« Home | 5 ára ammili » | Spítalamatur » | HÆGRIHANDARBLOGG » | Fréttafalsanir » | Agureyrish 2007 » | Mars » | Stórlega ýktar andlátsfregnir » | Komið heim » | Loksins eitthvað! » | Uppörvandi » 

þriðjudagur, maí 08, 2007 

Árangur áfram, hólí fokk!


Long time no write. Kannski ráð að bæta úr því. Það hefur jú eitt og annað gerst þessar þrjár vikur sem Jarlaskáldið hefur ekki nennt að skrifa neitt að ráði. Auðvelt væri að kenna brotnum úlnlið um letina, en það væri líklegast hæpið. Maður sem getur farið þrisvar í útilegur og sumarbústaðadjömm getur andskotast til að pikka á lyklaborð. Þetta er því líkast til bara hreinræktuð leti. Ekki að það sé neitt að því, leti er góð. Maður er bara að hvíla sig áður en maður verður þreyttur.

Byrjum á því að fara langt aftur í fortíðina, allt aftur að síðasta vetri, nánar tiltekið síðasta vetrardegi, sem var 18. apríl. Þá fór Skáldið í útilegu, en þó ekki. Áætlunin hafði verið, líkt og undanfarin ár, að arka upp á Snæfellsjökul á sumardaginn fyrsta og mæta í þeim tilgangi á Arnarstapa kvöldið áður og gista í tjaldi. Sakir ástands síns var Skáldið hvorki fært um að gista í tjaldi né arka upp fjöll, en Haffi fékk þá úrvalshugmynd að fá lánaðan húsbíl föður síns, Fífí, og aka honum á Arnarstapa og gista þar. Það var þrælsniðugt. Auk okkar letingjans og öryrkjans mættu þeir Stefán og Magnús og Magnús og Gvendur á Stapann, en þeir gistu í tjöldum í skítakulda og löbbuðu svo upp á jökulinn í þoku daginn eftir. Óheppnir þeir. Við gistum í hlýjum bílnum, sváfum út og fengum okkur svo bíltúr kringum Nesið, með viðkomu hér og þar, Skáldið lét aflraunasteinana eiga sig í þetta skiptið en hafði sigur á pylsu og kóki í Stykkishólmi eftir tvísýna baráttu. Það er meira en að segja það að borða pylsu og kók með aðeins aðra höndina nothæfa.
Annars var þetta hinn ágætasti bíltúr og ekki var gistingin síðri og allar líkur á að Fífí verði fenginn í verkefni síðar í sumar ef tækifæri gefst.

Ekki fer miklum sögum af afgangi aprílmánaðar, að undanskildum síðasta degi hans, en þá hélt Skáldið í langþráðan Merkurtúr við fimmta mann. Leiðangursmenn voru Skáldið, Haffi og Alda á Didda (áður þekktur sem Sibbi), og við Stóru-Mörk mættu þeir Stefán og Vignir á sænskum eðalvagni og fengu far síðasta spölinn með Didda. Vegurinn inn eftir var hinn prýðilegasti og lítið í ám og þegar í Bása var komið var lautin okkar laus (eins og reyndar allir aðrir staðir) svo við skelltum upp tjöldum þar, Vignir vígði m.a. Hádegismóana eftir margra ára vist í smáfellihýsinu (þó ekki samfellda), og kvaðst hann að því loknu þjást af víðáttubrjálæði. Jarlaskáldið naut dyggrar hjálpar Öldu við tjöldun, ekki veitti af því, og þáði hún gistingu að launum. Við tók svo hin ágætasta kvöldstund í blíðskaparveðri, allir ósköp rólegir í tíðinni og fóru tiltölulega snemma í háttinn, enda þurfti að vakna snemma til að syngja Maístjörnuna. Það tókst. Svo var aðeins gengið og rúntað um Mörkina eins og kveðið er á um í undirbúningsferðalagalögum nr. 27 sem samþykkt voru á síðasta Landsfundi VÍN. Skv. frumskoðun virðist allt á góðri leið með að vera tilbúið fyrir næstu FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkuferð eftir 52 daga, en betur má ef duga skal, og mælir Skáldið því með frekari undirbúningsferðum áður en að því kemur. Heimferðin var svo tíðindalítil, fengum slappar pítsur á Kanslaranum á Hellu og er hann því hér með kominn í viðskiptabann. Það var þó ekki nóg til að varpa skugga á fína ferð, enda alltaf gaman að koma í Mörkina.

Að síðustu skal vikið að síðustu helgi. Þá vaknaði Jarlaskáldið um kl. hálfátta á laugardagsmorgninum, sótti Haffa og ók við ellefta mann á Selfoss. Þar var Togga stolið úr vinnuútkalli sem við höfðum narrað hann í og við tók steggjun. Jarlaskáldið er eðlilega bundið þagnareiði um atburði þar, en þess má geta að ein afleiðing helgarinnar er sú að lamb sem kom í heiminn austur á landi var skírt í höfuðið á Jarlaskáldinu. Annars eru myndir hér og hér, þ.e.a.s. þær fáu sem komust gegnum ritskoðun. Dragið ykkar eigin ályktanir.

Langar bara að benda Skáldinu á þá staðreynd að þetta Ovlov-hræ sem Litli Stebbalingurinn var á þarna er hvorki sænskur né eðalvagn.
Bara svo það sé á hreinu

Skrifa ummæli

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates