« Home | SkriftirJarlaskáldið situr nú baki brotnu við skri... » | Pbase rúlarRétt er vekja athygli á því að þau stór... » | Gavrilo PrincipJarlaskáldið var í þessu að fjárfes... » | AfmæliÍ dag á Jarlaskáldið afmæli. Af því tilefni ... » | Bévítans sker!Já, Skáldið er komið heim á skerið, ... » | Djöfull eruði klikkuð maður!Svo mælti piltur einn ... » | Nei sko, internettenging!Hér er pínku gaman. Eigin... » | Hættur, farinnEftir tæpa 5 tíma mun Jarlaskáldið o... » | ... og það styttistÁður en vikið verður að aðalefn... » | ...förum heldur á skíði!--------------------------... » 

föstudagur, apríl 08, 2005 

Eitt lengsta partíblogg sögunnar

Nú verður sögð saga. Þetta verður ekki stutt saga. Hún verður heldur ekki sérstaklega áhugaverð, nema kannski fyrir þá fáu sem hlut eiga að máli. En þetta verður merkileg saga, um það efast enginn. Verður hún sögð frá sjónarhóli Jarlaskáldsins, og því viðbúið að ýmiss verði ógetið sem Óminnishegrinn hefur hnuplað, auk þess sem sumt þolir vart birtingu. Hvað um það, þetta verður fín saga. Þetta er sagan af Selva 2005.

(Ath. neðst í frásögninni er stuttur útdráttur fyrir þá sem ekki nenna (eða geta) að lesa alla romsuna. Já, þessu er beint til þín Snorri.)

19. mars 2005 - Brottför

Saga vor hefst árla morguns 19. mars 2005, þegar Jarlaskáldið bankaði upp á hjá því sómapari Snorra (perra) og Katý í Funalindinni. Örstuttu síðar, á sekúndunni 5.30, gerðist þetta. Snorri fylgdi fljótlega í kjölfarið. Nokkrum mínútum síðar mætti stuttferðabíll á svæðið, og voru í honum ferðalangar úr Árbæjar- og Grafarvogshverfum, þau Toggi og Dilla og þeir Stebbi Twist og Vignir. Voru þeir tveir líkt og Jarlaskáldið klæddir á viðeigandi hátt fyrir skíðaferð, sem einmitt stóð fyrir dyrum.
Næst lá leiðin í Garðabæinn, þar sem þeir Tyrolia-bræður bættust í hópinn, og síðan beint strik (eða svona næstum því) suður í Keflavík meðan lækkaði í dósum hjá þeim sem þær höfðu. Þangað vorum við komin talsvert fyrir áætlun, sem eru nýmæli hjá VÍN-verjum, þannig að menn gáfu sér m.a.s. tíma til að fíflast aðeins í röðinni í inntékkið, sem var merkilega stutt, þannig að þegar klukkan var 10 mínútur í sjö var gengið upp í flughöfn (nei, líklega var rúllustiginn tekinn). Tveimur mínútum síðar var Stebbinn búinn að fá fyrsta ammilisbjórinn. Ekki þann síðasta. Jarlaskáldið asnaðist til að ana inn í Duty-free, kom 11.000 krónum fátækara út. Annars var bara tsjillað á barnum fram að flugi, sem var kl. 9, eða átti a.m.k. að vera þá. Fengum við sæti alveg fremst í rellunni, Skáldið, Vignir og Stebbi (hér eftir nefndir vitringarnir 3 þegar nefndir eru í fleirtölu) saman og pörin saman hér og þar.
Flugið var eins spennandi og þau annars verða, hlutum við vitringarnir 3 nokkra athygli fyrir okkar smekklega klæðnað, í matinn var ommeletta, og einhver þrautleiðinleg in-flight mynd sem Skáldið nennti ekki á að horfa. Ríflega 4 tímum eftir flugtak tókst að lenda rellunni, og þegar út úr henni var komið kom í ljós að Hawaii-skyrtur voru ekki alvitlaus klæðnaður, hitinn vel yfir 20 stig. Ítalskir flugvallarstarfsmenn brugðust ekki væntingum okkar frekar en fyrri daginn, endalaus bið eftir töskunum, en þær skiluðu sér að lokum. Þá í gegnum toll og vopnaleit (hvort tveggja einn hundur) og síðan út á götu að leita að réttri rútu. Hún fannst fljótlega, en inni í henni var u.þ.b. 40 stiga hiti þannig að fram að brottför beið maður úti. Loksins var svo lagt af stað, og byrjað á hefðbundum skylduverkum, Vikingröðinni, sem Skáldið ber veg og vanda af. Fararstjórar til Selva voru gamlir kunningjar síðan úr Val di Fiemme, þau Einar og Anna, settist Anna í okkar rútu og malaði síðan alla leiðina hluti sem við höfðum öll heyrt áður. Ekki var nú ferðin til Selva sérlega markverð eða eftirminnileg, eitt stopp á einhverri bensínstöð til að bæta aðeins á birgðir, en svo bara stímt áfram upp í Dólómítana þangað til fór að dimma svo maður nennti ekki einu sinni að glápa út um gluggana lengur. Vakti eftirtekt okkar að hvergi var eitt einasta snjókron að sjá, sem okkur þótti ekki allt of sniðugt verandi í skíðaferð. Loks þegar við vorum farin að nálgast Selva fór þó að glitta í snjóskafl hér og þar og Anna fararstjóri fullvissaði alla um að nóg væri af snjó í skíðabrekkunum þó lítið væri kannski utan þeirra. Það átti allt eftir að koma betur í ljós.
Loks komumst við á leiðarenda, og þurfti rútan okkar að stoppa á tveimur hótelum, við á því seinna. Á sama tíma og fyrri hópurinn gekk út úr rútunni gaus upp einhver sú rosalegasta prumpufýla sem sögur fara af, svo svakaleg að nær ólíft varð. Vildi enginn taka á sig sökina, m.a.s. Stefán þóttist saklaus en hann hreykir sér jafnan mjög þá hann rekur við svo honum varð trúað, aðrir sóru einnig af sér allar sakir og er sökudólgs enn leitað. Ætli einhver í hinum hópnum hafi skilið eftir glaðning?
Miravalle-hótelið var áfangastaður okkar, eftir alls kyns vesen með hótelmál eins og tíundað hefur verið hér. Í sárabætur fyrir allt það vesen fengum við öll svítur og fínerí, þó enginn eins flott og við Vignir. Við fengum rómantísku svítuna, delúxsvítu með alls kyns fíneríi eins og nuddbaði og -sturtu, tveim klósettum, aukarúmi og heilli setustofu aukreitis. Það var því sjálfákveðið að þar yrði félagsaðstaðan í ferðinni. Við Vignir gátum ekki komið okkur saman um hvor ætti að sofa í aukarúminu, þannig að við sváfum bara saman í hjónarúminu, en höfðum aukarúmið til taks ef einhvers staðar hlypi á snærið. Var það nefnt Óreiðurúmið, nema að ei-ið var skrifað með í.
Þar sem við vorum mætt nógu snemma byrjuðum við á því eftir að hafa fundið herbergin að skunda í mat. Ekki ætlar Jarlaskáldið að eyða miklu púðri í matinn, hann var fjórréttaður hvert kvöld, fyrst appetæser (rækjukokkteill eða e-ð slíkt), yfirleitt pasta í forrétt, eitthvert kjöt eða þvíumlíkt í aðalrétt og svo ís í eftirrétt, en þó voru auðvitað frávik frá þessu. Þjónninn okkar var svo kapítuli út af fyrir sig, Albani sem virtist eingöngu tala og skilja albönsku (ef þá það), kallaði Snorra yfirleitt Arnold Schwarzenegger af ókunnum ástæðum og var meinilla við að láta Vigni fá matinn sinn. Þá var hann einkar áhugasamur um að við stæðum upp frá borðum og dönsuðum á ólíklegustu tímum. Furðulegur fír.
Þetta fyrsta kvöld byrjuðum við á því að kynna okkur staðarhætti í Selva. Okkur til lítillar gleði kom í ljós að hótelið okkar stóð efst í BRATTRI brekku ofan við miðbæinn, sem þýddi að hana þyrfti alltaf að fara heim af djamminu. Á móti kom að skíðaleiðin niður í bæ var við hliðina á hótelinu. Plúsar og mínusar alls staðar. Það var sosum stutt niður í miðbæ, og eftir að hafa fundið Tyrolia-bræður, sem voru á Savoy-hótelinu, var fundin næsta knæpa. Var það Laurinkeller, sem státaði af skemmtilegum stólum. Þar var setið einhverja stund og sötrað, pör og bræður tíndust svo heim en vitringarnir þrír þraukuðu lengur og stofnuðu til spænskra menningartengsla þegar leið á kvöldið. Það var þó farið í fyrra fallinu í bælið þessa nótt, og gisti enginn Ór*ðurúmið.


20. mars 2005 - Fyrsti dagur í fjalli

Það tókst stórslysalaust að drullast á fætur og það nokkuð snemma enda dálítil eftirvænting í manni, loksins átti að skíða í almennilegu fjalli eftir tæplega 14 mánaða bið. Í morgunmat var boðið upp á týpískt hlaðborð, og var þetta einn af fáum dögum sem Jarlaskáldinu tókst að komast í hann. Þá klæddi maður sig í gallann, og voru menn öllu léttklæddari en þeir áttu að venjast, enda hitastigið vel í plús og glampandi sól. Goretex-jakkinn fór inn í skáp og ekki tekinn út fyrr en við heimferð. Fyrsta mál á dagskrá var að renna sér niður í bæ og kaupa skíðakort, 218 evrur fyrir 9 daga, sæmilegt það, en ferðaskrifstofan endurgreiddi okkur reyndar helminginn vegna hótelvesensins. Þá var tölt út í Ciampinoi-eggið, upp með því, og voila, maður var mættur! Eins og sjá má var snjórinn nokkuð bundinn við troðnar brautir, en það vissi maður sosum að yrði og í brautunum var alveg ágætur snjór, allavega fyrri part dags. Bera þurfti vel á sig af sólarvörn, voru menn reyndar misduglegir við það. Fyrsta brekkan var síðan ekkert slor, meistarabrunbrekka niður í St. Christina, gjörsamlega syndsamlega löng, erfið og skemmtileg brekka. Úff.
Eftir þessa ferð var farið til baka upp í Ciampinoi og yfir í Plan De Gralba (ef þú, lesandi góður, veist ekki hvaða staðir þetta eru, er það þitt vandamál). Þaðan lá leiðin með stórum kláf upp í Rifugio Piz Sella og sjá, fyrsti bjórinn í fjallinu 2005, 2 mínútur í ellefu að staðartíma.
Eftir þennan stóráfanga lékum við okkur aðeins í Plan De Gralba og fikruðum okkur svo í áttina að Val Di Fassa (Canazei). Við vorum rétt ókomin að uxahalasúpustaðnum þegar matast átti en hann var látinn bíða betri tíma og þess í stað splæst í gúllassúpu á Rifugio Valentini. Prýðileg súpa enda herramannsmatur.
Eftir þetta fórum við að fikra okkur yfir og þegar við fórum niður Ciampinoi-brekkuna niður í Selva kom í ljós hvað nokkrir klukkutímar geta gert við svona brekku í sól; metersháir hólar um alla braut og mesta kúnst að komast niður. Þetta var reyndar bara á köflum, en þegar líða tók á ferðina fór öll brekkan að verða svona. Þegar niður var komið voru menn eðlilega þreyttir svo niður var sest með einn kaldan í kringum Breta nokkurn (hann tók myndina). Eftir þessa hressingu lá svo leiðin hjá sumum á kunnuglegar slóðir, upp í Dantercepies, á Panorama-barinn sem þeir sem voru í Val di Fiemme muna vel eftir. Þar afgreiða menn í lederhosen og spila týrólamúsík og stemmning öll hin besta. Þarna tókum við létt Apres-ski þennan daginn, og vorum því ansi vel mjúkir þegar við lögðum af stað niður á hótel. Hvort við héldum ekki bara áfram þar, jú, er það ekki bara?
Það er ekki frá miklu að segja eftir skíðin þennan daginn, við álpuðumst jú í supermarket til að geta sötrað vel inni á herbergi, og það gekk svona helvíti vel að Skáldið man ekki eftir neinu sérlega markverðu um kvöldið. Jú, vitringarnir þrír og bræðurnir allavega settust inn á rómantísku svítuna eftir mat og þjóruðu af krafti, svo álpast niður brekkuna og oní bæ einhvern tímann eftir miðnætti, inn á Luislkeller, einn aðalstaðinn í bænum og haldið áfram að þjóra. Það verður a.m.k. að teljast líklegt, því...

21. mars 2005 - Innrás frá Austurríki

...Skáldið man það næst að eitthvert þrælókunnugt fólk byrjaði að hoppa ofan í rúmið hjá því og bjóða góðan daginn svívirðilega snemma um morguninn. Kynnti fólkið sig fljótlega, sögðust vera Ríkey og Eyfi frá Innbrú í Austurríki og þekkti Skáldið þá hjúin. Voru þau komin til að dveljast með okkur um þriggja daga skeið og báru upp þá fáránlegu hugmynd að Jarlaskáldið færi á fætur og á skíði. Skáldið hélt nú ekki, sneri sér á hina hliðina og hélt áfram að sofa.
Einhverju síðar vaknaði Skáldið við bank. Ansaði það því engu. Svo voru dyrnar opnaðar, inn gekk fröken ein og byrjaði að þrífa, og sá Skáldið sér þá þann kost vænstan að hypja sig á lappir svo hún fengi vinnufrið. Nokkru síðar var það mætt út í lyftu og reyndi að komast að því hvar aðrir héldu sig. Barst það svar um hæl að liðið væri í Seceda og þar um kring, og hóf Skáldið þá að fikra sig í þá áttina. Fyrst var það eggið upp í Ciampinoi, og síðan þurfti að taka meistarabrunbrekkuna niður í St. Christina. Fussumsvei, ekki gekk það vel í því ástandi sem Skáldið var, svo það lét þyngdaraflið bara taka völdin, það er léttast, og fór á seinna hundraðinu niður. Niðri í St. Christina þurfti að taka neðanjarðarlest yfir að egginu í Col Raiser, og þegar Skáldið var á leið upp það sá það ferðafélaga sína koma niður brekkuna. Beið það því bara fyrir ofan lyftuna og sleikti sólina þar til liðið kom upp og urðu þar skiljanlega fagnaðarfundir. Í hópinn vantaði reyndar einn, Snorri lá veikur heima á herbergi og gekk víst bæði upp úr honum og aftur úr. Yndi. Lékum við okkur við Col Raiser um stund, fórum þrælbratta en stutta svarta brekku nokkrum sinnum en skíðuðum síðan aftur niður til St. Christina, og þótti sumum sniðugara að skíða á grasi á hluta leiðarinnar. Merkilegt. Aftur var það svo neðanjarðarlest og síðan sest á barinn að hlaða batteríin. Þar sáum við jakuxa, eða a.m.k. mjög stóran og loðinn hund.
Þaðan var það bara sömu leið aftur heim á hótel, með smáviðkomu í Costabella-lyftunni til að þurfa ekki að labba brekkuna bröttu, og svo Apres-ski fyrir aftan hótelið okkar. Ríkey og Eyfi voru með allan sinn farangur hjá okkur, og til þess að spara sér sporin ákvað Eyfi að skíða á hótelið þeirra með 20+ kílóa ferðatösku með sér, við litla kátínu frúarinnar. Sem var fyndið. Við vitringarnir 3 þrír og bræðurnir röltum á Luis að fá okkur einn, en svo var það bara matur þar sem Eyfi og Ríkey slógust í hópinn á Miravalle. Eftir mat var svo slegið upp 9 manna partíi í rómantísku svítunni (Snorri var löglega afsakaður og Katý að hjúkra honum) þar til, ja, hverjir aðrir en vitringarnir þrír héldu á Luisslútta kvöldinu. Þar var reyndar ósköp rólegt þetta kvöld, og stoppið ekki langt. Næturlífið hafði satt best að segja ekki verið upp á marga fiska þegar þarna var komið sögu. En þar sem VÍN-verjar eru, þar skapast stemmning, og það átti eftir að sannast.

Þess má geta að hvorki Magnús Blöndahl né Alda skíðuðu nokkuð þennan dag.

22. mars 2005 - Arabba og Sellaronda

Þennan dag voru menn rifnir á fætur snemma enda ætluðum við öll að hittast við Ciampinoi-lyftuna kl. 8.30. Hægara sagt en gert. Það munaði litlu, 20 mínútum of seint voru allir mættir og hægt að leggja af stað. Verkefni dagsins var ekki ómerkilegt, Sellarondahringurinn grænu leiðina, eða gegn sólarhringnum, með góðri viðkomu í Arabba, en þaðan höfðum við góðar minningar frá því fyrir 2 árum. Var þetta 8 manna hópur, allir nema Dýrleif sem var í kennslu, og Snorri og Katý sem við héldum vera veik. Það reyndist svo vitleysa, þau vildu koma með, þannig að við biðum eftir þeim við Rifugio Paradiso og er þá nokkuð vitlaust að fá sér einn á meðan maður bíður þó klukkan sé bara 9.20 að morgni? Ónei!
Þegar hópurinn var fullskipaður var svo bara keyrt áfram og í gegnum Val di Fassa, reyndar var fáránleg "röð" (Ítalar skilja ekki hugtakið röð, röðin minnti meira á loðnutorfu) við eina lyftuna sem tafði aðeins en engu að síður vorum við komin til Arabba rétt um ellefu sem verður að teljast fínn tími. Þar tók við ógnarlangt, stórt og troðið egg upp í Porta Vescovo, frá 1602 m upp í 2478. Það er ágætis hækkun. Þaðan niður í Arabba liggja a.m.k. þrjár svartar brekkur, og er þetta að mati Skáldsins og margra annarra eitthvert það besta svæði sem maður kemst á vilji maður kaffið svart. Og við viljum það sko svart, þarna var gaman, gaman, gaman, enda fórum við þrjár ferðir, niður sitt hverja brekkuna. Þrjár ferðir hljómar kannski ekki mikið, en trúið því, það er alveg ágætt.
Eina ástæða þess að við fórum ekki fleiri ferðir var að það var hátt í tveggja tíma ferð aftur til Selva, og við áttum eftir að borða. Allir vildu pítsu, svo fundin var Pizzeria niðri í Arabba sem gat annað 10 manns. Það tókst, og fínar pítsur, en ekki skemmtilegur geitungur. Óþverri. Eftir matinn var svo bara brunað heim, í sömu átt og áður þannig að við fórum Sellaronda, þó það hafi verið meiri afleiðing en orsök í þessari ferð, við vildum bara fara til Arabba. Við náðum svo á Panorama á ca. tveimur tímum eftir satt að segja frekar leiðinlega leið, aðallega lyftur og hólabrautir, enda langt liðið á dag, en bjórinn rann ljúflega niður þar líkt og venjulega. Hann rann ekki síður ljúflega niður þegar við vitringarnir þrír (en ekki hverjir?) héldum niður í bæ eftir skíðin og fengum okkur einn á útibarnum, á meðan við ræddum ágæti stuttra og langra jeppa og ítalska bílamenningu almennt. Sívinsæl umræðuefni. Hún var líka sæt stelpan sem afgreiddi okkur, þó engin væri hún Heidi. Vikið verður að Heidi síðar.
Um kvöldið var teiti í rómantísku svítunni að venju, Stebbi æfði höstlmúvið sitt af krafti, aldrei að vita hvenær það virkar, en Toggi mætti með tölvuna sína sem við notuðum til að hlaða myndum inn á Netið og skoða klám auðvitað. Setið var og þjórað fram eftir kveldi og fram yfir miðnætti eða þar til vitringarnir drógu Eyfa á Luis rétt fyrir eitt, og var stuðið þá orðið heldur meira en verið hafði. Við máttum þó ekki vera of duglegir, því daginn eftir var mesta tilhlökkunarefni ferðarinnar og því vissara að vakna.

Þess má geta að hvorki Magnús Blöndahl né Alda skíðuðu nokkuð þennan dag.

23. mars 2005 - Marmolada

Marmolada er jökull á samnefndu fjalli handan Arabba-svæðisins, sem er 3343 metra hátt. Það var áfangastaður þessa dags. Til þess að komast þangað eru tvær leiðir, annars vegar skíðandi, hins vegar með þyrlu. Ríkey og Eyfi kusu að fara þangað skíðandi, enda bara fátækir námsmenn, en aðrir að punga út 90 evrum til þess að ljáta fljúga með sig. Urðu það ágætis kaup.
Mæting var fyrir neðan Dantercepies-eggið upp úr níu, og var þyrlan þá að hefja sig til lofts með einhverja 6 skelfda Íslendinga. Bræðrunum og þeim Snorra og Katý voru fengin sæti í þarnæstu vél, en vitringunum 3 og Togga og Dýrleifu ásamt einhverjum Þjóðverja troðið í þá þarþarnæstu. Maður notaði svo bara biðina til að fylgjast með þyrlunni koma og fara, og voru engin vettlingatök notuð, bara niður, inn með liðið, og strax upp aftur. Ja, nema þegar kom að okkur, við máttum bíða smástund meðan tankað var, en svo hljóp maður inn, Toggi og Dilla frammi í, en vitringarnir aftur í, og svo var rellan bara komin á loft áður en maður gat svo mikið sem spennt beltin.
Flugferðin var síðan um 8 mínútur og snerist aðallega að segja vó, flissa eins og skólastelpa og taka endalaust margar myndir og vídjó. Skíðabrautin leit ekkert sérstaklega illa út um gluggann, svo beitt sé því ágæta stílbragði úrdrætti.
Rellan lenti svo í ríflega 3250 metra hæð, og ekki laust við að loftið væri aðeins þynnra þarna en víða annars staðar. Þurftum við síðan að bíða eftir næstu rellu því í henni var pjakkurinn Hallur (18 ára) sem hafði týnt foreldrum sínum, og var okkur fengið það verkefni að draga hann með okkur af fararstjórunum. Ljúft verk og skylt. Var tíminn á meðan notaður í myndatökur, þær hæstu í sögu VÍN-verja. Loks kom pjakkurinn og þá var komið að því að skíða, 14 kílómetra löng brekka beið okkar, úr 3250 m niður í 1446. Úff, þetta þyrfti að taka í áföngum. Fyrri áfanginn var niður í 2057 m hæð, rauð og stórskemmtileg brekka í brilliant færi að mestu sem endaði að sjálfsögðu á barnum, að þessu sinni í Passo Fedaia. Pjakkinn stungum við af og þegar hann loks skilaði sér og sá okkur með bjór mælti hann hin fleygu orð: „Djöfull eruði klikkuð maður!“ Hann fór síðan og pantaði sér bjór.
Þarna bárust okkur þau skilaboð að Eyfi og Ríkey (sem komu skíðandi) væru að nálgast, og eftir nokkra ranga misskilninga varðandi halla á brekkum og fleira slíkt var ákveðið að hitta þau niðri í bæ við enda brekkunnar. Bjórnum var því skolað niður og haldið áfram, en seinni hluti og sérstaklega seinasti hluti brekkunnar var ekki upp á marga fiska, fyrst lítill snjór og að lokum ca. metersbreið snjóræma. Maður vorkenndi aðeins brettinu síðustu metrana, og þegar niður var komið voru Austurríkisbúarnir hvergi sjáanlegir þannig að þeirra var vitanlega beðið á barnum með einn kaldan. Þau birtust svo nánast um leið og bjórinn var kominn í glösin, búmmtsjakabúmm, málinu reddað, og haldið áfram með stórum kláf upp á topp Marmolada að nýju. Það voru reyndar heilir þrír kláfar alla leið upp á topp, enda engin smá leið, 1800 metra hækkun, og var örugglega hálftímabið við þann síðasta. Sumir létu sig hafa það, aðrir ekki, en allir komust þó niður að lokum og hittust við stólalyftu sem flutti okkur í átt að Arabba. Þarna vorum við farin að drífa okkur, enda var meiningin að vera mætt á uxahalasúpustaðinn um tvöleytið í mat, og tíminn skammur. Til að gera langa sögu stutta (er það ekki of seint? (innsk. höf.)) tókst það alls ekki, því þangað vorum við ekki komin fyrr en að verða þrjú, sársoltin, allir pöntuðu sér pítsur, sumir m.a.s. með parmaskinkunni frægu, og urðu þá allir glaðir.
Ekki höfðum við mikinn tíma til að liggja á meltunni því klukkan var orðin margt og Austurríkisbúar þurftu að ná lest klukkan sex. Vorum við því komin upp á hótel upp úr fimm, þar sem Austurríkisbúarnir voru kvaddir innilega, og eru þeir hér með úr sögunni í bili. Lítið var um apres-ski þennan daginn, svo það var ekki annað að gera en að reyna að vinna það upp eftir kvöldmat. Í kvöldmatnum upplýstu reyndar þau Snorri og Katý hvað þau höfðu verið að bardúsa í þyrlunni fyrr um daginn, voru komin með þessa líku fínu hringa á baugfingurna, þannig að það er ljóst að það verður steggjapartí fyrr eða síðar. Til hamingju með það!
Þar sem ekkert var apres-ski þurfti að taka til hendinni, og kom þar Obstlerinn sem bræðurnir komu með færandi hendi vel til hjálpar. Óþverri, en þó hátíð miðað við Grappa. Það varð reyndar fámenn teitin í rómantísku svítunni þetta kveldið, aðeins vitringarnir þrír ásamt bræðrunum, en gestir stóðu sig allvel í að drekka fyrir þá sem vantaði þannig að aðeins ein niðurstaða gat hlotist af: skíði á Luislkeller. Það færði okkur stórvinkona okkar hún Heidi, sem áður er getið, en hún er fegurst kvenna sunnan Alpafjalla, eða það þótti okkur svona yfirleitt. Á Luis var einnig pjakkurinn Hallur, útúrtjokkaður, ásamt félögum (annar þeirra reyndar ávallt með ólundarsvip, einhverra hluta vegna), og varð úr ágætis djamm. Því lauk svo ekki fyrr en á öðrum tímanum inni á dansstaðnum Danging(sem við erum enn sannfærðir um að sé skrifað með G-i), og því ljóst að morgundagurinn yrði erfiður...

24. mars 2005 - Vitlausir í Edelweiss

Það var lítil stemmning í rómantísku svítunni þennan morguninn. Hún var eiginlega við frostmark. Hafði e.t.v. eitthvað með kvöldið áður að gera, erfitt að segja. A.m.k. sást lítið lífsmark þar fyrr en gengið var á tólfta tímann, þá náðu íbúarnir af nánast ótrúlegum viljastyrk að hafa sig á fætur og drösla sér út. SMS-sendingar leiddu í ljós að Toggi væri á næstu grösum, þá búinn að losa sig við frúna sem hafði fengið nóg þann daginn, og hittum við hann efst við Dantercepies-eggið. Þar sem komið var fram yfir hádegi var ljóst að ekki færum við langt, svo við renndum okkur bara niður í næsta dal, Edelweiss-dalinn svokallaða, tókum eggið upp og settumst að snæðingi á einum staðnum. Hresstist maður mjög við þann gyllta þannig að við gátum skíðað niður svarta brekku sem þarna var, upp stólalyftu og þar inn á annan veitingastað að panta meiri drykki. Eftir þá voru menn komnir í eðlilegt ástand og gátu farið að huga að því að koma sér aftur til baka. Fyrst var það stóll sem Vignir festist í og þurfti hjálp eins og fimm ára krakki, en svo rauða/gula/ógeðslega langa eggið upp, tvær stólalyftur og við vorum komnir á Panorama, að sjálfsögðu með drykki. Helvíti hressir á stuttum tíma. Ekki er hægt að tala um stórafrek á skíðum, en djöfull höfðum við nú samt gaman af þessu, vitleysisgangur í hámarki.
Um kvöldið var síðan „skíðasýning“ í Ciampinoi, sem var eiginlega hvorki fugl né fiskur, eitthvert lið með kyndla að skíða hægt í stórum beygjum, og svo nokkrir að skíða á grasi, júbbí!
Það hafði verið brýnt fyrir okkur að vera róleg um kvöldið, því morguninn eftir átti að fara með rútu kl. 8 til Cortina og ekki yrði beðið eftir neinum. Pörin tóku þetta til sín og fóru heim fljótlega eftir skíðasýninguna, en við hinir gátum ekki verið þekktir fyrir slíkt, töltum inn á Luis og myndirnar tala sínu máli eftir það. Komum seint heim.

Þess má geta að hvorki Magnús Blöndahl né Alda skíðuðu nokkuð þennan dag.

25. mars 2005 - Cortina d'Ampezzo

Íbúar rómantísku svítunnar voru í merkilega góðu ástandi þegar þeir voru vaktir um hálfáttaleytið þennan morguninn. Á því eru tvær mögulegar skýringar, annað hvort höfðu þeir gengið svona hægt um gleðinnar dyr kvöldið áður eða gengið svo hratt að gleðin ríkti enn. Söguspekingar hallast flestir að seinni útskýringunni. Að vísu þurfti aðeins að hjálpa Vigni að finna skíðin sín og svoleiðis, en rétt upp úr átta voru samt allir komnir inn í rútu á leiðinni til hins merka skíðabæjar Cortina d'Ampezzo. Veðrið var ekki upp á mikla fiska, rigningarsuddi, en rútuferðinni man Jarlaskáldið óglöggt eftir, hvað sem því veldur. Til Cortina vorum við komin í kringum tíu, og röltum þar út í rigningarsuddann. Jarlaskáldið hafði að sjálfsögðu gleymt jakkanum sínum, og var því bara í flíspeysu. Æðislegt.
Cortina skiptist í tvö aðskilin skiðasvæði, Tofana-svæðið öðrum megin í dalnum og Cristallo-svæðið hinum megin, og byrjuðum við á að taka kláf upp á síðarnefnda svæðið. Þar uppi var slydda og síðar snjókoma, þannig að maður fékk sýnishorn af öllu veðri, eiginlega eins og að vera kominn heim! Fundin var næsta svarta brekka og byrjaði Jarlaskáldið auðvitað á því að detta með tilþrifum og teygja aðeins á ónýta ökklanum sínum, lítið gaman það, og var hann til vandræða það sem eftir lifði ferðar. Við skíðuðum svo meira og minna allt svæðið, fórum hæst upp í tæpa 3000 metra, allt í rigningu, slyddu, snjókomu og þoku, þannig að maður sá sjaldnast nokkuð. A.m.k. gæti Jarlaskáldið ekki unnið sér það til lífs að lýsa svæðinu, fararstjórarnir voru þó duglegir við að benda á hvar hefði verið gott útsýni ef því hefði verið til að dreifa. Vitaskuld voru fjallakrárnar prófaðar, en upp úr hádegi var farið að huga að því að fara niður og koma sér yfir á hitt svæðið. Það tók heldur lengri tíma en áætlað var, vorum ekki komin niður fyrr en klukkan var langt gengin í tvö, og því hæpið að ætla sér að fara yfir á hitt svæðið á þeim stutta tíma sem eftir var. Auk þess var maður orðinn hundblautur og pítsan hljómaði ágætlega, þannig að Skáldið rölti með þeim Togga og Dillu á pítsustað, þrjár Diavolur eftir nokkra bið, allir sáttir.
Eftir mat var það svo skoðunarferð um miðbæinn, við Stefán fundum smá ólöglegan innflutning, en enduðum svo inni á Bar Dolomiti, sem státar af elstu húsgögnum Dólómítanna. Við náðum svo rútunni aftur heim um hálffimmleytið, og var heimferðinni einkum varið í ættfærslur VÍN-verja frammi í með klerknum og organistanum.
Um kvöldið voru það síðan bara fastir liðir, partí í rómantísku svítunni, svo tölt niður á Luis, drukkið öl og skíði og bullað í útlendingum, og svo einhverju eftir miðnætti skriðið inn á Danging og vitleysunni haldið áfram. Ekkert hikað við það...

26. mars 2005 - Vallon og La Villa

Það þarf ekki að koma sérstaklega á óvart að þegar íbúar rómantísku svítunnar vöknuðu daginn eftir var klukkan aðeins meira en hún hefði átt að vera. Hún var reyndar ekki nema um 10 um morguninn, en allir aðrir voru farnir á skíði þannig að við vorum bara tveir á báti. Höfðum við grun um að liðið hefði farið til La Villa, og héldum í humátt á eftir, og var sá grunur staðfestur með SMS stuttu síðar. Lá því leiðin í átt að Alta Badia svæðinu, fram hjá Edelweiss og Corfolsco, þar tekinn flatur stóll (virkar í báðar áttir), og gátum við kynnt okkur white trash menningu Ítala í leiðinni. Í Corvara ákváðum við svo að taka smá útúrdúr, að fara upp í Vallon sem er 2550 metra uppi í Sella, tæplega 1000 metra hækkun þangað og svört brekka hluta leiðarinnar. Þar var vitaksuld þoka, og urðum við einnig að taka pásu á leiðinni sakir ástands. Eftir langalanga leið niður tók svo við mikið völundarhús, lyftur í allar áttir til þess að komast til La Villa, en þar þóttist liðið sitja á veitingastað. Hann fundum við loks eftir ótal krókaleiðir og vissulega var liðið þar, en ekki tók betra við, endalaus röð í matinn sem gekk síðan á ítölskum hraða. Þessu var þó öllu tekið með bros á vör, enda átti Auður afmæli!
Eftir matinn fórum við Vignir svo þessa rómuðu La Villa braut, svört alla leið, en hólótt nokkuð þegar þarna var komið sögu. Síðan álpuðumst við gegnum völundarhúsið til baka (mun styttra til baka, skrýtið), og þaðan í áttina heim, og var þá bæði farið að hvessa og snjóa. Ekkert sem einn kaldur á Panorama bjargar ekki. Þaðan fórum við Vignir einir á Luis í apres-ski, og komust þar í feitt, svaka stuð á dansgólfinu, auk þess sem Vignir var kominn í góð mál með einni þýskri (hér með Skáldinu), en hún þurfti því miður að fara heim til Þýskalands daginn eftir. Ef því er ætlað að verða hljóta þau að hittast síðar.
Í matnum var framinn stóri skeiðabrandarinn á myndavél Skáldsins meðan það rétt brá sér frá, og svo merkilega bar til þetta kvöld að nær allir mættu í rómantísku svítuna í partí. Obstlerinn lagðist misvel í fólk. Það var síðan sama sagan seinna um kvöldið, strollan fór á Luis, og sakir óvenjulegs fjölmennis þótti skíðið ekki nægja svo pantað var snjóbretti. Það var ekki góð hugmynd...

Þess má geta að hvorki Magnús Blöndahl né Alda skíðuðu nokkuð þennan dag.

27. mars 2005 - Gerard, Alexa og íslenskar stelpur

Þeir félagar á rómantísku svítunni voru þegar þarna var komið sögu í ferðinni frekar lurkum lamdir, Jarlaskáldið búið að snúa sig á margáðursnúnum hægri ökkla sínum og Vignir, ja, bara búinn á því. Ekki að Skáldið hafi verið mikið skárra hvað það varðar. Í það minnsta ákváðum við félagar kvöldið áður að sleppa alveg skíðaiðkun þennan daginn, og taka lífinu þess í stað rólega, sofa aðeins fram eftir og kíkja síðan á veitingastaðinn Chalet Gerard sem stendur fyrir ofan Plan de Gralba. Þangað hafði Höskuldur stílisti, félagi Vignis, bent okkur á að fara, því hann þekkti einn staðarhaldara, hana Alexu, og bað okkur að skila kveðju. Þangað varð ekki komist öðruvísi en akandi, svo við pöntuðum okkur leigubíl og brunuðum upp eftir upp úr hádegi. Þetta var klassastaður, og pöntuðum við okkur dýrindis steikur sem voru sennilega besti maturinn sem við fengum í allri ferðinni. EFtir mat spurðum við svo þjóninn hvort hann þekkti Alexu, hann hélt það nú, og eftir smástund kom hún undrandi yfir að einhver þekkti hana að borðinu okkar og heilsaði. Við sögðum sem var, að við værum vinir Höskuldar, og svarið kom á móti: „He saved my life once.“ Ekki amalegt það, og spjallaði Alexa við okkur drjúga stund og lét taka mynd af sér með okkur. Við settumst svo út í sólina með einn kaldan meðan við biðum eftir leigubíl, sem skilaði okkur vitaskuld á Luis þar sem við stunduðum apres-ski án þess að hafa farið á skíði. Voru menn enda orðnir hressir á röltinu upp á hótel á eftir.
Þar sem þetta var nú páskadagur var boðið upp á páskakokkteil á hótelinu, svo kvöldmatur, og upp á rómantísku svítuna þar sem vitringar 3 og bræður stóðu í byggingaframkvæmdum fram eftir kvöldi. Lesendur ættu að vera farnir að kunna rútínuna núna, í kringum miðnætti lá leiðin niður á Luis þar sem við rákumst merkilegt nokk á Íslendinga, og það ekki amalega Íslendinga. Tókust kær kynni með hópum þessum, kærari með sumum en öðrum, og fór svo að strollan öll endaði á Danging einhverju síðar, þar til fólk rataði heim til sín síðla nætur, eða svona flestir allavega...

28. mars 2005 - Síðasti skíðadagurinn

Þar kom að því, níundi og síðasti dagurinn í fjallinu, og íbúar rómantísku svítunnar voru ekkert að breyta neitt sérstaklega til af því tilefni, lúlluðu sér fram undir hádegi og reyndu svo að drattast á lappir og koma sér upp í fjall. Það tókst merkilegt nokk, en entist ekki sérstaklega lengi, fórum upp í Ciampinoi, þaðan niður eina brekku niður í Plan De Gralba, þar upp með stóra kláfnum og settumst niður á barnum á Rifugio Piz Sella í glampandi sól, pöntuðum bjór og sátum sem fastast þar góða stund. Pjakkurinn Hallur bættist fljótlega í hópinn og enn síðar foreldrar hans og var bara nokkuð glatt á hjalla í félagsskap þessum. Um síðir þótti oss Vigni ekki annað hægt en að reyna eitthvað að skíða þennan síðasta dag í fjallinu, renndum okkur niður að kláfnum aftur og sáum þar allt pakkið sitja í brekku að horfa á skíðasjóv. Var búið að reisa stærðarinnar stökkpall og á hann renndu sér einhverjir guttar, tóku heljarstökk og skrúfur í lyftunni en síðan var allur gangur á því hvernig þeir lentu, stundum á skíðunum, oftar á hausnum eða bakinu. Jarlaskáldið lét sig hafa það að renna sér nokkrar ferðir þarna í viðbót ásamt nokkrum öðrum, en horfði svo á síðustu stökkguttanna leggja líf sitt í hættu. Eftir stökksýninguna var gestum og gangandi boðið að spreyta sig á að renna sér yfir ca. 10 metra langan poll, sem tókst hjá sumum en ekki öðrum, Snorri reyndi sig við þetta fyrir hönd VÍN-verja, og jú, hann komst yfir, en það er ekki þar með sagt að skíðin hans hafi gert það.
Þarna var klukkan farin að ganga fimm og búið að boða til Íslendinga-apres ski á Laurinkeller klukkan hálffimm. Þangað ætluðum við Vignir að komast tímanlega og fara til þess stystu leið, en villtumst auðvitað í heimsins lengstu stólalyftu sem þýddi að við þurftum að renna okkur niður svarta hólabraut. Kannski viðeigandi að síðasta brekkan í ferðinni væri þannig. Heldur tómlegt var um að litast þegar okkur bar loks að garði á Laurin, bara við og fararstjórarnir Einar og Anna, en fljótlega fjölgaði í kotinu og varð ágætasta stemmning þegar á leið.
Eftir kvöldmat þurftu allir að pakka, og notaði Jarlaskáldið sturtuaðferðina (öllu sturtað ofan í tösku, og hoppað á henni þar til lokast) líkt og venjulega. Vignir ákvað reyndar að fá sér páskaegg, og notaði sannarlega hausinn til að komast að málshættinum. Um kvöldið var svo fjölmennt partí á rómantísku svítunni, enda búið að bjóða öllum sem vildu, mættu m.a. stúlkurnar síkátu sem og eldri bróðir pjakksins Halls, auk hefðbundinna gesta. Brottfarartíma frá hótelinu morguninn eftir hafði verið flýtt frá auglýstri dagskrá, og átti að leggja af stað þaðan klukkan hálfsjö um morguninn. Urðu því nokkrar umræður um hvort halda skyldi á djammið fram á nótt þetta kvöldið. Hver haldið þið að hafi orðið niðurstaða þeirrar umræðu? Nei, bara spyr...

29. mars 2005 - Heimför

Það var nú meiri helvítis gleðin að vakna klukkan sex þennan morguninn. Skáldið álpaðist í morgunmat, og þar var sama gleðin, en sumir þó glaðari en aðrir eins og oft í þessari ferð. Á slaginu hálfsjö voru svo allir mættir niður í lobbý, búnir að stela öllu úr herbergjunum sem ekki var skrúfað fast (helvíti að gleyma skrúfjárni!) og tilbúnir til að yfirgefa pleisið. Og auðvitað var byrjað að snjóa fyrst við vorum að fara! Rútan mætti svo skömmu síðar og af næstu þremur klukkustundum eða svo kann Jarlaskáldið litlar sögur. Á flugvöllinn vorum við komin um hálftíuleytið, og komumst furðufljótt að check-in borðinu, en þá var Vignir auðvitað búinn að týna vegabréfinu sínu og sá fram á handtöku, þar til Einar fararstjóri mætti á svæðið og sannfærði ungfrúna við borðið um að óhætt væri að senda gæjann um borð. Eftir þetta fjör þurft svo bara að drepa tvo tíma, og var fundinn veitingastaður til þess, maður er nú farinn að þekkja þessa flugstöð ansi vel enda eytt meiri tíma þar en víða annars staðar síðustu ár. Jarlaskáldið asnaðist einnig inn í íþróttavörubúð og kom 70 evrum fátækari en AC Milan treyju ríkara út.
Flugið heim var síðan álíka spennandi og það var út, lentum um hálffimmleytið að íslenskum tíma, á sama tíma og ca. 4 júmbóþotur frá Kanaríeyjum, þannig að það var líf og fjör í Fríhöfninni og ekkert síður við að bíða eftir töskum og skíðum. Allt tókst þetta þó að lokum, tollararnir reyndu ekkert að taka af okkur neitt af þeim ólöglega varningi sem við höfðum meðferðis, og allir bara nokkuð sáttir þegar íslenskur útsynningurinn heilsaði manni stuttu seinna. Er það ekki annars?

(Útdráttur:

Fólk fór til Ítalíu. Það skíðaði. Það drakk. Það hló. Það drakk. Það át. Það tók þyrlu. Sumt þeirra bað aðra um að gifta sér. Þeir sögðu já. Svo drakk fólk meira. Og skíðaði meira. Og fór svo heim. Og ætlar einhvern tímann aftur.)

-------------------------------------------------------------------------------------

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates