« Home | Stórlega ýktar andlátsfregnir » | Komið heim » | Loksins eitthvað! » | Uppörvandi » | La Dolce Vita » | 2006 í máli og myndum » | Flón ársins » | Tveggja vikna tal » | Flutningar » | Agureyrish á kafi » 

mánudagur, mars 05, 2007 

Mars

Þetta er nú orðið ljóta aumingjabloggið. Jarlaskáldið er reyndar þeirrar skoðunar að ef maður hafi lítið eða ekkert til málanna að leggja sé ráðlegast að þegja bara. Eitthvað sem óskaplega margir mættu taka sér til fyrirmyndar. Margir þeirra eru Moggabloggarar.

Jarlaskáldið þykist sumsé hafa frá einhverju að segja fyrst það er sest niður og byrjað að skrifa. Best er sennilega að byrja á því að líta yfir farinn veg, til að auka sagnfræðilegt heimildagildi pistilsins:

23. febrúar hélt aumingjabloggarinn og samstarfsmaðurinn upp á elli sína, 30 ár komin á töfluna og því boðað til veislu. Veislan sú reyndist hin ágætasta, fjölmargt fólk á staðnum sem Skáldið hittir allt of sjaldan og gestgjafinn ónískur á veitingar. Ekki lá leiðin lengra en í Grafarvoginn þetta kvöld, en kvöldið eftir bauð frænkan til samsætis í Hólunum, þar sem var fámennt en góðmennt, uns Stefán Twist sá um að koma hersingunni niður í bæ þaðan sem haldið var á NASA hvar Sálin lék fyrir dansi. Fínasta skrall, enda vanir menn á ferð, bæði hvað varðar Sálina og Skáldið.
Jarlaskáldið var ekki sérlega atorkusamt á sunnudeginum, glápti á Óskarinn fram eftir nóttu og sá eftir því stuttu síðar þegar það vaknaði í vinnuna.

Já, vinnuna. Þar urðu breytingar í síðustu viku, því fimmtudaginn 1. mars flutti Skáldið sig um ca. 10 metra og kom sér fyrir í þýðendaherberginu. Þar hefur það undanfarna daga setið með sveittan skallann og þýtt "úrvalssjónvarpsefni" sem mun birtast á skjánum innan tíðar. Að eigin áliti hefur það gengið bærilega, soldil kúnst að komast inn í þetta, auk þess sem tæknin hefur ekki verið Skáldinu hliðholl, en þetta lofar a.m.k. góðu og ágætis tilbreyting frá próförkunum, sem Skáldið er að vísu ekki laust við, og losnar sennilega seint við.

Síðasta helgi var síðan bara nokkuð heilsusamleg, almenn leti og ómennska á föstudaginn, spilað yfir nokkrum köldum á laugardagskveld og síðan brugðið sér í Bláfjöllin á sunnudeginum, eins og sjá má hér. Fínasti skíðatúr, og ágætisupprifjun fyrir Agureyrishferð 2007, sem einungis 10 dagar eru í. Þangað til er ekki von á miklu, óvissuferð með vinnunni um helgina að vísu, en eðli málsins samkvæmt veit Skáldið lítið um hvernig það verður. Jú, Skáldið þarf að fara að láta laga Lilla. Hann er ekki mikið fyrir að keyra þessa dagana. Litla skinnið...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates