Næsta ferðasaga fjallar um atburði daganna 16.-18. júlí á þessu hinu sama ári núna. Höfðu verið uppi hugmyndir um að halda austur í Þakgil og þaðan yfir Fjallabak og enda í Þjórsárdal á hátíð mikilli en vegna dræmrar þátttöku voru það Jarlaskáldið, Stefán og Vignir sem héldu af stað á föstudagskvöldinu með stefnuna svo frumlega á Þórsmörk. Ekki verður sagt að margt hafi borið til tíðinda framan af þeirri ferð, við Seljalandsfoss náðum við í skottið á systur Vignis ásamt fjölskyldu á fögrum Land Rover sem ætlunin var að eyða nóttinni með í Mörkinni (fjölskyldunni þ.e., ekki Land Rovernum, þó það hefði örugglega líka verið ágætt). Við Seljalandsfoss hittum við einnig vinnuveitanda Stebbans á stórum jeppa með heimsins stærsta hjólhýsistrailer í eftirdragi. Slef.
Áfram var haldið inn í Mörk og það slysalaust að sjálfsögðu, fundum við svo prýðilegasta tjaldstæði inni í skógi og komum upp tjöldum, þ.á m. risastóru partýtjaldi þannig að þeir fáu dropar sem féllu niður gerðu okkur litla skráveifu. Sannast sagna var kvöld þetta með rólegasta móti, Skáldið gerði smá tilraun til að bulla í útlendingum en annars var bara spjallað og farið í háttinn í fyrra fallinu. Lognið á undan storminum myndi einhver kannski segja.
Á fætur fóru menn daginn eftir og allir hressir að vanda, enda veður orðið hið prýðilegasta. Kvöddum við fljótlega samkomuna og héldum út úr Mörkinni, en gramdist það talsvert á leiðinni út hve mörgum flottum kvenkostum við mættum á leið í hina áttina. Ojæja. Til að gera smá jeppó úr dæminu var ákveðið að fara bókstaflega Fjallabaksleið upp í Þjórsárdal, fyrst upp í Fljótshlíð en svo fram hjá Þríhyrningi inn á Fjallabak syðra allt þar til við beygðum út af til vinstri og ókum meðfram Vatnafjöllum austanverðum norður í átt að Heklu og síðan norður fyrir hana þangað til við komum að Dómadalsleið sem við fylgdum að lokum vestur að Landvegi. Þaðan tókum við stystu leið yfir Þjórsá í trássi við gildandi lög og reglur á svæðinu og síðan beinustu leið niður að tjaldstæðinu góða í Þjórsárdal. Þar var fyrir her manna sem Skáldið þekkti misvel, en sumir virtust þó þekkja Skáldið ágætlega. Kom þá í ljós að hlutfall gamalla Selskælinga var óvenju hátt og skýrði kunnugleikana. Aftur þótti það merkilegt að við þrír værum mættir með þrjú tjöld og þótti bjartsýni. Þó var ekki nógu bjart upp að líta, fengum á okkur góða dembu rétt eftir að við renndum í hlaðið en annars var veðrið að mestu til friðs á laugardagskvöldinu. Ekki svo löngu eftir komu okkar bættist í hópinn, Blöndudalur með Öldu í farteskinu og allt gott um það að segja. Ekki var fyrir nýbreytninni að fara þetta kvöldið frekar en oft áður, ket var grillað og öl drukkið, bullað í fólki og fleira í þeim dúr. Skáldið fór með fyrri fleyunum í háttinn, og var sú ákvörðun í mesta lagi hálfmeðvituð.
Þegar Skáldið byrjaði að rumska daginn eftir tók það strax eftir tveimur hlutum; annars vegar hafði einhver kona tekið hús á Skáldi um nóttina og gert 75% af svefnplássi þess að sýnu og hins vegar var nánast ekkert loft í tjaldinu. Hvort tveggja varð þess valdandi að Skáldið notaði þá litlu krafta sem það hafði til að skríða út og lá næstu tímana hreyfingarlítið í 20 stiga hita og glampandi sól. Þó var heilsa þess betri en rekkjunautsins, sem meikaði ekki einu sinni sólina og lagðist í skugga bak við bíl. Sumt fólk kann einfaldlega ekki að fara með áfengi.
Eins og vanalega braust flótti í tjaldbúa fljótlega upp úr hádegi, flesta aðra en V.Í.N.-verja þ.e.a.s., sem lágu sem fastast og létu sig bakast í sólinni (fyrir utan heilsulausa rekkjunautinn). Ekki svo oft sem hún sýnir sig að maður nýti það ekki. Um fjögurleytið var loks drattast af stað og keyrt niður að Árnesi þar sem ruslfæði var torgað með mismiklum herkjum en síðan haldið í sund. Að því loknu var haldið heim og þegar þangað var komið sór Skáldið þess dýran eið að endurtaka þetta aldrei aftur. Hve lengi stóð það við það? Gefum því 5 daga. Sagan af því verður annars að bíða betri tíma, nóg í bili...