Eins og áður hafði verið tilkynnt var Jarlaskáldið utan netsambands um síðustu helgi. Það kom til af góðu einu. Matarveislunni miklu.
Matarveislan mikla, eða
La Grande bouffe eins og hún er jafnan kölluð, er áralöng hefð
Vinafélags íslenskrar náttúru. Þeir sem séð hafa samnefnda mynd gætu eflaust haldið að þar væri ógurleg hóreríssamkoma á ferðinni, en ekki er það svo slæmt (eða gott, séu menn þannig). Hórerí hefur hingað til verið alveg í lágmarki, en aftur á móti er það jafnan tilgangur veislunnar að éta þar til menn standa á blístri, eða þaðan af verra, og er fundinn til þess matur af almennilegra taginu og ekki skorinn við nögl. Á því varð engin breyting í ár.
Í ár var samkoman haldin í Reykjaskógi, í sumarbústað einum á vegum Jarlaskáldsins, sem kallaður er Jónshús. Fjórtán manns boðuðu upphaflega komu sína, fjórir þeirra forfölluðust með mismiklum fyrirvara, en einn hljóp í skarðið, og reyndist
hann vera fjögurra manna maki þannig að allt gekk þetta upp. Jarlaskáldið og
Blöndudalur sáu um að versla í matinn á fimmtudeginum (fyrir ríflega 30.000 krónur) og á föstudagskveld lögðu fyrstu menn í hann, áðurnefnt Jarlaskáld og
Haffi á
Sigurbirni. Vorum við mættir á staðinn um níuleytið, komum okkur fyrir með einn kaldan í sófanum og skelltum Fóstbræðrum í vídjótækið. Einhverju síðar mætti fjögurra manna makinn og fljótlega eftir það var potturinn orðinn passlegur svo við skelltum okkur í hann. Úti var frostið vel á annan tuginn, og heiðskírt, þannig að "vá"-in urðu ófá. Einhvern tímann á öðrum tímanum fjölgaði svo um
þrjá, sem voru svo seint á ferð ýmist sakir vinnu eða tónleikaáhorfs. Við tók almenn vitleysa fram á nótt.
Á laugardegi var risið úr rekkju ekki svo löngu fyrir hádegi, og fljótlega farið að huga að því að skella sér í bíltúr. Úr varð að skottast hringinn í kringum
Miðfell, og reyndist það ekki tiltakanlega erfitt, en skrambi
kalt enn úti. Að hringferð lokinni litum við við hjá Blöndudal og spúsu hans sem útvegað höfðu
annan bústað í nágrenninu til að fá svefnfrið fyrir óumflýjanlegri háreysti komandi nætur. Þau voru bara hress.
Um fjögurleytið komum við aftur í Jónshús og fórum strax í það að undirbúa kvöldverðinn. Greinilega vanir menn á ferð, hvort sem um var að ræða
ket,
gras, eða
súkkulað. Smátt og smátt fjölgaði svo í kofanum, uns 11 manns voru komnir og ekki von á fleirum. Þegar hér er komið sögu er kannski ekki úr vegi að fara yfir matseðilinn. Í fordrykk var boðið upp á Martini Bianco, eitthvað sem við Vignir höfðum prófað í
Barca og minnti að væri fínt. Það fannst okkur líka, annars voru menn mishrifnir. Eins og gengur.
Forrétturinn hljómaði eins og mikið hættuspil,
kryddleginn hörpuskelfiskur, hrár nota bene. Hann reyndist síðan bara
lostæti, og alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Aðalrétturinn var nú samt aðalmálið,
grillaður turnbauti með hunangssinnepi. Keypt voru 4,5 kíló af keti, 11 manns í mat, og reikniði nú. Jebb, það var
nóg að éta, enda fór það svo að fjögurra manna makinn "bouffaðist", þ.e.a.s. lagðist örendur niður að áti loknu. Annars var þetta bara snilld, enda ekki við öðru að búast. Eftirrétturinn var svo súkkulaðimús með rjóma og alls kyns berjum, og furðuvíða reyndist enn pláss fyrir hann. Þessi máltíð fær alveg 93 stjörnur af 100 mögulegum.
Sem fyrr var bokkan veitt, en það eru verðlaun sem þeir hljóta sem þykja hafa skarað fram úr á einhverju sviði á undangengnu ári. Jarlaskáldið hlaut bokku í ár, fyrir afrek á erlendri grundu, en
Alda fyrir afrek innanlands. Þóttu sigurvegarar vel að heiðrinum komnir. Svo tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Óþarfi að orðlengja
það frekar.
Sunnudagurinn var eins og allir sunnudagar í sumarbústað. Þeir sem ekki vita hvernig það er ættu að prófa það. Jarlaskáldinu þótt nokkuð kúnstugt að fá SMS þar sem það var spurt hvort það væri veðurteppt, þar sem ekki eitt einasta snjókorn hafði fallið alla helgina. Svarið við þeirri gátu kom í ljós í bænum.
Að lokum er við hæfi að óska
tveim þeirra sem forfölluðust til hamingju með að hafa forfallast. Þeir voru uppteknir við annað og
merkilegra.
Svo styttist í að menn skelli sér
norður á bretti. Og til
útlanda á bretti. Alltaf nóg að gera.
64 dagar...