« Home | Húrra! » | Baggalútsball og Mörkin » | Sumarfrí búið » | Sumarfrí - Part Deux » | Sumarfrí » | Af þýðingum » | Partí » | Fimm, Fimm, Fimmvörðuháls » | Mörkin, já Mörkin » | Svíagrýlan » 

miðvikudagur, september 06, 2006 

Fjármál í ólestri



Það hefur eitt og annað verið á seyði undanfarið, og lítur út fyrir að svo verði einnig næstu vikurnar. Skárra væri það nú. Byrjum fyrst á að líta yfir farinn veg.

Í fyrsta lagi þá er það ljóst að það stefnir í vistaskipti á næstunni hjá Jarlaskáldinu, Hraunbærinn yfirgefinn eftir nokkurra mánaða ljúfa vist, en enn er allt óljóst varðandi það hvar Jarlaskáldinu verður komið fyrir þegar því verður kastað út á stétt. Eitt og annað er í boði, en það kemur vonandi í ljós fljótlega. Ef einhverjar góðhjartaðar, einhleypar stúlkur sem eiga íbúð vantar sambýling sem er léttur á fóðrum og ágætlega þrifinn, er Jarlaskáldið alveg til í að skoða málið. Kommentakerfið er opið.

Helgin var ekki tíðindalaus frekar en fyrri daginn. Á föstudaginn bauð vinnan til drykkju í Iðnó, og þar sem búsið var kostað af starfsmannafélaginu (ergo: með peningum Jarlaskáldsins) sá Skáldið ekki annan kost í stöðunni en að mæta á staðinn og og taka nokkuð á því, annað væri bara tap. Kannski ekki besta fjármálaákvörðun Skáldsins fyrr og síðar, þar eð búsið kláraðist auðvitað og maður endaði á barnum, auk þess sem Skáldið gerði tilraun til að prófa alla vínveitingastaði í miðbænum, fyrst í félagi við einhverja vinnufélaga en síðan VJ. Kom seint heim.
Kvöldið eftir var í svipuðum dúr, VJ, Stebbi og Toggi kíktu í Hraunbæinn og var meiningin að fara á ball með Sálinni (no shit?) í Mosfellssveit. Á ellefta tímanum bárust okkur fregnir um að allt stefndi í að uppselt yrði fljótlega svo við drifum okkur á staðinn og máttum ekki mikið seinni vera. Skömmu síðar komu Haffi og hans gengi og komust þau inn fyrir náð og miskunn dyravarðar. Ballið var svo eftir gamalkunnri forskrift, síldartunnustemmning og það fyrir litlar 2500 krónur inn og dýrt eftir því á barnum. Þótti Jarlaskáldinu svo um fjárútlátin að það ákvað að ganga heim til sín að dansleik loknum. Eftir á að hyggja... ekki alveg það skynsamlegasta.

Ástæður þess hve Jarlaskáldinu er tíðrætt um fjármálin og bágt ástand þar eru fyrst og fremst tvær. Annars vegar er óhætt að segja að fjármálastjórnin í sumar hafi ekki verið til fyrirmyndar, hreint og beint flogið fram úr fjárlögum með viðeigandi afkomuviðvörunum og gott ef ekki gengistapi. Hins vegar hefur Jarlaskáldið ekki sýnt nein merki um að vera að bæta ráð sitt, eins og sést á því að það pantaði tvær utanlandsferðir með skömmu millibili seinnipart sumars. Í þá fyrri er farið að styttast allverulega, því eftir rétt rúmar þrjár vikur mun Jarlaskáldið vera sprangandi um Römbluna í Barcelona við tólfta mann. Það gæti orðið skrall. Í lok janúar er svo stefnan tekin á týrólska stemningu í hlíðum Austurrísku-Alpanna, allavega búið að borga flugið og þá er nú björninn svo gott sem unninn. Eða er það ekki?

En áður en að þeirri vitleysu allri kemur ætlar Jarlaskáldið að leggja sitt af mörkum til að koma blessuðu lambaketinu í neytendapakkningar og á markað. Jamm, réttir um helgina. Og réttaball með Rúnari Þór á Klaustri. Ætli hann rokki jafnmikið og í fyrra?

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates