« Home | HÆGRIHANDARBLOGG » | Fréttafalsanir » | Agureyrish 2007 » | Mars » | Stórlega ýktar andlátsfregnir » | Komið heim » | Loksins eitthvað! » | Uppörvandi » | La Dolce Vita » | 2006 í máli og myndum » 

þriðjudagur, apríl 17, 2007 

Spítalamatur



Þessi pistill verður kannski ekki sérlega langur, enda frekar seinlegt að pikka á lyklaborð með bara annarri hendinni, en síðasti pistill krefst hugsanlega frekari skýringa. Þannig var sumsé á miðvikudaginn að Jarlaskáldið var að spila fótbolta, var búið að hlaupa úr sér allan þrótt og ákvað því að bregða sér aðeins í markið. Vond hugmynd. Vignir átti þrumuskot að markinu skömmu síðar og ósjálfráðu viðbrögðin voru að setja hendurnar á móti skotinu þar sem það stefndi óþægilega nærri andlitinu á manni. Boltinn hitti svona hressilega á vinstri höndina sem tók 180 gráðu beygju aftur á bak, sem er yfirleitt ekki talið skynsamlegt, enda lá Skáldið óvígt eftir. Það stóð þó fljótlega á fætur, kældi úlnliðinn og hélt í fyrstu að þetta væri ekki svo slæmt. Annað kom á daginn, fljótlega fór höndin að bólgna og stífna upp, svo ekki var annað að gera en að skunda á slysó. Þangað kom Skáldið upp úr tíu um kvöldið, horfði á hressandi heimildamynd um Íran, reyndi að lesa 4 ára gamalt lögreglublað, en var loks boðað í skoðun skömmu fyrir eitt um nóttina. Svo var það bið, skoðun, bið, röntgen, bið, útskýrt að úlnliðurinn væri brotinn í drasl og þyrfti kannski að gera á honum aðgerð, bið, settur í gifs og sendur heim um hálfþrjúleytið með þau skilaboð í farteskinu að hringt yrði daginn eftir og tilkynnt um framhaldið, og Skáldið beðið um að fasta ef það skyldi verða boðað í aðgerð þann morguninn. Símtalið kom aldrei.

Og í dag, eftir símhringingar hingað og þangað í leit að einhverjum sem eitthvað vissi um framhaldið, fór Skáldið aftur í röntgen og skoðun þar sem skera átti úr um hvort draga þyrfti upp hnífinn. Og hvað haldiði? Það virðist enginn geta ákveðið hvað skuli gera annað en "að bíða og sjá og vona það besta" svo að Skáldið á að mæta aftur í röntgen eftir helgi þar sem "endanleg" ákvörðun um hvern andskotann eigi að gera við þessa hönd verður tekin. Eða það vonar maður. Það yrði nú aldeilis gaman að fara í svoleiðis tveimur vikum eftir atburðinn, svo þær yrðu til einskis.

En jæja, það er vissulega pirrandi að þurfa að bíða endalaust eftir því að vita hvað hinir góðu doktorar vilji gera, en lítið við því að gera. Jarlaskáldið ætlar a.m.k. að gera tilraun til að mæta og vera til gagns í vinnunni á morgun, sem er reyndar frekar seinlegt þegar maður hvorki má né getur beitt annarri hendinni. Það er einfaldlega of leiðinlegt að hanga heima. Svo stefnir það reyndar á fyrstu útilegu sumarsins á morgun, aðfaranótt sumardagsins fyrsta eins og hefð er fyrir. Reyndar spurning hvort maður kalli þetta útilegu, því Haffi er búinn að fá lánaðan húsbíl þar sem fatlafólið fær að gista, í ljósi ástandsins. Þetta er þó allavega viðleitni, þýðir ekkert að leggjast í þunglyndi, fjandakornið...

Mér finnst þetta nú bara nokkuð langur pistill!! Allavega miðað við fatlaðan mann! En hvða ætlar þú að vera fatlaður mikið lengur,, þarf eiginlega að nota þig við prófarkalestur ;)
Kv. Frænkan

Skrifa ummæli

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates