fimmtudagur, október 27, 2005 

Hveravallammili



Mjög erum tregt, tungu að hræra, og silfurbláan Eyjafjallatind, eða hvernig sem það aftur hljómaði. Jarlaskáldið hefur eitt og annað bardúsað undanfarna daga, þó án þess að leggja niður störf.

Jarlaskáldið reis úr rekkju óvenju- og nær glæpsamlega snemma laugardaginn síðasta, eða um níuleytið. Fyrir því var reyndar harla góð ástæða, það hugðist halda út fyrir bæjarmörkin og reyndist það mikið gæfuspor. Í það minnsta skárra en að hanga í bænum, eða öllu heldur hanga í röð, það virðist hafa verið nokkurn veginn sami hluturinn. Told you so. Um ferð þessa hefur annars Stefán nokkur Twist ritað ágætan og greinargóðan pistil sem finna má hér, auk þess sem Jarlaskáldið skellti ófáum myndum á veraldarvefinn. Fínasta ferð í alla staði og þakkar Jarlaskáldið samferðamönnum fyrir samveruna.

Á mánudaginn var svo stóra stundin, Jarlaskáldið 21 árs, áttunda skiptið í röð. Jarlaskáldið ætlaði sko aldeilis að njóta dagsins, sá fyrir sér að við það yrði stjanað á allan hátt, en hvað haldiði, hálf fokking þjóðin lagði bara niður störf og tók alla athyglina frá Skáldinu! "Til hamingju konur"? Það hefði nú verið gaman ef einhver hefði sagt "Til hamingju Jarlaskáld"! Ónei, það gat étið það sem úti fraus. Þeinks a fokking lott, kellur!

Jarlaskáldið fór reyndar og fékk sér BBQ-svínarif og bjór um kvöldið. Það er karlmannleg máltíð.
Svo fór það á Péturs Pub og spilaði pool. Þar var ekki einn einasta kvenmann að sjá. Péturs Pub er góður staður.

Jarlaskáldið var eitthvað að taka til í bloggaralistanum. Beibsin voru send á Dauðalistann, en aumingjabloggarinn hefur sýnt smálífsmark undanfarið og fékk því þeirra stað. Hann er þó á skilorði.

Fer svo ekki annars að styttast í Sálarball, Svenni?

þriðjudagur, október 25, 2005 

Þakkir

Jarlaskáldið vill senda hugheilar þakkir fyrir góðar kveðjur á ammilisdaginn til Gullu systur, Öldu, Stebba, Haffa, Eddu, Hrafnhildar, Eyfa, Gústa frænda, Mumma, Magga Andrésar, Odda og mömmu. Aðrir geta sogið feitan gölt!

mánudagur, október 24, 2005 

Ammili

Jarlaskáldið á ammili í dag. Í tilefni dagsins ætlar það að halda litla útiveislu í miðbænum milli 14 og 16. Kvenfólk er sérstaklega hvatt til að mæta.

laugardagur, október 22, 2005 

Hveravellir



Jarlaskáldið hefur haft í nógu að sýsla undanfarna viku. Slatti af aukavinnu hjá vondu Baugsmiðlunum, og svo bíða stórskemmtilegar stjórnmálafræðiritgerðir yfirferðar þegar maður kemur heim. En því skyldi Jarlaskáldið vera að leggja þessi leiðindi á sig? Jú, Jarlaskáldinu varð það á fyrir skemmstu að bíta það í sig að nú væri tilvalinn tími til að kaupa sér íbúð (nei, það verður seint sagt að Jarlaskáldið sé með þeim skörpustu í peningamálum). Er Skáldið til dæmis búið að fara á fund við Björgólf og tékka hvort hann sé ekki alveg örugglega til í að lána því pening fyrir eins og einni íbúð, og miðað við fyrstu viðbrögð eru ágætis líkur á að Jarlaskáldið geti keypt sér 30 fermetra kjallaraíbúð á Tálknafirði. Eða Fellunum, það er nokkuð sambærilegt. Í það minnsta er Jarlaskáldið byrjað að líta í kringum sig eftir hentugu húsnæði, kröfurnar eru sosum ekki miklar, þar þarf að vera tengi fyrir sjónvarp og ísskáp og pláss til að koma rúmi fyrir, þá yrði það nokkuð sátt!

Jarlaskáldið ætlar þó að láta allar fasteignahugleiðingar lönd og leið þessa helgina, því eftir ca. 8 tíma þegar þessi orð eru rituð hyggst Skáldið yfirgefa höfuðstaðinn og halda upp á hálendi, nánar tiltekið á Hveravelli og liggja þar í lauginni góðu (sjá mynd að ofan) drykklanga stund, auk þess að éta part af einhverri skepnu grillaðri. Það er allavega skömminni skárra en að bíða í röð eftir að sjá einhverja hljómsveit sem enginn hefur heyrt um, eins og virðist rosalega hipp og kúl þessa helgina. Erveivs mæ ess!

sunnudagur, október 16, 2005 

Brullaup og Trabant



Já, eins og áður var getið var stefnan tekin á brullaup á fimmtudaginn, Trabant á föstudaginn og svo bara eitthvað í gær. Merkilegt nokk rættist plan þetta. Frá því er eilítil saga að segja.

Jarlaskáldið fékk sér barasta frí í vinnunni á fimmtudaginn, og leiddist það sosum ekki, en um hálfsexleytið brá það sér í betri fötin og ók Lilla sínum upp í Elliðaárdal að Félagsheimili Orkuveitunnar, þar sem veisla í tilefni giftingar þeirra Ásu og Manna fór fram. Ekki þekkti Skáldið deili á mörgum þegar það mætti, en smám saman fór fólk að tínast inn og einhverja reyndist Skáldið þekkja. Veisluhaldarar voru ónískir á drykkjarföng þrátt fyrir að dagatalið segði það vera fimmtudag, og ekki síður á matinn sem var hinn prýðilegasti. Var veislan með fremur óformlegum brag, sem er jafnan til bóta og reyndist einnig vera það þarna. Var Jarlaskáldinu ásamt þeim Odda, Kjarra og Ása fengið það hlutverk að flytja ræðu um Ármann, og þótt Skáldið segi sjálft frá tókst það bara bærilega, a.m.k. vorum við ekki tjargaðir og fiðraðir að ræðu lokinni. Annars leystist þetta síðan bara upp í netta partístemmningu og urðu margir glaðir og sumir jafnvel enn glaðari, en Jarlaskáldið náði þó að sýna stillingu og varð sér ekki til minnkunar þetta kveldið. Það hélt svo heimleiðis einhverju eftir miðnætti og var Adolf Guðni svo alminilegur að skutla því heim, sem og ónefndum hjónaleysum sem hann hefði kannski betur sleppt eftir á að hyggja. Shit happens.

Föstudaginn byrjaði Jarlaskáldið á að sækja Lilla litla upp í Elliðaárdal, mætti svo til vinnu stundarkorn, fékk þar smálaunahækkun og var ekkert ósátt með það, þó svo að það hefði ekkert verið leiðinlegt að fá doldið meira. Ojæja, maður hefði hvort eð er bara eytt því í vitleysu. Að vinnu lokinni um níuleytið fékk Skáldið sér vænan burger og lagði svo leið sína í Fellahverfið þar sem það fylgdist með húsráðendum baka kökur. Stefán er kenndur er við Twist bættist í hópinn síðar og í kringum miðnætti var hringt á leigubíl til að aka hersingunni niður í bæ. Þegar bíllinn mætti á svæðið reyndist þar enginn annar en Twist eldri á ferð. Skemmtileg tilviljun, og nokkur sparnaður. Fyrst lá leiðin örskotsstund á Apótekið en stuttu síðar á NASA, þar sem glyssveitin Trabant hugðist leika fyrir dansi. Hafði Blöndudalur þá bæst við hópinn, þrátt fyrir að hafa ítrekað lýst andúð sinni á téðri sveit. Er hann enda kjáni með vondan tónlistarsmekk.
Á NASA voru einhverjir færeyskir pönkarar að spila þegar okkur bar að garði, eða eitthvað í þá áttina. Ekki alveg okkar tebolli, svo maður hallaði sér bara að ölinu á meðan, og heilsaði upp á þá sem maður þekkti, sem voru ófáir. Þegar þeir færeysku hypjuðu sig af sviðinu tók við nokkur bið eins og lög virðast gera ráð fyrir þótt enginn viti hvers vegna. Að lokum mættu svo Trabantar á svið og höfðu þá Jarlaskáldið og Adolf troðið sér upp við sviðið og fóru ekki þaðan það sem eftir lifði. Trabantar sviku ekki, voru að vísu dálítið gjarnir á að hella freyðivíni yfir þá sem fremst stóðu (okkur) en engu að síður hinir hressustu. Má fylgja sögunni að Blöndudalur fór heim eftir þrjú lög. Kjáni.
Að tónleikum loknum lá leiðin fyrst á Hressó, en þar var stoppið stutt hjá oss Adolfi enda uppgefin eftir troðninginn svo við skelltum oss bara á Nonnann og svo heimleiðis rétt upp úr fjögur. Af öðrum fara litlar sögur, en a.m.k. mun VJ lítið muna eftir kvöldinu, og virðist ætla að ganga illa hjá honum samband Trabants og áfengis. Það er eins og gengur.

Á laugardaginn gerði Jarlaskáldið ekkert. Það er eitthvað.

miðvikudagur, október 12, 2005 

Wedding Crasher



Skáldið hefur sosum ekki frá miklu að segja í þetta skiptið, það gat bara ekki lengur haft myndina af brandarakjúklingunum efst á síðunni, það eru takmörk fyrir öllu. Myndin hér að ofan minnir nú á góða tíma, spurning að endurtaka þetta einhvurn daginn.

Annars er það helst á spaugi að á morgun fer Jarlaskáldið í brúðkaup. Þar er víst gert ráð fyrir að það stígi á stokk og verði sniðugt. Spurning með annað dansnámskeið? Nei, ætli það láti ekki mælt mál duga að þessu sinni.

Á föstudaginn er ráðgert að kynna sér austurþýska bílaframleiðslu. Eða þannig skildi Skáldið það, það á víst að kíkja á Trabant. Það verður eflaust fróðlegt.

Svo er spurning með laugardaginn. Maður hlýtur að finna sér eitthvað að gera.

Varðandi síðustu helgi, þá kemur engin ferðasaga þaðan. Sumt á bara ekki erindi við sómakæra lesendur...

mánudagur, október 10, 2005 

Myndir úr Buffetinu



Ansi hressandi helgi. Sunnudagurinn reyndar ekkert sérstaklega hress, en það fylgir þessu brölti víst. Það er spurning hvort maður eigi að rita einhverja ferðasögu, en í það minnsta eru komnar myndir á netið. Þær ættu að gefa einhverja hugmynd um hvað fór fram. Annars er Skáldið bara farið í háttinn...

miðvikudagur, október 05, 2005 

Nöj, bara kominn október



Fólk er víst bara byrjað að nöldra í kommentunum og krefjast bloggs, maður hefði nú haldið að sumir hefðu nóg að gera við að koma happdrættisvinningum í sláturhúsið og þyrftu ekki að vera með bögg og leiðindi. En hvað um það, eitthvað skal ritað um liðna atburði...

Á fimmtudaginn mætti Jarlaskáldið á enn eina íþróttakeppnina, þar sem Jarlaskáldið keppti einn leik í pool og vann sigur. Afar sannfærandi, að eigin mati. Afgerandi úrslit fengust þó ekki í íþróttakeppni þessari, það bíður bara betri tíma. Við sama tækifæri var keyptur miði á dansiball. Að því verður vikið síðar.

Á föstudaginn mætti Skáldið til vinnu sinnar klukkan fjögur og var þar fram til níu, með stuttu hléi þó þegar Skáldið skrapp í 75 ára ammili ömmu sinnar, og hitti þar fyrir ósköpin öll af ættingjum sem það kunni engin deili á og m.a.s. einn frænda sem er svo til glænýr. Þrátt fyrir að vera 29 ára gamall. Hann var annars að kaupa íbúð, og óskar Skáldið honum til hamingju með það, um leið og það vekur athygli á því að boðskortið í innflutningspartíið hlýtur að hafa týnst í pósti.
Eftir vinnu lá svo leiðin í Kópavoginn með smáviðkomu í Grafarvogi, en þar bauð Svenni til veislu. Bölvaður melurinn hafði keypt býsnin öll af bjór og bauð upp á, með afar fyrirsjáanlegum afleiðingum. Einhvern tímann eftir miðnætti hrundi hersingin út um dyrnar og komst einhvern veginn á Players þar sem (enn og aftur) Sálin hans Jóns míns lék fyrir dansi. Gaman væri ef maður myndi hvort það var gaman...

Laugardagurinn var sem við var að búast fremur þokukenndur svona í byrjun en um leið og hefðbundnum björgunaraðgerðum (KFC) var lokið tók útlitið allt að batna. Jarlaskáldið byrjaði á að líta við hjá Togga sem tók að sér að rífa gamla, handónýta, hundleiðinlega geislaspilarann úr honum Lilla og koma þar í stað fyrir nýjum og hæstmóðins Panasonic-MP3-geislaspilara sem Jarlaskáldið fjárfesti í fyrir skemmstu. Þetta er allt annað líf!
Um kvöldmatarleytið var Jarlaskáldið svo komið í betri klæðin og beið eftir aumingjabloggaranum og fyrrverandi vinnufélaganum Oddbergi ásamt frú, sem mætti vitaskuld allt of seint til að sækja Skáldið, en við því var reyndar að búast að fenginni reynslu. Leiðin lá vestur í bæ og inn í veglegt hús þar sem okkar biðu veglegar kræsingar. Tilefni þess var að vinnan hin fyrrverandi á Stöð 2 ákvað að eyða dósasjóðnum í partí, og þar sem Skáldið taldi sig eiga bróðurpartinn í þeim ágæta sjóði mætti það á staðinn og át nægju sína af keti og meððí. Prýðilegt hreint út sagt. Annars var Jarlaskáldið með rólegasta móti, var komið heim til sín fyrir miðnætti og glápti þar á bæði Robocop 2 og Rush Hour 2. Þrír tímar sem það fær ekki aftur, en þarf maður ekki að kynnast því slæma til að læra að meta hið góða?

Síðan hefur eðli málsins samkvæmt ekki margt á daga Skáldsins drifið, utan þess að það brá sér í kvikmyndahús á mánudagskveld ásamt Stebba og Dolla og barði augum þá ágætu kvikmynd Fertuga hreina sveininn. Fínasta mynd í alla staði og vel hægt að mæla með henni. Þó er klígjugjörnum, snobbhænum sem og húmorslausum (þessi einkenni eiga það reyndar til að fylgjast að) ráðið frá því að horfa á myndina.

Um næstu helgi er, eftir allmikið ströggl og vesen (eins og reyndar hefur einkennt þá skemmtun) hið stórmerkilega Le Gran Buffet. Jarlaskáldið hefur verið ráðið sem skemmtanastjóri þar, og mun auk annars bjóða upp á dansnámskeið. Jarlaskáldið veit sem er eftir tæplega 20 ára skólagöngu að heimanámið er mikilvægast í hverju námi (þó að ekki sé þar með sagt að Jarlaskáldið hafi stundað það sérlega mikið). Vill það því benda áhugasömum um dansnámskeiðið að kynna sér vel það sem kennt er hér, og ekki síður hér. Þá ætti dansnámskeiðið að vera leikur einn. Góða skemmtun!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates