Fréttafalsanir
Er kominn tími á fréttir? Já, gott ef ekki. Fréttatímunum er ekkert sleppt þó ekkert sé í fréttum. Hér verður þó ekki boðið upp á neina gúrku, nósörríbob. Af nógu er að taka í þetta sinn. Þannig séð.
Fyrst ber að nefna að þarsíðasta miðvikudag lét Skáldið sig hverfa úr vinnunni um þrjúleytið og var skömmu síðar sótt af Dolla sem ók með það upp í Bláfjöll. Bongóblíða, þrusufæri og fámennt í fjallinu, allavega til að byrja með. Hreint ekki amalegt það.
Þar næst ber að nefna að á laugardaginn fyrir viku síðan fór Jarlaskáldið í óvissuferð í annað sinn á innan við mánuði. Í ferð þeirri tók Skáldið myndir, sem fara sennilega langt með að lýsa því hvað þar fór fram. Þær ná því þó ekki algerlega, t.d. ekki því þegar Jarlaskáldið fór hamförum í kántrí-spurningakeppni og var úthrópað sem nörd af sjálfri Sirrý. Eins og það sé eitthvað skrýtið að vita að Billy Ray Cyrus hafi sungið Achy, Breaky Heart!
Síðasta vinnuvika var blessunarlega í stysta lagi, en það var þó lítið frí sem tók við hjá Skáldinu, því það reis úr rekkju strax um sjöleytið á skírdag, þar eð meiningin var að arka á sjálfa Hekluna þann daginn með prik annað hvort á löppum eða baki og renna sér svo niður. Það tókst nokkurn veginn þrátt fyrir að Heklan hafi verið sem skautasvell, komumst ekki alveg á toppinn en vorum ekki fjarri því. Skáldið tók myndir, og Stefán reit nákvæmari ferðasögu vilji menn kynna sér betur hvað fram fór í ferð þessari. Þetta var í það minnsta hressandi túr og veitti kannski ekki af því að hreyfa sig aðeins. Það var þó ekki mikið gert um kvöldið annað en að gúffa í sig BBQ-borgara og frönskum af KFC og síðan sofið fram eftir á föstudaginn langa...
...sem reyndist ekkert óskaplega langur þegar allt kom til alls. Eins og hann var alltaf langur þegar maður var pjakkur. Lítið fór fyrir afrekum, a.m.k. framan af degi, boðið var upp á veislumáltíð í Kleifarselinu, kalkún og allt sem honum tilheyrir og smá rauðvín með m.a.s., þrælgott bara. Það leit síðan ekki út fyrir að breyting yrði um kvöldið á rólegheitunum, en Skáldið ákvað þó að kíkja með Haffa til Vignis um kvöldið og taka í spil. Það fór þó á annan veg, því spilin voru aldrei tekin upp, og um eittleytið vorum við komnir á Papaball á Players. Hvernig það gerðist er ekki gott að segja, en þetta var allavega hið fjörugasta ball, Paparnir vita alveg hvað þeir eru að gera. Þegar ballið var búið héldum við út og gerðum smágrín sem Haffi var nokkuð sleginn yfir. Hann jafnaði sig þó fljótt, og ekki gerðist meira þar.
Og síðan Jarlaskáldið vaknaði á laugardagsmorgun (ok, kringum hádegi) hefur það afrekað það að gera absólútlí ekki neitt. Sem var reyndar alltaf ætlunin, mission accomplished. Því varð það reyndar á að lesa fjölmiðlapistil Jakobs Bjarnars í Fréttablaðinu á laugardaginn. Þar minntist hann á glæsilegan sigur Dr. Gunna í Spurningakeppni fjölmiðlanna í fyrra. Vissulega var það glæsilegur sigur, en var ekki einhver með doktornum í liðinu? Ha? Var það ekki? Ekki að maður sé neitt sár...
Segjum þetta gott í bili.