« Home | Wedding CrasherSkáldið hefur sosum ekki frá miklu ... » | Myndir úr BuffetinuAnsi hressandi helgi. Sunnudagu... » | Nöj, bara kominn októberFólk er víst bara byrjað a... » | Vetur konungur mætti snemma í árEins og fyrr segir... » | Létt svona jeppóÞað var svona nett jepperí um helg... » | Glæsilegt nýtt met! Sett var glæsilegt nýtt aðsókn... » | Sálin hans Jóns mínsÞetta var merkileg helgi. Jarl... » | Vafasamur heiðurJarlaskáldið hafði víst lofað ferð... » | Harðsperrur frá helvítiJarlaskáldið dró í dilka um... » | Rollur Eitt og annað hefur verið um að ske síðan s... » 

sunnudagur, október 16, 2005 

Brullaup og Trabant



Já, eins og áður var getið var stefnan tekin á brullaup á fimmtudaginn, Trabant á föstudaginn og svo bara eitthvað í gær. Merkilegt nokk rættist plan þetta. Frá því er eilítil saga að segja.

Jarlaskáldið fékk sér barasta frí í vinnunni á fimmtudaginn, og leiddist það sosum ekki, en um hálfsexleytið brá það sér í betri fötin og ók Lilla sínum upp í Elliðaárdal að Félagsheimili Orkuveitunnar, þar sem veisla í tilefni giftingar þeirra Ásu og Manna fór fram. Ekki þekkti Skáldið deili á mörgum þegar það mætti, en smám saman fór fólk að tínast inn og einhverja reyndist Skáldið þekkja. Veisluhaldarar voru ónískir á drykkjarföng þrátt fyrir að dagatalið segði það vera fimmtudag, og ekki síður á matinn sem var hinn prýðilegasti. Var veislan með fremur óformlegum brag, sem er jafnan til bóta og reyndist einnig vera það þarna. Var Jarlaskáldinu ásamt þeim Odda, Kjarra og Ása fengið það hlutverk að flytja ræðu um Ármann, og þótt Skáldið segi sjálft frá tókst það bara bærilega, a.m.k. vorum við ekki tjargaðir og fiðraðir að ræðu lokinni. Annars leystist þetta síðan bara upp í netta partístemmningu og urðu margir glaðir og sumir jafnvel enn glaðari, en Jarlaskáldið náði þó að sýna stillingu og varð sér ekki til minnkunar þetta kveldið. Það hélt svo heimleiðis einhverju eftir miðnætti og var Adolf Guðni svo alminilegur að skutla því heim, sem og ónefndum hjónaleysum sem hann hefði kannski betur sleppt eftir á að hyggja. Shit happens.

Föstudaginn byrjaði Jarlaskáldið á að sækja Lilla litla upp í Elliðaárdal, mætti svo til vinnu stundarkorn, fékk þar smálaunahækkun og var ekkert ósátt með það, þó svo að það hefði ekkert verið leiðinlegt að fá doldið meira. Ojæja, maður hefði hvort eð er bara eytt því í vitleysu. Að vinnu lokinni um níuleytið fékk Skáldið sér vænan burger og lagði svo leið sína í Fellahverfið þar sem það fylgdist með húsráðendum baka kökur. Stefán er kenndur er við Twist bættist í hópinn síðar og í kringum miðnætti var hringt á leigubíl til að aka hersingunni niður í bæ. Þegar bíllinn mætti á svæðið reyndist þar enginn annar en Twist eldri á ferð. Skemmtileg tilviljun, og nokkur sparnaður. Fyrst lá leiðin örskotsstund á Apótekið en stuttu síðar á NASA, þar sem glyssveitin Trabant hugðist leika fyrir dansi. Hafði Blöndudalur þá bæst við hópinn, þrátt fyrir að hafa ítrekað lýst andúð sinni á téðri sveit. Er hann enda kjáni með vondan tónlistarsmekk.
Á NASA voru einhverjir færeyskir pönkarar að spila þegar okkur bar að garði, eða eitthvað í þá áttina. Ekki alveg okkar tebolli, svo maður hallaði sér bara að ölinu á meðan, og heilsaði upp á þá sem maður þekkti, sem voru ófáir. Þegar þeir færeysku hypjuðu sig af sviðinu tók við nokkur bið eins og lög virðast gera ráð fyrir þótt enginn viti hvers vegna. Að lokum mættu svo Trabantar á svið og höfðu þá Jarlaskáldið og Adolf troðið sér upp við sviðið og fóru ekki þaðan það sem eftir lifði. Trabantar sviku ekki, voru að vísu dálítið gjarnir á að hella freyðivíni yfir þá sem fremst stóðu (okkur) en engu að síður hinir hressustu. Má fylgja sögunni að Blöndudalur fór heim eftir þrjú lög. Kjáni.
Að tónleikum loknum lá leiðin fyrst á Hressó, en þar var stoppið stutt hjá oss Adolfi enda uppgefin eftir troðninginn svo við skelltum oss bara á Nonnann og svo heimleiðis rétt upp úr fjögur. Af öðrum fara litlar sögur, en a.m.k. mun VJ lítið muna eftir kvöldinu, og virðist ætla að ganga illa hjá honum samband Trabants og áfengis. Það er eins og gengur.

Á laugardaginn gerði Jarlaskáldið ekkert. Það er eitthvað.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates