Helgin var góð. Jarlaskáldið hefði sennilega skrifað um hana fyrr, ef líkamlegt ástand hefði boðið upp á það. En það gerði það svo sannarlega ekki. Réttir geta tekið á.
Það voru þrír bakkabræður sem lögðu af stað úr bænum á föstudaginn um áttaleytið eftir að
sá fjórði hafði helst úr lestinni með kvef (eða kveif).
Haffi sá um akstur á
Sigurbirni,
Jarlaskáldið sá um tónlistina frammi í og
Stefán Twist sá um allt væri með kyrrum kjörum aftur í. Leiðin lá austur á Kirkjubæjarklaustur, og var tíðindalaus með öllu, fyrir utan skylduheimsókn á
KFC á Selfossi. Á Klaustur vorum við komnir á ellefta tímanum og byrjuðum á að líta við hjá bændum og búaliði í Þykkvabæ, sem við höfðum lofað að aðstoða í réttunum daginn eftir. Eftir einn kaffibolla þar lá svo leiðin aftur á Klaustur, nánar tiltekið á tjaldstæðið, þar sem við
hentum upp tjöldum á mettíma. Því næst lá leiðin á
Systrakaffi þar sem við Haffi tæmdum hvor sína ölkolluna en Stefán tvöfaldan viskí. Svo var bara farið í bælið skömmu síðar, enda ræs klukkan sjö morguninn eftir.
Og það tókst merkilegt nokk að fara á fætur klukkan sjö, eða kannski rétt rúmlega það í tilviki
sumra. Var hið ágætasta veður þegar við vöknuðum og var morgunverkunum rumpað af á skikkanlegum tíma, allavega vorum við mættir í réttirnar 7 mínútur fyrir átta, og vorum ca.
fyrstir á svæðið. Þá er bara að byrja á
einhverju öðru þar til hinir koma.
Um og upp úr átta fór svo liðið á mæta á svæðið, fyrstu rollum hent inn í almenning og við biðum ekki boðanna með að
finna okkur einhverjar álitlegar og
draga þær í réttan dilk. Og
nóg fengum við að gera fyrstu tvo klukkutímana, auk þess að fá yfir okkur algert skýfall tvisvar sinnum, þannig að
réttahléið klukkan tíu var kærkomið. Þegar þar var komið sögu var heldur farið að fjölga í réttinni, sennilega fleira fólk en rollur þegar mest var, en allavega Jarlaskáldið og eflaust fleiri höfðu þó nóg að gera fram yfir hádegi við dráttinn, svo ekki veitti af nokkrum
drykkjupásum til að hlaða batteríin. Upp úr hádegi var svo búið að draga allar rollur á réttan stað (eða allavega eitthvert) og næsta mál á dagskrá að
reka Þykkvabæjarrollurnar á sinn stað, sem var dágóður spölur. Þá er gott að
vera bara inni í bíl, og ekki verra að hafa
bílstjóra svo maður fari ekki á svig við lög.
En ekki entumst við lengi inn í bíl. Einhver fékk þá hugmynd að henda okkur
bakkabræðrum á
hestbak, og var Jarlaskáldið, sem aldrei hafði setið bikkju þegar þarna var komið sögu, sett á einhverja truntu sem
Stebbi bóndi var á. Og það gekk sosum ágætlega framan af, ekki ósvipað og að keyra bíl, beygjur, bremsa og bensín. Eftir nokkra stund fór þó truntunni eitthvað að leiðast þófið og fór að skeiða af stað. Jarlaskáldinu leist ekki betur en svo á að það reyndi að toga í bremsuna, en virtist hafa ýtt á bensínið í staðinn því bikkjan jók bara ferðina út í buskann hvað sem Skáldið togaði í tauminn. Fljótlega áttaði Skáldið sig á því að það væru tvær mögulegar útkomur úr þessu: annað hvort flygi það af baki þegar bikkjan fengi endanlega nóg af því, eða það stykki sjálft af. Það ákvað að gera hið síðarnefnda, og fleygði sér í jörðina þar sem því sýndist lendingin tiltölulega mjúk, og rúllaði þar nokkrar veltur að verkinu loknu. Hlaut það af því nokkrar skrámur, en líklega var þó stoltið særðast, enda fór flugferðin fram hjá fáum.
Þegar Skáldið var búið að ná truntunni og teyma hana til baka kom í ljós að hún hefði nú alltaf þótt heldur viljug. Skynsamlegt í alla staði. Til þess að bjarga stoltinu aðeins fékk Skáldið svo að stökkva upp á aðra bikkju sem var í alla staði meðfærilegri, og urðu skakkaföll þess ekki meiri. Þess ber að geta að Jarlaskáldið var ekki eitt um að enda reiðina öfugur á jörðinni, slíkt hið sama gerði Stefán þegar hnakkur hans losnaði og hann hrundi í jörðina á lítilli ferð. Jarlaskáldið datt allavega flottar.
Eftir nokkurn spöl var rolluhópurinn að lokum rekinn í heimaréttina og hlé gert svo þreyttir kappar gætu fengið sér kjötsúpu. Skrambi var hún góð. Þá tók við að
færa frá, fátt jafn skemmtilegt og að skilja börn frá mæðrum sínum.
Um sjöleytið var svo skylduverkunum loks lokið og hópast saman inni í skemmu þar sem boðið var upp á
hrátt hangikjöt og
fjöldasöng, auk þess sem ýmsir drykkir gengu um svæðið og gerðu sitt til að auka stemmninguna. Um tíuleytið var okkur bakkabræðrum svo skutlað upp á Klaustur þar sem við skelltum okkur í kærkomna sturtu (einn í einu nota bene) og komum okkur í
djammgallann. Þaðan lá leiðin í
húsbíl, á
Systrakaffi, og að lokum á
réttaball með Rúnari Þór í félagsheimilinu. Jájá, Sem fyrr fólst aðalgamanið í því að fá Rúnar til að syngja afmælissönginn fyrir hina og þessa sem allir áttu það sameiginlegt að eiga ekki afmæli. Fregnir herma að Rúnar verði aftur á ballinu á næsta ári, eins og í fyrra. Það þýðir að við mætum aftur. Ekki spurning. Annars er vissara að fara ekki of náið í atburði kvöldsins, óminnishegrinn og allt það...
Við bakkabræður vöknuðum svo í tjöldunum okkar daginn eftir og það fyrir hádegi, og flestir við bærilega heilsu. Fljótlega varð þó Jarlaskáldinu ljóst að það gengi ekki alveg heilt til skógar, bæði allsvakalegar harðsperrur víða um líkamann en þó fyrst og fremst í höndunum eftir rollurnar, sem og marblettir á lærum (eftir kindahorn) og upp eftir vinstri hlið líkamans (eftir flugferð í boði hests). Þó tókst að pakka niður, kveðja liðið í Þykkvabæ með loforði um að koma aftur, og rúnta heimleiðis. Ætlunin var að eta á Halldórskaffi í Vík en þar var lokað svo Gallerí Pizza á Hvolsvelli fékk peningana okkar að þessu sinni. Það er sosum ekkert ónýtt. Heim komum við rúmlega fimm, og varð Jarlaskáldinu lítið úr verki eftir það.
Þegar Jarlaskáldið vaknaði á mánudaginn voru harðsperrurnar og strengirnir bara orðnir helmingi verri. En þetta er allt að koma núna. Vonandi. Eins gott að þetta er bara einu sinni á ári. Eins og svo margt annað sem er skemmtilegt.