« Home | 3 ára (og 21 árs)Í dag eru akkúrat þrjú ár síðan J... » | SnæfóJájá, þetta er allt að koma...En þetta var al... » | EyðslaJarlaskáldið var að versla. Það er alltaf ga... » | New JerseyAlltaf er nú Jarlaskáldið eitthvað að ba... » | Eitt lengsta partíblogg sögunnarNú verður sögð sag... » | SkriftirJarlaskáldið situr nú baki brotnu við skri... » | Pbase rúlarRétt er vekja athygli á því að þau stór... » | Gavrilo PrincipJarlaskáldið var í þessu að fjárfes... » | AfmæliÍ dag á Jarlaskáldið afmæli. Af því tilefni ... » | Bévítans sker!Já, Skáldið er komið heim á skerið, ... » 

mánudagur, apríl 25, 2005 

Stórkostleg stuðningsyfirlýsing!

Já, það er ekki um að villast, Jarlaskáldið bað lesendur um að láta hug sinn í ljós vildu þeir að Skáldið héldi áfram skriftum með því að kommenta ekki við síðustu færslu, og ekki stóð á viðbragðaleysinu, aðeins eitt komment! Þetta verður að túlkast sem mikil stuðningsyfirlýsing, því jafnvel í þessu eina kommenti sem þó kom var Skáldið hvatt til að halda áfram af einhverjum manni sem það kann engin deili á en hlýtur að vera einstaklega vel heppnaður einstaklingur fyrst hann sér ástæðu til að ausa Skáldið lofi (nema þetta hafi verið háð, þá er þetta komment lúalegt í alla staði. En af hverju ætti sosum nokkur maður að hæðast að Skáldinu, slíkt þekkist einfaldlega ekki...)

Skáldið skuldar heilar tvær vikur í fréttum af sjálfu sér og því ekki annað að gera en að vinda sér í þetta. Eins og Skáldið reyndar upplýsti í örpistli fór það að versla miðvikudaginn 13. apríl, þessa líka þrælfínu ferðatölvu, og má segja að þau kaup beri stóra ábyrgð á fréttaleysinu undanfarið, Skáldið hefur verið svo upptekið að fikta og föndra í nýju tölvunni að flest annað hefur setið á hakanum. Þó ekki allt...

...því Jarlaskáldið rifjaði upp kynni sín af lendum skemmtanalífsins laugardaginn 16. apríl. Buðu þá herra og frú Þorvaldur til veislu í Naustabryggjunni, og var þangað stefnt fjöldanum öllum af fólki, sem flest átti það sameiginlegt að hafa verið í skíðaferð á Ítalíu fyrir eigi svo löngu síðan, enda var um hið árlega myndakvöld Ítalíufara að ræða. Var glaumur og gleði ríkjandi fram eftir kvöldi, þar sem myndir skiptu þúsundum náðist aðeins að komast yfir brot af þeim, þannig að það verður líklega að halda nokkur myndakvöld í viðbót til að klára bunkann. Seint og um síðir héldu hinir gleðisæknari niður í bæ og ekki svo merkilegt nokk á Hverfisbarinn, og svo... ...barinn... ...bjór... ...Nonnabiti... ...leigubíll...

Hvað svo? Það var einhver þynnka á sunnudaginn, og gott ef ekki fyrripart mánudagsins líka (svo vitnað sé í Roger Murtaugh, maður er orðinn of gamall fyrir þennan andskota). Svo kom þriðjudagur og líkast til miðvikudagur þar á eftir, en það var einmitt síðasti dagur vetrar og samkvæmt hefð hélt Skáldið þá vestur á Snæfellsnes, drakk nokkra bjóra, svaf í tjaldi, labbaði upp á jökul og skíðaði svo niður af honum. Um för þessa hefur Stefán nokkur Þórarinsson ritað skilmerkilegan pistil á annarri síðu vilji lesendur fræðast nánar um atburði hennar, auk þess sem þessar myndir ættu að gefa einhverja hugmynd um þá.

Á föstudaginn var Jarlaskáldið ekki til stórræðanna sakir þreytu eftir þetta fjallabrölt sitt, en stóðst þó ekki mátið þegar stúlka ein hafði samband um kvöldið og bauð því með sér í kvikmyndahús. Glápt var á Danny the Dog, sem var alveg prýðileg, þótt lítið hafi farið fyrir rómantík, sem ætla mætti að væri heppileg þegar farið er í kvikmyndahús með einhleypri yngismey. Nema að yngismærin var Adolf (lofaði að kalla hana ekki Adolf í pistlinum, en fjandinn hafi það, maður getur ekki staðið við allt sem maður lofar).
Laugardeginum eyddi Jarlaskáldið að hluta til í vinnunni, mestmegnis að spila Football Manager, og um kveldið leit ekki út fyrir að stefndi í mannamót eður annað slíkt, svo Skáldið nördaðist bara í tölvunni fram eftir kvöldi og ætlaði um miðnættið að fara að glápa á South Park þegar síminn hringdi og Skáldið var dregið á kaffihús í félagsskap dömunnar frá því kvöldið áður og þeirra Stefáns og Vignis. Kaffibrennslan varð fyrir valinu og þar afgreiddar tvær ölkollur, en þegar halda átti heimleiðis greip dömuna mikill djammþorsti og með gríðarlegum sannfæringarmætti sínum (nenniru?) tókst henni að plata Skáldið með sér á dansstað, en þeir VJ og SÞ héldu heim og eru því úr sögunni. Dansstaðurinn var sem oft áður í félagsskap þessum 22, og var þar heldur fámennt fyrst um sinn. Áttumst við við í fússball nokkrum sinnum með árangri sem er allsendis ónauðsynlegt að tíunda, auk þess sem við snerum bökum saman og unnum sigur á tveimur piltum sem skoruðu á okkur. Þá voru dansmenntir stundaðar nokkuð og má skífuþeytari kvöldsins eiga lof skilið fyrir sitt framlag, snilldartónlist þarna inni, svo skankar voru skeknir af krafti. Er líða tók á nótt fór stúlkan að snúa sér að öðrum hugðarefnum en að veita Skáldinu félagsskap svo það sá sæng sína útbreidda (í óeiginlegri merkingu þess orðtaks), lét sig hverfa án þess að kveðja líkt og siður þess er, og endaði eftir nokkurt rölt hjá honum Nonna sem brasaði fyrir það bát, sem Skáldið hafði meðferðis er það hélt heim á leið skömmu síðar.

Síðan hefur ekki gerst rassgat.

Besti partíbloggari Íslands kveður.

------------------------------------------------------------------------------------

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates