miðvikudagur, júní 30, 2004 

Af bruna og bleytu og bjór og fullt af drasli sem byrjar á b

Jarlaskáldið er með latasta móti í blogginu um þessar mundir, margar ástæður fyrir því, mikið að gera í vinnunni (yeah right!), of mikill fótbolti í sjónvarpinu, en þó fyrst og fremst leti. Kemur það kannski ekki að sök þar sem teljarinn bendir til að það sé u.þ.b. enginn að lesa þetta lengur. Ojæja, til þess var leikurinn svo sem aldrei gerður. Væri reyndar gaman að vita til hvers leikurinn var gerður. Humm?
Ekki hefur Jarlaskáldið verið aðgerðalaust þrátt fyrir alla letina, því líkt og þess er von og vísa brá það sér út fyrir bæjarmörkin um helgina. Frá því er saga að segja.

Um síðustu helgi hafði samkvæmt venju verið ráðgert að arka yfir eitt stykki Fimmvörðuháls og enda inni í Mörk og gera sér þar glaðan dag. Þegar leið á vikuna varð það síðan æ augljósara að veðurguðunum hugnaðist þessi áætlan engan veginn, Veðurstofan sendi út stormviðvörun og nánast bannaði fólki að leggja á Hálsinn. Varð það enda raunin að hætt var við för þessa.
Koma þá til sögunnar drengir tveir. Frægir eru þeir að ýmsu, og misgóðu, og er eitt af því óskynsamleg bjartsýni þegar kemur að ferðalögum. Varð það nefnilega að samkomulagi þeirra í millum þegar nokkuð var á föstudag liðið og enginn ætlaði í ferðalag að leggja bara tveir í hann inn á Þórsmörk og gera það besta úr því, fullvissir um þar yrði bongóblíða og að veðurfræðingar væru bara klikk.
Var lagt af stað á áttunda tímanum og var fararskjótinn hinn 22 ára gamli
Willy. Gekk ferðalagið vel í fyrstu, ekið yfir Heiðina og fram hjá Hnakkaville, en stuttu síðar kom babb í bátinn. Fór Willy þá allt í einu að ræskja sig og hósta og láta öllum illum látum. Sagði föðureðli eigandans umsvifalaust til sín og ekið inn næsta bæjarafleggjara til að kanna málið. Þegar staðnæmst var gaus svartur reykur upp úr húddinu og þegar lokið var opnað kom vandamálið berlega í ljós; vélin stóð í ljósum logum!
Varð það okkur til happs að slökkvitæki var með í för og tókst eigandanum með snarræði að slökkva bálið á mettíma. Var síðan tekið til við að kanna skemmdir og reyndust þær furðulitlar, leiðsla frá rafgeyminum yfir í eitthvað gizmotæki utan á honum hafði brunnið og í raun fátt annað. Var því bara kippt af og sko til, Willy var hinn hraustasti og okkur ekkert að vanbúnaði að halda áfram svona þegar hjartað var komið nægilega upp úr buxunum. Þetta má kalla að sleppa með skrekkinn.
För var haldið áfram og sosum ekki margt til tíðinda þar. Þegar inn á Mörk var komið var vitaskuld ausandi rigning og því dálítið í ánum en ekkert til vandræða. Inni í Básum fundum við okkur svo tjaldstæði í fínu skjóli eftir nokkra leit, drifum okkur í texið, húrruðum upp tjöldum og dreyptum svo á eilitlum bjór í góðu skjóli Willa. Engin stórafrek voru gerð þetta kvöld, gerður var rannsóknarleiðangur um svæðið og einhverjum boðið í nefið, en svo haldið í svefn um þrjú og sofið meðan regnið buldi á tjöldunum.

Var gert nokkuð vel í því að sofa. Reyndar svo vel að ekki sáust menn gægjast út úr tjöldum fyrr en á þriðja tímanum. Fór dagurinn að mestu í smá rúnta um svæðið, ýmist á Willa eða fótgangandi, og var alls staðar hífandi rok nema í Básum, og einnig var rigningin orðin allstopul. Þau boð bárust úr bænum að von væri á liðsauka þaðan, en þó ekki fyrr en að loknum leik, svo við Stefán hófum hefðbundin aðalfundarstörf bara tveir og aftur í góðu skjóli Willa. Eftir ágætis undirbúning lá leiðin svo í partítjald eitt stórt hvar stór hópur frá Útivist skemmti sér við gítarleik og söng og vorum við aufúsugestir þar. Liðsaukinn barst svo að lokum, voru þar á ferð Andrésson, Gústi, Vignir og Toggi ásamt Svenna nokkrum og pari einu hvert Skáldið ei þekkti. Fóru svo aðalfundarstörf fram með hefðbundum og minna hefðbundnum hætti uns menn lágu örendir.

Sunnudagurinn heilsaði enn og aftur með rigningu og safnaðist hópurinn því inni í risastóru fjölskyldutjaldi þegar hver og einn vaknaði en stuttu síðar hætti að rigna og komin hin ágætasta blíða. Var þá dregið upp grill og þær pylsur sem fundust etnar. Svo var legið í leti í blíðunni undir fögrum undirleik Árna Johnsen, William Hung og fleiri góðra manna uns draslið var tekið saman upp úr 4 og haldið heimleiðis. Ekki gerðist fleira merkilegt, nema það að Skáldið hélt sig lesa andlátsfregn Fjölnis Þorgeirssonar á Hellu er það fletti Fréttablaðinu. Það reyndist því miður mislestur.


Ekki hefur Skáldið fengið nóg af Þórsmörkinni, heldur betur ekki, því eins og teljarinn hér til vinstri sýnir styttist óðum í „Helgina“, FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð. Það verður stuð, og allir þeir sem af því missa munu aldrei fyrr né síðar fylla upp í það tóm í lífi þeirra sem það veldur. Taki þeir það til sín sem vilja. X-rated ferðasaga eftir helgina, bíddu spenntur lesandi góður! (Ekki að ástæðulausu að þetta var í eintölu)

sunnudagur, júní 27, 2004 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

 



Myndina sendi Jarlaskáldið
Sent með GSMbloggi Og Vodafone

föstudagur, júní 25, 2004 

Damn!

Það gat klikkað...

þriðjudagur, júní 22, 2004 

Ágætis endurkoma

Ojæja, á maður að gera tilraun til að blogga eitthvað að nýju? Svo virðist sem allmargir bloggarar séu hættir, komnir í sumarfrí eða þjáist af bloggleti, og styttist því væntanlega í að bætist í aumingjalistann hér vinstra megin. Til að tryggja að Jarlaskáldið þurfi ekki að bæta sjálfu sér við þann lista ætlar það að reyna að greina að einhverju leyti frá upplifunum þess undanfarnar tvær vikur og rétt rúmlega það.

Í síðasta pistli sem fjallaði um eitthvað sagði frá helginni 4.-6. júní, en þá brá Skáldið sér við níunda mann upp í Kerlingarfjöll og gerði ýmsa vitleysu. Um ferð þá hefur Stefán nokkur twist ritað pistil einn mikinn og hefur Jarlaskáldið litlu við hann að bæta, þar er satt og rétt greint frá í helstu atriðum þó heldur sé þáttur Jarlaskáldsins snubbóttur. Prýðilegasta ferð.

Síðan þessa helgi er varla hægt að segja að Skáldið hafi brugðið sér út fyrir bæjarmörkin, hvað þá í almennilegt ferðalag. Það stendur þó til bóta, meira um það síðar. Vikuna eftir Tjéllingarfjöll hangsaði Skáldið í vinnunni fram til fimmtudags en sagði þá hingað og ekki lengra, sagði bless og hefur ekki sést þar síðan. Er það vel.
Föstudaginn 11. júní naut Skáldið sumarfrísins, sem var alveg þessi heili dagur, með því að sofa vel og lengi. Þar sem almennur öræfaótti ríkti meðal VÍN-verja voru allir í bænum og því gráupplagt að skoða næturlífið. Það var gert en þó í mýflugumynd hvað Skáldið varðar á föstudagskvöldið, sótti það heim Kára Marís og karl föður hans ásamt Stefáni twist og var síðar haldið í bæjarför, þó án gamla mannsins. Jarlaskáldið gegndi stöðu bílstjóra og er vandséð hví það var. Urðu viðkomustaðir tveir, Ari í Ögri og Kaffibrennslan en að því loknu skilaði Skáldið piltunum til sinna heima og að lokum sjálfu sér. Rólegheit.
Þau urðu eitthvað minni rólegheitin kvöldið eftir. Jarlaskáldið endurtók þá heimsóknina síðan kvöldið áður og í sama félagsskap en hélt svo enn hærra upp á Hálendið, alla leið upp í Asparfell, en þar bauð Vífill til veislu. Var þar eitthvað um manninn og skálaglamm nokkuð, í það minnsta gerðust menn glaðir og jafnvel góðglaðir. Jawohl. Úr Asparfellinu lá leiðin í Kópavoginn hvar Kiddi inn rauði, oft kenndur við Mad, fagnaði útskrift úr Íþróttakennaraskólanum. Hvað Jarlaskáldið varðar lá leiðin ekki mikið lengra, og er Kópavogssyndróminu kennt um. Sunnudagurinn var svo ekki alveg að gera sig.

Mánudaginn 14. janúar hóf Jarlaskáldið glæsilegan (en líklega stuttan) feril sinn sem starfsmaður Flutnings- og þýðingadeildar Norðurljósa. Ekki ætlar Jarlaskáldið að breyta til og fara að blogga um vinnuna, auk þess var Skáldið látið skrifa undir þagnareið og getur því ekki uppljóstrað neitt um atburði í þessu aðalvígi spillingar og glæpa á Íslandi. Nema að þetta er fínt. Að vakna klukkan tíu á morgnana venst nefnilega vel.

17. júní var víst líka í þessari viku, þá fór Skáldið í bæinn í þeim tilgangi að sjá Brúðubílinn en missti því miður af honum. Öllari og kjúklingasamloka á Póstbarnum var ágætis sárabót. Að öðru leyti var dagurinn gleymanlegur. Kvöldið á undan var reyndar skrýtið. Þá tók Skáldið sig til og arkaði upp á Esjuna upp á sitt einsdæmi. Og komst að því að nokkurra mánuða hreyfingarleysi hefur áhrif. Seiseijú.

Um síðustu helgi fóru fjölmargir VÍN-verjar á Mývatn og gerðu eflaust allt vitlaust þar. Illu heilli var Jarlaskáldið ekki þar á meðal, þess í stað stóð það vaktina á fréttastofu Stöðvar 2 og passaði upp á hluti þar. Hví? Af því þetta fólk er leiðinlegt með víni. Sem leiðir hugann að næstu helgi.

Um næstu helgi ætlar Jarlaskáldið nefnilega að gera árvissa könnun á því hvort gönguleiðin inn á Þórsmörk sé fær. Með í för verða einhverjir, óljóst hverjir, en þó er ljóst að þeir sem ekki verða með í för munu fæðast sem eitthvað lítilfjörlegt í næsta lífi. Líklega sem rykmaurar í naflakuski. Hvað sem því líður ætlar Skáldið að arka yfir Fimmvörðuháls hvað sem allar veðurspár segja og hrynja svo í það í Básum að því loknu. Getur ekki klikkað. Svo eru ekki nema 10 dagar í FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð. Allt að gerast!

sunnudagur, júní 20, 2004 

Blogg dautt?

Það er stóra spurningin. Tölvan er illa haldin af sjúkleikum ýmsum, og óvíst hverjar batahorfur eru. Spurning að henda draslinu og kaupa nýtt? Kannski. Allavega standa vonir til þess að blogg muni hefjast hér að nýju, jah, fljótlega. Þangað til...

mánudagur, júní 07, 2004 

Handbendi Baugsveldisins?

Ekki gat Jarlaskáldið haldið sig í heimasveit þessa helgina frekar en margar aðrar, fór upp í Tjellingarfjöll við níunda mann, arkaði þar upp fjöll og skíðaði niður og neytti furðulega lítils áfengis. Kannski maður nenni að skrifa ítarlegri ferðasögu á morgun, ekki núna. Annars mun stórfrétt vikunnar víst vera sú að Jarlaskáldið er komið með nýja vinnu. Norðurljós sáu sér hag í að nýta krafta Jarlaskáldsins gegn illsku forsætisráherra og buðu því vinnu í sumar, og hefur það störf á mánudaginn. Nú má Davíð sko fara að passa sig.

Ein spurning að lokum:

Ef Alþingi býr til lög um þjóðaratkvæðagreiðslu eins og allt bendir til, Ólafur Ragnar neitar að skrifa undir þau og vísar þeim í staðinn til þjóðaratkvæðagreiðslu, hvað gerist þá? Spyr sá sem ekki veit.

sunnudagur, júní 06, 2004 


Á toppi Snækolls í Tjellingafjöllum

föstudagur, júní 04, 2004 

fimmtudagur, júní 03, 2004 

Ferðasagan sem beðið var eftir!

Eins og myndirnar að neðan bera með sér brá Jarlaskáldið sér vestur á Firði um hvítasunnuhelgina ásamt nokkrum valinkunnum einstaklingum. Skemmst er frá því að segja að ferð sú var snilld í alla staði. Lengst er aftur á móti frá því að segja, ja, eftirfarandi:

Eftir nokkuð japl og jaml og afsakanir af öllum toga voru það ekki nema 5 sem lögðu í hvítasunnuför í ár, samanborið við eitthvað á annan tuginn í fyrra. Eru aðrir en þessir fimm nú úr sögunni. Fimmmenningar þessir voru þeir Vignir og Stefán ásamt Jarlaskáldinu á Hispa hans Vignis og Andrésson og frú á feitum Krúser sem þau höfðu fjárfest í fyrr um daginn. Kom það sér vel enda menn með ærinn farangur með sér svo ekkert veitti af plássinu. Að venju var byrjað á að koma við í Kjörbúð, þar sem m.a. var fjárfest í virtu herratímariti. Það olli reyndar nokkrum vonbrigðum, lítt krassandi, en þó vel nothæft. Fer svo litlum sögum af ferðalaginu fyrr en á Borgarnesi, þar sem verslað var að nýju enda ekki á karlmanna færi að gera slíkt í einni ferð. Var svo ekið áfram og fljótlega var rigningarsuddi sem hafði verið að angra okkur á bak og burt og sólin braust fram eins og eftir pöntun. Í Bröttubrekkunni klauf Hispi loftið eins og Concordeþota, svo ekið fram hjá Búðardal og yfir Gilsfjörð og stuttu síðar var fyrsta áfanga ferðarinnar lokið, en það var við Bjarkalund. Þar var tjaldað í blíðskaparveðri og eitthvað spjallað að því loknu en ekki leið á löngu fyrr en Óli lokbrá leit við og veitti ekki af því þar eð morgundagurinn beið með stífa dagskrá.

Og það var risið heldur snemma úr rekkju á laugardeginum, a.m.k. fyrr en venjulega á þeim dögum. Að loknum hefðundnum morgunverkum (M-in þrjú, messa, matur og Múller) var svo fyrsta mál á dagskrá að líta við á því gamla höfuðbóli Reykhólum. Þar var fjölmargt fróðlegt að sjá, t.d. hlunnindasafn, við þorðum reyndar ekki inn en gerðum ráð fyrir að þar væru einkum geymdir seðlabankastjórar á eftirlaunum. Þarna var einnig þörungaverksmiðja og sjór sem Stefán og Jarlaskáldið pissuðu út í til að fagna rjómablíðunni sem ríkti. Næsta mál á dagskrá var að keyra firðina út að Barðaströnd. Það eru sko margir firðir og bjóða upp á stórskemmtilega vegi, blindhæðir og -beygjur, holur sem hægt væri að týnast í og snarbrattar brekkur. Roknastuð, og óskiljanlegt að forsetinn hafi kvartað undan þessu um árið. Samkvæmt lauslegri talningu voru þetta 10 firðir sem fórum gegnum og mættum ca. 4 bílum á leiðinni, sem merkilegt nokk voru allir bláir. Við Skálmarnesið var gert nestisstopp og voru flestir þá farnir að fækka allverulega fötum, slík var blíðan. Við Flókalund var einnig gert stutt stopp og gætt sér á frostpinnum auk þess sem sumir nutu útsýnisins, og skilja þeir það sem vilja.
Eftir þetta var lagt á fjall, Tröllahálsinn hvorki meira né minna, og þaðan yfir á Dynjandisheiði. Þar uppi rákumst við á þetta skilti, og þótti broslegt. Heldur þótti lofthræddum bílstjóranum á Hispa vegurinn skuggalegur, og það ekki í seinasta skipti í þessari ferð. Þegar við komum niður af Dynjandisheiði keyrðum við inn í Dynjandisvog og komum þar að fossi sem merkilegt nokk er kallaður Dynjandi. Reyndar einnig nefndur Fjallfoss, en það er ekki nærri eins kúl. Til þess að geta sagst hafa farið í Hvítasunnufjallgöngu var ákveðið að arka upp að fossinum og þótti afrek mikið. Varð Jarlaskáldinu reyndar svo um afrek sitt að það þurfti að róa taugarnar með göróttum drykk þegar það kom aftur niður, og fylgdu ýmsir í það kjölfar. Að loknu þessari fossaskoðun var ekið Dynjandisheiðina til baka en í stað þess að fara Tröllahálsinn var beygt til hægri og keyrt niður í Arnarfjörð að nýju, en á öðrum stað en fyrr. Á vegi okkar urðu ýmis skemmtileg fyrirbæri, t.d. subbuleg sundlaug í Reykjarfirði og allvígalegur hnakki á sömu slóðum. Ekki löngu síðar kom að fyrsta krummaskuði þessa dags, Bíldudal. Þegar þar var komið sögu voru gaulir byrjaðar að garna og var því fundinn veitingastaður (sennilega mætti bæta greini hér við) og kom það okkur skemmtilega á óvart þegar við sáum að þar var boðið upp á amerískar pönnukökur með sírópi, smjöri og beikoni. Algjör snilld!
Eftir þessa snilldarmáltíð var ekið upp á Hálfdán og mættum við þar öðrum hnakka (þessi plága virðist hafa breiðst um allt land), ekki þorðum við inn í Tálknafjörð svo áfram var ekið og inn á Patreksfjörð. Þar undruðumst við að enginn reyndi að lemja okkur (það ku vera þeirra aðalsport að lemja aðkomumenn) svo við tókum bara bensín og héldum svo burt. Næst bar okkur að elsta ryðdalli Íslands og var hann að sjálfsögðu skoðaður í bak og fyrir, en síðan ekki stoppað fyrr en í Breiðuvík og ekki farið lengra þann daginn.
Í Breiðuvík voru eingöngu tveir þýskir túristar á tjaldstæðinu svo rúmt var um okkur. Staðarhaldarinn var síðan einhver sá almennilegasti sem maður hefur rekist á, sleppti manni varla burt fyrr en hún hafði sýnt manni allt sem í boði var, sem var nota bene allt innifalið í 600 króna tjaldgjaldi, sturtur, eldhús, bar, you name it. Um kvöldið var grillað á glænýju gasgrilli Andréssonar og frúar þegar okkur hafði loks tekist að klambra því saman og var góður rómur gerður að því. Um kvöldið og nóttina er svo óþarfi að fjölyrða mikið, gleði var ríkjandi, jafnt inni á barnum sem utandyra og bæði Warsteinerinn og Cointreauið brögðuðust vel. Jamm.

Það var barasta fín heilsa á mönnum á sunnudagsmorguninn og má það vafalaust þakka vestfirsku fjallaloftinu. Var nú komið að aðaltakmarki ferðarinnar (ef eitthvert var), að skoða þetta Látrabjarg sem á víst að vera svo flott. Og það má það eiga, það er déskoti flott. Þar hittum við hóp amerískra fuglaskoðara sem við höfðum reyndar rekist á fyrr í ferðinni og fyrir þeim fór fyrrverandi kennari úr M.S., Hákon að nafni, sem fræddi okkur um fuglategundir og var hinn skemmtilegasti. Nutum við veðurblíðunnar sem hafði ekki yfirgefið okkur eina einustu sekúndu um stund en héldum svo að lokum til baka. Andrésson og frú tóku forystuna og stungu okkur hina af en hefðu betur sleppt því því á Hnjóti gerðum við hinir stans og skoðuðum þar flugvélar og fleira flugtengt og fengu sumir góða standpínu af. Þó ekki Jarlaskáldið.
Næst á vegi okkar varð Sauðlauksdalur og spunnust þar nokkar umræður um sauðlauka og hvernig þeir brögðuðust en stuttu síðar var beygt til hægri og ekinn allsvakalegur vegur á köflum niður á Rauðasand. Byrjuðum við á að líta við að bænum Sjöundá en þangað getur Jarlaskáldið að sögn rekið ættir sínar (aldeilis góð arfleifð) en fundum síðan Andrésson og frú og snæddum eilítið nesti. Vignir ákvað að tími væri til þess kominn að hefja dagdrykku (vestfirska fjallaloftið virkaði ekki alveg jafnvel á hann og aðra) og ekki gat Skáldið skilið hann eftir einan í þeim efnum svo Stefán tók við stýrinu. Var ekin Kleifaheiðin og síðan Barðaströndin, m.a. fram hjá merkisbýlinu Arnórsstöðum (smekklegt nafn), gert stutt stopp við aðra subbulaug við Hagavaðal en að öðru leyti keyrt án afláts alveg að Flókalundi hvar höfð skyldi næturgisting. Þar beið okkar glæsilegt tjaldstæði og ekki var hægt að kvarta undan troðning, ca. fjórir aðrir á staðnum. Komum við upp tjöldum og eftir nokkra diskússjón var ákveðið að hafa grill næst á dagskrá. Kom þar nokkuð babb í bát því ráðgert var að grilla læri með því að grafa það en þar sem Vatnsfjörður telst vera friðland var tekið fyrir allt slíkt. Var málið leyst með því að leggja nokkrar hellur (hér er brandari sem nokkrir skilja) og leit það vel út þegar byrjaði að krauma. Sá Jarlaskáldið um að grilla að mestu (þ.e.a.s. snúa lærinu reglulega enda eitt um að eiga hanska til þess) en aðrir sáu um að búa til sósu og salat. Niðurstaða alls þessa var að mati Jarlaskáldsins stórkostleg, gersamlega frábær matur og ekki að undra þegar slíkt einvalalið leggst á eitt.
Eftir að hafa legið eilítið á meltunni þótti þjóðráð að leggjast í heitan pott og samkvæmt ráðleggingum kunnugra var arkað niður í fjöru hvar heitur pottur átti að vera. Reyndist það rétt vera, voru þar fyrir hjón frá Bolungarvík og tókust með okkur ágæt kynni. Andrésson og Jarlaskáldið gerðu ítrekaðar tilraunir til að peppa sig upp í sjóböð en án árangurs svo tíminn fór að mestu í hefðbundnari aðalfundarstörf. Eftir þónokkuð sull var arkað að nýju upp á tjaldstæði og eitthvað þraukað fram eftir nóttu en án merkilegra atburða, a.m.k. eru þeir þá í vörslu Óminnishegrans.

Jarlaskáldið vaknaði undir dýnunni inni í tjaldi morguninn eftir og þótti það kúnstugt sem og öðrum. Enn var brakandi blíða og fór fyrsti partur dagsins í að koma sér í gang. Búið var að panta far með Baldri klukkan 5 svo eitthvað þurfti að gera til að drepa tímann þangað til. Var í því skyni kíkt inn í Vatnsdal en þó var mest um vert að etið var á hótel Flókalundi og fékk Jarlaskáldið sér pizzu „Flókalundur Special“ sem var afbragð en allt of mikil að vöxtum. Einnig var ekið inn í skóg auk þess sem Skáldið og Vignir sulluðu í ám. Að lokum varð klukkan fimm og gengið var um borð í Ballann. Gengum við öll upp á dekk og enn var blíðskaparveður en eins og hendi væri veifað skall á hífandi rok og vart stætt úti. Afar skrýtið þótti okkur en góð tímasetning engu að síður. Reyndar lægði aftur fljótlega svo skaplegt var í sjóinn, var tímanum þessa þrjá tíma einkum eytt úti á þilfari eða í vídjóherberginu þar sem Mr. Bean var sýndur við mikil hlátrasköll. A.m.k. varð ekki vart við sjóveiki, og er það vel.
Um áttaleytið var lent í Stykkishólmi en enginn mun þó hafa gert stykki sín þar, aftur á móti voru pylsur etnar og voru þær kærkomnar. Tók svo við annars tíðindalítill akstur í bæinn, auðvitað byrjaði að rigna eldi og brennisteini á heimleiðinni sem var bara fínt enda hafði verið sól og blíða alla þessa þrjá daga. Var ferðinni formlega slúttað í Jöklafoldinni á ellefta tímanum og höfðu allir á orði að hún hefði verið snilld hin mesta. Þó ekki jafngóð og að helluleggja...

þriðjudagur, júní 01, 2004 

Af hellulögn

Ferðasagan er í vinnslu...en hér eru myndir:

Vignir og Skáldið á Baldri




Vignir að sulla




Jepparnir að jeppast




Etnar pizzur og borgarar á Hótel Flókalundi




Vignir og Maggi að sulla




Setið við tjaldstæði Flókalundi




Vignir og Stebbi að labba að heita pollinum í Vatnsfirði




Lambaafturhásing etin




Grillið á fullu




Skáldið að púlla Hómer




Maggi úti í sjó




Séð af Kleifaheiði niður í Patreksfjörð




Rauðasandur




Rauðasandur 2




Vignir að æfa sig að fara um borð í flugvél




Aeroflot




Inni í Fjarkanum




Fólk uppi á Látrabjargi




Látrabjarg




Breiðavík




Stebbi og Skáldið í Bjarkalundi




Búðardalur




Skáldið við Dynjandi




Þarna var GSM samband




Glæsilegt veisluborð




Jarlaskáldið við Látrabjarg




Og hér eru svo fleiri myndir.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates