þriðjudagur, október 31, 2006 

SnillingurVið þetta er engu að bæta...

þriðjudagur, október 24, 2006 

Ammili

Jarlaskáldið á ammili í dag. Á ammilisdegi þess í fyrra lagði helmingur þjóðarinnar niður vinnu. Jarlaskáldið leggur til að hinn helmingurinn geri það í dag. Fyrir Skáldið.

föstudagur, október 20, 2006 

Loksins, loksins

Líf Jarlaskáldsins hefur verið einstaklega viðburðaríkt undanfarið, eða jafnvel bara ekki. Skáldið hefur svo gott sem ekkert gert af sér síðan það kom af spænskri grundu fyrir hartnær þremur vikur síðan, allavega ekkert sem fréttnæmt þykir. Jú, það fór í kvikmyndahús um síðustu helgi, og "bröns" hjá lillebror og mágkonunni og var tilefnið þar ærið. Annars er það bara rútínan, vinna, glápa, tölvast, sofa, auk þess sem Skáldið hefir gegnt embætti ruslaeftirlitsstjóra hér í Hólunum undanfarna viku. Mikilvægt embætti það. Svo tók Skáldið sig reyndar til í dag og ákvað að fjárfesta í nýrri myndavél. Þarf að geta sinnt hirðljósmyndaraembættinu svo sómi sé að.

Og það mun væntanlega gefast tilefni til að brúka gripinn nýja um helgina, þar sem Jarlaskáldið ætlar að leggja land undir dekk og bruna upp á Hveravelli í góðra manna hópi. Þar er ávallt hressandi að gista, og hafa þær sögur heyrst að Skáldið muni jafnvel bjóða gestum og gangandi upp á ýmislegt góðgæti, bæði vott og þurrt. Einungis ein leið til að komast að því hvort sannleikskorn sé í þeim sögum; að mæta.

99 dagar

sunnudagur, október 08, 2006 

Í kvöld

Það var gæðakvöld með sjónvarpinu í kvöld. Eða það var allavega ætlunin. Gæðunum reyndist ansi misskipt þegar til kom.

Fyrst var fótboltaleikur. Íslendingar gegn Lettum. Íslenska liðið hefði sjálfsagt sómt sér ágætlega í miðvikudagsboltanum með okkur Stebba og Vigni, en það er ástæða fyrir því að enginn sér ástæðu til að sjónvarpa miðvikudagsboltanum. Leiðindi.
Svo komu Fóstbræður. Besta íslenska grín fyrr og síðar, og þótt víðar væri leitað. Séð þetta hundraðogmilljón sinnum, en alltaf má hlæja að þessu. Á svipuðum tíma var Spaugstofan í gangi. Hún er sjaldnast fyndin, ekki einu sinni í fyrsta skiptið.
Svo kom myndin Ray. Hana nennti Jarlaskáldið ekki að horfa á. Of mikið hæp í kringum hana, auk þess sem aðalleikarinn fékk Óskarinn, sem þýðir að þar hafi verið ofleikur af hæstu sort í gangi. Þá er nú betra að skella Scrubs bara á skjáinn. Þar á ofleikurinn heima. Enda horfði Skáldið bara á nokkra Scrubs. Scrubs eru góðir.
Því næst var það ungur Alec Baldwin, og, ja, yngri Sean Connery, sem talaði rússnesku með skoskum hreim í Rauða október. Sosum séð hana áður, horfði aðallega til að sjá hvernig hún eltist. Ekkert sérlega vel. Þá átti þýðandinn ekki góðan dag. Ef hægt er að tala um að Jarlaskáldið þjáist af atvinnusjúkdómi er hann sá að fylgjast allt of vel með skjátextum. Enda hefur það einkar gaman af að horfa á That 70s Show. Versti þýðandi ever.
Þegar Jack Ryan hafði bjargað heiminum (eða hvað það nú var sem hann gerði) smellti Skáldið á NBA TV og sá Denver taka Seattle '94. Þetta man maður eins og gerst hefði í gær. Svo smellti það bara á Popptíví og hefur ekki riðið feitum hesti frá því. Backstreet Boys enn í gangi? Er þetta grín? Tvö Foo Fighters myndbönd í röð björguðu því sem bjargað varð.

Sumsé, fínasta kveld á sjöundu hæðinni. Veit einhver hvar maður fær góða stafræna myndavél á góðu verði?

Bætti við nokkrum bloggurum, megi þeir njóta heiðursins. Má til með að krækja á þetta. Jarlaskáldið vissi ekki að önnur eins heimska og vissir álitsgefendur þarna sýna væri til. Vei oss öllum.

föstudagur, október 06, 2006 

Barcelona - sæmileg borg það

Einhvers staðar segir að það veiti mesta gleði að gleðja aðra, og að sælla sé að gefa en þiggja. Ef eitthvað er að marka það ætti Jarlaskáldið að vera í sjöunda himni þessa dagana, eftir einkar rausnarlegar gjafir þess til góðgerðamála nýlega. Enda var málefnið verðugt. Vonandi.

Í alls ótengdum málum heimsótti Skáldið Barcelónu í Katalóníu nýverið. Þar var afbragðsgaman. Ekki nennir Skáldið að rita um það digra ferðasögu, en mælir bara með að lesendur kynni sér borgina sjálfir hafi þeir ekki gert það nú þegar. Skáldið getur mælt með ýmsu til að skoða, jafnt menningarlegu sem ómenningarlegu. En svo er líka sumt þarna sem ber að varast. Það er þó í miklum minnihluta.

Annars unir Jarlaskáldið hag sínum prýðilega hérna uppi á sjöundu hæðinni í Hólunum, sem er gott, því allt stefnir í að það dvelji mestmegnis þar á næstunni fyrir utan þau skipti sem það nennir að mæta í vinnuna. Það hefur líka nóg fyrir stafni, á Rapparanum bíða ófáar kvikmyndir og sjónvarpsseríur áhorfs, sem þola vart bið lengur. Gestir eru velkomnir, en geta þó bókað að það verði aldrei heitt á könnunni. Meira síðar.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates