« Home | Grínmaðurinn ógurlegi » | La Grande Bouffe » | 3-1 » | Trilljón tattúveraðar tindabykkjur » | Donald Rumsfeld » | Snillingur » | Ammili » | Loksins, loksins » | Í kvöld » | Barcelona - sæmileg borg það » 

þriðjudagur, desember 12, 2006 

Agureyrish á kafi



Nú eru hlutirnir heldur betur byrjaðir að gerast í annars tilbreytingarsnauðri tilveru Jarlaskáldsins. Heljarinnar stuð um helgina, en þar sem engar fréttir hafa verið færðar af Skáldinu um nokkurt skeið er við hæfi að byrja á byrjuninni. Sem myndi vera ca. um þarsíðustu helgi. Þá er reyndar ekki hægt að segja að Jarlaskáldið hafi verið sérlega duglegt, a.m.k. ekki á lendum skemmtanalífsins, sem það sniðgekk algjörlega. Þess í stað gekk það á fjall, og ekki bara fjall heldur fjöll, nánar tiltekið Úlfarsfell og Hafrafell. Ok, kannski ekki hæstu tindar landsins, en fyrir menn komna af alléttasta skeiði prýðilegur göngutúr, auk þess sem veðrið og útsýnið spillti ekki fyrir. Hugmyndin er að stunda svona hólarölt áfram eftir því sem veður og heilsa leyfir, enda manni veitir sosum ekki af.

Síðasta helgi á það enn frekar skilið að vera getið í sögubókum, eða a.m.k. á bloggsíðu sem þessari. Hún var nefnilega hreint og beint frábær. Um tíma leit reyndar út fyrir að það væri borin von að svo yrði. Það hafði nefnilega verið ákveðið með nokkrum fyrirvara að bregða sér norður til Agureyrish þessa helgi og renna sér þar á skíðum, og jafnvel gera úttekt á skemmtanalífi heimamanna með komandi marsferð í huga. Þegar svo nær dró brottfarardegi fóru hinir og þessir sem höfðu lýst áhuga á að koma með að heltast úr lestinni af ýmsum orsökum, sumir þó bókstaflega. Þegar upp var staðið voru það þó sex manns sem lögðu í hann á sjöunda tímanum á föstudaginn, Jarlaskáldið, Vignir og Danni á Peugeot sem Skáldið hafði fengið lánaðan sakir nagladekkjaleysis og annarra krankleika Lilla, og þau hjónaleysi Þorvaldur og Dýrleif sem Stefán Twist fékk að fljóta með.
Ferðin norður var ekkert sérlega söguleg, borgari á Borgarnesi var ágætur, og færðin þolanleg, a.m.k. fór Pusi létt með þetta þó ekki væri farið sérlega hratt yfir sums staðar, og á Agureyri komum við í kringum miðnætti. Vakti það mikla gleði og eftirvæntingu að sjá að þar var allt á kafi í snjó. Toggi og Dilla hentu Stebba yfir í Furulundinn þar sem við þrír vorum að fá okkur smáhressingu fyrir svefninn, og eftir að hafa rökrætt nokkuð sköruglega um hlutafélagsvæðingu Ríkisútvarpsins og fleiri gáfuleg mál fórum við í háttinn í fyrra fallinu, a.m.k. miðað við aldur og fyrri störf, enda meiningin að vera færir um skíðaiðkun morguninn eftir.

Og úr rekkjum risum við bara sæmilega snemma, Jarlaskáldið var með síðustu mönnum um hálftíu, en Danni hafði vaknað eitthvað fyrr við búkhljóð og meðfylgjandi angan frá ónefndum herbergisfélaga sínum. Við Stefán tókum stuttan göngutúr til Kristjáns bakara og snerum aftur hlaðnir brauðmeti og ýmsu meðlæti, svo skíðagarparnir gætu bætt á orkubirgðir fyrir komandi átök. Að hefðbundum morgunverkum loknum lá svo leiðin upp í Hlíðarfjall, græjunum skellt á lappirnar, fjárfest í lyftukorti (1900 kr, takk fyrir) og svo fyrsta ferð í lyftu á þessum vetri. Assgoti ljúft.
Og mikið helvíti var þetta gaman. Allt fullt af snjó, en birtuskilyrðin voru reyndar þannig að maður sá ekki baun, og maður því ögn nervös að láta sig vaða niður, enda voru fyrstu ferðirnar ekki þær stílhreinustu sem um getur. Einhverjir náðu að kynnast snjónum nánar en aðrir, en sem betur fer var fullt af honum þannig að engum varð meint af. Öryggið jókst síðan með hverri ferð, og færið alveg snilld, þannig að við skíðuðum án afláts til rúmlega eitt, þegar við gerðum matarpásu og skelltum okkur á Söbbinn. Þar inni var gufubaðshiti, en Söbbinn fínn. Stefán gerði þar úttekt á bakhlutum, og var ekki sáttur. Það er eins og gengur.
En jæja, við skelltum okkur aftur í fjallið og þá fundum við mikla snilld, því fyrir utan Norðurbakkann var hátt í metersþykkt púður sem var tiltölulega ósnert, og ekki leiddist Jarlaskáldinu að láta sig vaða þar niður á brettinu og svífa um sem mesti Brimbretta-Baldur. Skíðajóunum gekk ekki alveg eins vel. Enda eru skíði bjánaleg, en bretti snilld. Þegar þarna var komið sögu var farið að dimma og merkilegt nokk olli það því að skyggnið stórbatnaði þannig að síðustu ferðirnar voru hrein og tær snilld, maður gat látið sig vaða niður brekkurnar án hiks og minnist Jarlaskáldið vart meira fjörs í íslenskum skíðabrekkum. Um fjögurleytið var þó gamanið úti, Skáldið þurfti að skutla Stebba út á flugvöll þar sem hann þurfti að komast heim á einhverja fylliríssamkomu, en það skarð var fyllt afar fljótlega því með sömu flugvél kom frúin hans Danna norður. Svo sem ekki verri skipti en hver önnur.
Eftir þetta fórum við upp í íbúð og slökuðum aðeins á eftir afrek dagsins, skelltum okkur svo í stutta sundferð, tókum aðra nestispásu í íbúðinni, en fórum svo venju samkvæmt á Greifann, og sannaði þá frúin hans Danna aldeilis ágæti sitt þar eð hún tók við stýrinu á Pusa svo Skáldið gæti einbeitt sér að öðrum málum. Greifinn sveik ekki, Skáldið fékk sér kúrekaborgara sem var hinn ágætasti, hinir fengu sér allan fjárann. Þegar allir voru mettir og jafnvel rúmlega það lá leiðin aftur upp í íbúð, og voru margir þá ansi dasaðir eftir átök dagsins og átið, en þó tókst að fá alla til að kíkja á Café Amor um miðnætti. Fengum okkur Mojito, svo fóru allir heim nema við Vignir, og það fór eins og veðbankar höfðu spáð. Sem var kannski ekkert svo slæmt...

Á sunnudeginum var heilsan ekki alveg jafngóð og á laugardagsmorgninum, hvað sem því olli. Danni og frú gerðu tilraun til að fara á skíði en fjallið var illu heilli lokað svo Danni skutlaði bara frúnni í flug á meðan við Vignir sváfum svefni hinna þunnu. Við megnuðum þó að fara á fætur einhverju eftir hádegi, hreinsa kofann og koma okkur af stað heimleiðis, en hefðum kannski betur sofið bara lengur, því eftir rúmlega 4 tíma akstur lentum við í röðinni á Vesturlandsvegi eftir banaslysið og máttum bíða þar í þrjú korter. Þess ber að geta að við vorum sallarólegir, hringdum hvorki reiðir í lögguna né vorum með leiðindi á staðnum. Fólk getur verið svo mikið fífl...

Í alla staði snilldar ferð, þakka öllum sem hlut áttu að máli.

Það var ekki við öðru að búast en að þið hafið hagað ykkur vel við þessar aðstæður, enda prýðispiltar. Gott að heyra að það var gaman í höfuðstað Norðurlands :)

Djöfull öfunda ég þig að hafa farið norður í púðursnjóinn! Myndin yfir snæviþakið svæðið er bara hin tærasta snilld, ég slefaði á lyklaborðið. Verð að fara að drífa mig norður með skíðin og brettið.

Skrifa ummæli

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates