« Home | Flón ársins » | Tveggja vikna tal » | Flutningar » | Agureyrish á kafi » | Grínmaðurinn ógurlegi » | La Grande Bouffe » | 3-1 » | Trilljón tattúveraðar tindabykkjur » | Donald Rumsfeld » | Snillingur » 

þriðjudagur, janúar 02, 2007 

2006 í máli og myndum

Árið 2006 hófst og endaði á nákvæmlega sama stað. Eitt og annað gerðist í millitíðinni. Einna helst þetta:



13. janúar var Snorri steggjaður. Hann slapp nokkuð létt frá því að flestra mati. Tökum hann bara betur næst...



21. janúar gengu þau Snorri og Katý síðan í hnapphelduna, og héldu svert partí í tilefni af því. Svona mættu fleiri brúðkaup vera.



Svo virðist sem ekkert markvert hafi gerst í febrúarmánuði, en 4.-5. mars fór nokkuð myndarlegur hópur í jeppó upp í Hrafntinnusker í einstakri bongóblíðu. Það reyndist hinsta ferð Lata. Blessuð sé minning hans.



16.-19. mars var hin árlega Agureyrishferð. Ekki var snjórinn sérlega mikill, en það kom ekki í veg fyrir allsherjardjöfulgang og vitleysu bæði á há- og láglendi. Líkt og venjulega.



Helgina 7.-9. apríl var fyrsta útilega ársins, og hvar annars staðar en í einmitt í Mörkinni. Ekki síðasta heimsóknin þangað á árinu.



19.-20. apríl var svo aftur farið í útilegu, að þessu sinni upp á Snæfellsnes, því 20. apríl var sumardagurinn fyrsti og hefð fyrir því að arka á jökul á þeim degi. Engin breyting á því í ár.



Verkalýðsferðin í ár var farin dagana 29.-30. apríl, og eftir misheppnaða tilraun við Landmannalaugar endaði förin sú í Mörkinni. Það er ekkert verra.



Helgina 13.-14. maí var veðurblíða í kortunum, en það varð fámenn en góðmenn sveit sem skellti sér í Húsafellið. Fínt þrátt fyrir það.



Jarlaskáldið flutti í Hraunbæinn um miðjan maímánuð, og hélt ásamt sambýliskonunni júróvisjóninnflutningspartí 20. maí. Nú á Skáldið bara hálft grill.



Hvítasunnuhelginni 3.-6. júní var varið í Skaptafelli. Þar var glímt við kletta, potta, og úrilla Suðurnesjamenn. Engum varð þó meint af.



Þjóðhátíðarhelgin 16.-18. júní var notuð í að fela Svíagrýluna uppi á hálendi. Það bar árangur, Íslendingar unnu Svía í handbolta. Þá verður söngur Jarlaskáldsins á þýskum þjóðkvæðum í lauginni á Hveravöllum lengi í minnum hafður.



Jónsmessuhelgina 23.-25. júní gekk Jarlaskáldið við fimmta mann yfir Fimmvörðuhálsinn og endaði eðli málsins samkvæmt í Mörkinni þar sem þónokkuð fjör varð. Það var ágætis upphitun fyrir næstu helgi á eftir...



... því þá, 30. júní-2. júlí, lá leiðin aftur og enn einu sinni í Mörkina, að þessu sinni í hina árlegu FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð. Hressandi að vanda.



Talsvert miklu meira en nóg var að gera um þetta leyti, og helgina 7.-9. júlí var Þakgil heimsótt. Þar komumst við að því að við erum viðbjóðslegir öfuguggar. Vandlifað stundum í þessum heimi. Annars bara fínt, og bongóblíða.



21.-23. júlí lá leiðin vítt og breitt um Fjallabak, sem og víðar. Laugin í Laugum klikkaði ekki heldur.



Verslunarmannahelgin teygði nokkuð úr sér eins og stundum áður, stóð yfir frá 3.-7. ágúst og eins og undanfarin ár var sögusviðið Eyjar. Líkt og venjulega var þetta síðasta Þjóðhátíðin, en það er loforð sem er gaman að svíkja.



10.-13. ágúst barst leikurinn víða, og þegar upp var staðið hafði Jarlaskáldið ekið einhverja 1.700 km, komið við á Kárahnjúkum og ekið allan Hringveginn. Maður sá þetta fíaskó allavega áður en öllu var sökkt.



25.-27. ágúst heiðraði Jarlaskáldið ásamt öðrum hið ágæta krummaskuð Hveragerði og mætti á Baggalútsball í fullum herklæðum. Það voru að vísu bara tónleikar, en við gerðum ball úr því. Svo var það Mörkin. Þar er gaman.



Dagana 8.-10. september lagði Jarlaskáldið sitt af mörkum til að koma blessuðum rollunum í neytendapakkningar. Auk þess var gerð úttekt á skemmtanalífi Kirkjubæjarklausturs. Þar er Rúnar Þór það heitasta, eins og dæmin sanna.



29. september hélt Jarlaskáldið af landi brott og heimsótti þá ágætu borg Barcelona. Það kom heim fimm dögum síðar, reynslunni ríkara. Fín ferð annars.



Jarlaskáldið fagnaði ammili sínu á fjöllum eins og árið áður, því helgina 21.-22. október hélt það á Hveravelli og bauð ferðafélögum upp á köku. Hún þótti þrusugóð.



La Grande Bouffe var haldið helgina 17.-19. nóvember og þótti takast vel. Einn maður bouffaðist í ár, og er líðan hans eftir atvikum.



Síðasta ferðalag ársins var helgina 8.-10. desember, skíðaferð til Agureyrish. Aldrei meiri snjór, aldrei meira fjör í brekkunum. Sorglegt hve margir misstu af þessu.



Og áramótunum var fagnað í Álftahólunum, á sama stað og í fyrra, stað sem Jarlaskáldið kallaði heimili sitt um þriggja mánaða skeið eða allt þar til fyrir tæpum tveimur vikum.

Svo er bara að toppa þetta í ár...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates