« Home | Vetur konungur mætti snemma í árEins og fyrr segir... » | Létt svona jeppóÞað var svona nett jepperí um helg... » | Glæsilegt nýtt met! Sett var glæsilegt nýtt aðsókn... » | Sálin hans Jóns mínsÞetta var merkileg helgi. Jarl... » | Vafasamur heiðurJarlaskáldið hafði víst lofað ferð... » | Harðsperrur frá helvítiJarlaskáldið dró í dilka um... » | Rollur Eitt og annað hefur verið um að ske síðan s... » | FranzSjitturinn titturinn hvað þetta voru góðir tó... » | Jarlaskáldið - þorir þegar aðrir þegjaFyrst og fre... » | Sumarið var tíminnÞá er sumarið búið, og skammdegi... » 

miðvikudagur, október 05, 2005 

Nöj, bara kominn október



Fólk er víst bara byrjað að nöldra í kommentunum og krefjast bloggs, maður hefði nú haldið að sumir hefðu nóg að gera við að koma happdrættisvinningum í sláturhúsið og þyrftu ekki að vera með bögg og leiðindi. En hvað um það, eitthvað skal ritað um liðna atburði...

Á fimmtudaginn mætti Jarlaskáldið á enn eina íþróttakeppnina, þar sem Jarlaskáldið keppti einn leik í pool og vann sigur. Afar sannfærandi, að eigin mati. Afgerandi úrslit fengust þó ekki í íþróttakeppni þessari, það bíður bara betri tíma. Við sama tækifæri var keyptur miði á dansiball. Að því verður vikið síðar.

Á föstudaginn mætti Skáldið til vinnu sinnar klukkan fjögur og var þar fram til níu, með stuttu hléi þó þegar Skáldið skrapp í 75 ára ammili ömmu sinnar, og hitti þar fyrir ósköpin öll af ættingjum sem það kunni engin deili á og m.a.s. einn frænda sem er svo til glænýr. Þrátt fyrir að vera 29 ára gamall. Hann var annars að kaupa íbúð, og óskar Skáldið honum til hamingju með það, um leið og það vekur athygli á því að boðskortið í innflutningspartíið hlýtur að hafa týnst í pósti.
Eftir vinnu lá svo leiðin í Kópavoginn með smáviðkomu í Grafarvogi, en þar bauð Svenni til veislu. Bölvaður melurinn hafði keypt býsnin öll af bjór og bauð upp á, með afar fyrirsjáanlegum afleiðingum. Einhvern tímann eftir miðnætti hrundi hersingin út um dyrnar og komst einhvern veginn á Players þar sem (enn og aftur) Sálin hans Jóns míns lék fyrir dansi. Gaman væri ef maður myndi hvort það var gaman...

Laugardagurinn var sem við var að búast fremur þokukenndur svona í byrjun en um leið og hefðbundnum björgunaraðgerðum (KFC) var lokið tók útlitið allt að batna. Jarlaskáldið byrjaði á að líta við hjá Togga sem tók að sér að rífa gamla, handónýta, hundleiðinlega geislaspilarann úr honum Lilla og koma þar í stað fyrir nýjum og hæstmóðins Panasonic-MP3-geislaspilara sem Jarlaskáldið fjárfesti í fyrir skemmstu. Þetta er allt annað líf!
Um kvöldmatarleytið var Jarlaskáldið svo komið í betri klæðin og beið eftir aumingjabloggaranum og fyrrverandi vinnufélaganum Oddbergi ásamt frú, sem mætti vitaskuld allt of seint til að sækja Skáldið, en við því var reyndar að búast að fenginni reynslu. Leiðin lá vestur í bæ og inn í veglegt hús þar sem okkar biðu veglegar kræsingar. Tilefni þess var að vinnan hin fyrrverandi á Stöð 2 ákvað að eyða dósasjóðnum í partí, og þar sem Skáldið taldi sig eiga bróðurpartinn í þeim ágæta sjóði mætti það á staðinn og át nægju sína af keti og meððí. Prýðilegt hreint út sagt. Annars var Jarlaskáldið með rólegasta móti, var komið heim til sín fyrir miðnætti og glápti þar á bæði Robocop 2 og Rush Hour 2. Þrír tímar sem það fær ekki aftur, en þarf maður ekki að kynnast því slæma til að læra að meta hið góða?

Síðan hefur eðli málsins samkvæmt ekki margt á daga Skáldsins drifið, utan þess að það brá sér í kvikmyndahús á mánudagskveld ásamt Stebba og Dolla og barði augum þá ágætu kvikmynd Fertuga hreina sveininn. Fínasta mynd í alla staði og vel hægt að mæla með henni. Þó er klígjugjörnum, snobbhænum sem og húmorslausum (þessi einkenni eiga það reyndar til að fylgjast að) ráðið frá því að horfa á myndina.

Um næstu helgi er, eftir allmikið ströggl og vesen (eins og reyndar hefur einkennt þá skemmtun) hið stórmerkilega Le Gran Buffet. Jarlaskáldið hefur verið ráðið sem skemmtanastjóri þar, og mun auk annars bjóða upp á dansnámskeið. Jarlaskáldið veit sem er eftir tæplega 20 ára skólagöngu að heimanámið er mikilvægast í hverju námi (þó að ekki sé þar með sagt að Jarlaskáldið hafi stundað það sérlega mikið). Vill það því benda áhugasömum um dansnámskeiðið að kynna sér vel það sem kennt er hér, og ekki síður hér. Þá ætti dansnámskeiðið að vera leikur einn. Góða skemmtun!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates