fimmtudagur, júlí 28, 2005 

HA?

Jæja, hver andskotinn kom fyrir bloggið núna?

 

Lífið er yndislegt!

Það eru væntanlega engir nema allra tregustu lesendur sem ekki hafa áttað sig á því að eftir nokkra klukkutíma mun Jarlaskáldið skunda út á hinn umdeilda flugvöll Reykjavíkurborgar og ganga þar um borð í flugvél, hverri er ætlað að lenda tæpum hálftíma síðar í eyju nokkurri sunnan við land er við Vestmenn er kennd. Þar ku jú vera hátíð.

Við þann ólukkulýð sem ekki mun fylgja í þau góðu fótspor er einungis eitt að segja:

MEGI KRÆKLÓTTIR LÍKAMAR YKKAR VERÐA BRÁÐ GAMMA!

Góðar stundir.

mánudagur, júlí 25, 2005 

Landmannalaugar-Þjórsárdalur




Eins og sjá má hér að ofan var Jarlaskáldið í rauðum bol um helgina. Sólarhring síðar voru fleiri komnir í rauðan bol. Reyndar rauðan alklæðnað. Nema að klæðin voru engin, ekkert frekar en sólarvörnin. Stuð. Frá tilurð þess er saga að segja...

...og sagan sú hefst á föstudaginn. Var það um hálfníuleytið sem Jarlaskáldið fór á sínum ágæta fjallabíl upp í Grafarvog og sótti þar Þorvald á hjúkrunarheimili. Hann var að vísu ekki sjúklingur þar, og þegar hann hafði fyllt hvern krók og kima í Lilla af farangri héldum við austur fyrir fjall, ásamt þeim Boga og Loga á Willy, í glampandi sól og blíðu. Það breyttist þó skyndilega við Kambana, þar sem við keyrðum beint niður í þoku sem byrgði okkur sýn næsta klukkutímann eða svo, eða allt þar til við vorum farnir að nálgast Heklu, þar sem við keyrðum út úr þokunni og aftur inn í bongóblíðu. Ekki amalegt það. Við Dómadalsafleggjarann mýktum við ögn í dekkjum, og keyrðum svo eins og druslurnar drógu Dómadalinn í átt að Landmannalaugum, og er það ekki leiðinleg leið að keyra eins og vitleysingur. Inn í Landmannalaugar vorum við komnir um hálftólfleytið, og var þar allfjölmennt enda bongóið enn til staðar þótt tekið væri að rökkva. Við hentum í snarhasti upp tjöldum, og vígði Skáldið sitt nýja tjald sem það hafði fjárfest í fyrr um daginn og þóttist hafa gert góðan díl. Að því loknu brugðum við okkur auðvitað fljótlega í Laugina, og lágum þar fram eftir nóttu og brölluðum eitthvað sem ekki verður tíundað hér. Alltaf ljúft að liggja þarna.

Það var af illri nauðsyn að Skáldið fór á fætur morguninn eftir, hitastigið inni í tjaldinu var farið að nálgast suðumark ískyggilega og því lífsnauðsynlegt að koma sér út. Hitinn var 20+ gráður, glampandi sól og bara gaman. Við spókuðum okkur þarna nokkra stund, enda ekki sérlega spenntir fyrir að sitja mikið inni í bíl, en lágum mestmegnis og sleiktum sólina. Bossinn var á svæðinu og lánaði sólarvörn, ekki veitti af. Að lokum pökkuðum við svo draslinu saman og héldum til baka, að þessu sinni hina hefðbundnu Landmannaleið, og var nær ólíft af hita inni í bílnum, en Jarlaskáldið leyfði Togga að keyra þennan spöl þar eð annað hefði varðað við landslög. Í Hrauneyjum var svo haldið í góða siði og slafrað í sig súpu dagsins, sem var prýðilegasta sveppasúpa.
Þegar þarna var komið sögu var ýmsum orðið heldur heitt í hamsi, svo afráðið var að kanna hitastigið á Fossá við Hjálparfoss, sjá hvort ekki væri mögulegt að kæla sig aðeins niður. Það reyndist hin mesta skemmtun, áin var bara þægileg að synda í, og ekki síður gaman að taka vindsæng út í og henda sér á henni út í mesta strauminn neðan við fossinn. Jíha!
Eftir sundsprettinn þótti skynsamlegt að leita að stað til að dveljast um nóttina, og byrjað á að kíkja á gamla góða staðinn við Sandána. Þar höfðu einhverjir stigamenn tekið sér bólfestu og í ljósi þess og fámennis okkar var ákveðið að kíkja á stóra tjaldstæðið í Þjórsárdalnum. Þar var múgur og margmenni fyrir, en okkur tókst að finna smáblett til að skella okkur á, sem við og gerðum. Þegar við höfðum komið okkur fyrir fengum við okkur flestir kríu inni í tjaldi (þoldum ekki meiri sól í bili) fram að kvöldmat. Í kvöldmat voru svo borgarar og kjúlli á grilli, einfalt og gott. Upp úr tíu mættu svo síðustu gestirnir, Frændi og Frænka með Adolf í aftursætinu. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það sem við tók, látum nægja að segja að klukkan fjögur um nóttina var okkur Stefáni boðið í veislumáltíð í einhverju fellihýsi, sem við þáðum með þökkum. Alltaf gott að fá góða sósu.

Það var ekki að spyrja að því morguninn eftir, sólarhelvítið enn og aftur mætt og ekki á það bætandi, flestir orðnir skaðbrunnir, þótt enginn slægi Vigni út sem var eins og slökkviliðsbíll á litinn. Minnugir gærdagsins var ákveðið þegar búið var að pakka saman að fara aftur að synda í Hjálparfossi, sem var ekki minna gaman en daginn áður. Ekki þótti sú sundferð duga, svo haldið var í Reykholtslaug að loknu þessu baði, en Jarlaskáldið líkt og Adolf hætti sér ekki þar ofan í. Á heimleiðinni stoppuðu svo upphaflegu ferðalangarnir fjórir í Árnesi og slátruðu borgurum og fleira góðu, auk þess að kíkja á útsýnið í afgreiðslunni sem var ekki slæmt. Síðan heim var komið hafa Aloe Vera birgðir minnkað talsvert hér á landi. Úff...

Já, það styttist...

fimmtudagur, júlí 21, 2005 

Könnun




Jarlaskáldið vill beina athygli lesenda að einni léttri könnun hér vinstra megin, um að gera að taka þátt!

miðvikudagur, júlí 20, 2005 

Reykjadalur





Skelltum okkur nokkrir vitleysingar upp í Reykjadal í kvöld í veðurblíðunni og lágum aðeins í ánni. Djöfuls harka þessa dagana.

8 dagar...

þriðjudagur, júlí 19, 2005 

Laki og fleira




Jarlaskáldið skellti sér í tíundu útilegu sumarsins um helgina, og að þessu sinni var svæðið í kringum Lakagíga heimsótt. Ekkert nema snilld, og eru myndirnar þaðan komnar á Internetið svona cirkabát hér. Þar var annars eitt og annað brallað, en hafirðu ekki verið á staðnum kemur það þér sennilega ekki baun við.

Í kvöld hélt áfram 7 tinda sigurganga VÍN-verja, og að þessu sinni var hið ógurlega Helgafell með alla sína 340 metra sigrað af 6 hreystimennum. Myndavél var með í för.

Í kvöld keypti Skáldið sér svo aðgöngumiða á Þjóðhátíð 2005. 10 dagar í Lilla apa, gott mál.

fimmtudagur, júlí 14, 2005 

Fjallageit




Metið var ekki slegið, einungis 90 manns skoðuðu síðuna í gær. Jarlaskáldið upplifir höfnun, þunglyndi, sjálfsvígshugsanir, og ýmislegt þaðan af verra af þeim sökum. Farið þið bara öll til andskotans!

Í kvöld tók Jarlaskáldið sig til við fjórða mann og rölti upp á hól. Til stendur að rölta upp á eina 6 hóla í viðbót fyrir 15. september, og vinna til ýmissa verðlauna fyrir. Allt tengist þetta einhverri vitleysu sem Maggi rakst á á Netinu. Við sumsé röltum upp á Hengil í þoku og viðbjóði, en ca. 5 mínútum eftir að við lögðum af stað niður létti til. Yndislegt. Stefnt er á að finna annan hól á mánudaginn, en áður en til þess kemur...

...mun Jarlaskáldið að sjálfsögðu finna sér einhvern stað fjarri mannabyggðum, vopnað keti, káli og kláravíni, og sporðrenna öllu þrennu. Lakagígar verða víst heimsóttir um helgina, og von á fjölmenni. Kannski kemur ferðasaga eftir helgi, allavega einhverjar myndir. Og hættið svo öll að væla undan veðrinu, til hvers í andskotanum að nölla yfir einhverju sem maður getur ekki breytt?

miðvikudagur, júlí 13, 2005 

Nýtt met




Ekki stóð nýja metið lengi, því í dag var það slegið, 129 heimsóknir. Ætli þetta sé veðrinu að kenna, nennir fólk ekki út lengur og hangir bara í tölvunni? Maður spyr sig. Allavega, ef metið verður slegið aftur í dag neyðist Jarlaskáldið til að grípa til aðgerða. Hverjar þær verða, ja, það kemur í ljós...

þriðjudagur, júlí 12, 2005 

Próf

Jarlaskáldið er almennt séð ekki hrifið af svona netprófum, en þegar niðurstaðan er jafnánægjuleg og hér er ekki úr vegi að birta hana til gamans.


Your Summer Anthem is Best Of You by the Foo Fighters

I've got another confession my friend
I'm no fool
I'm getting tired of starting again
Somewhere new


While you may seem bright on the outside, your insides have a distinct angst flavor.



Annars bara hress...

 

Met

Í gær var sett aðsóknarmet á þessa síðu. 115 hræður litu hér við, og var það aukning um 5 heimsóknir frá gamla metinu, sem var sett í desember 2002. Hvað í fjandanum var allt þetta fólk að skoða í gær? Síðan hefur sjaldan verið óvirkari! Fólk er skrýtið.





Annars er það helst í fréttum að eftir einhverja 16 daga mun Jarlaskáldið yfirgefa landsteinana, en þó ekki lengra en svo að það heldur til Vestmannaeyja með fóstbræðrum sínum, og hyggst eyða þar ca. 4 dögum í svall og svínarí. Öllum velkomið að bætast í þann fríða hóp. Ójá...

mánudagur, júlí 11, 2005 

Hagavatn




Skelltum okkur nokkrir pjakkar upp að Hagavatni á laugardaginn og gistum eina nótt. Sosum fátt merkilegt við það, en Lilla tókst þó að gera nokkuð góða hluti í BRÖTTU brekkunni upp að Hagavatni. Alltaf gaman að vera að hjakkast upp snarbratta brekku, missa grip og framdekkin byrja að renna til hliðar. Jarlaskáldið gargaði þó ekki jafnmikið og Solla þegar hið sama gerðist á sama stað fyrir tæpum þremur árum. Þetta hafðist þó allt saman að lokum, og við sáum blessaðan pollinn, eins og myndin að ofan sýnir. Jarlaskáldið gerði svo heiðarlega tilraun til að drepa sig og Magga á leiðinni heim, en tókst ekki.

Á föstudaginn fór Jarlaskáldið hins vegar á NASA þar sem Sálin spilaði. Þriðja Sálarballið í sumar, sæmilegt það. Það var stuð.

Myndirnar frá Hagavatni koma svo þegar Jarlaskáldið hefur ráðið fram úr ákveðnum myndvinnsluvandamálum (Uppfært: Myndir hér!).

Blogg dauðans er víst eigi svo dautt lengur. Bloggari dauðans fær því sinn gamla sess í listanum hér til vinstri, og er það viðeigandi að hann sé einmitt vinstra megin.

Að lokum: Það stefnir allt í þessa vitleysuna eftir rúmar tvær vikur. Maður ætlar seint að fullorðnast (Uppfært: Búinn að panta flug)!

fimmtudagur, júlí 07, 2005 

Frægð

Þeir eru víst orðnir eitthvað á annað þúsundið þeir sem nú hafa séð Twistinn með buxurnar á hælunum að brúka nýju uppfinninguna sína eftir að einhver ákvað að auglýsa viðburðinn á B2. Samkvæmt fregnum er Twisturinn himinlifandi með athyglina, og telur ljóst að kvenhylli og frægð hans muni aukast til muna við þetta. Það er afar eðlileg ályktun, eftir að hafa séð myndina...


miðvikudagur, júlí 06, 2005 

Konsert o.fl.

Mínus? Góðir. Queens? Snilld. Foo? Silld!

Smellti inn linkum á tvo eðalkvenmenn, að einu leyti til þess að svara í sömu mynt, en ekki síður til að þakka fyrir vitleysuna um helgina. Kunna þær báðar að haga sér í Mörkinni, sem er ekki lítill kostur. Hvenær ætli Skáldið læri það?

Hér átti einnig að rita ferðasögu um Mörkina, en þar sem allir sem máli skipta (fólk sem ekki mætir í Mörkina getur varla skipt máli) voru á staðnum og vita hvað gerðist er það hreinn óþarfi. Látum nægja að segja að FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð ársins 2006 er þegar í undirbúningi. Tekið er við skráningum frá og með... NÚNA!

mánudagur, júlí 04, 2005 

Bleh!

Mörkin um helgina. Heilsan hefur verið betri. Eins og sagt hefur verið, þá eru skordýr fljótari að læra af reynslunni en Skáldið. Assgoti gaman annars...

Foo og Queens á morgun. Vonandi að maður verði hressari þar. Varla annað hægt reyndar...

föstudagur, júlí 01, 2005 

Djúran og djammið

Skáldið fór á Djúran. Allgott. M.a.s. ansi gott. Eiginlega bara silld.

Skáldið ætlar í Mörkina á morgun, og hyggst dveljast þar fram yfir helgi við ýmsa iðju. Til er fólk sem finnst það heimskulegt. Til er einnig fólk sem étur eigin skít. Jarlaskáldið setur þetta fólk í sama flokk...

 


MÖRKIN Í DAG!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates