Grínmaðurinn ógurlegi
Síðasta helgi var nokkuð ásættanleg. Í fjárhagslegu tilliti í það minnsta.
Eftir vinnu á föstudaginn hélt Jarlaskáldið í víking vestur í bæ og þegar það var komið á leiðarenda hjá stóru sys var því afhentur pensill og því gert að mála af miklum móð. Sem það og gerði. Og hlaut að launum böku og bjór. Ekki svo amalegt það.
Laugardeginum hafði Jarlaskáldið ætlað að verja í að sofa þar til það vaknaði. Það vaknaði loks töluvert eftir hádegi, þegar Adolf falaðist eftir aðstoð þess við myndatöku. Meiningin var að taka myndir af Lilla að skrölta yfir á, en þegar við loks fundum á uppi á Hellisheiði var hún gaddfreðin, þannig að úr varð að taka myndir af Lilla að fara niður fjall. Fyrir aðstoðina splæsti Dolli kjúlla á Skáldið. Ekki svo amalegt það.
Um kvöldið brá Skáldið sér í mat heim í ættaróðalið þar sem veislumatur var borinn fram að venju. Að því loknu tók Skáldið stefnuna á Naustabryggju og tæmdi þar úr fáeinum ölkollum við þriðja mann meðan glápt var á þá félaga í Depeche Mode á tónleikum. Upp úr miðnætti ákváðum við að líta á diskókvöld á Klúbbnum, af svo sem engri ástæðu annarri en þeirri að hann var í göngufæri. Það var gleymanleg heimsókn. Jarlaskáldið fór fótgangandi heim. Endalaus sparnaður þessa helgina. Ekki svo amalegt það.
Á sunnudeginum hafði verið skipulagt hólarölt, og lét Jarlaskáldið ekki skemmtanastarf gærkvöldsins koma í veg fyrir þátttöku sína. Lagt var í hann á öðrum tímanum og voru leiðangursmenn fjórir. Viðfangsefnið var fjall það er nóbelsskáldið sá út um eldhúsgluggann, ýmist nefnt Grímmannsfell, Grímannsfell eða Grímarsfell, en við kusum að kalla það Grínmannsfell, enda skal hafa það sem best hljómar. Ekki rákumst við á neinn Grínmann á þessu rölti okkar, nema ef vera skyldi að hann hafi verið í hestslíki, en þetta var í það minnsta fínasti labbitúr. Og um kvöldið át Jarlaskáldið tvær gerðir af lambi, annars vegar kennt við London og hins vegar eitthvað annað. Hvort tveggja fínt. Ekki svo amalegt það...