Landmannalaugar-ÞjórsárdalurEins og sjá má hér að ofan var Jarlaskáldið í rauðum bol um helgina. Sólarhring síðar voru fleiri komnir í rauðan bol. Reyndar rauðan alklæðnað. Nema að klæðin voru engin, ekkert frekar en sólarvörnin. Stuð. Frá tilurð þess er saga að segja...
...og sagan sú hefst á föstudaginn. Var það um hálfníuleytið sem Jarlaskáldið fór á sínum ágæta
fjallabíl upp í Grafarvog og sótti þar Þorvald á hjúkrunarheimili. Hann var að vísu ekki sjúklingur þar, og þegar hann hafði fyllt hvern krók og kima í Lilla af farangri héldum við austur fyrir fjall, ásamt þeim
Boga og Loga á
Willy, í glampandi sól og blíðu. Það breyttist þó skyndilega við Kambana, þar sem við keyrðum beint niður í þoku sem byrgði okkur sýn næsta klukkutímann eða svo, eða allt þar til við vorum farnir að nálgast Heklu, þar sem við keyrðum út úr þokunni og aftur inn í bongóblíðu. Ekki amalegt það. Við Dómadalsafleggjarann mýktum við ögn í dekkjum, og keyrðum svo eins og druslurnar drógu Dómadalinn í átt að Landmannalaugum, og er það ekki leiðinleg leið að keyra eins og vitleysingur. Inn í Landmannalaugar vorum við komnir um hálftólfleytið, og var þar allfjölmennt enda bongóið enn til staðar þótt tekið væri að rökkva. Við hentum í
snarhasti upp tjöldum, og vígði Skáldið sitt
nýja tjald sem það hafði fjárfest í fyrr um daginn og þóttist hafa gert góðan díl. Að því loknu brugðum við okkur auðvitað fljótlega í Laugina,
og lágum þar fram eftir nóttu og brölluðum eitthvað sem ekki verður tíundað hér. Alltaf ljúft að liggja þarna.
Það var af illri nauðsyn að Skáldið fór á fætur morguninn eftir, hitastigið inni í tjaldinu var farið að nálgast suðumark ískyggilega og því lífsnauðsynlegt að koma sér út. Hitinn var 20+ gráður, glampandi sól og bara gaman. Við spókuðum okkur þarna nokkra stund, enda ekki sérlega spenntir fyrir að sitja mikið inni í bíl, en lágum mestmegnis og
sleiktum sólina.
Bossinn var á svæðinu og lánaði sólarvörn, ekki veitti af. Að lokum pökkuðum við svo draslinu saman og héldum til baka, að þessu sinni hina hefðbundnu Landmannaleið, og var nær ólíft af hita inni í bílnum, en Jarlaskáldið leyfði Togga að keyra þennan spöl þar eð annað hefði varðað við landslög. Í Hrauneyjum var svo haldið í góða siði og slafrað í sig súpu dagsins, sem var prýðilegasta
sveppasúpa.
Þegar þarna var komið sögu var ýmsum orðið heldur heitt í hamsi, svo afráðið var að kanna hitastigið á Fossá við Hjálparfoss, sjá hvort ekki væri mögulegt að kæla sig aðeins niður. Það reyndist hin mesta skemmtun, áin var bara þægileg að synda í, og ekki síður gaman að taka vindsæng út í og henda sér á henni út í mesta strauminn neðan við fossinn. Jíha!
Eftir sundsprettinn þótti skynsamlegt að leita að stað til að dveljast um nóttina, og byrjað á að kíkja á
gamla góða staðinn við Sandána. Þar höfðu einhverjir stigamenn tekið sér bólfestu og í ljósi þess og fámennis okkar var ákveðið að kíkja á stóra tjaldstæðið í Þjórsárdalnum. Þar var múgur og margmenni fyrir, en okkur tókst að finna smáblett til að skella okkur á, sem við og gerðum. Þegar við höfðum komið okkur fyrir fengum við okkur flestir kríu inni í tjaldi (þoldum ekki meiri sól í bili) fram að kvöldmat. Í
kvöldmat voru svo borgarar og kjúlli á grilli, einfalt og gott. Upp úr tíu mættu svo síðustu gestirnir,
Frændi og
Frænka með
Adolf í aftursætinu. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það sem við tók, látum nægja að segja að klukkan fjögur um nóttina var okkur Stefáni boðið í veislumáltíð í
einhverju fellihýsi, sem við þáðum með þökkum. Alltaf gott að fá góða sósu.
Það var ekki að spyrja að því morguninn eftir,
sólarhelvítið enn og aftur mætt og ekki á það bætandi, flestir orðnir skaðbrunnir, þótt enginn slægi Vigni út sem var eins og slökkviliðsbíll á litinn. Minnugir gærdagsins var ákveðið þegar búið var að pakka saman að fara aftur að synda í Hjálparfossi, sem var ekki minna gaman en daginn áður. Ekki þótti sú sundferð duga, svo haldið var í
Reykholtslaug að loknu þessu baði, en Jarlaskáldið líkt og Adolf hætti sér ekki þar ofan í. Á heimleiðinni stoppuðu svo upphaflegu ferðalangarnir fjórir í Árnesi og slátruðu borgurum og fleira góðu, auk þess að kíkja á útsýnið í afgreiðslunni sem var ekki slæmt. Síðan heim var komið hafa Aloe Vera birgðir minnkað talsvert hér á landi. Úff...
Já,
það styttist...