mánudagur, september 27, 2004 

Það hlaut að koma að því

Loksins!

fimmtudagur, september 23, 2004 

Tuð

Það er svo frábært við fimmtudaga að næst á eftir þeim koma föstudagar, sem væru bestu dagar vikunnar ef engir væru laugardagarnir. Þetta er mikil speki.

Á morgun er einmitt föstudagur. Um daginn var síðan bíllaus dagur, enda sást hvergi bíll á götunum þá, nema auðvitað Lilli. Ekki fer maður að labba. Annars leggur Jarlaskáldið til að bíllaus dagur verði haldinn á sunnudegi um verslunarmannahelgi. Nokkuð ljóst að Skáldið keyrir lítið þann daginn.

Jamm, föstudagur á morgun, og Skáldið þykist ætla út úr bænum. Enn er allsendis óljóst hvort einhver ætlar með því, jú, einhverjir 3-4 þykjast ætla með, væntanlega mikið að gera í hellulögninni hjá öðrum. Líklega endar maður í Mörkinni, þar er gott að vera.

Dengsi á ammili í dag, 27 ára. Til hamingju! Skáldið missir víst af veislunni, sem er leitt. Ojæja, maður getur ekki verið alls staðar.

Skáldið var að fá nýja græju, þráðlaust net. Eflaust hið mesta þarfaþing, en gerir ekki mikið fyrir mann núna annað en að blikka í sífellu grænu ljósi. Og það tveimur!

Fimmtudagar eru orðnir góð sjónvarpskvöld aftur, enda Scrubs og Malcolm mættir á svæðið þó þeir skarist aðeins í tíma. Það þarf að laga. Svo má alveg horfa á feita gæjann með flottu konunni (úbbs, þetta var ekki nógu lýsandi, helmingur amerískra sitcom þátta er með sama plott) og hommaþáttinn, þar sem Skáldið hefur aldrei komist inn í þessa Alias-aðdáun sem hrjáir marga.

Einhverjir voru að væla yfir að vera lentir í Dauðraríkinu hérna vinstra megin. Reglan er einföld: Ekkert blogg í mánuð, og þér er stútað!

Jarlaskáldið hefur að lokum ákveðið að spila ekki Halldór Ásgrímsson lagið á næstunni. Þvílíka erkifíflið sem þessi maður er!

"Ég vil ekkert tala um það, nú er tími til að líta fram á veginn..."

Bjáni.

mánudagur, september 20, 2004 

Bissí

Búið að vera allt of mikið að gera síðustu vikuna í annars tilbreytingarsnauðu lífi Jarlaskáldsins, unnið 10-12 tíma á dag alla síðustu viku og m.a.s. á laugardaginn líka. Ekki hvítum mönnum bjóðandi þessi andskoti! Þrátt fyrir annríkið hefur Skáldinu þó tekist að afreka eitt og annað sem ekki tengist vinnunni síðan til þess spurðist síðast. Fátt frumlegt þó.

Það er a.m.k. óþarfi að fjölyrða um viðburði fram á föstudag, þeir voru engir. Ja, reyndar ekki á föstudaginn heldur, Skáldið hékk bara heima og gerði ekki baun. Af sem áður var. Á laugardaginn dró síðan aðeins til tíðinda. Skáldið mætti til vinnu sem fyrr segir og skemmti sér vitanlega gríðarlega þar. Um þrjúleytið kvaddi það síðan og sótti Stebbaling, þar sem við Stubbarnir höfðum ákveðið að rölta upp á eins og eitt stykki fjall. Þar sem við höfum ekki stundað aðra hreyfingu en skálaglamm undanfarna mánuði var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var hæstur, heldur fundið minnsta fjall í nágrenni Reykjavíkur sem telst þó vera fjall, Helgafell, 340 metra hátt. Þangað komumst við upp á ágætum tíma móðir og másandi, enda var farin stysta leið upp en ekkert endilega sú auðveldasta, auk þess sem menn hafa nú líklega oft verið í betra formi. Drifum við okkur svo niður til þess að týnast ekki í myrkri eins og menn eiga víst til, vorum reyndar með gemsana til að lýsa okkur leið ef illa færi.
Eftir þessa frægðarför þótti okkur fyllsta ástæða til að verðlauna okkur með smá gleðskap um kvöldið og fékkst Andrésson til að halda smá teiti í Jöklafoldinni um kvöldið í því skyni. Þangað mættu auk fjallgöngugarpa Toggi og frú, Gústi og síðla kvölds Eyfi. Blöndudalur var hins vegar hvergi sjáanlegur, var víst "vant við látinn". Þetta kallar maður nú bara að segja sig úr lögum við samfélag siðaðra manna. Ojæja.
Það var sosum ekki frumleg dagskrá þetta kvöldið, setið og spjallað um jeppa og skytterí fram eftir kvöldi og svo héldu karlmennirnir í hópnum niður í bæ og á kunnuglegar slóðir, jarajarajara...

Sunnudagur. Skáldið bara nokkuð hresst þegar það reis á fætur, og hélt upp á það með sunnudagsbíltúr um Suðurland með viðkomu á KFC að sjálfsögðu. Um kvöldið var svo komið að löngu skipulögðum viðburði, ferð Stubbanna í kvikmyndahús á myndina Anchorman með snillanum Will Ferrell. Og mikil snilld var hún og stórfengleg, fullkomlega vitlaus og í alla staði æðisleg, og það sem maður hefði ekki búist við, það var einn fyndnari en Ferrell. Steve Carell í hlutverki Brick Tamland er sennilega einhver fyndnasta persóna sem Skáldið hefur séð ANSI lengi. Maður á eftir að "quota" þennan kappa lengi. Og Jack Black á góða innkomu svo ekki sé meira sagt.

Í gær voru 6 mánuðir í Ítalíuför. Það þýðir að í dag er byrjað að halla niður á móti. Júhú!

þriðjudagur, september 14, 2004 

Ekki er kyn þótt keraldið leki...

Skáldið var norður í Borgarfirði um helgina. Og víðar. Frá því er saga að segja.

Allra fyrst ber þó að segja frá merkisviðburðum föstudagskvölds. Þá hélt Jarlaskáldið vopnað tveimur myndbandsspólum upp í Logafold og hitti þar fyrir húsráðanda yfirgefinn af forráðamönnum sínum. Á myndbandsspólum þessum voru gersemar miklar, komplett Radíusþættir frá árinu 1995, og var glápt á þá við mikla kátínu fram eftir kvöldi uns Skáldið hélt aftur heimleiðis eigi svo síðla nætur.

Skáldið fór svo á fætur um hádegisbil á laugardag og stóð þá nokkuð til: menningarreisa með vinnunni um Borgarfjörð og nágrenni. Var lagt af stað upp úr tvö með langferðabíl og voru sumir aðeins búnir að hita upp áður en að því kom. Eins og þess hefði verið þörf. Skáldið fékk sér sæti með öftustu mönnum og hugðist fara sér að engu óðslega þó nóg væri af brennivíninu í boði vinnunnar. Þær fyrirætlanir virtust reyndar í byrjun ætla að fara út í veður og vind því sessunautur Jarlaskáldsins, strangtrúaður múslími og þar af leiðandi lítill drykkjumaður, hirti öldós í hvert skipti sem þeim var dreift og ætlaði Jarlaskáldinu. Þrátt fyrir það tókst Skáldinu að hafa hemil á sér, svona að mestu.
Lá leið vor fyrst upp í Kjós að sækja einhvern jóa sem "gladdi" ferðalanga þaðan í frá með merkri fararstjórn sinni. Bar svo ekki mikið til tíðinda fyrr en stoppað var á Hvanneyri, og voru einhverjir þá orðnir glaðir. Þar voru ferðalangar leiddir í allan sannleik um starfsemina á staðnum, og að því loknu brugðið á leik þar sem lið Jarlaskáldsins bar vitanlega sigur úr býtum, þrátt fyrir að Skáldið hafi ekki gegnt öðru hlutverki en því að hvetja menn til dáða. Stórmerkilegt. Var Hvanneyri svo kvödd og haldið sem leið lá inn í Skorradal, yfir Geldingadragann og inn í Svínadal þar sem áð var á einhverri sveitabúllunni og boðið í steik. Sem var barasta fín, þó ekki eins góð og sveppasúpan í forrréttnum, og allt var þetta gratís sem er ekki verra. Að loknu borðhaldi var loks haldið í bæinn, var klukkan þá farin að ganga í tíu og allmargir orðnir helsti glaðir. Stóð Jarlaskáldið ásamt öðrum fyrir fjöldasöng á heimleiðinni, og sem fyrr nutu auglýsingalögin mikilllar hylli, en í hjáverkum stóð Skáldið í ströngu við að hafa hemil á ástleitnum útlendingi sem ekki hafði erindi sem erfiði í tilburðum sínum við þá fáu kvenmenn sem með í för voru og tók því illa, giftur maðurinn. Sinn er siðurinn í landi hverju.
Í bæinn var lent um ellefuleytið og héldu þá þeir sem enn voru með lífsmarki niður á Skúlagötu hvar Biggi nokkur bauð til veislu. Einhverjir héldu þar á vit drauma sinna, en ekki Jarlaskáldið, ónei, það var hressast manna enda merkilega lítt runnið ofan í það og sá það um að dídjeia, var gerður nokkuð góður rómur að lagavali þess þó einn maður vildi bara heyra ZZ Top. Ekki hægt að gera öllum til hæfis.
Eftir nokkra viðdvöl í teiti þessari héldu þeir sem enn drógu andann í bæinn, og á leiðinni stóð Jarlaskáldið fyrir kennslu í fasteignaklifri upp á Utanríkisráðuneytið, svona áður en Dabbi mætir á svæðið. Þegar Jarlaskáldið nálgaðist síðan heimavöllinn kvaddi það ekki samferðamenn sína og hélt í röðina góðu. Þar hitti það fljótlega þá Boga og Loga og var glaumur og gleði að vanda þegar inn var komið. Svo Nonni og heim, fastir liðir eins og venjulega.

Á sunnudaginn vaknaði Jarlaskáldið aftur í kringum hádegi og var alveg merkilega hresst miðað við árstíma. Verkefni dagsins var að rúlla upp á Hvanneyri (aftur) þar sem hjónaleysin Hrafnhildur og Elvar fögnuðu ársafmæli frumburðarins. Blöndudalur þóttist of upptekinn til að koma með og ekki nennti Skáldið að fara þetta eitt svo það hafði samband við tvíburann sem var alveg til í smá rúnt. Á Hvanneyri vorum við komnir í kringum þrjú og fengum höfðinglegar móttökur þrátt fyrir að vera ekki par með barn eins og ALLIR aðrir gestir. Svo var étið á sig gat, horft á Bond og bolta og talað um bolta og svo horfið á braut á sjötta tímanum og vill Jarlaskáldið nota tækifærið og þakka aftur fyrir sig og tvíbbann. Til að gera síðan smá rúnt úr þessu og reyna nýju demparana á Lilla voru farnir Uxahryggirnir heim og er skemmst frá því að segja að jafnt Lilli sem farþegar hans skemmtu sér prýðilega á þeirri leið. Lambalæri þegar heim var komið, ekki amaleg helgi þetta hvað magann varðar!

Fleira var það ekki að sinni, jú, til hamingju með morgundaginn 15. september!

föstudagur, september 10, 2004 

Lilli og frægi kallinn


Í dag gerðust góðir hlutir. Lilli fékk heilsuna að nýju. Húrra fyrir því!


Forsaga málsins er sú að Lilli fór að kvarta undan eymslum í hægri afturdempara fyrir nokkrum mánuðum og nú í byrjun ágúst gaf hann sig endanlega. Voru þá góð ráð dýr, eða sem nemur 13.000 krónum, sem var verð á tveimur nýjum dempurum í Stillingu. Tókum við Stefán okkur síðan til eina kvöldstund og ætluðum að skipta um græjurnar. En ekki gekk það alveg, framlengingarnar af gömlu dempurunum pössuðu ekki á þá nýju og voru þar að auki nær ónýtar svo það þurfti að kaupa nýjar framlengingar. Rúntaði því Skáldið um allan bæinn hoppandi og skoppandi á Lilla í leit að nýjum framlengingum en hvergi voru þær til. Í Bílabúð Benna fengust þær síðan loks fyrir nokkrum dögum en hvað haldið þið, þær pössuðu ekki heldur! Ljóta vesenið. Braut Skáldið lengi heilann um hvernig hægt væri að leysa málið og eftir að hafa ráðfært sig við sér fróðari menn leitaði það í gær á náðir Sigþórs vélsmiðs sem snittaði draslið saman og tók ekkert fyrir það. Sem er gott. Í kvöld tókst okkur Stebba svo í annarri tilraun að koma nýju dempurunum undir og sko til, Lilli er hress sem aldrei fyrr og hlær að hraðahindrunum og öðrum torfærum er verða á vegi hans. Júhú!


Þessu bar að fagna. Var því farið á Lillanum niður í bæ og rúntað um og stutt pils skoðuð, án undantekninga voru stuttu pilsin á röngum einstaklingum. Var Lilla svo lagt við Hæstarétt og ákveðið að skima eftir öldurhúsi. Á leit vorri mættum við blökkumanni. Hann er frægur. Kom okkur samt mest á óvart hvað hann var venjulegur.
Við enduðum svo á Ara í Ögri og fengum okkur nachos, litum við á heimavellinum örstutta stund og svo ekki meir. Skáldið á síðan eftir að horfa á Scrubs frá því í kvöld, það tók þáttinn nefnilega upp. Scrubs er snilld!

sunnudagur, september 05, 2004 

Að nenna að blogga


Stundum bara nennir maður ekki að blogga. Síðasta vika var þannig. Ekki var maður svo rosalega upptekinn, ónei, Skáldið lá með tærnar upp í loft stóran hluta vikunnar og lá í öðrum stellingum flestar aðrar stundir. Þó ekki allar, og frá því má e.t.v. segja.
Síðustu helgina í ágúst brá Jarlaskáldið sér í bústað. Það var mikil ferð og frækin og hefur félagi Stefán ritað um hana ágætis pistil svo Skáldið nennir ekki að eyða mikið fleiri orðum í hana. Eins og lesendur hafa líkast til tekið eftir voru teknar ófáar myndir þar, enda síðasti séns að myndablogga áður en farið var að rukka fyrir það. Má því búast við að myndum muni fækka allverulega á síðu þessari á næstunni.
Ekki kom Jarlaskáldið óslasað heim úr ferð þessari, heldur skartaði allglæsilegri skeinu niður eftir öllu bakinu eftir fullnáin kynni þess við skóglendi Borgarfjarðar. Af þeim sökum var Skáldið ekki sérlega aktíft fyrri part síðustu viku, lá bara heima við meðan sárin greru og undi hag sínum bara bærilega miðað við aðstæður. Reyndar var Skáldið ekki heldur sérlega duglegt seinni part vikunnar, t.d. sat það barasta heima við á föstudagskvöldið og gerði barasta ekki baun. Varla tók síðan betra við daginn eftir, unnið frá morgni fram að landsleik, horft á Íslendinga skíta í brók í fótbolta og síðan etið. Um kvöldið þótti Skáldinu svo nóg komið af aðgerðaleysi, og kynnu einhverjir lesendur nú að giska á að sagan endi á Hverfisbarnum.
Öðru nær. Jarlaskáldið lagðist í víking ásamt þeim Vigni og Stefáni á Papasan hins síðastnefnda og var stefnan tekin suður til Keflavíkur. Venjulega þegar maður fer þangað er maður á leið til útlanda en ekki var það svo gott að þessu sinni, því ætlunin var eingöngu sú að athuga hvernig dreifbýlisfólk skemmtir sér á Ljósanótt. Til Keflavíkur vorum við komnir klukkan 22.05 og eltum Árna Johnsen út að höfn þar sem okkur mætti alveg bærileg flugeldasýning. Að henni lokinni röltum við aðeins um pleisið en höfðum samt varann á því heimamenn eru víst þekktir fyrir að heilsa aðkomumönnum með bjórglasi í hausinn. Náðum við m.a.s. að hitta einn Ítalíufara sem við þekktum og voru það ágætis endurfundir. Héldum við síðan heimleiðis. Stutt heimsókn þetta enda ekki öðru þorandi.
Þegar við vorum svo komnir aftur í siðmenninguna fannst okkur fullsnemmt að leggjast til hvílu svo úr varð að leigja spólu og kaupa allt nammi og snakk í heiminum til að éta með glápinu. Sáum Hebba Gumm í 10-11 og mælti Vignir þá svo allir heyrðu hin fleygu orð „You can't walk away without your klósettpappír!“ Skal ósagt látið hve fyndin Hebbanum þóttu orðin fleygu.
Eins og okkar er von og vísa var tekin mynd þar sem okkur var lofað lesbískum ástaratriðum með Charlize Theron og Christinu Ricci og hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar þar en boj, ó boj, þvílíkt svindl! Þetta var bara sori og viðbjóður. Monster hét ræman og eftir að við höfðum náð okkur eftir vonbrigðin með lesbíska kynlífið kom í ljós að þar var fínasta mynd á ferðinni og pínu nostalgísk í tilfelli Stefáns enda eyddi hann námsárum sínum á söguslóðum hennar. Alveg 73 stjörnu mynd.
Í dag fór Skáldið á KFC. Ekki mikið meira gert en það, enda feykinóg á sunnudegi.


Það er fyrirséð að það verði eitthvað minna um skemmtanahald og vitleysisgang á næstunni en verið hefur undanfarið, og líkast til er það hið besta mál. Næsti skipulagði viðburður í skemmtanalífi Skáldsins er eftir litla 195 daga, Ítalíuferð part 3, en þó má gera ráð fyrir að menn kíki út á lífið svona tvisvar, þrisvar áður en að því kemur. Ef maður nennir.

fimmtudagur, september 02, 2004 

Leiðindi

Er eitthvað leiðinlegra en september? Já, hugsanlega október, og ef ekki hann, þá nóvember.

Aldeilis að menn eru að rifna úr gleði!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates