þriðjudagur, nóvember 28, 2006 

Grínmaðurinn ógurlegi



Síðasta helgi var nokkuð ásættanleg. Í fjárhagslegu tilliti í það minnsta.

Eftir vinnu á föstudaginn hélt Jarlaskáldið í víking vestur í bæ og þegar það var komið á leiðarenda hjá stóru sys var því afhentur pensill og því gert að mála af miklum móð. Sem það og gerði. Og hlaut að launum böku og bjór. Ekki svo amalegt það.

Laugardeginum hafði Jarlaskáldið ætlað að verja í að sofa þar til það vaknaði. Það vaknaði loks töluvert eftir hádegi, þegar Adolf falaðist eftir aðstoð þess við myndatöku. Meiningin var að taka myndir af Lilla að skrölta yfir á, en þegar við loks fundum á uppi á Hellisheiði var hún gaddfreðin, þannig að úr varð að taka myndir af Lilla að fara niður fjall. Fyrir aðstoðina splæsti Dolli kjúlla á Skáldið. Ekki svo amalegt það.
Um kvöldið brá Skáldið sér í mat heim í ættaróðalið þar sem veislumatur var borinn fram að venju. Að því loknu tók Skáldið stefnuna á Naustabryggju og tæmdi þar úr fáeinum ölkollum við þriðja mann meðan glápt var á þá félaga í Depeche Mode á tónleikum. Upp úr miðnætti ákváðum við að líta á diskókvöld á Klúbbnum, af svo sem engri ástæðu annarri en þeirri að hann var í göngufæri. Það var gleymanleg heimsókn. Jarlaskáldið fór fótgangandi heim. Endalaus sparnaður þessa helgina. Ekki svo amalegt það.

Á sunnudeginum hafði verið skipulagt hólarölt, og lét Jarlaskáldið ekki skemmtanastarf gærkvöldsins koma í veg fyrir þátttöku sína. Lagt var í hann á öðrum tímanum og voru leiðangursmenn fjórir. Viðfangsefnið var fjall það er nóbelsskáldið sá út um eldhúsgluggann, ýmist nefnt Grímmannsfell, Grímannsfell eða Grímarsfell, en við kusum að kalla það Grínmannsfell, enda skal hafa það sem best hljómar. Ekki rákumst við á neinn Grínmann á þessu rölti okkar, nema ef vera skyldi að hann hafi verið í hestslíki, en þetta var í það minnsta fínasti labbitúr. Og um kvöldið át Jarlaskáldið tvær gerðir af lambi, annars vegar kennt við London og hins vegar eitthvað annað. Hvort tveggja fínt. Ekki svo amalegt það...

föstudagur, nóvember 24, 2006 

La Grande Bouffe



Eins og áður hafði verið tilkynnt var Jarlaskáldið utan netsambands um síðustu helgi. Það kom til af góðu einu. Matarveislunni miklu.

Matarveislan mikla, eða La Grande bouffe eins og hún er jafnan kölluð, er áralöng hefð Vinafélags íslenskrar náttúru. Þeir sem séð hafa samnefnda mynd gætu eflaust haldið að þar væri ógurleg hóreríssamkoma á ferðinni, en ekki er það svo slæmt (eða gott, séu menn þannig). Hórerí hefur hingað til verið alveg í lágmarki, en aftur á móti er það jafnan tilgangur veislunnar að éta þar til menn standa á blístri, eða þaðan af verra, og er fundinn til þess matur af almennilegra taginu og ekki skorinn við nögl. Á því varð engin breyting í ár.
Í ár var samkoman haldin í Reykjaskógi, í sumarbústað einum á vegum Jarlaskáldsins, sem kallaður er Jónshús. Fjórtán manns boðuðu upphaflega komu sína, fjórir þeirra forfölluðust með mismiklum fyrirvara, en einn hljóp í skarðið, og reyndist hann vera fjögurra manna maki þannig að allt gekk þetta upp. Jarlaskáldið og Blöndudalur sáu um að versla í matinn á fimmtudeginum (fyrir ríflega 30.000 krónur) og á föstudagskveld lögðu fyrstu menn í hann, áðurnefnt Jarlaskáld og Haffi á Sigurbirni. Vorum við mættir á staðinn um níuleytið, komum okkur fyrir með einn kaldan í sófanum og skelltum Fóstbræðrum í vídjótækið. Einhverju síðar mætti fjögurra manna makinn og fljótlega eftir það var potturinn orðinn passlegur svo við skelltum okkur í hann. Úti var frostið vel á annan tuginn, og heiðskírt, þannig að "vá"-in urðu ófá. Einhvern tímann á öðrum tímanum fjölgaði svo um þrjá, sem voru svo seint á ferð ýmist sakir vinnu eða tónleikaáhorfs. Við tók almenn vitleysa fram á nótt.

Á laugardegi var risið úr rekkju ekki svo löngu fyrir hádegi, og fljótlega farið að huga að því að skella sér í bíltúr. Úr varð að skottast hringinn í kringum Miðfell, og reyndist það ekki tiltakanlega erfitt, en skrambi kalt enn úti. Að hringferð lokinni litum við við hjá Blöndudal og spúsu hans sem útvegað höfðu annan bústað í nágrenninu til að fá svefnfrið fyrir óumflýjanlegri háreysti komandi nætur. Þau voru bara hress.
Um fjögurleytið komum við aftur í Jónshús og fórum strax í það að undirbúa kvöldverðinn. Greinilega vanir menn á ferð, hvort sem um var að ræða ket, gras, eða súkkulað. Smátt og smátt fjölgaði svo í kofanum, uns 11 manns voru komnir og ekki von á fleirum. Þegar hér er komið sögu er kannski ekki úr vegi að fara yfir matseðilinn. Í fordrykk var boðið upp á Martini Bianco, eitthvað sem við Vignir höfðum prófað í Barca og minnti að væri fínt. Það fannst okkur líka, annars voru menn mishrifnir. Eins og gengur. Forrétturinn hljómaði eins og mikið hættuspil, kryddleginn hörpuskelfiskur, hrár nota bene. Hann reyndist síðan bara lostæti, og alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Aðalrétturinn var nú samt aðalmálið, grillaður turnbauti með hunangssinnepi. Keypt voru 4,5 kíló af keti, 11 manns í mat, og reikniði nú. Jebb, það var nóg að éta, enda fór það svo að fjögurra manna makinn "bouffaðist", þ.e.a.s. lagðist örendur niður að áti loknu. Annars var þetta bara snilld, enda ekki við öðru að búast. Eftirrétturinn var svo súkkulaðimús með rjóma og alls kyns berjum, og furðuvíða reyndist enn pláss fyrir hann. Þessi máltíð fær alveg 93 stjörnur af 100 mögulegum.
Sem fyrr var bokkan veitt, en það eru verðlaun sem þeir hljóta sem þykja hafa skarað fram úr á einhverju sviði á undangengnu ári. Jarlaskáldið hlaut bokku í ár, fyrir afrek á erlendri grundu, en Alda fyrir afrek innanlands. Þóttu sigurvegarar vel að heiðrinum komnir. Svo tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Óþarfi að orðlengja það frekar.

Sunnudagurinn var eins og allir sunnudagar í sumarbústað. Þeir sem ekki vita hvernig það er ættu að prófa það. Jarlaskáldinu þótt nokkuð kúnstugt að fá SMS þar sem það var spurt hvort það væri veðurteppt, þar sem ekki eitt einasta snjókorn hafði fallið alla helgina. Svarið við þeirri gátu kom í ljós í bænum.

Að lokum er við hæfi að óska tveim þeirra sem forfölluðust til hamingju með að hafa forfallast. Þeir voru uppteknir við annað og merkilegra.

Svo styttist í að menn skelli sér norður á bretti. Og til útlanda á bretti. Alltaf nóg að gera.

64 dagar...

mánudagur, nóvember 13, 2006 

3-1

Kæri Hörður Magnússon.

Ekki lýsa fleiri leikjum með Barcelona. Plís.

Með kveðju, Jarlaskáldið.

laugardagur, nóvember 11, 2006 

Trilljón tattúveraðar tindabykkjur



Jarlaskáldið hefur ákveðið að skríða út úr híði sínu og skrifa pistil. Kjánaskapur bara að taka ekki tölvuna með í híðið á sínum tíma. Man það næst.

Eitt og annað hefur verið brallað undanfarnar vikur og leikurinn borist víða (hvernig það fer saman við að hafa dvalið í híði skal látið liggja milli hluta). Svo byrjað sé á byrjuninni þá lagði Jarlaskáldið land undir fót helgina 21.-22. október, og lá þá leiðin á Hveravelli. Myndir þaðan má t.d. sjá hér. Var ferðin sú með nokkuð hefðbundnu sniði, lagt af stað upp úr hádegi á laugardegi í blíðskaparveðri, alls 13 manns á 6 bílum, og var Jarlaskáldið sem oft áður kóari í Sigurbirni, enda öllum hnútum kunnugt í því embætti. Ferðin norður á Hveravelli gekk áfallalaust, lítill sem enginn snjór á veginum og í raun hið eina sem tafði snafsa- og pissupásur ónefndra aðila. Á Hveravöllum reyndist síðan litli skálinn fullur af óþjóðalýð sem átti þar ekkert erindi, en fararstjórinn var sendur í málið og málinu reddað á svipstundu. Svo voru bara fastir liðir eins og venjulega, laugin, étið og drukkið, auk þess sem Jarlaskáldið bauð upp á ammilisköku sem hlaut góðar undirtektir. Fínasta fínt. Á sunnudeginum var svo vaknað óskaplega snemma af einhverjum ástæðum, en það reyndist eftir á að hyggja skynsamlegt, því auðvitað bilaði blessaður konubíllinn á leiðinni heim og tafði okkur. Same old...

Svo kom vinnuvika, þar sem það bar helst til tíðinda að Jarlaskáldið fagnaði ammilisdegi sínum með rómantískum kvöldverði með yngismær einni á virðulegum veitingastað hér í borg. Eða nei, ekki beint, Jarlaskáldið fór og fékk sér BBQ-rif á Ruby Tuesday og dró Adolf með. Fínustu rif. Annars vill Jarlaskáldið þakka fyrir allar þær kveðjur sem bárust, þó svo að engri þeirra hafi fylgt ammilisgjöf. Aðrir ættu að skammast sín.
Helgina á eftir, eða 28. október nánar tiltekið, var aftur ammili, en einnig kveðjupartí, og í það skiptið hjá Svenna. Fór meira og minna allur laugardagurinn í þá vitleysu, byrjað á að fara í Bláa lónið þar sem við fengum bláan kokkteil, svo í mat hjá Svenna (sushi-veisla) og loks djamm fram á nótt. Jarlaskáldið ku hafa farið á kostum í Singstar, kannski ekki hvað hæfileika varðar, en það sýndi allavega gott úthald. Fínt partí.

Um síðustu helgi var svo enn eitt ammilið, og ekki bara eitt heldur tvö. Á föstudeginum fagnaði Lárus Ármann Kjartansson þriggja ára ammili sínu og vitaskuld mætti Skáldið þangað og þáði pulsu og köku, en vatt svo kvæði sínu í kross og brá sér í kvikmyndahús við fjórða mann, á þá ágætu mynd Borat: Cultural... í Laugarásbíói. Það er fyndin mynd. Mjög fyndin mynd. Kannski bara fyndnust. Sjáið hana.
Kvöldið eftir var svo fjórða og síðasta ammilið, og í það skiptið hjá Adolfi, sem "fagnaði" því að vera orðin þrítug. Bauð hún upp á góðar veitingar, sem tókst þó ekki að klára. Það ber að harma. Jarlaskáldið leit við á hverfiskránni um nóttina í félagsskap góðum. Það hyggst ekki endurtaka þá heimsókn. Svo fór það bara heim, enda óveður. Og leiðinlegt í bænum.

Þá erum við bara komin í nútíðina, og því er fljótsvarað hvað Jarlaskáldið gerði þessa helgina: ekki neitt. Sem er bara nokkuð hressandi öðru hverju. Þá hefur maður líka tíma til að sinna vitleysu eins og að skrifa svona pistil. En það verður enginn pistill skrifaður um næstu helgi. Jarlaskáldið verður án netsambands þá. Það gæti orðið gaman. Meira um það síðar...

fimmtudagur, nóvember 09, 2006 

Donald Rumsfeld

Hér verður eitthvað birt á næstunni. Jafnvel á allra næstu dögum. Þar verður hvergi minnst á Donald Rumsfeld. Loforð.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates