« Home | Helgin Jú, Það var víst helgi. Og sitthvað gjört.... » | Getraun Jarlaskáldið er með litla getraun. Hvaða ... » | Brotin loforð alls staðar Jarlaskáldið hefur náð ... » | Heim er Jarlaskáldið komið... ...og er ekkert sér... » | Miðvikublogg ið þrítugastaogsjötta Jarlaskáldið þ... » | 34 tímar and counting Jamm, það er farið að stytt... » | GSM myndablogg Nú hafa VÍNverjar komið sér upp gs... » | Rulluf? Njamm, einn af þessum föstudögum, ósköp l... » | Banalega, Britney og breyting Jamm, Jarlaskáldið ... » | Svarthvíta hetjan mín Jarlaskáldið brá sér einu s... » 

miðvikudagur, febrúar 04, 2004 

Miðvikublogg ið þrítugastaogsjöunda

Jarlaskáldið hefur unnið hörðum höndum við ritun ferðasögu undanfarin kvöld og er nú farið að sjá fyrir endann á henni. Löng verður hún. Eflaust bíða margir óþreyjufullir eftir að fá að fræðast um þá merku ferð og til þess að stytta mönnum aðeins biðina ætlar Jarlaskáldið að birta valda kafla úr sögunni, svona eins konar Teaser. Við grípum fyrst niður þar sem Jarlaskáldið er mætt inn á hótel:

...Réð þar ríkjum kvenskörungur mikill og hafði sér til aðstoðar 2 ungar aðstoðarkonur, 2 þernur og þjónana Nino og Francesco. Francesco sá um morgunvaktina og er eitthvert það ofvirkasta fyrirbæri sem Skáldið hefur kynnst. Nino sá um kvöldvaktirnar, er hann frá Ísrael og lítur út eins og klipptur út úr hryllingsmynd í svörtum smóking með kolsvart sítt hár. Sá hann um að skenkja okkur bjórinn á kvöldin og við eitt slíkt tækifæri ræddum við vel og lengi um málefni heimalands hans, gott ef við vorum ekki komin með lausn á þeirri krísu en illu heilli er hún gleymd og grafin. Vonandi man Nino hana.
Herbergin voru sem fyrr segir afskaplega lítil en sluppu samt alveg. Flestir 11 menningana röðuðu sér á fyrstu hæðina, Eyfi og Ríkey á aðra hæðina og Viffi í eins manns herbergi á stærð við kústaskáp á þeirri þriðju („maður er með hausinn inni í sturtuklefa þegar maður er á klósettinu!“). Jarlaskáldið var ásamt Öldu í herbergi 107 og aðrir röðuðu sér í herbergin kringum sem var gott upp á hljóðeinangrun að gera, leiddi það til þess að innanherbergjaskemmtanahald fór mestmegnis fram á herbergi 107. Þar var einnig einhverra hluta vegna aukarúm sem nýttist til að sitja á en tók nánast allt gólfpláss í staðinn. Annars er ekki hægt að segja að mikið hafi verið dvalið á hótelinu, þar var jú sofið þessa örfáu tíma sem sofnir voru (fleiri í tilviki sumra) og ýmist lagt sig eða þjórað eftir skíðun fram að mat. Næstsíðasta kvöldið skar sig þó nokkuð úr, þá nenntu fæstir út að borða og settur var upp sennilega minnsti bar sem um getur og eigi drukkið við sleitur, því ekki var þetti eini „keginn“...

Næst grípum við niður þar sem VÍNverjar eru komnir í Steinasteikina:

...Eftir nokkra stund var svo liðinu hent út í skítakuldann þar sem það beið þónokkra stund skjálfandi. Loks birtist síðan snjóbíll á beltum sem flutti liðið á veitingastaðinn Cascina Zeledria uppi í fjöllunum. Þar komu menn og konur sér fyrir við langborð og hófu þegar að gera rauðvíninu skil, þar eð það var frítt með matnum. Er óhætt að segja að fjórir innstu menn, þ.e. Jarlaskáldið, Magnús, Snorri og Viffi hafi sýnt mikla hagsýni með því að teyga vínið af áfergju, að sögn lágu 8 flöskur í valnum að lokum...

Og að lokum eilítill saga af djamminu:

...en sá staður sem naut einna mestrar hylli kallaðist Cantina del Suisse, og var í kjallaranum hjá Café del Suisse. Þangað fórum við strax eftir fyrsta skíðadaginn, rákumst á frægt fólk (meira um það síðar) og skemmtum okkur harla vel. Reyndar er dálítið undarlegt fyrirkomulagið á þessum næturklúbbum þarna úti. Maður þarf ekki að borga sig inn heldur er manni afhentur lítill miði sem maður setur í vasann. Ef maður fer síðan á barinn réttir maður afgreiðslustúlkunni miðann, biður um einhvern drykk og í stað þess að borga fyrir hann gerir hún gat á miðann og réttir manni aftur ásamt drykk. Gekk þetta þannig þar til maður álpaðist loks út en þá kom að skuldadögum, gat það numið verulegum upphæðum því ekki voru drykkirnir ódýrir á Cantínunni frekar en annars staðar, lágmark 8 evrur og skipti þá engu hvað maður fékk sér, sem aftur leiddi til þess þegar á leið að menn voru byrjaðir að drekka furðulegustu drykki, svo lengi sem þeir væru rótsterkir...


Ferðasaga í fullri lengd verður svo birt á allra næstu dögum. Þangað til, lifið heil!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates