« Home | Við Valgerður » | Er komið sumar? » | Önnur tilraun » | Skaptafell » | Kosningar » | 110 Reykjavík » | Hálfvitar » | Trading Places » | Skyld´ða vera... » | Þórðargleði » 

þriðjudagur, júní 20, 2006 

Svíagrýlan



Það var aldeilis hreint fínt ferðalag um helgina, heljarinnar rúntur nánast stranda á milli. Töldu ferðalangar sjö einstaklinga, þar af einn erlendan. Í Sigurbirni voru bílstjórinn Kaffi, Jarlaskáldið í hlutverki kóara, Svíagrýlan sem fulltrúi minnihlutahópa, og Frænkan sem sá um að túlka. Auk þess var Hispi með í för, og í honum bílstjórinn Rugldælingur, og þeir hr. Twist og Öræfaóttinn sem skiptust á í hlutverki kóara.
Fyrsti áfangi fararinnar var frá borg óttans, fyrst á KFC í Mosfellssveit, svo austur Mosfellsheiðina, upp á Uxahryggi, og út á línuveginn í austur frá Kaldadalsvegi spölkorn, eða þar til komið var í Tjaldafell, þar sem okkar beið vistlegur skáli, búinn öllum helstu þægindum, þ. á m. gufubaði sem allir nýttu sér fyrir utan Svíagrýluna því eins og allir vita eru Svíar hálfgerðir aumingjar og mjög viðkvæmir fyrir hitabreytingum. Tekin var umferð í sprettlellahlaupi, dreypt á drykkjum, hringt í fólk, eflaust eitthvað fleira, en endað í bælinu að lokum, sem var sem betur fer ansi breitt þar eð Jarlaskáldið mátti gera sér að góðu að deila hvílu með Rugldælingnum.

Eftir góðan næturblund tók við næsti áfangi, og það á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Barst þá leikurinn enn lengra í austur, sem er einmitt í átt til Svíþjóðar, en við Kjalveg var beygt norður þann veginn uns aftur var haldið í austur til Tjéllingarfjalla. Að þeirri heimsókn lokinni var snúið við og haldið áfram í norður á Kjalvegi þaðan sem frá var horfið. Þar loks fór að stytta upp og var veðrið hið ágætasta það sem eftir lifði ferðar. Á Hveravöllum byrjuðum við á að festa okkur svefnpláss í gamla skálanum, Hispamenn sátu límdir við viðtækin að hlusta á lýsingu á handboltaleik Íslendinga og Svía, en við hin sáum að okkur bar skylda til að koma Svíagrýlunni í burt svo hún hefði ekki áhrif á úrslitin og fleygðum henni því í laugina. Það dugði.
Eftir væna dvöl í lauginni var grillað, étið, og vitaskuld aftur í laugina síðan, sem var full af útlendingum, einkum þýðskum og hebreskum, svo við máttum hafa okkur öll við að halda friðinn. Jarlaskáldið minnist þess að það heillaði laugargesti með flutningi á þýskum kveðskap, og hlaut lof fyrir afburðagóðan framburð í kvæðinu Röslein auf der Heiden. Jawohl.
Eftir enn lengri laugarsetu tók ýmislegt við, umferð í sprettlellahlaupi, reynt að hringja í fólk, en endað inni í Unimoc í partíi með útlendingum. Fór það friðsamlega fram, og að mestu án milliríkjadeilna.

Sunnudagur rann upp fagur, og að morgunverkum loknum var kominn tími til að koma sér heim. Vitaskuld var ekki hægt að keyra sömu leið til baka, það hefði verið asnalegt, svo við héldum áfram í norður og munaði minnstu að við enduðum á Blönduósi, en því tókst að afstýra á síðustu stundu, sem betur fer, enda algert viðskiptabann ríkjandi á þann bæ. Svo þjóðvegaakstur í bæinn, burger á stað elskenda við Hreðavatn, og síðan bara byrjað að bíða eftir næstu helgi. Gæti það orðið Mörkin? Jú, gönguhópurinn ætlar að kanna aðkomuna í Mörkina að sunnan, allir velkomnir með!

Hey hvað fæ ég í verðlaun ?? Sprettlellahlaupamyndirnar ?? Takk fyrir símtalið og hina tilraunina, var sjálf að djamma og heyrði ekki í símanum...og djammaði ekki á Blönduósi !!

Því miður er Jónína Ben búin að setja lögbann á sprettlellahlaupsmyndirnar, með vísan til almannahagsmuna og allsherjarreglu. Sjáum hvað dómstólarnir segja...

Jamm, ég man nú ekki betur en þeir hebresku hafi verið ánægðir með húbbahúlleið sitt. Takk fyrir helgina ;)

Þetta er nú dásemdar útlendingur sem þið höfðuð með í för! Þú verður bara að læra sænsku fyrir næstu ferð!

Skrifa ummæli

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates