars nefna rjóma, ólífur og hnetur, en þó ósköp fátt sem getur talist furðulegt. Og þrátt fyrir að Jarlaskáldið geti þegar svo ber undir látið duga brauð með osti og skyrdós myndi það alltaf velja djúsí börger ef hvort tveggja væri í boði. Líka fyrir hádegi...

Þess má að lokum geta að fyrst þegar Jarlaskáldið byrjaði að fikta við brennivín fannst því bjór algerlega ódrekkandi. Batnandi mönnum er best að lifa!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates