Lilli fer upp á jökulLíkt og áður var getið skellti Jarlaskáldið sér upp í Húsafell um helgina. Það skuldar sem sagt ferðasögu. Við því skal orðið:
Upphaflegar ráðagjörðir gerðu ráð fyrir að halda upp á
Arnarstapa á föstudaginn,
labba svo jafnvel upp á
jökul og skíða niður, og voru þeir fjórir ferðalangarnir sem boðað höfðu komu sína, auk Skáldsins þeir
Stebbi Twist og
Andrésson og frú. Þegar nær dró helgi breyttust síðan þær áætlanir og stefnan þess í stað tekin á
Húsafell, og í stað þess að brúka lappir að freista þess að nota
hestöfl til að komast upp á jökul, enda í flesta staði mun auðveldara. Jarlaskáldið mætti því til vinnu á föstudag, sem þann daginn snerist að mestu um fíflagang undir yfirskini
hreinsunardags, en hélt heimleiðis seinnipartinn og pakkaði niður viðlegubúnaði og nesti. Herra og frú Andrésson voru þá lögð af stað en Jarlaskáldið sótti á áttunda tímanum Stefán Twist sem einnig hafði pakkað niður föggum sínum og eftir stutta heimsókn í
nýlenduvöruverslun og bensínstöð lá leiðin í norður eða svo gott sem í brakandi blíðu. Á leiðinni bárust okkur þær góðu fregnir að
Hr. Hübner myndi síðar um kvöldið bætast í hópinn, auk þess sem líkur voru á liðsauka daginn eftir. Hið bestasta mál.
Renndum við inn í
Húsafell á tíunda tímanum eftir áfallalítinn akstur og fundum fljótlega hjónin sem höfðu komið sér fyrir í
rjóðri einu góðu. Þar slógum við sömuleiðis upp tjöldum og snerum okkur síðan fljótlega að
mikilvægari málefnum, sem
Stefán hafði reyndar byrjað á nokkru fyrr, enda í hlutverki aðstoðarbílstjóra, en eitt helsta hlutverk hans er einmitt að drekka bjór á leiðinni til að halda bílstjóra á góðum hraða. Jarlaskáldið hafði í Heiðrúnu keypt hinn nýja svaladrykk
Litla-Jón, sem ku ódýrastur svaladrykkja í Heiðrúnu per lítra, en einungis seldur í 1,25 lítra umbúðum. Vildi Jarlaskáldið kanna hvort drykkjarhæfur væri, og þá hve lengi hann entist, og
gerði ýmsar
prófanir þar að
lútandi. Litli-Jón verður líkast til ekki keyptur aftur.
Upp úr miðnætti birtist svo áðurnefndur
Hübner, og sló hann einnig upp tjaldi, sem var þó aðeins hálft tjald, himininn vantaði, og hafði hans fyrrverandi að sögn leikið hann svo illa. Skæðar þessar fyrrverandi stundum. Var bæði tjaldvísitala (1,25) og bílavísitala (1,67) orðin hin bærilegasta með komu
Hübners, og var
setið við skál eitthvað fram eftir nóttu, en seinustu menn munu hafa ratað ofan í poka rétt upp úr tvö. Sumsé allt siðsamlegt þessa nótt, en enginn veit sína ævina...
Úr rekkjum var risið í kringum tíu morguninn eftir, og var hitastig inni í tjöldunum þá komið hættulega nálægt suðumarki, nema hjá Hübner auðvitað, sem hafði engan himin.
Morgunverkum (messa, matur, Müller) var sinnt í snarhasti, en því næst brugðið sér upp í bíla og keyrt upp á
Kaldadal. Þaðan var svo tekinn afleggjarinn upp að Langjökli, og ekið upp að
jökulrönd. Hafði Jarlaskáldinu verið talin trú um að til þess að komast eitthvað upp á jökul þyrfti a.m.k.
35 tommu túttur og helst stærri, en það lét það sig engu skipta, hleypti bara úr sinni
31 tommu niður í fimm pund, lagði í hann og viti menn,
Lilli svoleiðis óð upp jökulinn! Í smástund. Það vill nefnilega fylgja því að hafa minni dekk að það er styttra undir bílnum (ótrúlegt en satt!)og þegar maður keyrir í förum eftir stærri dekk í snjó er nær óumflýjanlegt að að því komi að dekkin nái ekki niður, sem auðvitað gerðist að lokum þannig að Lilli sat
pikkfastur á mallakút, en hafði þó tekist að krafla sig upp bara
nokkuð góðan spöl.
Andrésson og
Hübner voru þá komnir eilítið lengra upp eftir, en ekki þurfti að bíða lengi eftir að þeirra gleði endaði, Hübner sneri við með brotinn kross (sem ku vera frekar nauðsynlegt apparat fyrir framdrifið) og Andréssyni (reyndar frú Andréssyni svo það sé á hreinu) tókst því sem næst að affelga og
missti allt loft úr einu dekki. Hún varð semsagt ekki löng þessi jöklaferð, en þó tímamótaferð þar eð Lilli getur nú sagst hafa komið á jökul. Honum þurfti reyndar að
kippa upp úr skafli áður en niður var haldið, en á niðurleiðinni fengu sko allir 95 hestarnir í húddinu (ef þeir eru þá það margir) að reyna sig og lítið slegið af.
Þegar
niður var komið þurfti að bæta smálofti á dekk, en að því loknu var tekin sú ákvörðun í ljósi þess hve stutt jöklaferðin var að finna næsta fræga stað sem enginn hafði skoðað heillengi, sem reyndist vera
Surtshellir. Nú getur
maður líka sagst hafa komið þangað.
Niður í Húsafell komum við aftur upp úr þrjú og beið okkar þar liðsauki,
Toggi mættur með bíl og tjald, sem skemmdi sko hvorki tjald- né bílavísitölu. Eftir
stutta hressingu, sem reyndar teygðist aðeins úr enda veður ekki til þess fallið að vera aðgerðahvetjandi, lá leiðin í sundlaug, þar sem í ljós kom að sólin hafði unnið sína vinnu. Eftir sund voru svo
grill dregin upp, og gæddi Skáldið sér á
svínarifjum, aðrir á einhverju öðru. Allt var það nú gott. Eftir mat var svo
aðalfundarstörfin tekin fastari tökum, þó misföstum eins og gengur. Klukkan níu gengum við niður að
varðeldinum, sem var barasta
enginn varðeldur, svo við röltum bara til baka og héldum áfram því
sem við gerum best. Á ellefta tímanum bættist okkur svo enn meiri liðsauki,
Gústi (sem hefur af mörgum verið talinn þjóðsagnapersóna undanfarna mánuði) og
Alda, en koma þeirra skemmdi örlítið tjald- og bílavísitöluna sem var heldur bagalegt. Voru þau fljót að fina taktinn með okkur hinum enda vanir menn á ferð.
Jahá, þegar þarna var komið sögu var sumsé farið að halla undir miðnætti. Seinustu menn fóru að sofa þegar langt var liðið á nótt. Því miður virðist sem heimildir um tímann þar í milli hafi skolast eitthvað til. Jú, eitthvað mun hafa bæst í hópinn, Skáldið minnist t.d. Pólverja eins, og jafnvel mun eitthvað hafa sést til kvenfólks, en þar eð Skáldið vill alls ekki ala á neinum gróusögum ætlar það ekkert að reyna að geta í eyðurnar, það mun bara bíða og sjá hvort þessar heimildir sem vantar komi ekki í leitirnar og birta þá allan sannleikann. Hafa skal það sem sannara reynist.
Hvað sem öðru líður var komið fram yfir hádegi þegar Jarlaskáldið skreið úr rekkju næsta dag, og vakti það
mikla gleði annarra ferðalanga. Morgunverkum var vitaskuld sinnt en síðan legið í sólinni nokkra stund, þar til tími var kominn á að pakka niður viðlegubúnaði og öðru, enda átti Skáldið að mæta til vinnu upp úr fjögur. Á heimleiðinni óku þeir sem því þorðu
Kaldadalinn, sem var einkar grýttur og ryk út um allt, okkur auðvitað til óblandinnar ánægju, en túristunum á Yarisunum sem við mættum á leiðinni síður. Heim kom Skáldið á réttum tíma, lá í móki í vinnunni í tvo tíma og hefur svo notað tímann til að jafna sig og plana næsta túr, sem gæti endað í
Kelló. Enginn bilbugur á Skáldinu, ónei!
-----------------------------------------------------------------------------------