Baggalútsball og Mörkin
Helgin var ansi hressandi. Eiginlega bara með þeim meira hressandi undanfarið. Jarlaskáldið gaf víst það loforð að rita nokkur orð um það sem þar fór fram, og hér kemur því tilraun til þess.
Svo byrjað sé á réttum enda stóð til í upphafi að skella sér í Þórsmörkina þessa helgina í haustlitaferð, en í þrítugsammili Vignis fyrir réttum mánuði kom upp sú hugmynd að koma við í Hveragerði á leiðinni og líta inn á útgáfutónleikaball Baggalúts, sem þá hafði nýlega verið tilkynnt, enda miklir kántríaðdáendur meðal áhugasamra, jafnt hefðbundins sem og sjávarútvegs- og strandkántrís, sem þekkt er frá Hawaii-eyjum. Þá voru ófáar karlrembur í hópnum, sem kunna vel að meta textagerð ýmsa hjá Baggalútsmönnum.
Snemma var svo ákveðið að á tónleikana/ballið skyldi mætt í fullum herklæðum, Hawaii-skyrtum, með kúrekahatt, á stuttbuxum og berfættir í sandölum. Þeir allra hörðustu urðu sér einnig úti um ananas, tóku úr þeim innvolsið og notuðu sem drykkjarmál. En hverjir skipuðu annars þennan ágæta hóp?
Fyrsta ber að telja Jarlaskáldið, Kaffið og VJ, sem mættu á staðinn á Sigurbirni. Auk þess mættu á staðinn þau skötuhjú Twist og Bast á Willa. Þá má ekki gleyma þeim bræðrum Óla og Dóra og þriðja hjólinu Steina, sem mættu á einhverri tík sem óþarfi er að nefna, enda lagt ólöglega. Enn eru þá ótalin hjónin Reynir og Berglind sem mættu með tjaldvagn og tvo laumufarþega, Búbbíu eitt og Búbbíu tvö. Hin fjögur síðastnefndu voru reyndar áberandi hallærisleg miðað við aðra í hópnum, en stóðu sig engu að síður ágætlega flest.
Voru allir mættir á svæðið á áttunda tímanum á föstudagskvöldið, slógu upp tjöldum og hófu undirbúning fyrir tónleikana/ballið. Rétt um tíu lá svo leiðin á Hótel Örk þar sem tónleikaballið skyldi haldnið, og brá okkur þá eilítið í brún. Þetta voru greinilega tónleikar en ekki ball, salurinn þakinn borðum sem voru flest skipuð fólki komnu af allra léttasta skeiði, stungum við því eilítið í stúf í múnderingunni, og fengum ómælda athygli fyrir vikið, sem og fyrir almenn skrílslæti er líða tók á kveld. Baggalútsliðar, 12 að tölu eða hvað þeir nú voru margir, hófu leik skömmu eftir tíu og byrjuðu á að hrósa okkur fyrir að vera smekklega klædd. Svo tók eitt lag við af öðru, og sá okkur borð um gleðina meðan aðrir á svæðinu virtust halda að um óperutónleika væri að ræða. Einhverjum lögum (og drykkjum) síðar fór okkur svo að leiðast þófið, og ákváðum að sýna gestum danzmenntir. Dansgólf var sem fyrr segir af skornum skammti, en við leystum það með því að skunda upp á svið og sýna þar stórkostlega takta, við ágætis undirtektir hljómsveitarinnar, en sumum gestum virtist þó finnast þetta heldur óheflað. Hverjum er ekki sama um svoleiðis bjána?
Við vorum svo í roknastuði það sem eftir lifði kvölds, dönsuðum bæði um salinn og uppi á sviði allt þar til uppklappslögum var lokið og við þökkuðum bandinu fyrir óhemjugóða skemmtun. Það verður enginn svikinn af svona skralli, og það gerði þetta eiginlega bara talsvert skemmtilegra hvað við vorum mikið að flippa miðað við annars settlegan áhorfendaskarann.
En nóttin var hvergi nærri úti eftir þetta dansiball. Á Snúllabar léku Feðgarnir fyrir dansi og þangað var næst skundað, í það minnsta þeir sem enn voru á lífi, og skrallað fram eftir nóttu. Gleðinni lauk svo samkvæmt heimildum inni í Sigurbirni á fimmta tímanum í höfuðpúðakasti. Eins og hefð er fyrir.
Laugardagurinn rann svo upp bjartur og fagur, þrátt fyrir ýmsar spár um annað. Tjaldvagnafólkið og Flubbarnir lét sig hverfa heim í bæinn þegar þarna var komið sögu, fyrir utan aðra Búbbíuna sem fékk far með restinni að bæ undir Eyjafjöllum, með viðkomu á réttum stöðum. Þaðan lá leiðin í Seljavallalaug, en sem fyrr olli sú heimsókn vonbriðgum, engar lesbíur að leika sér í lauginni, þrátt fyrir að það sé fullyrt í vissum tónlistarmyndböndum. Þaðan lá svo leiðin inn í Mörk, og vart þarf að fara mörgum orðum um hvað þar tók við. Lesendum skal þó bent á að hyggist þeir stunda fjallgöngur í svartamyrkri í Mörkinni er ráð að vera með ljós og með ágætri meðvitund. Annars getur farið illa.
Daginn eftir fórum við heim. Föðurlandið hans Haffa fannst ekki á Hellu þrátt fyrir vandlega leit. Þau vonbrigði skyggðu þó ekki á ansi hreint ágæta ferð. Svo er bara spurning, hvað næst?
Jájájá. Góð saga, góð saga....
Posted by Nafnlaus | miðvikudagur, ágúst 30, 2006 12:30:00 e.h.
Þetta er löng og skemmtileg ritgerð, mjög greinagóð og ég held að þú fáir nú bara 9,5 fyrir gripinn!
Svo er Sálarball á laugardaginn, ertu maður eða mús?
Posted by Nafnlaus | miðvikudagur, ágúst 30, 2006 2:36:00 e.h.
Ég þakka hrósið, og það er barasta aldrei að vita hvað verður um helgina. Ætli sé kominn tími á að kenna sveitavarginum í Mosfellssveit danzmenntir?
Posted by Jarlaskáldið | miðvikudagur, ágúst 30, 2006 3:15:00 e.h.