« Home | Blogg dautt? Það er stóra spurningin. Tölvan er i... » | Handbendi Baugsveldisins? Ekki gat Jarlaskáldið h... » | Á toppi Snækolls í Tjellingafjöllum » | » | Ferðasagan sem beðið var eftir! Eins og myndirnar... » | Af hellulögn Ferðasagan er í vinnslu...en hér eru... » | Vestfjarðavíkingurinn Ojæja, hefst þá sumarvertíð... » | Hvað gerðist á uppstigningardag? Jú, Skáldið fór í... » | » | Vignir að sulla » 

þriðjudagur, júní 22, 2004 

Ágætis endurkoma

Ojæja, á maður að gera tilraun til að blogga eitthvað að nýju? Svo virðist sem allmargir bloggarar séu hættir, komnir í sumarfrí eða þjáist af bloggleti, og styttist því væntanlega í að bætist í aumingjalistann hér vinstra megin. Til að tryggja að Jarlaskáldið þurfi ekki að bæta sjálfu sér við þann lista ætlar það að reyna að greina að einhverju leyti frá upplifunum þess undanfarnar tvær vikur og rétt rúmlega það.

Í síðasta pistli sem fjallaði um eitthvað sagði frá helginni 4.-6. júní, en þá brá Skáldið sér við níunda mann upp í Kerlingarfjöll og gerði ýmsa vitleysu. Um ferð þá hefur Stefán nokkur twist ritað pistil einn mikinn og hefur Jarlaskáldið litlu við hann að bæta, þar er satt og rétt greint frá í helstu atriðum þó heldur sé þáttur Jarlaskáldsins snubbóttur. Prýðilegasta ferð.

Síðan þessa helgi er varla hægt að segja að Skáldið hafi brugðið sér út fyrir bæjarmörkin, hvað þá í almennilegt ferðalag. Það stendur þó til bóta, meira um það síðar. Vikuna eftir Tjéllingarfjöll hangsaði Skáldið í vinnunni fram til fimmtudags en sagði þá hingað og ekki lengra, sagði bless og hefur ekki sést þar síðan. Er það vel.
Föstudaginn 11. júní naut Skáldið sumarfrísins, sem var alveg þessi heili dagur, með því að sofa vel og lengi. Þar sem almennur öræfaótti ríkti meðal VÍN-verja voru allir í bænum og því gráupplagt að skoða næturlífið. Það var gert en þó í mýflugumynd hvað Skáldið varðar á föstudagskvöldið, sótti það heim Kára Marís og karl föður hans ásamt Stefáni twist og var síðar haldið í bæjarför, þó án gamla mannsins. Jarlaskáldið gegndi stöðu bílstjóra og er vandséð hví það var. Urðu viðkomustaðir tveir, Ari í Ögri og Kaffibrennslan en að því loknu skilaði Skáldið piltunum til sinna heima og að lokum sjálfu sér. Rólegheit.
Þau urðu eitthvað minni rólegheitin kvöldið eftir. Jarlaskáldið endurtók þá heimsóknina síðan kvöldið áður og í sama félagsskap en hélt svo enn hærra upp á Hálendið, alla leið upp í Asparfell, en þar bauð Vífill til veislu. Var þar eitthvað um manninn og skálaglamm nokkuð, í það minnsta gerðust menn glaðir og jafnvel góðglaðir. Jawohl. Úr Asparfellinu lá leiðin í Kópavoginn hvar Kiddi inn rauði, oft kenndur við Mad, fagnaði útskrift úr Íþróttakennaraskólanum. Hvað Jarlaskáldið varðar lá leiðin ekki mikið lengra, og er Kópavogssyndróminu kennt um. Sunnudagurinn var svo ekki alveg að gera sig.

Mánudaginn 14. janúar hóf Jarlaskáldið glæsilegan (en líklega stuttan) feril sinn sem starfsmaður Flutnings- og þýðingadeildar Norðurljósa. Ekki ætlar Jarlaskáldið að breyta til og fara að blogga um vinnuna, auk þess var Skáldið látið skrifa undir þagnareið og getur því ekki uppljóstrað neitt um atburði í þessu aðalvígi spillingar og glæpa á Íslandi. Nema að þetta er fínt. Að vakna klukkan tíu á morgnana venst nefnilega vel.

17. júní var víst líka í þessari viku, þá fór Skáldið í bæinn í þeim tilgangi að sjá Brúðubílinn en missti því miður af honum. Öllari og kjúklingasamloka á Póstbarnum var ágætis sárabót. Að öðru leyti var dagurinn gleymanlegur. Kvöldið á undan var reyndar skrýtið. Þá tók Skáldið sig til og arkaði upp á Esjuna upp á sitt einsdæmi. Og komst að því að nokkurra mánuða hreyfingarleysi hefur áhrif. Seiseijú.

Um síðustu helgi fóru fjölmargir VÍN-verjar á Mývatn og gerðu eflaust allt vitlaust þar. Illu heilli var Jarlaskáldið ekki þar á meðal, þess í stað stóð það vaktina á fréttastofu Stöðvar 2 og passaði upp á hluti þar. Hví? Af því þetta fólk er leiðinlegt með víni. Sem leiðir hugann að næstu helgi.

Um næstu helgi ætlar Jarlaskáldið nefnilega að gera árvissa könnun á því hvort gönguleiðin inn á Þórsmörk sé fær. Með í för verða einhverjir, óljóst hverjir, en þó er ljóst að þeir sem ekki verða með í för munu fæðast sem eitthvað lítilfjörlegt í næsta lífi. Líklega sem rykmaurar í naflakuski. Hvað sem því líður ætlar Skáldið að arka yfir Fimmvörðuháls hvað sem allar veðurspár segja og hrynja svo í það í Básum að því loknu. Getur ekki klikkað. Svo eru ekki nema 10 dagar í FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð. Allt að gerast!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates