« Home | Önnur tilraun » | Skaptafell » | Kosningar » | 110 Reykjavík » | Hálfvitar » | Trading Places » | Skyld´ða vera... » | Þórðargleði » | Lilli á leið yfir Krossá » | Snæfellsnes » 

föstudagur, júní 16, 2006 

Er komið sumar?

Jarlaskáldið situr hér og reynir að fylgjast með fjórða leik NBA-úrslitanna, en þar sem seint verður sagt að það sitji límt við skjáinn er kannski ekki úr vegi að bæta aðeins fyrir gamlar bloggsyndir og rita eitthvað um lífshlaup Skáldsins undanfarnar vikur, enda vantað töluvert upp á að því hafi verið sinnt.

Í fyrsta lagi er þess að geta að Jarlaskáldið er flutt að heiman, og hefur búið í Árbænum núna í tæpan mánuð. Þar leigir það íbúð af Hadda hennar Hrannar, og hefur meðleigjanda, sem er kvenkyns. Hafa ýmsir lýst furðu sinni á þessu fyrirkomulagi, jafnvel vantrú, en til að svara þeirri spurningu sem spurð hefur verið ótal sinnum undanfarinn mánuð: sambúðin gengur bara þrælvel. Jújú, Jarlaskáldið neyðist stundum til að horfa á America's next top model og Beverly Hills 90210 og aðra snilld, en það fær nú að horfa á sinn fótbolta og körfubolta þegar það vill. Svo fremi að konan vilji ekki horfa á eitthvað annað.

Annað sem hefur verið áberandi síðustu vikur eru tíðar heimsóknir Skáldsins til lækna. Forsaga málsins er sú að Jarlaskáldið "þjáist" af vægum hjartagalla sem og einstaklega ótaktvissum hjartslætti, og í apríl fór það auk þess að finna fyrir verkjum og þreytu hingað og þangað um líkamann og ákvað að líta við hjá hjartalækni. Þá þurfti auðvitað að rannsaka málið, vitaskuld fyrir tugi þúsunda króna, ómskoðun og blóðrannsókn og slík skemmtilegheit, en í ljós kom að pumpan var í fínu standi. Hins vegar reyndist blóðið ekki alveg í sama stuði, svokallað B12-vítamín var þar af einstaklega skornum skammti, og hefur Skáldið fengið að njóta þess að fá sprautu af því ágæta vítamíni í bossann á vikufresti síðan þá. Ekki hefur það verið neitt sérstaklega spennandi, þó svo að Dillu hafi þótt einkar spennandi að fá að reka sprautuna á kaf í mann, en Eyjólfur er þó aðeins farinn að hressast og þarf vonandi ekki að þola þetta harðræði öllu lengur, a.m.k. ekki svo títt.

Þrátt fyrir að hafa ekki verið upp á marga fiska heilsufarslega séð hefur Jarlaskáldið ekki slegið slöku við í ferðalögum og fíflagangi vítt um sveitir landsins. Útileguvertíðin hófst strax í byrjun apríl með heimsókn í (you guessed it) Mörkina, þar sem tjaldað var í snjó. Næsta útilega, tja, bara aftur í Mörkina, en að vísu var bara gist í skála í það sinnið, enda veðrið ekki upp á marga fiska.
Útilegan varð aðeins ein í maímánuði, og má segja að hún hafi verið fámenn en góðmenn. Vitringarnir þrír brugðu sér í Húsafell og létu ekki fámennið aftra sér frá því að stunda fíflagang. Að þeirri ferð lokinni varð að gera hlé á ferðalögum vegna júróvisjón og kosninga, en um hvítasunnnuna var eftirminnileg ferð í Skaftafell. Var þar ýmislegt brallað, klifrað í klettum, klifrað á klósettum, grillað í liði, já og grillað almennt. Ljóst er að eftir þessa ferð lítur maður óhreina potta öðrum augum en áður...
Síðasta helgi... ja, föstudagurinn endaði á djamminu eftir að fótboltagláp leiddist út í vitleysu, og á laugardeginum bauð Svenni til bústaðar (sem var reyndar á stærð við einbýlishús). Þar var rugl. Til átta um morguninn. Jájá, við erum öll í kringum þrítugt...

Lilli fór á verkstæði í dag. Jarlaskáldið tekur við frjálsum framlögum frá og með deginum í dag.

Helgin? Eitthvert skrall, bara spurning um landshorn.

Er sem sagt ekkert B-12 vítamín í bjór?

GG

Skrifa ummæli

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates