« Home | Skerið » | Bruni BB » | Hann á ammæli í dag... » | Sumarbústaður » | Að sleikja menn » | Steelheart rúlar » | Carles Puyol » | Ch-ch-changes... » | Bjáni » | Barcelona » 

miðvikudagur, mars 08, 2006 

The Filth and the Fury



Það er eiginlega bara óhætt að segja að undanfarin vika og jafnvel rúmlega það hafi verið svona tiltölulega viðburðarík, allavega ef miðað er við ládeyðu þá er ríkt hefur undarfarnar vikur, ef ekki mánuði. Ólíkt því hvernig Jarlaskáldið les dagblöð skal byrjað hér á byrjuninni.

Laugardaginn 25. febrúar var Skáldið með árrisulla móti, bæði fór Skáldið tiltölulega snemma í háttinn kveldið áður enda búið að eyða deginum að mestu í þrif á Lilla (sem reyndist meira verk en ekki neitt) og eftir því syfjað, auk þess sem Kjartan hafði boðað komu sína í fyrra fallinu og var meiningin að kíkja í sumarbústað sem aumingjabloggarinn og frú höfðu boðið til. Kjartan mætti á umsömdum tíma og með honum í för Lárus Ármann. Ekki ætlar Jarlaskáldið að fara neitt sérlega ítarlega í það sem þar fór fram, þetta var hin ágætasta tilbreyting, sumir bústaðargesta voru ekki mjög háir í loftinu og stemmningin því kannski heldur rólegri en oft áður, þó að vissulega yrðu menn nokkuð hressir í pottinum þegar líða tók á kvöldið. Playstation-tölva, afruglari, DVD og vídeó í bústaðnum, þannig að það má alveg skoða það að leigja hann aftur síðar og liggja í algerri leti eins og eina helgi.

Ekki fer miklum sögum af síðustu dögum febrúarmánaðar, en draga tók til tíðinda á þeim mikla hátíðisdegi sem er fyrsti dagur marsmánaðar. Dag þann mætti Jarlaskáldið til vinnu sinnar á DV og sinnti störfum sínum af þeirri alúð og fagmennsku sem það er þekkt fyrir (yeah right), en þegar störfum þess var lokið það kvöldið um níuleytið tók það hatt sinn og staf (eða bakpoka sinn og flíspeysu, þar eð það notast hvorki við hatt né staf) og kvaddi þann vinnustað í bili (Það bil átti að vísu eftir að verða stutt, en víkjum að því síðar).
Morguninn eftir kom Jarlaskáldið svo aftur heim í heiðardalinn ef svo mætti segja, þegar það hóf störf að nýju hjá Stöð 2. Var Skáldinu tekið með kostum og kynjum eftir sex mánaða fjarveruna, og úthlutuð ágæt vinnuaðstaða, sem felst fyrst og fremst í því að Skáldið getur nú sett fætur upp á borð og hallað sér aftur á meðan það "vinnur". Þannig ættu allar vinnur að vera.
Ekki gekk þó fyrsti vinnudagurinn þrautalaust fyrir sig. Um fjögurleytið byrjaði hávær brunabjalla að hringja án afláts, en vitaskuld datt ekki nokkrum manni á deildinni í hug að hreyfa sig, í mesta lagi bölvaði þessum bannsetta hávaða. Einhverjum mínútum síðar fann Skáldið svo megna reykjarfýlu og fann fljótt út að hún kom inn um gluggann. Þegar það svo dró gardínurnar upp blasti við svartur reykjarmökkur og fólk að flýja út um dyr og glugga. Jarlaskáldið ákvað þó að halda sig innandyra (enda afar óíslenskt að flýja af hólmi, auk þess sem reykurinn kom úr öðru húsi), lokaði gluggunum, og fylgdist svo með slökkviliðinu koma til þess að ráða niðurlögum eldsins, sem reyndist víst ekki gríðarlegur. Þetta dugði þó til að maður slapp klukkutíma fyrr heim úr vinnunni, fátt er svo með öllu illt...



Nokkru fyrr í þessum pistli minntist Jarlaskáldið á að brottför þess af DV "í bili" hefði ekki verið langt bil. Stutt var það, strax á föstudagsmorguninn mátti það eyða þremur tímum þar í afleysingum, sem og á þriðjudagskvöldið síðasta. Munurinn? Nú er þetta yfirvinna. Sem er gott. Annars er Jarlaskáldið alkomið á Stöð 2, í það minnsta næsta misserið, og það er engum hollt að skipuleggja lengra fram í tímann. Kannski skynsamlegt, en þeir vita sem fylgst hafa með að Jarlaskáldið og skynsemi, tja, ekki alltaf í sama liði...

Um helgina fór Jarlaskáldið upp í Hrafntinnusker og víðar í þvílíkri bongóblíðu og færi að það man vart annað eins. Stefán Twist var eitthvað að hóta því að skrifa pistil um förina á VÍN-bloggið, og skulu honum gefnir nokkrir dagar til þess enn, áður en Skáldið tekur til sinna ráða. Skáldið sá hins vegar um að taka myndir, sem og Toggi, og myndir segja oft meira en mörg orð. Til að valda ekki lesendum hugarvíli ber að taka fram að við áttum engan heiður af þessu:



Eitthvað meira? Já, ekki er annað hægt en að svara Urðarkettinum sem sér ástæðu til þess í nýlegum pistli að agnúast enn og aftur út í matarvenjur Jarlaskáldsins, sem það einmitt ritaði eilítið um fyrir skemmstu. Til þess að setja þessa gagnrýni Urðarkattarins í samhengi má benda á að þegar hann var enn bara venjulegur köttur ritaði hann þennan pistil þar sem hann fór ófögrum orðum um KFC, og þá um leið Jarlaskáldið. Þarf fleiri vitnanna við? Menn sem eru svo illa upp aldir að kunna ekki að meta þá kórónu sköpunarverksins sem KFC er ættu ekkert að vera að setja sig í dómarasæti. Jarlaskáldið lýsir andstyggð sinni á þessum málflutningi, um leið og það býður Urðarkettinum að hitta sig á KFC-stað að hans vali þar sem það mun leiða hann í allan sannleika um ágætið. Engir tómatar í boði, en annars er Skáldið tilbúið að splæsa.

Eitthvað á döfinni? Árshátíð um helgina. Hver veit?

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates