mánudagur, febrúar 28, 2005 

Myndir

Jarlaskáldið var norðan heiða um helgina. Þar gerðist margt, og flest gott. Ferðasagan birtist von bráðar, en hér eru allavega nokkrar myndir þangað til.

19 dagar maður.

----------------------------------------------------------------------------------

föstudagur, febrúar 25, 2005 



Blíða í Hlíðarfjalli

Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

fimmtudagur, febrúar 24, 2005 

Agureyrish

Jæja, Norðurland...

Get ready, here we come!

--------------------------------------------------------------------

miðvikudagur, febrúar 23, 2005 

Páskabjór

Þetta er nú ljóta andskotans djöfulsins veðrið! 10 stiga hiti og þoka! Og svo er til fólk sem hefur gaman af þessu! Hvað er að?
Að veðri verður vikið síðar.

Fyrst er kannski ráð að líta um öxl, og sjá hvað drifið hefur á daga Jarlaskáldsins. Fátt er það merkilegt. Á föstudagskvöldið þurfti Skáldið reyndar að taka erfiða ákvörðun, því Tango & Cash var á Skjá einum á sama tíma og Commando var á Sýn. Stallone og Russell urðu ofan á, styttra síðan maður sá Commando. Óumdeildur hápunktur föstudagsins.
Daginn áður var Skáldið sent niður á DV og látið prófarkarlesa það ágæta blað. Þar er við ofurefli að etja.

Á laugardaginn var fátt í spilunum, og svo slæmt var ástandið þegar kvölda tók að Skáldið horfði á Spaugstofuna. Jæks! Ekki var önnur sjónvarpsdagskrá þetta kvöld til þess fallin að halda manni heima við, svo Stebbinn var dreginn í bíó á ellefta tímanum. Sáum við Stillerinn í Háskólabíó og þótti ágætis skemmtun. Öllu betri skemmtun var aftur á móti réttri viku áður sem ekki hafði verið getið, er við sáum þá einkar ágætu mynd Team America: World Police. Það er mynd sem hæfir okkar þroskastigi sérlega vel.
Að Stiller loknum tókum við smárúnt um bæinn og enduðum að honum loknum inni á Kaffibrennslunni þar sem Stefán sturtaði í sig tveim ölkollum en Skáldið allmiklu færri, þar eð það var á bíl. Enginn Guðjohnsen þar á ferð.

Á sunnudaginn keyrði Skáldið stóran hring, horfði á Rocky III um kvöldið og svo NBA-stjörnuleikinn um nóttina. Hann var búinn rúmlega fjögur, og Skáldið var ekki sérlega hresst í vinnunni daginn eftir. Ónei.

Er þá komið að deginum í dag. Honum eyddi Skáldið venju samkvæmt að mestu leyti í vinnunni fyrri part dags, en nú í kvöld tók það Lilla í allsherjarhreingerningu, alþrif og bón með hjálp Logafoldargreifans, enda var hann (Lilli, ekki greifinn) orðinn hulinn ca. 3 cm lagi af tjöru og drullu. Nú glansar hann sem aldrei fyrr, og tilbúinn í ferðalög...

...en það er einmitt skemmtileg tilviljun að Jarlaskáldið hyggst leggjast í ferðalög á allra næstu dögum, altsvo á fimmtudaginn, og er för heitið norður yfir heiðar. Víkur hér pistli aftur að veðrinu. Ætlunin norðan heiða var einkum sú að leggja stund á skíða- og brettaiðkan, en þar hefur að sögn verið Mæjorkahiti undanfarið og snjóalög legið undir skemmdum af þeim sökum. Er það miður, en Skáldið líkt og samferðamenn þess leggur ekki árar í bát, norður skal farið og skíðað hvað sem tautar og raular, og hvað sem öllu veðri líður er ljóst að ekki verður slegið slöku við hvað aðalfundarstörf varðar, enda eru þau síður háð veðri.
Ótrúlegt en satt er ENN möguleiki fyrir glaðlyndar heimasætur á kjöraldri að bætast í hópinn, látið ekki slíkt happ úr hendi sleppa!

Og frænka, þér (og einhleypum vinkonum þínum skilst mér) er boðið í partí um helgina!

----------------------------------------------------------------------

laugardagur, febrúar 19, 2005 

Mánuður

Einn mánuður gott fólk, einn mánuður...

Og bara fimm dagar í upphitun...

(Það er segja ef önnur upphitun skemmir ekki allt)

----------------------------------------------------

þriðjudagur, febrúar 15, 2005 

I Don't Like Tuesdays

Þriðjudagar eru leiðinlegir dagar. Leiðinlegustu dagar vikunnar. Ágætt að þessi sé alveg að verða búinn.

Það sem gerst hefur síðan, ja, síðast, er að Jarlaskáldið eyddi öllu sínu lausafé á einu bretti á föstudaginn, þegar það mætti niður í Úrval-Útsýn í Lágmúlanum eftir vinnu á föstudaginn og staðgreiddi komandi Ítalíuferð, eins og allra skörpustu lesendur ættu að hafa getið ráðið af síðustu færslu. Þegar þessi orð eru rituð eru einmitt litlir 32 dagar í brottför og ekki laust við að farið sé að gæta eilítillar eftirvæntingar, ekki síst nú eftir að búið er að borga helvítið.

Þrátt fyrir að hafa þarna í einni straujun eytt nær öllum sínum peningum lét Skáldið það ekki á sig fá um helgina, en hélt á Vetrarfagnað Útsjónar, starfsmannafélags þess sem einhvern tímann hét Norðurljós, á laugardaginn. Mætti það í Tónlistarhús Ýmis á áttunda tímanum ásamt aumingjabloggaranum og byrjaði þar á væmnum fordrykk, en aumingjabloggarinn á einhverju brennivínslausu glundri. Upp úr átta hófst svo borðhaldið, sem var gestum að kostnaðarlausu, og var ansi vel veitt af bæði mat og drykk. Það kom þó ekki í veg fyrir að fjárútlát yrðu nokkur, því að loknu borðhaldi skundaði Skáldið á barinn og vandi komur sínar þangað það sem eftir lifði kvölds. Þótti það sýna einkar glæsilega takta á dansgólfinu, og ljóst að Michael Jackson dansnámskeiðið forðum daga er enn að skila sér. Fínasta skemmtun, þótt hátt hlutfall FM-hnakka hafi eilítið skyggt á gleðina um tíma. Kvöldið hafði síðan hefðbundinn endi.

Eitthvað annað? Ojæja, það er ekki margt í spilunum á allra næstu dögum, en þó óvarlegt að lofa einhverju aðgerðaleysi, það er yfirleitt þá sem mest vitleysan gerist. Eftir 9 daga fer Skáldið svo í víking norður yfir heiðar í árlega menningarferð til höfuðkrummaskuðs Norðurlands, Agureyrish. Þótt ótrúlegt megi virðast eru ENN laus sæti fyrir einhleypar heimasætur á kjöraldri í ferðina, en þau hljóta að fyllast fljótt, enda ekki á hverjum degi sem stúlkum býðst að eyða nokkrum dögum í félagi við önnur eins glæsimenni.

Og svo fer nú alltaf að styttast í Fyrstuhelgaríjúl....


-----------------------------------------------------------------

föstudagur, febrúar 11, 2005 

Á kúpunni


Og þetta er ástæðan.

Nokkuð góð ástæða, er það ekki?

 

36

36 dagar maður...

36 dagar.

Þetta er alveg að bresta á.

Júhú!

þriðjudagur, febrúar 08, 2005 

Framsóknarmenn eru fífl

Tilkynningaskyldan kallar, en fátt er í fréttum. Jú, eitthvað.

Gerðist eitthvað í síðustu viku? Ja, það var skítaveður og svoleiðis, en það kemur kannski lítið á óvart. Framsóknarmenn voru hálfvitar, það kemur enn minna á óvart. Æ hvað það er nú samt gott að hafa þá, svona til að létta aðeins lundina. Þangað til maður fattar að þessi tímaskekkja er við völd. Kræst!

Hvað persónulega hagi Jarlaskáldsins varðar er ekki mikils að geta, sé laugardagurinn undanskilinn. Jú, á fimmtudaginn var það sent niður í Skaftahlíð til að prófarkarlesa hið ágæta sorptímarit DV. Kemur það til vegna nýlegrar sameiningar svonefndra „Baugsmiðla“, sem verða víst senn allir undir einu þaki, og var Skáldið fengið til að leysa af einhvern pestargemling, þrátt fyrir enga reynslu í yfirlestri slíkra bleðla. Gekk samt ágætlega, Skáldið sá a.m.k. engar augljósar villur á sínum síðum þegar það leit yfir blaðið daginn eftir. Staðreyndavillur eru þar að sjálfsögðu undanskildar. Annars merkilegur vinnustaður, yfirmenn flestir rétt komnir af barnsaldri, en „venjulegir“ blaðamenn margir gamlir í hettunni. Kannski það sem koma skal?

Jarlaskáldið þóttist hafa frá einhverju að segja varðandi liðinn laugardag. Það byrjaði reyndar þann ágæta dag á að sofa vel fram yfir hádegi, hvorki í fyrsta sinn né hið síðasta. Það leið síðan ekki á löngu þangað til Skáldið var komið í sparigallann, þar eð því var boðið í vinnuammilisveislu um eftirmiðdaginn. Byrjaði það á að sækja vinnufélagann, sem einnig gegnir embætti aumingjabloggara (og er ógurlega montinn þessa dagana yfir að hafa sést í sjónvarpinu), en hélt síðan niður í miðbæ Reykjavíkur, en þangað hafði einn fréttamanna Stöðvar 2 boðið oss í þrítugsammili. Eins og gefur að skilja var celebastuðull með hæsta móti, t.d. mátti þar sjá tvær fegurstu konur skersins skv. opinberum könnunum. Húsráðandi var mikill höfðingi heim að sækja, jafnvel fullmikill, a.m.k. urðu menn fljótt glaðir og reifir...

Löngu, löngu síðar var Skáldið mætt á þann annars arma stað NASA, og var ástæða heimsóknarinnar fyrst og fremst sú að hið eðla band Sálin hans Jón míns lék þar fyrir dansi. Hvað í millitíðinni gerðist, ja, er ekki í frásögur færandi skulum vér segja. Sýndi Skáldið að sögn dansmenntir góðar. Einhverju sinni þóttist einhver ósómapilturinn eiga Skáldinu harma að hefna, og taldi best að hefna þeirra með hnefunum, en Skáldinu tókst án teljandi erfiðleika að víkja sér undan þeim aðsúg og hlaut engin mein af, enda ósómapilturinn ekki til stórræðanna að því er virtist. Ekki er vitað hvað manninum gekk til, en helst er álitið að hann hafi fyllst afbrýðisemi er Skáldið kastaði kumpánlega kveðju á kunningjakonu sína. Víða leynast vitleysingarnir.
Það er sosum ekki frá miklu öðru að segja hvað ball þetta varðar, Sálarmenn voru góðir eins og þeir eiga vanda til og að loknu balli hélt Skáldið ásamt Staffan á heimavöllinn en gerði heldur stutt stopp þar og hélt heim í bælið. Þó ekki án þess að koma við á Hlölla...

Síðan... hefur ekki baun gerst. En eitt og annað er ráðgert. Vinnan býður til veislu næstu helgi, alveg gratís, og 12 dögum síðar mun Skáldið ef veðurguðirnir lofa halda norður í land og gera einhvern djöfulinn af sér, hvort sem þar verður snjór eður ei. Íðilfögrum heimasætum á kjöraldri skal bent á að enn eru laus sæti með í för, fyrstir koma fyrstir fá!

miðvikudagur, febrúar 02, 2005 

More Crap

Það sem allir hafa beðið eftir, blogg frá Jarlaskáldinu, hvorki meira né minna. Fagnar því heimsbyggð öll! Húrra!!

(Róaðu þig maður...)

Jarlaskáldið hefur verið maður nokkurra aðgerða undanfarna viku eða svo, þó bloggið hafi ekki borið þess nein merki. Það eyddi dágóðum hluta síðustu viku í skriftir, hið ágæta tímarit Útivera fór þess á leit við það að það ritaði greinarstúf um hrakfallaferð þess og annarra kringum Hofsjökul fyrir rúmum þremur mánuðum síðan. Um ferð þá ritaði Skáldið skilmerkilega frásögn einmitt á þessari síðu og byggðist greinin nýja að einhverju leyti á henni, en þó þurfti í raun að skrifa hana alveg upp á nýtt og reyndist það nokkuð verk. Ojæja, maður fær víst eitthvað smotterí í staðinn, eða svo var Skáldinu lofað.

Svo niðursokkið var Skáldið í skriftirnar að það var ekki með hugann við vinnuna á fréttavakt í síðustu viku, svo bandvitlaus frétt fór í loftið. Jarlaskáldið fann óneitanlega til ábyrgðar sinnar, en Marshallinn tók á sig sökina, þó hún lægi óneitanlega að stórum hluta hjá Skáldinu, það var jú síðast til að lesa fréttina áður en hún var send út. Leitt að sjá á eftir Marshall, hann hefur oft veitt ma... (hér átti að birta brandara varðandi Marshall-aðstoð, en hann hefði bara orðið of vondur. Afsakið).

Hvað um það. Á föstudaginn hugðist Jarlaskáldið fara í félagi við góðan hóp jeppakalla upp í Grímsvötn, svipaðan hóp og reyndi fyrir ríflega ári síðan. Þá gekk ekki sérlega vel, og ekki leist mönnum allt of vel á blikuna þegar nær dró þessari ferð, rok og rigning alla vikuna og spáði á sömu lund. Samt voru það 16 manns á 8 bílum sem lögðu í hann á föstudagskvöldið, alltaf skárra að reyna og klikka en að reyna ekki neitt. Nema hugsanlega fallhlífarstökk, og skyldar æfingar. Anyways, Skáldið var í skrjóð með Stebbanum, og lögðum við af stað úr bænum talsvert á eftir öðrum þar sem Willy var ekki alveg ferðbúinn um leið og aðrir. Tiltölulega tíðindalítil ferðin austur, komum í Hrauneyjar í kringum tíuleytið og var þar þá hávaðarok og rigning og svakaklaki á vegum. Í Hrauneyjum biðu okkar Maggi og Jónfús á Tvstinum, aðrir höfðu haldið áfram. Við biðum ekki boðanna heldur héldum áfram eftir stuttar bensínábætingar.
Við þurftum ekki að keyra ýkja lengi, stuttu eftir að við vorum komnir út af malbiki rákumst við á jeppahóp, óskyldan okkur reyndar, sem var fastur í krapa. Þá þurfti að fara út og hleypa úr eins og lög gera ráð fyrir, og reyna svo að keyra á ásum eða nettum hliðarhalla áfram því fljótlega komumst við að því að það var allt á floti, allt flatlendi var einn krapi.
Eftir nokkurt stím rákumst við svo á þrjá af bílunum sem höfðu lagt af stað á undan, og var þá verið að moka upp Fastan sem var pikkfastur í krapa (kunnuglegt?) og bjó hann til þessa líku fínu skipaskurði þegar kippt var í hann duglega eftir moksturinn. Þarna voru aðstæður annars dálítið fyndnar, virtist vera góður og traustur snjór á að líta en svo allt í einu sökk undan manni, þannig að Jarlaskáldið t.d. sökk einu sinni með aðra löppina gegnum snjóinn upp að nára og rennblotnaði í krapanum undir. Æði.
Fastur losnaði og með lagni tókst að komast yfir þennan pytt, en þá beið bara sá næsti handan við hornið. Þrátt fyrir að reynt væri eftir að megni að forðast það varð ekki hjá því komist að sökkva öðru hverju niður í krapa og tafði það allt mjög, enda oft ekki hægðarleikur að losa bílana. Eftir kafla þar sem vel gekk komum við loks að hinum þremur bílunum sem í hópnum voru, og voru þeir líkt og nærri má geta pikkfastir að baksa. Þá tókst auðvitað að endingu að losa, og var nokkuð liðið á nótt þegar þarna var komið sögu. Aftur tók við nokkuð langur kafli (langur er afstætt í þessu tilliti) þar sem enginn festist en að lokum endaði hópurinn auðvitað í enn einum krapapyttinumog sá reyndist sá versti þangað til. Fyrstu bílar sem reyndu lentu í alls kyns vandræðum og tók óratíma að losa. Á þessum tímapunkti var þessi mynd tekin og segir hún ansi margt, 0.0 km hraði, 4.19 um nótt. Enn höfðu vart meira en 10 km af tæplega 40 kílómetra langri leið upp í Jökulheima verið eknir, og hófust því miklar umræður í talstöðvum hvað gera skyldi, halda áfram, snúa við, eða leita næsta skála. Um fimmleytið var loks ákveðið að vonlaust væri að reyna eitthvað meira, og fara bara í næsta skála, sem var í Veiðivötnum. Það gekk tiltölulega áfallalaust, fyrir utan það að Tvistinum tókst strax í byrjun að brjóta framöxul/drif svo hann var í afturhjóladrifinu það sem eftir lifði ferðar og hjálpaði ekki til. Í Veiðivötn komumst við um hálfsjö um morguninn, og nutum síðan góðrar hvíldar í óupphituðum skálanum næstu klukkustundirnar.

Jarlaskáld og aðrir risu á lappir um hádegi eftir heldur stutta hvíld og skelltu sér svo í hefðbundin morgunverk. Sú ákvörðun hafði verið tekin að reyna ekkert frekar við Jökulheima eða Grímsvötn enda vonlaust verkefni, heldur snúa við og keyra niður í Hólaskóg og éta þar matinn og drekka bjórinn sem átti að neyta í Grímsvötnum. S.s. gera það besta úr þessu! Þegar haldið var frá Veiðivötnum sást fljótlega hve gríðarlega mikill krapi var enda allar lægðir himinbláar á að líta, sem við sáum auðvitað ekki um nóttina. Reyndar höfðu myndast heilu stöðuvötnin þar sem verst lét, enda þóttust ófáir hafa séð Friðrik Sophusson á vappi tilbúinn að virkja draslið. Dagsbirtan hjálpaði þannig mikið til en Tvisturinn gerði það ekki, þar sem hann var framdrifslaus þurfti að draga hann upp flestar brekkur, sem voru ófáar þar eð við reyndum að forðast allan flata! Einnig var oft mikið stuð að keyra í hliðarhalla heillengi, hálsvöðvarnir fengu í það minnsta góða æfingu.
Ekki var mikið um festur að þessu sinni enda sáum við yfirleitt hvert við vorum að fara, Tvisturinn átti reyndar eina góða og tímafreka og nokkrar auðveldari viðfangs og aðrir lentu stöku sinnum í að festa sig en ekkert í líkingu við nóttina. Lengsta töfin varð þegar Föstum tókst að brjóta eitthvað drifskaftstengi (eitthvað millikassamömbódjömbó sem Skáldið kann engin deili á) sem þýddi að stöðva þurfti olíuleka með hjálp kókflösku og ná þurfti drifskaftinu undan bílnum. Að því loknu var hann settur í spotta en sem betur fer var þá stutt í þjóðveg svo það reyndist ekki mikið vesen.
Fjörið var þó hvergi nær búið. Þegar við vorum komnir á þjóðveginn og fórum að pumpa í dekkin var komið algert hávaðarok, örugglega eitthvað vel á þriðja tug metra ef ekki meir, og þar sem vegurinn var á köflum algert gler reyndist ekki heiglum hent að halda skrjóðunum á veginum. Fór enda að lokum þannig að tveir fremstu bílar fuku nær samtímis út af á næstum sama stað og sátu fastir. Þar var veðrið orðið alveg kolbrjálað og alls ekki stætt úti svo það var meira en að segja það að losa þá. Það tókst þó eins og annað - að lokum - en þeir sem á eftir voru fóru þó aðra leið niður í Hrauneyjar til vonar og vara. Það var annars fróðleg ferð, vatn fossaði yfir veginn á köflum og stór klakastykki lágu víða á honum, greinilega eitthvað gengið á. Sem betur fer var stutt niður í Hólaskóg og var ekki slæmt að komast þar inn og geta sest niður með svalan öllara eftir barning liðins sólarhrings. Runi, Maggi, Stebbi og e.t.v. aðrir sáu síðan um að kokka dýrindis veislumat sem rann afar ljúflega niður. Að því loknu var svo setið að spjalli fram eftir nóttu og ölið sopið þó fæstir gerðu það af miklum krafti, enda gáfust sumir snemma upp. Aðrir voru duglegri...

Aftur var risið á fætur um hádegisbil á sunnudeginum og við tóku morgunverkin hefðbundnu. Umhverfið var eins og við mátti búast allt á floti og þegar allir voru ferðbúnir skemmtu menn sér við að sulla í pollunum. Í Árnesi var svo áð, pumpað í dekk og dáðst að nær guðdómlegri fegurð afgreiðslustúlkunnar, ekki slæmur bisness að hafa svona gellu, það fóru allir inn að versla bara til að kíkja á hana! Fóru svo flestir bara heim, flestir undir eigin vélarafli, en ekki allir.

Svo er bara spurning hvenær reynt verður þriðja sinni. Allt er þá þrennt er, er það ekki?

Að lokum: Nýr bloggari, Málbeinið. Allir bloggarar sem eyða drjúgum tíma í að gera grín að "Fram"sókn eiga allt gott skilið. Sem minnir á það, þetta er snilldarlesning.

Talandi um snilldarlesningar, líkast til eru ekki margir lesendur sem hafa minnstu hugmynd um hvað þetta fjallar, en þeir sem eitthvað vita um hið svokallaða "Leno/Letterman rivalry" (erfitt að þýða) ættu að lesa fyrri hluta þessarar greinar. Leno sökkar, Letterman rúlar. Punktur.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates