fimmtudagur, júní 30, 2005 


1 FOKKING DAGUR!

miðvikudagur, júní 29, 2005 


2 DAGAR!

þriðjudagur, júní 28, 2005 


3 DAGAR!

mánudagur, júní 27, 2005 

Tveggja trippa tal

Jarlaskáldið hefur vanrækt sagnfræðiskyldur sínar þó nokkuð undanfarið, þótt það hafi reyndar verið allduglegt við að troða myndum á Netið hefur það látið ferðasöguskrif sitja á hakanum. Úr því er nauðsynlegt að bæta. Það eru tvær ferðasögur sem bíða Skáldsins, og til þess að æra ekki óstöðuga verður líkast til farið heldur hratt yfir sögu. En sjáum til:

16. júní-19. júní: Varmaland - Laugar í Sælingsdal

Þjóðhátíðartúrinn var asni veglegur í ár, enda sautjándi á föstudegi og því löng helgi. Það voru 8 manns á 4 bílum sem lögðu í hann um kvöldmatarleytið á fimmtudegi, Snorri og Katý á Galloper, herra og frú Andrésson á Barbí, Staffan og VJ á Hispa og loks Jarlaskáldið og Blöndudalur á Lilla. Veðurspá hafði gert ráð fyrir blíðu á suðvesturhluta landsins, og var ákveðið að aka upp í Varmaland í Borgarfirði í fyrsta áfanga. Þangað var auðvitað ekin góð fjallabaksleið, fyrst á Þingvelli, þá Uxahryggi, grófan jeppaslóða þaðan niður í Skorradal og loks bara malbikið þar til komið var í Varmaland í kringum 11. Þar var nokkuð hvasst og skítkalt, en aðalfundarstörfin sáu fljótt til þess að hlýja mönnum, en þeim lauk á fjórða tímanum um nóttina, í greddumóðu inni í bíl. Stórslysalaust.

Á fætur risu fyrstu menn fyrir klukkan tíu um morguninn, enda orðið ólíft inni í tjöldum, slík var blíðan. Að hefðbundnum morgunverkum loknum var haldið áfram, og stefnt á Laugar í Sælingsdal í Hvammsfirði í þessum áfanga, og auðvitað kom ekki annað til greina en að fara einhverja fjallabaksleið. Var í því skyni ekinn Langavatnsdalur, sem bauð upp á allt það jepperí sem menn kjósa sér, sull, hjakk, drullu og fleira gott. Á leiðinni var arkað upp á hól og flaggað bæði íslenskum fána í tilefni dagsins og sérlegum VÍN-fána. Tók ferðin því góða fjóra tíma inn í Hvammsfjörð, þar sem litið var á brúðarval í Búðardal, auk þess að Jarlaskáldið réðst á Barbí, en um fimmleytið náðum við loks áfangastað og byrjuðum á að skola af okkur ferðarykið. Því næst fundum við okkur tjaldstæði, en um svipað leyti bættist okkur liðsauki að norðan, herra og frú Toggi ásamt vinahjónum. Svo var grillað, og svo drukkið. Aðallega drukkið þó.

Laugardagur rann upp bjartur og fagur, og fólk árrisult eftir því. Verkefni dagsins var að aka Fells- og Skarðsstrandir, eða barkakýli Íslands eins og Jarlaskáldið kallar það jafnan. Sosum ekki mikið um þá ferð að segja, sáum landslag sem við höfðum ekki séð áður, en sosum ekkert stórmerkilegt. Sáum líka fyllibyttur við Staðarfell, sem var fallegt í ljótleika sínum. Eða eitthvað.
Í Laugar komum við aftur á fimmta tímanum, og skelltum okkur aftur í sund enda hafði bæst á ferðarykið. Um grilleyti barst enn frekari liðsauki, Frændi og Frænka mættu og var koma þeirra kærkomin, enda voru þau með aukabirgðir af söngvatni, sumir höfðu greinilega verið fullvarkárir í innkaupum fyrir helgina. Nokkru síðar mættu svo nýgift herra og frú Kristinsson ásamt pjakk, og voru þá 17 manns mættir í ferðina, sem er dágott og nokkuð viðeigandi í 17. júní ferð. Hvað svo? Grill, drykkja, meiri drykkja, drykkja á barnum, bullað í ættarmóti, bullað í kvenfólki, same old...

Þegar Jarlaskáldið reis loks úr rekkju daginn eftir var komið hávaðarok (ekki að það hafi raskað ró Skáldsins), og tjaldstæðið nánast orðið tómt. Þá var bara að pakka saman, og drulla sér í bæinn. Borgarinn í Hreðavatnsskála var annars fínn. Þessi ferð var líka helvíti fín.

Jæja, þetta gekk bara nokkuð vel, ekkert of langt er það? Þá er bara að vinda sér í næstu. Let's Go!

Jónsmessuferð í Þórsmörk

Humm, er nú mikið að segja um þessa ferð? Ja, allavega voru það þrír gallvaskir peyjar sem lögðu í hann um sjöleytið á laugardag þrátt fyrir heldur slappa veðurspá og ætluðu sér að gera lokakönnun á Þórsmörkinni fyrir FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð sem er einmitt um næstu helgi. Hetjurnar þrjár voru Skáldið, Twist og VJ, og fararskjótinn Willy. Það rigndi á leiðinni. Alla leiðina. Rok m.a.s. á köflum. Sérlega spennandi. Jæja, við höfðum allavega Duran til að hlusta á. Fyrstu lækir á leið inn í Mörk voru bara nokkuð vatnsmiklir, sem benti til nokkurs vatnsveðurs, en viti menn, eins og hendi væri veifað stytti upp, birti til, og allt í bongó við Gígjökul. Aldrei bregst Mörkin. Renndum við inn í Bása í sama mund og kveikt var í varðeldnum, settum Íslandsmet í tjöldun, fylltum bakpoka af nesti og skunduðum svo á bál. Þar var stemmning með besta móti, og vorum við ekki lengi að koma okkur í heppilegt ástand til að njóta hennar sem best skyldi. Eitthvað þekktum við af fólki, og blönduðum geði við það, en þegar brennan brann sitt síðasta færðum við okkur inn í samkomuhúsið þar sem stemmning var engu minni. Ja, aumingja þeir sem voru heima að helluleggja. Ekki skal fjölyrt um afrek VÍN-liða, þau voru af ýmsu tagi og ekki allt prenthæft, en í það minnsta skiluðu allir sér í tjald að lokum, þótt það hafi ekki endilega verið rétt tjald í öllum tilvikum. Það er eins og gengur.
Daginn eftir þegar fólk fór að gægjast út var komið enn meira bongó, og klæðnaður eftir því. Svo fórum við heim. Æ, hvað það er gaman í Mörkinni. Kannski maður fari þangað bara aftur fljótlega...

 

Undirbúningsferð

Jarlaskáldið fór við þriðja mann í Mörkina um helgina í lokaundirbúningsferð fyrir FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð, sem er einmitt eftir heila 4 daga. Það var ekki leiðinlegt. Og hér má sjá hvers vegna.

 


4 DAGAR!

sunnudagur, júní 26, 2005 


5 DAGAR!

laugardagur, júní 25, 2005 


6 DAGAR!

föstudagur, júní 24, 2005 


7 DAGAR!

miðvikudagur, júní 22, 2005 

Spurning

Er of snemmt að vera farinn að finna fyrir skammdegisþunglyndi?

--------------------------------------------------------------------------

þriðjudagur, júní 21, 2005 

Ófeigur

Í dag eyddi Jarlaskáldið stærstum hluta vinnudagsins niðri á Fréttablaði. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, nema að þegar Jarlaskáldið var að grúfa sig yfir tölvuna og lesa einhvern misgáfulegan pistil, heyrði það allt í einu þvílíkan hávaða og læti, líkt og eitthvað stórt og þungt hefði fallið á gólfið. Jarlaskáldið stóð upp og sneri sér við, og sá þá að glerskilrúm milli skrifborðsins þess og þess næsta, hafði skyndilega ákveðið að hætta að gegna tilgangi sínum og falla án sýnilegrar ástæðu niður í átt að Jarlaskáldinu, og miðað við lauslegar hornamælingar Jarlaskáldsins reiknaðist því til að það var ríflega hálfan metra frá því að enda fallið á hnakkanum á Skáldinu, sem hefði líklega ekki haft jákvæðar afleiðingar í för með sér, þar sem þrjá fíleflda karlmenn þurfti til að reisa skilrúmið við og koma því í sæmilega hættulausa stöðu. Svo hélt Jarlaskáldið áfram að vinna.

Ef Jarlaskáldið verður aftur sent niður á Fréttablað ætlar það að krefjast áhættuþóknunar.

-----------------------------------------------------------------------------------

sunnudagur, júní 19, 2005 

Flottir á fjöllum




Þokkalegir
-------------------------------------------------------------------------------------

fimmtudagur, júní 16, 2005 

Hæ hó og jibbíjei!




Jamm, maður skellti sér upp í Landmannalaugar um síðustu helgi, ein af þessum ferðum sem eru algerlega ómarkverðar en samt helvíti fínar. Ja, reyndar tókst okkur Stebba að taka ansi fyndið Radíus-atriði í lauginni og að bögga hana Snæfríði, en annars tíðindalítið. Alltaf stuð í Laugum.

Það er löng helgi fram undan. Það þýðir bara eitt. Ferðasaga eftir helgi.

-------------------------------------------------------------------------------------

þriðjudagur, júní 14, 2005 

Laugar




Laugar um helgina. Myndir hér.

------------------------------------------------------------------------------------

fimmtudagur, júní 09, 2005 

Labbitúr




Jarlaskáldið brá sér við fjórða mann í labbitúr í gær, upp á Vífilsfell, 655 metra hóll það. Sosum ekki mikið meira um það að segja, látum nokkrar myndir fljóta með.

---------------------------------------------------------------------------------

þriðjudagur, júní 07, 2005 

Lilli fer upp á jökul






Líkt og áður var getið skellti Jarlaskáldið sér upp í Húsafell um helgina. Það skuldar sem sagt ferðasögu. Við því skal orðið:

Upphaflegar ráðagjörðir gerðu ráð fyrir að halda upp á Arnarstapa á föstudaginn, labba svo jafnvel upp á jökul og skíða niður, og voru þeir fjórir ferðalangarnir sem boðað höfðu komu sína, auk Skáldsins þeir Stebbi Twist og Andrésson og frú. Þegar nær dró helgi breyttust síðan þær áætlanir og stefnan þess í stað tekin á Húsafell, og í stað þess að brúka lappir að freista þess að nota hestöfl til að komast upp á jökul, enda í flesta staði mun auðveldara. Jarlaskáldið mætti því til vinnu á föstudag, sem þann daginn snerist að mestu um fíflagang undir yfirskini hreinsunardags, en hélt heimleiðis seinnipartinn og pakkaði niður viðlegubúnaði og nesti. Herra og frú Andrésson voru þá lögð af stað en Jarlaskáldið sótti á áttunda tímanum Stefán Twist sem einnig hafði pakkað niður föggum sínum og eftir stutta heimsókn í nýlenduvöruverslun og bensínstöð lá leiðin í norður eða svo gott sem í brakandi blíðu. Á leiðinni bárust okkur þær góðu fregnir að Hr. Hübner myndi síðar um kvöldið bætast í hópinn, auk þess sem líkur voru á liðsauka daginn eftir. Hið bestasta mál.
Renndum við inn í Húsafell á tíunda tímanum eftir áfallalítinn akstur og fundum fljótlega hjónin sem höfðu komið sér fyrir í rjóðri einu góðu. Þar slógum við sömuleiðis upp tjöldum og snerum okkur síðan fljótlega að mikilvægari málefnum, sem Stefán hafði reyndar byrjað á nokkru fyrr, enda í hlutverki aðstoðarbílstjóra, en eitt helsta hlutverk hans er einmitt að drekka bjór á leiðinni til að halda bílstjóra á góðum hraða. Jarlaskáldið hafði í Heiðrúnu keypt hinn nýja svaladrykk Litla-Jón, sem ku ódýrastur svaladrykkja í Heiðrúnu per lítra, en einungis seldur í 1,25 lítra umbúðum. Vildi Jarlaskáldið kanna hvort drykkjarhæfur væri, og þá hve lengi hann entist, og gerði ýmsar prófanir þar að lútandi. Litli-Jón verður líkast til ekki keyptur aftur.
Upp úr miðnætti birtist svo áðurnefndur Hübner, og sló hann einnig upp tjaldi, sem var þó aðeins hálft tjald, himininn vantaði, og hafði hans fyrrverandi að sögn leikið hann svo illa. Skæðar þessar fyrrverandi stundum. Var bæði tjaldvísitala (1,25) og bílavísitala (1,67) orðin hin bærilegasta með komu Hübners, og var setið við skál eitthvað fram eftir nóttu, en seinustu menn munu hafa ratað ofan í poka rétt upp úr tvö. Sumsé allt siðsamlegt þessa nótt, en enginn veit sína ævina...

Úr rekkjum var risið í kringum tíu morguninn eftir, og var hitastig inni í tjöldunum þá komið hættulega nálægt suðumarki, nema hjá Hübner auðvitað, sem hafði engan himin. Morgunverkum (messa, matur, Müller) var sinnt í snarhasti, en því næst brugðið sér upp í bíla og keyrt upp á Kaldadal. Þaðan var svo tekinn afleggjarinn upp að Langjökli, og ekið upp að jökulrönd. Hafði Jarlaskáldinu verið talin trú um að til þess að komast eitthvað upp á jökul þyrfti a.m.k. 35 tommu túttur og helst stærri, en það lét það sig engu skipta, hleypti bara úr sinni 31 tommu niður í fimm pund, lagði í hann og viti menn, Lilli svoleiðis óð upp jökulinn! Í smástund. Það vill nefnilega fylgja því að hafa minni dekk að það er styttra undir bílnum (ótrúlegt en satt!)og þegar maður keyrir í förum eftir stærri dekk í snjó er nær óumflýjanlegt að að því komi að dekkin nái ekki niður, sem auðvitað gerðist að lokum þannig að Lilli sat pikkfastur á mallakút, en hafði þó tekist að krafla sig upp bara nokkuð góðan spöl. Andrésson og Hübner voru þá komnir eilítið lengra upp eftir, en ekki þurfti að bíða lengi eftir að þeirra gleði endaði, Hübner sneri við með brotinn kross (sem ku vera frekar nauðsynlegt apparat fyrir framdrifið) og Andréssyni (reyndar frú Andréssyni svo það sé á hreinu) tókst því sem næst að affelga og missti allt loft úr einu dekki. Hún varð semsagt ekki löng þessi jöklaferð, en þó tímamótaferð þar eð Lilli getur nú sagst hafa komið á jökul. Honum þurfti reyndar að kippa upp úr skafli áður en niður var haldið, en á niðurleiðinni fengu sko allir 95 hestarnir í húddinu (ef þeir eru þá það margir) að reyna sig og lítið slegið af.
Þegar niður var komið þurfti að bæta smálofti á dekk, en að því loknu var tekin sú ákvörðun í ljósi þess hve stutt jöklaferðin var að finna næsta fræga stað sem enginn hafði skoðað heillengi, sem reyndist vera Surtshellir. Nú getur maður líka sagst hafa komið þangað.
Niður í Húsafell komum við aftur upp úr þrjú og beið okkar þar liðsauki, Toggi mættur með bíl og tjald, sem skemmdi sko hvorki tjald- né bílavísitölu. Eftir stutta hressingu, sem reyndar teygðist aðeins úr enda veður ekki til þess fallið að vera aðgerðahvetjandi, lá leiðin í sundlaug, þar sem í ljós kom að sólin hafði unnið sína vinnu. Eftir sund voru svo grill dregin upp, og gæddi Skáldið sér á svínarifjum, aðrir á einhverju öðru. Allt var það nú gott. Eftir mat var svo aðalfundarstörfin tekin fastari tökum, þó misföstum eins og gengur. Klukkan níu gengum við niður að varðeldinum, sem var barasta enginn varðeldur, svo við röltum bara til baka og héldum áfram því sem við gerum best. Á ellefta tímanum bættist okkur svo enn meiri liðsauki, Gústi (sem hefur af mörgum verið talinn þjóðsagnapersóna undanfarna mánuði) og Alda, en koma þeirra skemmdi örlítið tjald- og bílavísitöluna sem var heldur bagalegt. Voru þau fljót að fina taktinn með okkur hinum enda vanir menn á ferð.
Jahá, þegar þarna var komið sögu var sumsé farið að halla undir miðnætti. Seinustu menn fóru að sofa þegar langt var liðið á nótt. Því miður virðist sem heimildir um tímann þar í milli hafi skolast eitthvað til. Jú, eitthvað mun hafa bæst í hópinn, Skáldið minnist t.d. Pólverja eins, og jafnvel mun eitthvað hafa sést til kvenfólks, en þar eð Skáldið vill alls ekki ala á neinum gróusögum ætlar það ekkert að reyna að geta í eyðurnar, það mun bara bíða og sjá hvort þessar heimildir sem vantar komi ekki í leitirnar og birta þá allan sannleikann. Hafa skal það sem sannara reynist.

Hvað sem öðru líður var komið fram yfir hádegi þegar Jarlaskáldið skreið úr rekkju næsta dag, og vakti það mikla gleði annarra ferðalanga. Morgunverkum var vitaskuld sinnt en síðan legið í sólinni nokkra stund, þar til tími var kominn á að pakka niður viðlegubúnaði og öðru, enda átti Skáldið að mæta til vinnu upp úr fjögur. Á heimleiðinni óku þeir sem því þorðu Kaldadalinn, sem var einkar grýttur og ryk út um allt, okkur auðvitað til óblandinnar ánægju, en túristunum á Yarisunum sem við mættum á leiðinni síður. Heim kom Skáldið á réttum tíma, lá í móki í vinnunni í tvo tíma og hefur svo notað tímann til að jafna sig og plana næsta túr, sem gæti endað í Kelló. Enginn bilbugur á Skáldinu, ónei!

-----------------------------------------------------------------------------------

mánudagur, júní 06, 2005 

... fríkaði hún út

Húsafell og læti um helgina. Hér eru myndir.

--------------------------------------------------------------------------------

fimmtudagur, júní 02, 2005 

Skór

Jarlaskáldið fann loks skó í dag:




Nokkuð góðir bara, eða hvað?

------------------------------------------------------------------------------------

miðvikudagur, júní 01, 2005 

Er þá komið sumar?

Best að skrifa eitthvert smotterí hér, svo fólk haldi ekki að Skáldið hafi gefið upp öndina. Jarlaskáldið hefur lítið uppgefið um farir sínar undanfarið, en þær hafa að mestu verið sléttar, með einni og einni ójöfnu þó hér og þar. Í fyrsta lagi tókst Skáldinu að fylla upp í eina ójöfnuna fyrir nokkru, þegar það keypti sér nýja myndavél, þar eð sú gamla var úrskurðuð látin eftir frægt volk. Sem betur fer ákvað Tryggingamiðstöðin að sjá aumur á Skáldinu og bæta því skaðann að stórum hluta, og því var hægt að fjárfesta í nýjum grip án þess að fjárlagahallinn yrði gífurlegur. Nýja gripnum svipar mjög til hins gamla, enda hafði Skáldið einungis góða reynslu af honum, bara búið að bæta við einu megapixli, sem skiptir líkast til engu máli en hljómar óneitanlega vel.
Myndavélin fékk sína prufukeyrslu fyrir ríflega viku síðan, í tveimur júróvisjónpartíum, annars vegar hjá þeim skötuhjúum Kjarra og Laufeyju, en síðar um kvöldið hjá hjónaleysunum Snorra og Katý, eins og hafði reyndar verið minnst á lítillega áður. Í þeim stutta pistli talaði Skáldið eins og véfrétt, en skemmst er frá því að segja að Skáldið var (tál)dregið inn á skemmtistaðinn NASA síðar um nóttina, hvar það stundaði dansmennt í bland við almenn skrílslæti og fleira sem óþarfi er að nefna, uns það hélt austur á skemmtistaðinn 22 þar sem það hitti nokkra félaga frá því fyrr um kveldið, þótt sumir kannist ekki við þann hitting. Það er eins og gengur.

Hvað svo? Ja, þess ber að geta að vinnunni bættist liðsauki á dögunum, sjálfur Gneistinn mættur til að koma einhverju skipulagi á filmusafnið, auk þess að lappa upp á kynjahlutfallið í vinnunni sem hefur versnað mjög upp á síðkastið. Jarlaskáldinu sýnist sem Gneistinn haldi jafnvel upp á hljómsveitina Queen, miðað við útganginn á manninum.

Og svo hvað? Jú, í síðasta pistli sór Jarlaskáldið þess dýran eið að hafa sig úr borg brott síðustu helgi, þrátt fyrir að líklegir ferðafélagar virtust vera af skornum skammti. Þegar til kom voru þeir hverfandi fáir, allt brjálað að gera í hellulögn í góða veðrinu, svo Skáldið ákvað bara að bregða sér einsamalt í bíltúr á laugardaginn, svona til að gera allavega eitthvað. Maður fær þá í það minnsta að ráða tónlistinni! Fór það vítt og breitt, bæði á möl og malbiki og m.a.s. yfir vað á tveimur stöðum, uns það lauk túrnum á að jeppast uppi í Innstadal. Sem sést hér fyrir neðan:




Um kvöldið, ja, ekki var það sérlega gáfulegt kvöld. Eftir netta upphitun endaði Skáldið ásamt viðhengi á Vegamótum og hitti þar Vigni, eins og sjá má hér. Svo gerðist ýmislegt...

Jarlaskáldið hefur ekki enn fundið sæmilega útlítandi strigaskó. Það á reyndar nær ónotaða skó inni í skáp sem það gæti notað. Kannski ekki.

Þar sem Jarlaskáldið er haldið einstakri bjartsýni ætlar það enn og aftur að stefna á að dröslast út úr bænum um helgina. Ef það tekst ekki núna, þá...

Annars styttist í MÖRKINA. Á ekki að mæta?

---------------------------------------------------------------------------------

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates